Sælingsdalsheiði á sunnudag

Á sunnudaginn (11. júní) ætla ég að hlaupa yfir Sælingsdalsheiði úr Saurbæ í Dölum að Laugum í Sælingsdal. Reikna með að leggja af stað úr Saurbænum kl. 13:00 og vonast til að sem flestir sláist í för með mér. Vegalengdin er um 15 km og hæst fer leiðin í um 400 m.y.s. Þátttakan kostar ekkert nema fyrirhöfnina við að koma sér á staðinn og heim aftur.

Upphaflega ætlaði ég að hlaupa yfir Skeggaxlarskarð þennan dag, en eftir að hafa rannsakað leiðina dálítið og ráðfært mig við kunnuga ákvað ég að velja Sælingsdalsheiðina frekar. Hún er nær helmingi styttri, sögufrægari, með betra undirlag og líklega auðveldari vatnsföll, en endapunkturinn er í báðum tilvikum sá sami.

Sem fyrr segir er ætlunin að leggja af stað úr Saurbænum kl. 13:00. Upphafspunkturinn (hnattstaða 65°20,71’N – 21°55,14’V) er á vegamótum neðst í Hvammsdal, skammt fyrir neðan bæinn Kjarlaksvelli. Til að komast akandi að sunnan að þessum punkti er stefnan tekin á Skriðuland, sem er um 37 km vestan við Búðardal (á leiðinni til Hólmavíkur). Við Skriðuland er beygt til vinstri inn á veg nr. 590 í átt að Staðarhólskirkju og Félagsheimilinu Tjarnarlundi. Eftir u.þ.b. 1,6 km er aftur beygt til vinstri, nú inn á veg nr. 594. Þessum vegi er fylgt um 4,5 km að upphafspunktinum. Þar skammt frá er fjárrétt þar sem upplagt er að leggja bílum.

Hlaupaleiðin liggur inn Hvammsdal upp með Hvammsdalsá að austan, framhjá eyðibýlunum Hvammsdalskoti og Hvammsdal. Úr Hvammsdal er svo farið upp Sprengibrekku upp á sjálfa heiðina sem er mjög stutt og fer hæst í um 400 m hæð eins og fyrr segir. Lengst af er fylgt jeppaslóðum og/eða línuvegi, en háspennulína liggur þarna yfir. Af heiðinni er fremur bratt niður í Sælingsdal. Þar er komið inn á bílveg við bæinn Sælingsdal og honum fylgt síðustu 5-6 kílómetrana niður að Laugum, þar sem hægt verður að komast frítt í sund í boði Dalabyggðar og Önnu Margrétar Tómasdóttur, staðarhaldara. Þar verður líka hægt að kaupa fjallvegahlaupabókina á sérstökum hlauparakjörum.

Sælingsdalsheiði var fjölfarin á fyrri árum og kemur m.a. við sögu í Laxdælu og jafnvel líka í Sturlungu. Sem hlaupaleið er heiðin þokkalega auðveld að sögn þeirra sem til þekkja. Á leiðinni þarf þó að vaða tvær ár og nokkra læki, en þessi vatnsföll eru tiltölulega vatnslítil í venjulegu árferði.

Sem fyrr segir hefst hlaupið á vegamótunum neðan við Kjarlaksvelli kl. 13 á sunnudag. Frést hefur að einhverjir ætli að byrja daginn á að hlaupa frá Laugum norður yfir heiðina og slást svo í för með hinum sem láta sér eina ferð nægja. Þessir einhverjir leggja væntanlega af stað frá Laugum upp úr kl. 10:30.

Vonast til að fá fylgd sem flestra yfir heiðina, en minni jafnframt á að þátttakendur verða þarna á eigin ábyrgð.

Svínaskarð næsta laugardag

Nú er komið að því! Laugardaginn 20. maí kl. 10 árdegis verður lagt upp í fyrsta fjallvegahlaup sumarsins, yfir Svínaskarð, frá Hrafnhólum við Leirvogsá að Vindáshlíð í Kjós. Og þetta verður ekki bara fjallvegahlaup, heldur líka sérstakt fjallvegahlaupabókarhlaup. Í lok hlaupsins verður nefnilega efnt til samkomu í Vindáshlíð, þar sem bókin Fjallvegahlaup verður kynnt og seld og árituð – og boðið upp á léttar veitingar.

Leiðinni yfir Svínaskarð eru gerð skil á bls. 70 í Fjallvegahlaupabókinni, en leiðin var sú tíunda í röðinni í fjallvegahlaupaverkefninu, hlaupin á uppstigningardag, 21. maí 2009. Þá var hlaupið af Esjumelum upp að Vindáshlíð, sem mældust samtals 19,53 km. Spölurinn frá Esjumelum að Hrafnhólum er um 6 km, en ætlunin er að sleppa þeim kafla að þessu sinni til að gera leiðina alþýðlegri.

Í hlaupinu á laugardag gilda sömu meginreglur og ævinlega hafa gilt í fjallvegahlaupunum mínum, þ.e. að öllum er velkomið að taka þátt, enda er maður manns gaman. Þátttakan er þó alltaf á ábyrgð hvers og eins. Þrátt fyrir þetta frelsi er nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku í hlaupinu, þannig að hægt sé að sjá hlaupurum fyrir nægum veitingum við endamarkið. Þátttakendur þurfa sjálfir að koma sér á upphafspunktinn og frá lokapunktinum. Engin þátttökugjöld eru í hlaupinu, enda verður þetta fríhlaup (e. „free running“) í tvennum skilningi. Engin formleg tímataka er í hlaupinu, heldur má nota skeiðklukkur og dagatöl að vild.

Sem fyrr segir hefst hlaupið á laugardaginn við Hrafnhóla kl. 10 árdegis. Gera má ráð fyrir að allir verði komnir í hús í Vindáshlíð 2-3 klst. síðar. Upphaflega leiðarlýsingu má lesa á fjallvegahlaup.is.

Til að komast að Hrafnhólum er ekið sem leið liggur inn Mosfellsdal. Um 2 km ofan við Gljúfrastein (um 7 km ofan við hringtorg í Mosfellsbæ) er beygt til vinstri þar sem skilti bendir á Hrafnhóla. Frá skiltinu eru um 3 km að þeim stað þar sem hlaupið byrjar.

Skráning í hlaupið fer fram á https://nvite.com/Fjallvegahlaup/lonmn9.

Útgáfuhóf og fjallvegahlaup framundan

kjolurÞá er það ákveðið: Fjallvegahlaupabókin mín kemur út á sextugsafmælinu mínu 18. mars nk., enda verða þá liðin nákvæmlega 10 ár frá því að ég gaf sjálfum mér fjallvegahlaupaverkefnið í afmælisgjöf. Í tilefni af útgáfunni eru allir velkomnir í útgáfuhóf Bókaútgáfunnar Sölku kl. 14-16 umræddan dag á Kex Hostel í Reykjavík. Þarna verður hægt að nálgast fyrstu eintökin af bókinni á sérstöku kynningartilboði og ég er vís til að árita bækur og segja frá fjallvegahlaupaverkefninu í stuttu(?) máli. Takið daginn frá og bíðið spennt eftir nánari upplýsingum!

Því er svo við að bæta, að þó að fjallvegahlaupaverkefninu sé lokið sem slíku hef ég í hyggju að standa fyrir a.m.k. fjórum fjallvegahlaupum í sumar:

 1. Laugardaginn 13. maí verður efnt til sérstaks fjallvegahlaupabókarhlaups á suðvesturhorninu. Hugmyndin er að hlaupa yfir Svínaskarð af Esjumelum og upp í Kjós – eða öfugt. Þetta eru u.þ.b. 19,53 km og verður kynnt nánar áður en langt um líður.
 2. Sunnudaginn 11. júní ætla ég að hlaupa um Skeggaxlarskarð í Dölum, um 20 km leið frá Laugum í Sælingsdal að Búðardal á Skarðsströnd – eða öfugt.
 3. Laugardaginn 1. júlí verður hið árlega Hamingjuhlaup í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík. Að þessu sinni liggur leiðin yfir Bæjardalsheiði milli Reykhólasveitar og Steingrímsfjarðar. Leiðin yfir heiðina er um 23 km og síðan bætast við um 7 km eftir malbikinu frá Hrófá til Hólmavíkur. Að vanda verður hlaupið skipulagt þannig að auðvelt sé að taka þátt í völdum hlutum þess.
 4. Mánudaginn 24. júlí ætla ég að hlaupa yfir Víkurheiði og Dys frá Reyðarfirði til Viðfjarðar, en þarna urðum við frá að hverfa í gríðarmikilli rigningu sumarið 2015. Leiðin er um 13 km. Þegar komið er í Viðfjörð er um tvo möguleika að ræða. Einfaldasta leiðin er líklega að fá einhvern jeppamann til að sækja sig þangað, enda leiðin fær á góðum jeppum á sumrin. Hin leiðin er að bregða sér út fyrir Viðfjarðarmúla og inn í Hellisfjörð, en sú leið er 6,77 km samkvæmt frásögn minni af Barðsneshlaupinu 2015. Frá Hellisfirði er svo hægt að leggja upp í annað fjallvegahlaup dagsins um Hrafnaskörð til Reyðarfjarðar. Sú leið er u.þ.b. 11 km, sem myndi þýða að dagleiðin öll yrði um 31 km fyrir þá sem velja þessa útfærslu. Lokapunktur hlaupsins um Hrafnaskörð er um 3 km innan við upphafspunkt hlaupsins um Víkurheiði og Dys, nánar tiltekið rétt innan við bæinn Útstekk.

Þetta verður allt nánar kynnt þegar nær dregur.

Gjört í Borgarfirði 4. mars 2017,
Stefán Gíslason

Bók á leiðinni

OLYMPUS DIGITAL CAMERAHljótt hefur verið um fjallvegahlaupaverkefnið síðustu mánuði, þ.e.a.s. allar götur síðan 23. júlí þegar Arnarvatnsheiðin var að baki og 50. fjallvegahlaupinu þar með lokið. Þessi þögn verður rofin í mars, en þá kemur út bók um verkefnið hjá Bókaútgáfunni Sölku. Næstu vikur verður unnið í textagerð, heimildaskrám og öllu hinu sem þarf að hafa í huga þegar bók er í bígerð. Eitthvað af þessari vinnu verður smátt og smátt sýnilegt hérna á síðunni en allt verður þetta miklu áþreifanlegra í mars. Meira um það síðar.

Myndin með þessari færslu er ekki beinlínis af bóklestri. Stundum þarf samt að lesa eitthvað í miðju fjallvegahlaupi, sérstaklega þegar ekki liggur ljóst fyrir hvert halda skuli. Þannig var staðan á Reindalsheiði sumarið 2013. (Sævar Skaptason tók myndina).

Arnarvatnsheiði á morgun

Arnarvatnsheiði áfangarÁ morgun, laugardaginn 23. júlí, er komið að síðasta og lengsta fjallvegahlaupinu í fjallvegahlaupaverkefninu. Þá ætla ég að hlaupa yfir Arnarvatnsheiði úr Miðfirði suður í Borgarfjörð í góðra vina hópi.

Leiðin yfir Arnarvatnsheiði er um 81 km og því er nauðsynlegt að taka daginn snemma til að ná til byggða á skikkanlegum tíma. Með þetta í huga ætla ég að leggja af stað úr Miðfirði kl. 5 árdegis. Hlaupið hefst á vegamótum Miðfjarðarvegar og Arnarvatnsvegar autan við brúna yfir Núpsá, gegnt bænum á Haugi, þar sem Guðný föðursystir mín bjó um árabil með eiginmanni sínum og 10 börnum. Upphafspunkturinn er um 18 km innan við Laugarbakka.

Löngum hlaupum er skynsamlegt að skipta í styttri áfanga. Þess vegna verður hlaupinu á morgun áfangaskipt eins og sýnt er á meðfylgjandi korti sem við Sævar Skaptason hjálpuðumst að við að útbúa á dögunum. (Reyndar er rétt að taka fram að við teiknuðum ekki kortið sjálft. Við bættum bara inn nokkrum X-um á vel valda staði). Kortið er illlæsilegt eins og það lítur út hér á síðunni, en stærra kort birtist ef smellt er á myndina.

Hver áfangi í hlaupi morgundagsins er um 10 km að lengd, eða nánar tiltekið á bilinu 9-14 km. Fyrrnefndur Sævar Skaptason hefur komið því til leiðar að trússbíll verður okkur til halds og trausts alla leiðina og mun bíllinn m.a. gegna hlutverki drykkjarstöðvar við lok hvers áfanga. Taflan hér að neðan sýnir áfangaskiptinguna í smáatriðum, með fyrirvara um einhverja fínstillingu eftir aðstæðum á hverjum áningarstað. Taflan er ekki vel læsileg með venjulegum gleraugum en úr því rætist sé smellt á hana.

Arnarvatnsheiði áfangaskipting

Í töflunni hér að framan er m.a. að finna áætlaðar tímasetningar á hverjum áfangastað. Þessar tímasetningar líta út fyrir að vera afar nákvæmar, en eru þó einungis settar fram til viðmiðunar. Ég geri ráð fyrir að meðalhraðinn yfir heiðina verði rétt um 6 km/klst, þ.e. röskur gönguhraði. Til þess að halda þeim hraða þarf að ljúka hverjum kílómetra á 10 mínútum. Tímaáætlun af þessu tagi er nauðsynleg í svona hlaupi, sérstaklega þegar haft er í huga að þegar hlaupinu lýkur verður haldið upp á fullkomnun fjallvegahlaupaverkefnisins með súpuveislu á Hótel Húsafelli. Þangað er öllum boðið sem tekið hafa þátt í verkefninu, þ.m.t. hlaupurum morgundagsins, enda hafi þeir boðað komu sína áður en veislan brestur á. (Þegar talað er um fullkomnun er hér átt við að verkefnið hafi verið fullkomnað, en ekki endilega að það hafi verið fullkomið (þó að hlutlaust mat mitt bendi til að svo hafi verið)).

Eins og staðan er þegar þetta er skrifað að morgni föstudags stefnir allt í að 10 manns hlaupi saman yfir heiðina á morgun. Sú þátttaka er langt umfram þær björtustu vonir sem ég hafði gert mér, enda vegalengdin tæpast við alþýðuskap. Ég geri líka ráð fyrir að fleira fólk sláist í hópinn á síðustu kílómetrunum. Eftir því sem ég best veit er vegurinn frá Kalmanstungu upp að Helluvaði á Norðlingafljóti fær öllum bílum, en þessi leið er um 20 km ef marka má töfluna hér að framan. Eins og sést á töflunni er ætlunin að ljúka hlaupinu kl. 18:30. Þeir sem vilja koma til móts við okkur geta reiknað tímasetningar út frá því, miðað við að hver km taki okkur 10 mín. að meðaltali.

Á morgun verður gaman!

10 dagar eftir af fjallvegahlaupaverkefninu

Efnisorð

, ,

Snja 060 (217x320)Nú eru bara þrjú fjallvegahlaup eftir af þessum 50 sem ég gaf mér í 5-tugsafmælisgjöf fyrir rúmum 9 árum. Á fimmtudaginn (14. júlí) kl. 14 verður lagt af stað í hlaup nr. 48 yfir Klofningsheiði frá Flateyri til Suðureyrar og næsta þriðjudag kl. 9 að morgni verður siglt af stað frá Ísafirði áleiðis í Aðalvík, þaðan sem hlaup nr. 49 verður hlaupið yfir Sléttuheiði að Hesteyri. Laugardaginn 23. júlí kl. 5 árdegis hefst svo síðasta hlaupið norður í Miðfirði, þaðan sem hlaupið verður suður Arnarvatnsheiði að Kalmanstungu í Borgarfirði.

