Fjallvegahlaupi um Gönguskarð aflýst

Fjallvegahlaupi dagsins um Gönguskarð hefur verið aflýst vegna veðurs. Rigningin fer minnkandi en enn er dimm þoka á svæðinu, bæjarlækir í foráttuvexti og aðstæður til útivistar með verra móti.

Fjallvegahlaupi um Stórurð aflýst

Fjallvegahlaupi dagsins um Stórurð hefur verið aflýst vegna veðurs. Mikil rigning er á svæðinu og dimm þoka. Ákvörðun um hlaupið yfir Gönguskarð verður tekin á næstu klukkutímum, en það hlaup er á dagskrá kl. 14 í dag, (fimmtudaginn 18. júlí 2019).

Hlaup nr. 54, 55 og 56 að bresta á!

Á morgun, miðvikudaginn 17. júlí ætla ég að reima á mig fjallvegahlaupaskóna á Borgarfirði eystri. Leiðin liggur frá Borgarfirði um Brúnavíkurskarð og Súluskarð niður í Kjólsvík, samtals um 12 km leið. Á fimmtudaginn er svo röðin komin að Stórurð annars vegar og Gönguskarði hins vegar.

Dagskrá tveggja næstu daga lítur í stuttu máli þannig út:

 • Miðvikudagur 17. júlí 2019, kl. 13:00: Fjallvegahlaup nr. 54:
  Brúnavíkurskarð og Súluskarð – Frá Ölduhamri í Borgarfirði eystri til Kjólsvíkur – 12 km. Þarna verða tveir fjallvegir sameinaðir í eitt hlaup (til að ná vegalengdinni upp fyrir 9 km, sem er lágmarksvegalengd samkvæmt afar ströngum reglum fjallvegahlaupaverkefnisins).
 • Fimmtudagur 18. júlí 2019, kl. 9:00: Fjallvegahlaup nr. 55:
  Stórurð – Frá Hólalandi í Borgarfirði eystri að Unaósi á Héraði – 22 km. Þetta er reyndar líklega bara að hluta til gömul þjóðleið, en sú leið lá frá Hólalandi um Eiríksdal að Hrafnabjörgum við Selfljót. Þessi útfærsla hentar bara betur af því að hún er svo vel troðin og merkt.
 • Fimmtudagur 18. júlí 2019, kl. 14:00: Fjallvegahlaup nr. 56:
  Gönguskarð – Frá Unaósi á Héraði að Hlíðartúni í Njarðvík – 10 km. Þarna býr sagan við hvert fótmál, m.a. í Stapavík, og staðsetningin gerir það að verkum að einkar hentugt er að hlaupa þessa leið í beinu framhaldi af Stórurð.

Samkvæmt upphaflegri fjallvegahlaupadagskrá ætlaði ég að hlaupa Sandaskörð þriðjudaginn 23. júlí nk., en því hlaupi þarf ég að fresta um óákveðinn tíma. Leiðin um Sandaskörð liggur frá Hólalandi í Borgarfirði eystri að Ánastöðum í Hjaltastaðaþinghá.

Drög að leiðarlýsingum fyrir Brúnavíkurskarð og Súluskarð annars vegar og Gönguskarð hins vegar má finna hér á síðunni, en leiðarlýsing um Stórurð hefur ekki enn verið skrifuð.

Vonandi slást sem flestir í för með mér næstu daga. Allir eru að vanda velkomnir á eigin ábyrgð, þátttakan kostar ekki neitt og engin verðlaun verða veitt, nema vonandi góðar minningar.

Rétt er að benda sérstaklega á að hið einstaka Dyrfjallahlaup fer fram á laugardaginn í þriðja sinn. Fjallvegahlaupin sem hér um ræðir eru tilvalin undirbúningur fyrir það, auk þess sem hlaupið um Stórurð nýtist að hluta sem brautarskoðun. Frestur til að skrá sig í Dyrfjallahlaupið rennur út á föstudag.

Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin á Þrándarhrygg 26. júní 2010 í fjallvegahlaupi nr. 16. Þann dag hlupum við fjögur saman yfir Gagnheiði frá Borgarfirði eystri til Breiðuvíkur. Á myndinni sést einmitt niður í Brúnavík, þangað sem leiðin liggur á morgun.

Fjallvegahlaup nr. 53 framundan

Nú er komið að því. Fjallvegahlaupavertíðin hefst formlega við Fellsendarétt í Dölum laugardaginn 8. júní nk. kl. 10 árdegis með fjallvegahlaupi um Reykjadal og Sanddal með endamarki um 2 km neðan við Sveinatungu í Norðurárdal. Hlaupið, sem er u.þ.b. 25 km að lengd (með venjulegum 20% skekkjumörkum) er fjallvegahlaup nr. 53 frá upphafi og nr. 3 í nýju Fjallvegahlaupabókinni sem hlýtur að koma út fimmtudaginn 18. mars 2027, þ.e.a.s. á sjötugsafmælinu mínu.

Ég ætla mér að hafa gaman að þessu á laugardaginn og þeim mun meira gaman sem fleiri mæta. Allir eru að vanda velkomnir á eigin ábyrgð, þátttakan kostar ekki neitt og engin verðlaun verða veitt, nema vonandi góðar minningar.

Drög að leiðarlýsingu má finna hér á síðunni, enn mjög gróf að vísu. En við rötum þetta nú samt alveg. Svo gerði ég líka tilraun til að búa til kort á Google Maps. Tek enga ábyrgð á gæðum þess.

Vonast til að sjá sem flesta.

Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins hefst á laugardaginn

Á laugardaginn (18. maí) hefst fjallvegahlaupavertíð sumarsins með sérstöku fjallvegahlaupabókarhlaupi um Skarðsheiðarveg sunnan af Skorholtsmelum í Melasveit upp í Hreppslaug í Andakíl. Þetta er sama leiðin og ég hljóp með góðum félögum þann 21. júní 2011, en því ferðalagi er lýst í Fjallvegahlaupabókinni minni (leið nr. 20).

Hlaupið á laugardaginn hefst kl. 10:00, en nánari upplýsingar er að finna á Facebooksíðu hlaupsins. Boðið verður upp á veitingar í Hreppslaug að hlaupi loknu og þess vegna er nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku í hlaupinu. Annars verður erfitt að áætla hversu mikið þarf af veitingunum. Skráningin fer fram með því að smella á þar til gerðan tengil á Facebooksíðunni.

Hin eiginlegu fjallvegahlaup hefjast svo í júní, en með „eiginlegum fjallvegahlaupum“ er hér átt við hlaupin sem gerð verða sérstök skil í Fjallvegahlaupabók nr. 2 sem kemur út fimmtudaginn 18. mars 2027. Hlaup sumarsins verða kynnt hér á síðunni (sjá m.a. næstu færslu fyrir neðan þessa) og á Facebooksíðu fjallvegahlaupanna, auk þess sem ég segi samferðafólki mínu á laugardaginn örugglega undan og ofan af áformum sumarsins.

Leiðin um Skarðsheiðarveginn er rétt tæpir 20 km, fylgir öll greinilegum stígum og er auðveld yfirferðar þrátt fyrir töluverða hækkun. Landslagið er fallegt og undirlagið fjölbreytilegt. Líklega eru línuvegirnir á sunnanverðri leiðinni fljótfarnari en reiðgatan, en „línuvegi skortir eitthvað af þeim andblæ og upplifun sem fylgir hálfgrónum gömlum götum sem liggja lágt í landinu“, svo ég vitni nú í eigin orð frá árinu 2011. Þess vegna förum við reiðgöturnar.

Vonast til að hitta sem flest ykkar á laugardag. Öllum er velkomið að taka þátt, sér að kostnaðarlausu en á eigin ábyrgð.

Við Miðfitjahól, þar sem Skarðsheiðarvegurinn rís hæst, nánar tiltekið í u.þ.b. 470 m hæð. Í baksýn (t.h.) er hæsta fjall Skarðsheiðarinnar, Heiðarhorn (1.053 m). (Myndin er tekin 2011).

Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins í mótun

Tímabært að fara að reima á sig skóna á nýjan leik.

Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2019 er smám saman að taka á sig mynd. Ætlunin er að hlaupa 7-8 nýja fjallvegi í sumar, auk þess sem nokkrar eldri leiðir verða rifjaðar upp til fróðleiks og skemmtunar. Eftirfarandi dagsetningar hafa verið ákveðnar, en það sem á vantar verður kynnt á næstunni.

 1. Laugardagur 18. maí: Fjallvegahlaupavertíðin 2019 hefst formlega með upprifjun á u.þ.b. 23 km fjallvegahlaupi í nágrenni Reykjavíkur. Hlaupið verður skipulagt í samvinnu við Bókaútgáfuna Sölku. Von er á nánari kynningu á næstu dögum eða vikum.
 2. Laugardagur 8. júní: Reykjadalur – Frá Fellsendarétt í Miðdölum að Sveinatungu í Norðurárdal – um 25 km. (FJALLVEGAHLAUP)!
 3. Laugardagur 15. júní: Þrístrendingur (Steinadalsheiði, Bitruháls og Krossárdalur, (leiðir nr. 14, 15 og 8 í Fjallvegahlaupabókinni)). Hlaupið er ekki beinlínis hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, heldur fyrst og fremst félagslegt skemmti- og æfingahlaup, sem nú verður hlaupið í 9. sinn. Heildarvegalengdin er 41 km, en auðvelt að skipta henni niður í styttri kafla.
 4. Laugardagur 29. júní: Hamingjuhlaupið. Rétt eins og Þrístrendingur er þetta hlaup ekki beinlínis hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, heldur fyrst og fremst félagslegt skemmti- og æfingahlaup, sem haldið er árlega í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík. Þetta verður 11. Hamingjuhlaupið frá upphafi og leiðin liggur úr Trékyllisvík til Hólmavíkur, nánar tiltekið yfir Naustvíkurskörð og Trékyllisheiði (fjallveg nr. 22 í bókinni). Heildarvegalengdin er um 53,5 km en er gjarnan skipt niður í styttri kafla.
 5. Miðvikudagur 17. júlí: Brúnavíkurskarð og Súluskarð – Frá Ölduhamri í Borgarfirði eystri til Kjólsvíkur – 12 km. Þarna verða tveir fjallvegir sameinaðir í eitt hlaup (til að ná vegalengdinni upp fyrir 9 km). (FJALLVEGAHLAUP)!
 6. Fimmtudagur 18. júlí: Stórurð – Frá Hólalandi í Borgarfirði eystri að Unaósi á Héraði – 22 km. Þetta er reyndar líklega bara að hluta til gömul þjóðleið, en sú leið lá frá Hólalandi um Eiríksdal að Hrafnabjörgum við Selfljót. Þessi útfærsla hentar bara betur af því að hún er svo vel troðin og merkt. Hlaupið er tveimur dögum fyrir Dyrfjallahlaupið sem fylgir sömu slóðinni framan af. Þetta gæti því verið ágætis brautarskoðun. (FJALLVEGAHLAUP)!
 7. Fimmtudagur 18. júlí: Gönguskarð – Frá Unaósi á Héraði að Hlíðartúni í Njarðvík – 10 km. Þarna býr sagan við hvert fótmál og auðvitað hentar vel að taka þetta í beinu framhaldi af Stórurð. (FJALLVEGAHLAUP)!
 8. Þriðjudagur 23. júlí: Sandaskörð – Frá Hólalandi í Borgarfirði eystri að Ánastöðum í Hjaltastaðaþinghá – 21 km. (FJALLVEGAHLAUP)!

Eins og sjá má eru fimm eiginleg fjallvegahlaup komin hér á blað en a.m.k. tvö til viðbótar munu bætast við listann á næstu dögum eða vikum.

Vonast til að sjá sem flesta á fjallvegum sumarsins!

Þessi mynd, sem tekin var í Svartárdal sumarið 2016, sýnir svo ekki verður um villst hvað fjallvegahlaup eru skemmtileg!

Engin fjallvegahlaup skipulögð í sumar

Nú er ljóst að ég mun ekki hlaupa neina fjallvegi í sumar. Ég hef nefnilega ekki verið hlaupafær frá því í janúar vegna þrálátra meiðsla – og nú er útséð um að úr rætist fyrr en eftir að bestu fjallvegahlaupamánuðir ársins verða liðnir. Þetta þýðir að fjallvegahlaup næstu sumra verða ögn fleiri en ella, því að enn er stefnt að því að hlaupa 50 nýja fjallvegi fyrir sjötugsafmælið 2027.

Brjósklos er hin opinbera ástæða þess óvænta og óvenjulega ástands sem lýst er hér að framan. Raunveruleg orsök kann hins vegar að vera önnur, en úr því fæst væntanlega skorið á næstu vikum. Að vissu leyti gildir hér það sama og í yfirlýsingu Mikka refs í bakaríinu, þ.e.a.s.: „Sama er mér hvað þú kallar það“. En þegar betur er að gáð er rétt greining lykillinn að réttri meðferð.

Fjallvegahlaup leggjast ekki af þó að ég dvelji á hliðarlínunni um stund. Því vil ég hvetja allt áhugafólk um útivist og hreyfingu til að finna fjallvegahlauparann í sjálfu sér og leggja sem flesta fjallvegi að baki í sumar, gjarnan í góðra vina hópi. Vonandi kemur Fjallvegahlaupabókin í góðar þarfir á þeirri vegferð.

Vorið 2019 hækkar sól á lofti á ný og þá hefst nýtt fjallvegahlaupatímabil. Hlakka til að hlaupa með sem flestum ykkar þá.

Horft úr Arnardalsskarði til Grundarfjarðar og Kirkjufells vorið 2016.

83 fjallvegir á listanum

Leitin að fjallvegum gengur vel. Ég ákvað í sumar að hlaupa 50 slíka fyrir sjötugsafmælið, til viðbótar við þá 50 sem voru afgreiddir á sextugsaldrinum. Þegar sú ákvörðun var tekin vissi ég um rúmlega 30 leiðir sem biðu þess að vera hlaupnar. Síðustu daga og vikur hefur listinn lengst jafnt og þétt og nú eru samtals 83 leiðir komnar á blað. Þó á ég eftir að kanna hluta af Norðurlandinu betur. Það er sem sagt til nóg af fjallvegum á Íslandi!

Eitthvað af leiðunum 83 mun augljóslega mæta afgangi. Hvaða leiðir verða fyrir valinu ræðst að hluta til af tilviljunum, en sumar eru jú líka e.t.v. áhugaverðari eða liggja betur við höggi en aðrar.

Að sjálfsögðu þigg ég allar ábendingar um nýjar leiðir með þökkum – og svo má líka alveg reyna að hafa áhrif á hvaða 50 leiðir verða teknar fyrir næstu 9 sumur. Listann í heild sinni má finna á hugmyndasíðu þessa vefsvæðis.

Myndin sem fylgir þessum orðum var tekin í Kerlingarfjöllum í sumar. Þar eru reyndar engin fjallvegahlaup fyrirhuguð, enda gera „reglur fjallvegahlaupaverkefnisins“ ráð fyrir að hlaupið sé á milli byggða, en ekki bara fram og aftur í óbyggðum. En Kerlingarfjöll eru staður sem óhætt er að mæla með þegar hlé gefst á milli fjallvegahlaupa.

Aðrir 50 fjallvegir fyrir sjötugt

Enn verða skór reimaðir.

Frá því að fjallvegahlaupaverkefninu mínu lauk með útgáfu bókarinnar Fjallvegahlaup á sextugsafmælinu mínu 18. mars 2017 hefur ríkt óvissa um viðfangsefni næsta áratugar. Þessari óvissu er eytt hér með. Ég hef sem sagt ákveðið að hlaupa 50 fjallvegi til viðbótar fyrir sjötugt. Í samræmi við það er stefnt að útgáfu bókarinnar Meiri fjallvegahlaup þann 18. mars 2027.

Þetta nýja fjallvegahlaupaverkefni verður með sama sniði og upphaflega verkefnið, enda er þetta einfaldlega rökrétt framhald. Tilgangurinn er sá sami og áður, nema hvað nú snýst málið um sjötugsaldurinn í stað sextugsaldursins. Öll viðmið eru óbreytt og sem fyrr er öllum frjálst að slást í för með mér á eigin ábyrgð. Því fleiri sem koma, þeim mun glaðari verð ég.

Einhverjum kann að finnast þetta nýja verkefni mitt ófrumlegt, þar sem í raun sé um endurtekningu að ræða. En frumleikinn er ekkert markmið í sjálfu sér. Þetta snýst þvert á móti um að setja sér markmið til langs tíma og hvika ekki frá þeim þótt einhverjir þröskuldar verði á vegi manns. Auk þess er hvert fjallveghlaup ný uppgötvun og ný upplifun.

Ég hef reyndar þegar hlaupið tvo fjallvegi af þeim 50 sem um ræðir, þ.e.a.s. Sælingsdalsheiði í Dölum og Bæjardalsheiði milli Reykhólasveitar og Steingrímsfjarðar. Hverjir hinir 48 fjallvegirnir verða á eftir að koma í ljós, en það verður allt kynnt þegar nær dregur. Fyrstu fréttir af þeim áformum eru væntanlegar á vetri komanda, en nú þegar liggur fyrir allstórt safn hugmynda. Nóg er til af fjallvegum.

Þetta verður skemmtilegt!

Sælingsdalsheiði á sunnudag

Á sunnudaginn (11. júní) ætla ég að hlaupa yfir Sælingsdalsheiði úr Saurbæ í Dölum að Laugum í Sælingsdal. Reikna með að leggja af stað úr Saurbænum kl. 13:00 og vonast til að sem flestir sláist í för með mér. Vegalengdin er um 15 km og hæst fer leiðin í um 400 m.y.s. Þátttakan kostar ekkert nema fyrirhöfnina við að koma sér á staðinn og heim aftur.

Upphaflega ætlaði ég að hlaupa yfir Skeggaxlarskarð þennan dag, en eftir að hafa rannsakað leiðina dálítið og ráðfært mig við kunnuga ákvað ég að velja Sælingsdalsheiðina frekar. Hún er nær helmingi styttri, sögufrægari, með betra undirlag og líklega auðveldari vatnsföll, en endapunkturinn er í báðum tilvikum sá sami.

Sem fyrr segir er ætlunin að leggja af stað úr Saurbænum kl. 13:00. Upphafspunkturinn (hnattstaða 65°20,71’N – 21°55,14’V) er á vegamótum neðst í Hvammsdal, skammt fyrir neðan bæinn Kjarlaksvelli. Til að komast akandi að sunnan að þessum punkti er stefnan tekin á Skriðuland, sem er um 37 km vestan við Búðardal (á leiðinni til Hólmavíkur). Við Skriðuland er beygt til vinstri inn á veg nr. 590 í átt að Staðarhólskirkju og Félagsheimilinu Tjarnarlundi. Eftir u.þ.b. 1,6 km er aftur beygt til vinstri, nú inn á veg nr. 594. Þessum vegi er fylgt um 4,5 km að upphafspunktinum. Þar skammt frá er fjárrétt þar sem upplagt er að leggja bílum.

Hlaupaleiðin liggur inn Hvammsdal upp með Hvammsdalsá að austan, framhjá eyðibýlunum Hvammsdalskoti og Hvammsdal. Úr Hvammsdal er svo farið upp Sprengibrekku upp á sjálfa heiðina sem er mjög stutt og fer hæst í um 400 m hæð eins og fyrr segir. Lengst af er fylgt jeppaslóðum og/eða línuvegi, en háspennulína liggur þarna yfir. Af heiðinni er fremur bratt niður í Sælingsdal. Þar er komið inn á bílveg við bæinn Sælingsdal og honum fylgt síðustu 5-6 kílómetrana niður að Laugum, þar sem hægt verður að komast frítt í sund í boði Dalabyggðar og Önnu Margrétar Tómasdóttur, staðarhaldara. Þar verður líka hægt að kaupa fjallvegahlaupabókina á sérstökum hlauparakjörum.

Sælingsdalsheiði var fjölfarin á fyrri árum og kemur m.a. við sögu í Laxdælu og jafnvel líka í Sturlungu. Sem hlaupaleið er heiðin þokkalega auðveld að sögn þeirra sem til þekkja. Á leiðinni þarf þó að vaða tvær ár og nokkra læki, en þessi vatnsföll eru tiltölulega vatnslítil í venjulegu árferði.

Sem fyrr segir hefst hlaupið á vegamótunum neðan við Kjarlaksvelli kl. 13 á sunnudag. Frést hefur að einhverjir ætli að byrja daginn á að hlaupa frá Laugum norður yfir heiðina og slást svo í för með hinum sem láta sér eina ferð nægja. Þessir einhverjir leggja væntanlega af stað frá Laugum upp úr kl. 10:30.

Vonast til að fá fylgd sem flestra yfir heiðina, en minni jafnframt á að þátttakendur verða þarna á eigin ábyrgð.