Víkurheiði og Dys

Staðsetning: Frá Reyðarfirði í Viðfjörð
Nánar: Frá vegamótum við Teigará í Reyðarfirði, yfir Víkurheiði og síðan um Dys niður í Viðfjörð
Áfangar og hnattstaða: 
Upphaf:  0,00 km, N65°00,71' - V13°48,31'
Þverá:   5,91 km, N65°01,98' - V13°43,29'
Dys:     9,23 km, N65°03,34' - V13°41,56'
Lok:    13,81 km, N65°05,14' - V13°38,80')
Hæð y. sjó: 57 m við upphaf, 420 m hæst, 4 m við lok
Heildarhækkun: 511 m
Vegalengd: 13,81 km
Tími: 2:10:33 klst
Meðalhraði: 6,35 km/klst (9:27 mín/km)
Dags.: Miðvikudag 7. júlí 2021, kl. 10:28 
Hlaupafélagar: Arnór Freyr Ingunnarson, Birkir Þór Stefánsson, Salome Hallfreðsdóttir og Sóley Birna Hjördísardóttir
Dags. fyrri tilraunar: Þriðjudag 4. ágúst 2015, kl. 11:12 
Hlaupafélagar: Bryndís Óladóttir, Ingólfur Sveinsson, Pjetur St. Arason, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Sævar Skaptason

Fróðleikur um leiðina:

Hlaupaleiðin sem hér um ræðir hefst „úti á sveit“ eins og það er kallað, nánar tiltekið á vegamótum við Teigará, um 10 km fyrir utan Eskifjörð, mitt á milli bæjanna Stóru-Breiðuvíkur og Litlu Breiðuvíkur. Þaðan liggur leiðin eftir Vöðlavíkurvegi upp á Víkurheiði, sem er lág og grösug með góðu berjalandi. Þegar komið er yfir háheiðina er hlaupið yfir Þverá, sem á það til að vera nokkuð vatnsmikil. Rétt handan við ána liggur vegur til hægri niður í Vöðlavík. Þangað liggur leiðin ekki í þessari ferð, heldur er hlaupið áfram um Lönguhlíð utan í Haugum vestanvert í Dysjardal og upp á Dys, eða Almannaskarð eins og þetta skarð úr Dysjardal yfir í Skammdal nefndist áður fyrr. Úr skarðinu falla öll vötn til Viðfjarðar.

Á Dys er sagt að Hellisfirðingar hafi endur fyrir löngu dysjað 17 eða 18 Spánverja sem þeir drápu og er hefð fyrir því að ferðamenn kasti steini í dysina.

Ofan af Dys er hlaupið niður í Skammdal. Ofarlega í dalnum er farið vestur yfir Viðfjarðará og henni síðan fylgt niður að vestanverðu. Leiðin liggur um hlaðið á afbýlinu Klifi við Klifsá, en þar var búið á árunum 1855-1882, og áfram til sjávar þar sem hlaupið endar við Viðfjarðarbæinn.

Viðfjörður var lengst af eina býlið í Viðfirði, en þar voru líka um tíma tvö afbýli, þ.e.a.s. Klif sem fyrr var nefnt og Borg nálægt fjarðarbotninum að austanverðu. Til forna stóð einnig býlið Másstaðir út með firðinum að vestanverðu. Viðfjörður var hlunnindajörð með miklu æðarvarpi og reka og dregur fjörðurinn einmitt nafn sitt af rekaviðnum. Í Viðfirði bjó sama ættin frá því um 1750 og þar til jörðin fór í eyði árið 1955.

Í Viðfirði var byggt glæsilegt íbúðarhús árið 1932 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Þarna var mannmargt um þetta leyti, en í húsinu var líka aðstaða fyrir skemmtanahald fyrir allt Gerpissvæðið. Húsið hefur nú verið endurbyggt eftir áratuga niðurníðslu og er notað til sumardvalar.

Fyrr á öldum mun Viðfirðingum og Sandvíkingum hafa sinnast út af beitilandi og enduðu þær deilur með bardaga þar sem menn féllu úr báðum liðum. Hinir föllnu eru sagðir dysjaðir á svonefndum Engjahjalla í landi Viðfjarðarbæjarins.

Í Viðfirði gerðust Viðfjarðarundrin sem Þórbergur Þórðarson nefndi svo og sagði frá í samnefndri bók. Eitthvað af þessum undrum voru e.t.v. næsta hversdagslegir viðburðir sem öðluðust meira líf í skrifum Þórbergs, sem voru byggð á samtölum við móður Viðfjarðarskottu og tvær systur hennar. Viðfjarðarskotta hét reyndar Hulda G. Sigurðardóttir, (f. í Viðfirði 1933, d. 2016) og var í æsku heimagangur hjá Þórbergi og Margréti konu hans á Freyjugötunni í Reykjavík. Hulda er amma Gylfa Þórs Sigurðssonar, knattspyrnumanns. Móðurafi Huldu og þar með langalangafi Gylfa var Sveinn Bjarnason (1857-1927), bóndi í Viðfirði, sem er reyndar líka langalangafi Hermanns Hreiðarssonar. Sveinn var sonur Bjarna Sveinssonar (1829-1892) og Guðrúnar Jónsdóttur (1836-1926) sem Viðfjarðarætt er komin út af.

Hvað sem Viðfjarðarundrum og ættum knattspyrnumanna líður, fara sögur af því að á bænum Viðfirði hafi verið reimt öldum saman. Líklega bar þó einna mest á þessu á árunum milli 1930 og 1940. Draugar gengu þá ljósum logum á bænum, „leystust upp í eldglæringum, tóku fyrir kverkar fólki og gerðu mönnum hvers konar skráveifur aðrar“, (Landið þitt Ísland 5, bls. 101).

Vegur var lagður í Viðfjörð laust eftir 1940 og næstu ár var fjörðurinn í þjóðbraut. Áætlunarbíll frá Akureyri kom þá í Viðfjörð og þaðan voru fastar bátsferðir til Neskaupstaðar. Frá Viðfirði fór bíllinn kl. 6 að morgni og var kominn til Akureyrar kl. 10 að kvöldi. Þessari þjónustu var sjálfhætt eftir að vegur kom yfir Oddsskarð árið 1949. Leiðin í Viðfjörð er þó enn jeppafær að sumarlagi.

Ferðasagan:  

Sagan er í smíðum.

Lokaorð:

Leiðin um Víkurheiði og Dys er auðveld yfirferðar yfir sumarmánuðina, enda bílvegur alla leið, fær fjórhjóladrifsbílum. Þverá á það til að vera farartálmi en gott vað er á ánni með steyptum botni að hluta. Viðfjörður er einn af þessum eyðifjörðum sem geymir þögla sögu komandi kynslóða, jafnvel þótt þar sé talsvert um mannaferðir á sumrin. Þangað er upplifun að koma, í það minnsta ef maður gefur sér tíma til að anda sögunni að sér.

Helstu heimildir:

2 athugasemdir við “Víkurheiði og Dys”

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s