Nú er komið að því! Laugardaginn 20. maí kl. 10 árdegis verður lagt upp í fyrsta fjallvegahlaup sumarsins, yfir Svínaskarð, frá Hrafnhólum við Leirvogsá að Vindáshlíð í Kjós. Og þetta verður ekki bara fjallvegahlaup, heldur líka sérstakt fjallvegahlaupabókarhlaup. Í lok hlaupsins verður nefnilega efnt til samkomu í Vindáshlíð, þar sem bókin Fjallvegahlaup verður kynnt og seld og árituð – og boðið upp á léttar veitingar.

Leiðinni yfir Svínaskarð eru gerð skil á bls. 70 í Fjallvegahlaupabókinni, en leiðin var sú tíunda í röðinni í fjallvegahlaupaverkefninu, hlaupin á uppstigningardag, 21. maí 2009. Þá var hlaupið af Esjumelum upp að Vindáshlíð, sem mældust samtals 19,53 km. Spölurinn frá Esjumelum að Hrafnhólum er um 6 km, en ætlunin er að sleppa þeim kafla að þessu sinni til að gera leiðina alþýðlegri.

Í hlaupinu á laugardag gilda sömu meginreglur og ævinlega hafa gilt í fjallvegahlaupunum mínum, þ.e. að öllum er velkomið að taka þátt, enda er maður manns gaman. Þátttakan er þó alltaf á ábyrgð hvers og eins. Þrátt fyrir þetta frelsi er nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku í hlaupinu, þannig að hægt sé að sjá hlaupurum fyrir nægum veitingum við endamarkið. Þátttakendur þurfa sjálfir að koma sér á upphafspunktinn og frá lokapunktinum. Engin þátttökugjöld eru í hlaupinu, enda verður þetta fríhlaup (e. „free running“) í tvennum skilningi. Engin formleg tímataka er í hlaupinu, heldur má nota skeiðklukkur og dagatöl að vild.

Sem fyrr segir hefst hlaupið á laugardaginn við Hrafnhóla kl. 10 árdegis. Gera má ráð fyrir að allir verði komnir í hús í Vindáshlíð 2-3 klst. síðar. Upphaflega leiðarlýsingu má lesa á fjallvegahlaup.is.

Til að komast að Hrafnhólum er ekið sem leið liggur inn Mosfellsdal. Um 2 km ofan við Gljúfrastein (um 7 km ofan við hringtorg í Mosfellsbæ) er beygt til vinstri þar sem skilti bendir á Hrafnhóla. Frá skiltinu eru um 3 km að þeim stað þar sem hlaupið byrjar.

Skráning í hlaupið fer fram á https://nvite.com/Fjallvegahlaup/lonmn9.