Þeir sem ætla að hlaupa með mér yfir Klofningsheiðina þurfa bara að mæta við sundlaugina á Flateyri kl. 14 á fimmtudag. Sléttuheiðarhlaupið krefst hins vegar meiri undirbúnings, því að fyrst þarf að tryggja sér far með bátnum yfir Ísafjarðardjúp og Jökulfirði. Þar er eitt sæti laust og e.t.v. er hægt að útvega fleiri. Hafið endilega samband við mig í síma 862 0538 eða á Facebook ef þið hafið áhuga á að skella ykkur með. Eins væri gott að vita sem fyrst um þátttöku í hlaupinu yfir Arnarvatnsheiði til að hægt verði að nýta flutningsleiðir og gistimöguleika nyrðra sem best.

Drög að leiðarlýsingum fyrir þessar þrjár heiðar eru smátt og smátt að verða til hérna á fjallvegahlaupasíðunni (sjá tengla í textanum hér að framan).

Svo læt ég fljóta hér með eina mynd að vestan – af sjálfum mér. Hana tók Sævar Skaptason á Dalsheiði seint í júlí 2012 í eftirminnilegri hlaupaferð um Snjáfjallahringinn.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Norðurland eftir viku

Fjallvegahlaup - tákn um frelsi. Myndin er tekin í norðanverðu Arnardalsskarði á Snæfellsnesi vorið 2016.

Fjallvegahlaup – tákn um frelsi. Myndin er tekin í norðanverðu Arnardalsskarði á Snæfellsnesi vorið 2016.

Á næstu helgi (11.-12. júní) verður röðin komin að fjallvegahlaupum nr. 46 og 47. Ég geri ráð fyrir að enginn vilji missa af þessum hlaupum og því er þessum pistli ætlað að minna á þau.

Á laugardaginn (11. júní) ætla ég að hlaupa gamla Þingmannaveginn frá Eyrarlandi í Eyjafirði yfir Vaðlaheiði að Hróarsstöðum í Fnjóskadal, já eða kannski bara að tjaldsvæðinu í Systragili sem er þar steinsnar frá. Þessi leið kvað vera um 12 km löng og 680 m há. Á leiðinni er hlaupið yfir frægt mannvirki, en það er mikil steinhleðsla yfir Systragilsdrög efst í heiðinni að austanverðu. Þarna átti upphaflega að byggja trébrú („upphaflega“ var árið 1870) með grjóthleðslum beggja vegna, en svo var ákveðið að hlaða þetta allt úr grjóti af því að margir góðir menn ætluðu það hentara. Mig grunar reyndar að grjót sé endingarbetra efni. Lagt verður upp frá Eyrarlandi kl. 13:00 á laugardag. Já, og vel á minnst: Eyrarland er austan við botn Eyjafjarðar, beint á móti Akureyrarflugvelli, um 1,5 km sunnan við hringveginn.

Sunnudaginn 12. júní verður svo tekið á rás yfir Kiðaskarð milli Skagfirska efnahagssvæðisins og þess húnvetnska. Lagt verður af stað kl. 13:00 neðan við bæinn á Mælifellsá í Skagafirði, u.þ.b. 12 km innan við Varmahlíð. Frá Mælifellsá eru tveir af mestu millivegalengda- og langhlaupurum Íslandssögunnar. Alla leiðina er hlaupið eftir vegarslóða sem kvað vera þokkalega fær fjórhjóladrifsbílum á sumrin. Dreg þó í efa að sumarið sé komið í þeim skilningi. Leiðin gæti teygst upp í 20 km og mesta hæð er líklega um 620 m.y.s. Hlaupinu lýkur við Stafnsrétt í Svartárdal, eða kannski á aðalveginum spölkorni neðar í dalnum. Þaðan er rúmlega 20 km akstur niður að Húnaveri, neðan við brekkuna upp á Vatnsskarð.

Nánari upplýsingar um þessar tvær leiðir má finna á þar til gerðum upplýsingasíðum sem birtast ef smellt er á tenglana framar í þessum pistli.

