Gönguskarð við Njarðvík

Staðsetning: Frá Unaósi á Héraði að Hlíðartúni í Njarðvík
Hnattstaða:
Upphaf:              N65°34,62' - V14°01,45'
Stapavík (gatnamót): N65°36,02' - V13°58,20'
Gönguskarð:          N65°35,41' - V13°56,43'
Lok:                 N65°34,49' - V13°53,66'
Hæð y. sjó: Fer hæst í 415 m  
Vegalengd: Um 10 km
Tími: (Verður skráður í ferðalok)
Meðalhraði: (Verður skráður í ferðalok)
Dags.: Fimmtudagur 18. júlí 2019, kl. 14:00
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina:

Leiðin um Gönguskarð var aðalleiðin af utanverðu Héraði yfir í Njarðvík allt þar til bílvegurinn yfir Vatnsskarð eystra var opnaður árið 1955. Þannig var Gönguskarð skráð sem hluti af Úthéraðsvegi á vegaskrá Vegamálastjórnarinnar 1933. Hins vegar hefur aldrei verið bífært um skarðið, þó að vitað sé um jeppa sem fór þar yfir árið 1946. Hlaupaleiðin um skarðið er greiðfær og liggur að miklu leyti eftir greinilegum reiðvegi.

Hlaupið hefst á bílastæði fyrir ofan bæinn að Unaósi, rétt þar sem ekið er af láglendinu upp á Vatnsskarð. Fyrstu kílómetrana er hlaupið út með Selfljóti, fyrst í gegnum svonefndar Nafir og yfir Nautá, sem rennur úr Vatnsskarðsvatni, og síðan áfram um Nautaskóg út að Eiðaveri við Hvíteyrarlæk, sem dregur væntanlega nafn sitt af ljósbleiku líparitgrjóti sem er áberandi á þessum slóðum.

Unaós er ysta jörð í Hjaltastaðaþinghá, kennd við Una danska Garðarson sem nam land sunnan Lagarfljóts. Hann ætlaði að leggja landið undir Harald Hárfagra Noregskonung en hafði engan stuðning nærsamfélagsins í þeim áformum. Unaós þótti kostajörð á meðan hlunnindi voru einhvers metin. Þar var hægt að bæta afkomu sína með rekaviði, silungsveiðum, bjargfugli og varpi. Búið var á Unaósi til ársins 2017 þegar Þorsteinn Bergsson brá búi og flutti til Egilsstaða. Þorsteinn er vel þekktur sem sauðfjárbóndi, þátttakandi í spurningakeppnum og frambjóðandi Alþýðufylkingarinnar í a.m.k. tvennum Alþingiskosningum.

Á leiðinni út að Eiðaveri má sjá fallegar veghleðslur frá þeim tíma þegar kerruvegur var lagður þarna út ströndina árið 1906 í tengslum við verslunina á Krosshöfða. Í Eiðaveri hafði Margrét ríka á Eiðum í veri á 16. öld og þar var einnig verstöð til forna. Þar mótar fyrir rústum fimm sjóbúða og nausta, auk rústa beitarhúsa frá Unaósi sem munu hafa verið notuð fram til ársins 1913. Þarna er líka að finna nokkrar sjaldgæfar plöntutegundir, svo sem maríuvött, súrsmæru, gullsteinbrjót og brenninetlu.

Utan við Hvíteyrarlæk er farið yfir Hvíteyri og út á Krosshöfða við ósa Selfljóts. Þar var verslunarhöfn sem fékk löggildingu árið 1920, þó að hafnarskilyrði væru afleit. Strax á fyrsta áratugnum eftir löggildinguna varð lendingin reyndar ófær vegna sandburðar og eftir það var uppskipunarhöfn staðsett litlu utar með ströndinni í Stapavík. Uppskipun í Stapavík var hætt 1939 og eftir það var ýmist landað við Höfðann eða farið á bátum inn Selfljót að Heyskálabrú. Verslunarstaður var á Krosshöfða á árunum 1902-1945 og var hann ýmist kallaður Óshöfn eða Höfði. Á þessum árum ráku bændur þangað sláturfé, m.a. yfir Gönguskarð, og fengu á móti vörur sem fluttar voru sjóleiðis. Verslunarreksturinn var í höndum Framtíðarinnar á Seyðisfirði framanaf en Kaupfélag Borgfirðinga var umsvifamest á Höfðanum á síðari hluta tímabilsins.

Að vegamótunum innan við Stapavík eru um 4 km frá upphafsstaðnum. Hlaupaleiðin liggur ekki um hlaðið í Stapavík heldur er sveigt til hægri á vegamótunum og stefnt til suðausturs beint upp brekkurnar. Eftir um 1 km brölt beygir leiðin til vinstri og eftir það liggur leiðin í aflíðandi hægri beygju þar til aftur er stefnt í suðaustur upp í skarðið. Þangað eru um 6,2 km frá Unaósi og eftir það renna öll vötn til Njarðvíkur.

Úr Gönguskarði er gott útsýni alla leið norður á Langanes. Þegar hlaupið er suður skarðið er Kerlingarfjall (631 m) framundan á vinstri hönd og Grjótfjall (697 m) til hægri. Veður geta orðið illskeytt í skarðinu og þar er snjóflóðahætta á vetrum. Örnefnið Stúlkubotnar innan við Göngudal minnir á „afdrif tveggja vegvilltra ungmeyja er þar urðu til“, (HG, bls. 92).

Niðurleiðin úr skarðinu liggur meðfram Göngudalsá að vestanverðu, fyrst niður bratta skriðu og síðan um votlendi efst í Göngudal. Ofarlega í dalnum er stiklað austur yfir ána og henni fylgt áfram niður á láglendið inn af Njarðvík. Þegar komið er niður að girðingu í dalsmynninu er beygt til vinstri og síðasti spölurinn hlaupinn meðfram Þorragarði, sem hlaðinn var úr torfi rétt fyrir árið 1000 að því er talið er. Upphaflega hefur garðurinn verið allt að 1,5 m á hæð og um 1.400 m langur, en nú stendur eftir um 900 m kafli. Þorragarðs er getið í Gunnars þætti Þiðrandabana og má ráða af sögunni að þetta hafi verið hestagirðing að þess tíma hætti. Líklegt er að Ásbjörn vegghamar hafi hlaðið garðinn. Hann var mikill verkmaður en ekki að sama skapi forsjáll í fjármálum. Hann var með öðrum orðum „óskuldvar“ og „keypti það margt er honum þótti girnilegt“, (BK, bls. 2136). Innheimta skuldanna fór síðar úr böndunum og kostaði nokkur mannslíf. Þorragarður endar við skilti ofan við bæinn Hlíðartún – og þar endar líka hlaupið.  

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu

Nesti og annar búnaður:

Verður skráð að hlaupi loknu

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu

Helstu heimildir: