Svínaskarð

Staðsetning: Úr Mosfellsbæ í Kjós
Nánar: Frá Esjumelum í Mosfellsbæ að Vindáshlíð í Kjós
Hnattstaða:
Upphaf:        N64°11,66' - V21°41,84'
Vegamót við Þverárkot: N64°12,63' – V21°34,82'
Svínaskarð:      N64°14,46' - V21°29,96'
Lok:          N64°17,71' - V21°27,21'
Hæð y. sjó: 50 m við upphaf, 480 m hæst, 80 m við lok => Hækkun 430 m, lækkun 400 m, nettóhækkun 30 m
Vegalengd: 19,53 km
Tími: 2:10:59 klst.
Meðalhraði: 8,95 km/klst (6:42 mín/km)
Dags.: Uppstigningardagur, fimmtud. 21. maí 2009, kl. 14.03
Hlaupafélagar: Arnfríður Kjartansdóttir, Birgir Þorsteinn Jóakimsson, Guðmann Elísson, Hávar Sigurjónsson, Ingimundur Grétarsson, Jón Gauti Jónsson og Tryggvi Felixson

Fróðleikur um leiðina:

Svínaskarð liggur milli Móskarðshnúka og Skálafells, en Móskarðshnúkar eru 807 m háir líparíthnjúkar austan við Esjuna. Aðalleiðin frá Reykjavík vestur og norðurum lá um Svínaskarð, allt þar til bílvegur var lagður með ströndinni vestan við Esjuna um 1930. Enn er jeppafær slóði um skarðið, sæmilega greiðfær syðst, en býsna grófur og brattur þegar halla fer niður í Kjósina að norðanverðu. Sá hluti leiðarinnar er varasamur á vetrum vegna harðfennis og snjóflóðahættu.

Hlaupaleiðin byrjar á Esjumelum við Vesturlandsveg rétt sunnan við vegamótin út á Álfsnes, þar sem úrgangur Reykvíkinga er urðaður. Leiðin liggur upp með Leirvogsá að norðanverðu, tæpa 6 km þar til komið er að vegamótum neðan við rústir eyðibýlisins Þverárkots, skammt frá Hrafnhólum. Þegar komið er yfir Þverá er beygt til vinstri (til norðurs) upp með ánni. U.þ.b. 2 km ofar er farið yfir Skarðsá á göngubrú og henni fylgt áfram upp í sjálft Svínaskarðið með Móskarðshnúka á vinstri hönd og Skálafell (774 m) til hægri. Þegar komið er norður úr skarðinu liggur leiðin niður í Svínadal. Leiðin endar síðan skammt frá réttinni við Norðlingavað, þar sem komið er inn á Kjósarskarðsveg (nr. 48).

Til eru sögur um hrakninga og manntjón á flestum íslenskum fjallvegum. Þar er Svínaskarð engin undantekning. Um jólaleytið ári 1900 varð þar t.d. úti 15 ára piltur frá Hækingsdal í Kjós. Hann var á leið heim í jólafrí frá Reykjavík, þar sem hann var við nám, lagði á skarðið á aðfangadag hálflasinn og varð úti á háskarðinu.

Við lok hlaupaleiðarinnar má sjá Írafell til hægri handar. Við það er kenndur Írafellsmóri, einn af þekktustu draugum landsins. Dys hans kvað vera við veginn yfir skarðið. Önnur saga segir að þarna séu dysjaðir tveir smalar sem tókust á um beitilönd þar til báðir lágu dauðir.

Sagt er að Írafellsmóri sé í „grárri brók að neðan og mórauðri úlpu fyrir bolfat, með svartan hatt, barðastóran á hausnum, og er skarð eða geil stór inn í barðið upp undir vinstra auga“, (Þjóðs. JÁ). Sjái hlauparar eitthvað sem þessi lýsing passar við, er því næsta víst hver er þar á ferð. Móri var alræmdur fyrir hrekkvísi og hefur víst oft orðið skepnum að bana, en ekki fólki.