Vonast til að hlaupin um þessa fjallvegi verði fjölmenn og góðmenn. Og þegar þessir fjallvegir hafa verið hlaupnar verða ekki nema þrír eftir af þessum 50 sem málið snýst um.

Kíkt í fjallvegahlaupabókhaldið

IMG_4303webÞegar þetta er skrifað hef ég lagt að baki 45 af þeim 50 fjallvegum sem ég gaf sjálfum mér í 5-tugsafmælisgjöf fyrir rúmum 9 árum. Nú bíða aðeins 5 fjallvegir þess að verða hlaupnir og á miðnætti 23. júlí nk. verður hinum „fýsíska“ þætti verkefnisins lokið. Með þetta í huga hef ég ákveðið að opna hluta af fjallvegahlaupabókhaldinu – eins og sjá má hér að neðan. Enn er nefnilega tækifæri til að hressa upp á einstakar línur í þessu mikilvæga bókhaldi.

Helstu kennitölur eða hagstærðir bókhaldsins eru þessar eins og staðan er í dag:

 • 45 fjallvegahlaup
 • 875,16 km
 • 128:10:22 klst. (5 sólarhringar, 8 klst, 10 mín og 22 sek)
 • Meðalhraði 6,83 km/klst
 • 83 hlaupafélagar

Eftirfarandi tafla sýnir fjölda hlaupa og hlaupinna kílómetra allra hlaupafélaga sem farið hafa með mér 3 ferðir eða fleiri og hlaupið 50 km eða meira, raðað eftir fjölda ferða. Þetta er taflan sem allir hljóta að hafa beðið eftir í ofvæni:

Fjallvegahlaupabókhaldstafla 160528

Ötulustu hlaupafélagarnir 2007-2016. (Birt með fyrirvara um villur).

Þeim sem vilja breyta þessari töflu er bent á síðustu 5 fjallvegahlaupin, sem verða eins og hér segir:

 • 11.06.2016 Þingmannavegur/Vaðlaheiði – 12 km
 • 12.06.2016 Kiðaskarð – 17 km
 • 14.07.2016 Klofningsheiði – 14 km
 • 19.07.2016 Sléttuheiði – 14 km
 • 23.07.2016 Arnarvatnsheiði – 81 km

Sjáumst næst á Þingmannaveginum. Meira um það fljótlega.

Svínbjúgur á þriðjudag

Efnisorð

, ,

Svínbjúgur wikiloc 200Síðdegis á þriðjudag (24. maí) er röðin komin að fjallvegahlaupi nr. 45 frá Hóli í Hörðudal um Svínbjúg. Hlaupinu lýkur svo við suðurenda Hítarvatns. Hlaupaleiðin er samtals um 22 km að lengd, en henni er lýst nánar á þar til gerðri síðu hér á vefnum.

Lagt verður upp frá eyðibýlinu Hóli í Hörðudal um kl. 16:00 á þriðjudaginn. Að Hóli er um 80 km akstur frá Borgarnesi um Bröttubrekku. Beygt er til vinstri út af aðalveginum um 6,5 km sunnan við Búðardal og ekið sem leið liggur með stefnu á Stykkishólm. Eftir um 7 km akstur eftir þeim vegi er aftur tekin vinstri beygja inn á vestari Hörðudalsveginn. Þá eru um 3 km eftir heim á hlað á Hóli.

Hlaupið endar sem fyrr segir sunnan við Hítarvatn. Að endamarkinu er rúmlega 40 km akstur frá Borgarnesi, fyrst sem leið liggur vestur á Mýrar (um 20 km) og svo upp Hítardalsveg (aðrir 20 km). Síðasti spölurinn frá bænum í Hítardal og upp að vatni er líklega frekar grófur, en leiðin ætti þó að vera fær öllum bílum.

Vonast til að njóta samvista við sem flesta á þessari skemmtilegu leið á þriðjudaginn, þrátt fyrir að þetta sé virkur dagur. Veðurspáin gæti reyndar verið hagstæðari, en búast má við strekkingsmótvindi, rigningu og u.þ.b. 8 stiga hita.