Ferðasagan:

Við lögðum þrjú af stað úr Borgarnesi upp úr hádegi þennan dag; ég, Ingimundur og Arnfríður, sem hafði komið norðan frá Akureyri kvöldið áður. Fórum á tveimur bílum og skildum annan eftir við endamarkið í Kjósinni. Um 2-leytið voru svo allir hlauparar dagsins mættir við skemmurnar í iðnaðarhverfinu á Esjumelum efst í Mosfellsbæ, nánast beint á móti afleggjaranum út í Álfsnes. Veðrið var eins og best verður á kosið, hægur vindur, léttskýjað og hitinn í tveggja stafa tölu.

Svínaskarð 018crweb

Á Esjumelum andartaki áður en lagt var í hann. Efri röð f.v.: Stefán, Tryggvi, Jón Gauti, Hávar, Ingimundur. Neðri röð f.v.: Arnfríður, Birgir, Guðmann. Ljósm. Sigrún Magnúsdóttir.

Klukkan var nákvæmlega 14:03 þegar við lögðum af stað af Esjumelum. Fyrstu kílómetrarnir voru greiðfarnir eftir góðum malarvegi, en á leiðinni eru nokkur vöð yfir minni háttar vatnsföll. Mest þeirra er Grafará (um 4,5 km frá upphafsstaðnum), en þar sem annars staðar var hægt að stikla á steinum þurrum fótum, ef maður vildi. Eftir u.þ.b. 6 km skokk var komið að Þverá, eins og til stóð. Þar völdu sumir að fylgja slóðanum yfir ána og halda svo upp með henni að innanverðu, en aðrir hlupu yfir grasbala og móa vestan við ána, áður en sullast var yfir. Líklega er fyrri kosturinn vænlegri, eftir á að hyggja, en leiðin er næsta auðveld hvort heldur sem er. Slóðinn upp með Þverá er grófur – og enn grófari eftir því sem ofar dregur. Allt er þetta þó vel fært á sæmilegum jeppum, þannig að hvergi eru teljandi farartálmar fyrir gangandi og hlaupandi fólk. Hins vegar fór það ekki fram hjá okkur þennan dag, að leiðin er enginn einkavegur fyrir hlaupara. Nokkrir ungir menn á torfæruhjólum höfðu til að mynda ákveðið að nota þennan sama dag til að njóta útivistar í Svínaskarði á sinn hátt, sem vissulega var ólíkur okkar hætti, sínu háværari og þyrlaði upp meira ryki.

Svínaskarð 024crweb

Á fullri ferð inn með Leirvogsá. Þarna er líklega um 1 km eftir að vegamótunum neðan við Þverárkot. Lengst til vinstri sést í Móskarðshnúka, nær er Þverfell. Bak við það liggur Svínaskarð í leyni, en Skálafell sést hægra megin. Beint framundan eru Haukafjöll með Þríhnúkum.

Svínaskarð 034crweb

Guðmann á göngubrúnni yfir Skarðsá.

Svínaskarð 037crweb

Skokkað upp með Skarðsánni, rétt ofan við göngubrúna. Mosfell í baksýn.

Eftir að komið var yfir Skarðsá gerðist slóðinn enn grófari og brattinn jókst. Þarna fór hver upp á sínum hraða, þannig að hópurinn var lengst af alldreifður. Þegar komið var að dysinni efst í skarðinu var áð um stund, enda viðraði einkar vel til þess. Þarna voru 12,08 km að baki og klukkan sýndi 1:31:20 klst. Hæðarmælirinn stóð í 480 m, og samkvæmt því var hækkunin um 430 m.

Svínaskarð 055crweb

Hér á Fríða (Arnfríður) stutt eftir upp í skarðið. Í baksýn sést upp í Móskarðshnúka.

Svínaskarð 064web

Áð við dys Írafellsmóra eða kannski smalanna tveggja. Á myndinni eru allir hlaupararnir, þannig að líklega hefur Írafellsmóri sjálfur smellt af, þótt bjartur dagur væri.

Eftir góða hvíld við dysina var sprett úr spori niður úr skarðinu og niður Svínadal áleiðis niður í Kjós. Sjálfum finnst mér niðurleiðin yfirleitt skemmtilegasti hluti fjallvegahlaupanna, og þetta skipti var engin undantekning frá því. Dreifðist nú hópurinn aftur. Jón Gauti og Tryggvi fylgdu mér á niðurleiðinni, en aðrir fóru sér hægar, enda leiðin grýtt, laus í sér og viðsjárverð á köflum. Sums staðar var runnið úr slóðanum, og víða var hliðarhalli til óþæginda. Niðurleiðin mældist 7,45 km með endapunkt á vegamótunum niðri á Kjósarskarðsvegi beint fyrir neðan Vindáshlíð. Þessi sprettur tók okkur Jón Gauta ekki nema 39:39 mín.

Svínaskarð 066crweb

Jón Gauti við endamarkið á Kjósarskarðsvegi.

Svínaskarð 068web

Ég sjálfur á sama stað með Vindáshlíð í baksýn. Ljósm. Jón Gauti.

Svínaskarð 078crweb

Við leiðarlok í Kjósinni. Skálafell í baksýn vinstra megin við miðja mynd. Þar til hægri er Svínaskarð, þaðan sem við vorum nýkomin. Ljósm.: Sigrún Magnúsdóttir.

Þegar niður var komið tók við stutt bið eftir því að allir skiluðu sér á leiðarenda. Þar gafst um leið tækifæri til að njóta veðurblíðunnar og gleðinnar sem hugurinn hafði fyllst af á leiðinni. Eftir myndatökur og hressingu röðuðum við okkur í tiltæka bíla og ókum Kjósarskarð til baka suður á Esjumela. Þar skildu leiðir og hver fór til síns heima.

Nesti og annar búnaður:

Sem oftar hafði ég ekkert nesti meðferðis nema vatn á brúsum og eitthvað af orkugeli. Gelið notaði ég lítið, en fyllti á brúsana eftir þörfum í lækjum á leiðinni. Ég var klæddur í síðar hlaupabuxur, tvo stutterma hlaupaboli og langerma stakk utan yfir. Fór reyndar fljótlega úr stakknum, enda veðrið milt. Á fótum hafði ég vetrarskó af gerðinni Asics Arctic, án gadda þó. Skórnir reyndust einkar vel á þessu grófa undirlagi.

Lokaorð:

Leiðin um Svínaskarð er einkar aðgengileg göngu- og hlaupaleið, en er jafnframt sæmilega fær fyrir vel búna jeppa og torfærutæki. Nálægðin við höfuðborgarsvæðið gerir það að verkum, að þeir sem leggja á skarðið á tveimur jafnfljótum geta átt von á félagsskap vélknúinna ökutækja. Við því er ekkert að gera, en óneitanlega fara þessir ólíku ferðamátar aðeins miðlungi vel saman. Sjálfum finnst mér hávaði og ys torfærutækjanna spilla náttúruupplifuninni svolítið, en það er eflaust smekksatriði eins og flest annað. Að kvöldi þessa hlaupadags var mér efst í huga þakklæti til ferðafélaganna 7 sem hlupu þennan spöl með mér, og þakklæti til forsjónarinnar fyrir að gera mér mögulegt að njóta svona útivistar og félagsskapar og fá að upplifa andartök þegar mér finnst ég hafa allt sem ég mun nokkurn tímann þurfa. Ætli það sé ekki það sem Laxnes kallaði kraftbirtíngarhljóm guðdómsins.

Sérstakar þakkir fær Tryggvi Felixson fyrir að benda mér á þessa leið og eiginkona hans, Sigrún Magnúsdóttir, fyrir myndatökur, akstur og aðra aðstoð.

Helstu heimildir:

Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson: Landið þitt Ísland, Örn og Örlygur, Reykjavík 1983.

Vegahandbókin. Landmælingar Íslands og Vegahandbókin ehf., Reykjavík 2008.

Íslandsatlas. Edda útgáfa hf., Reykjavík 2006.

Þjóðsögur Jóns Árnasonar

2 athugasemdir við “Svínaskarð”

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s