Enn liggur leiðin austur

Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2022 er farin að taka á sig mynd, vonum seinna. Enn sem komið er hafa aðeins fjögur hlaup verið ákveðin, öll á Austurlandi fyrstu dagana í júlí. Ef allt gengur vel munu fleiri bætast við þegar líður á sumarið.

Svona lítur fjallvegahlaupadagskráin 2022 út eins og staðan er í dag:

 1. Laugardagur 2. júlí 2021, kl. 10:00:
  Kækjuskörð – Frá Þverárbrú í Borgarfirði að Stakkahlíð í Loðmundarfirði – 13 km
 2. Laugardagur 2. júlí 2021, kl. 12:30:
   – Frá Klyppstað í Loðmundarfirði að Gilsárteig í Eiðaþinghá – 24 km
  Nákvæm tímasetning er háð því hvernig gengur í hlaupi nr. 1.
 3. Þriðjudagur 5. júlí 2021, kl. 10:00:
  Aðalbólsvegur – Frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal að Kleif í Fljótsdal – 21 km
 4. Miðvikudagur 6. júlí 2021, kl. 14:00:
  Dalaskarð – Frá Seyðisfirði að Dalatanga – 11 km

Upphaflega var gert ráð fyrir að fjallvegahlaupasumarið hæfist suðvestanlands í maí og að í júní yrði hlaupið á Norðurlandi. Ekkert varð þó úr þessu vegna þrálátra meiðsla. Meiðslin eru ekki úr sögunni, en ástæða þykir til að ætla að þau komi ekki í veg fyrir að áætlunin hér að framan geti orðið að veruleika.

Sumarið 2022 verður sjötta sumarið í öðrum áfanga fjallvegahlaupaverkefninsins, en allt byrjaði þetta upp úr fimmtugsafmælinu mínu árið 2007. Fyrsta áfanganum lauk á sextugsafmælinu 2017 og þá var gefin út bók um 50 fyrstu leiðirnar. Bók nr. 2 með næstu 50 leiðum er svo væntanleg á sjötugsafmælinu 2027.

Fimm fyrstu sumur annars áfanga (sumrin 2017-2021) skiluðu ekki nema 18 fjallvegum, en ef allt hefði verið með felldu ættu helst 25 fjallvegir að vera að baki (5 að meðaltali á ári). En enn er nógur tími og nóg til af óhlaupnum leiðum.

Vonandi slást sem flestir í för með mér á fjallvegunum fyrir austan í sumar, en að vanda eru allir velkomnir (á eigin ábyrgð). Breytingar á dagskránni verða kynntar á þessari síðu og á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins. Á næstu vikum verður líka settur inn einhver fróðleikur um leiðirnar fjórar.

Þess má geta að Dyrfjallahlaupið verður haldið fyrir austan laugardaginn 9. júlí. Þar verða hlaupnar sömu leiðir og í fyrra, um Breiðuvík og Brúnavík á Víknaslóðum. Dyrfjallahlaupið gæti því sem best orðið endirinn á frábærri fjallahlaupaferð um Austurland í næsta mánuði.

(Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin í Sandvíkurskarði í sumarblíðunni fyrir austan í byrjun júlí 2021).

Hugsað um tvo næstu daga

Viðfjarðarbærinn. (Í vinnuferð um Norðfjarðarflóa haustið 2019).

Eins og fram hefur komið er Austurlandið vettvangur fjallvegahlaupa tvo næstu daga. Á dagskrá eru fjögur hlaup, sem verða fjallvegahlaup nr. 65-68 ef allt fer að óskum. Erindi þessa pistils er að rýna aðeins nánar í þessa dagskrá.

Þriðjudagur 6. júlí
Dagskrá morgundagsins er einföld. Þá ætla ég að hlaupa Hjálpleysu frá Áreyjum í Reyðarfirði að Grófargerði á Völlum, samtals um 16 km. Leiðin er brött á köflum en auðrötuð, því að Hjálpleysa er bara dalur og fjöllin beggja vegna svo brött að maður getur engan veginn álpast yfir þau af gáleysi. Leiðarlýsingin fyrir þessa leið er nokkurn veginn tilbúin og þar er hægt að finna einhvern viðbótarfróðleik. Þar kemur þó ekkert fram um snjóalög, sem líklega eru töluverð þegar haft er í huga að leiðin fer hæst í 768 m yfir sjó og að í þröngum dölum er sólargangurinn stuttur. Auk þess eru víða miklar fannir í fjöllum fyrir austan þetta sumarið.

Miðvikudagur 7. júlí
Dagskrá miðvikudagsins er talsvert margslungnari en dagskrá morgundagsins og heildarvegalengdin meiri. Dagurinn hefst með annarri tilraun minni til að hlaupa Víkurheiði og Dys frá ósum Ytri-Teigarár í norðanverðum Reyðarfirði yfir í Viðfjörð. Þessi leið er um 13 km og auðrötuð, enda jeppafær vegur alla leið. Helsti farartálminn er Þverá, sem kemur úr fjöllunum þarna vesturaf og rennur til sjávar í Vöðlavík. Hún á það til að vera nokkuð vatnsmikil – og ég hef frétt að sú sé einmitt raunin núna, enda mikill snjór til fjalla og síðustu dagar hlýrri en tíðkast hefur í sumar. Þegar ég reyndi fyrst að efna til fjallvegahlaups þarna yfir, sem var þriðjudaginn 4. ágúst 2015, var áin ófær gangandi fólki. Reyndar komumst við aldrei svo langt, því að vatnsveðrið var þvílíkt að við snerum við eftir tæplega 4 km brölt áleiðis upp Víkurheiði.

Við upphaf endaslepps fjallvegahlaups yfir Víkurheiði og Dys í miklu vatnsveðri 4. ágúst 2015. (Mig minnir að Haukur Þórðarson hafi tekið myndina).

Þegar Víkurheiði og Dys eru að baki tekur við 4 km „ferjuleið“ frá Viðfjarðarbænum áleiðis út Barðsnes, nánar tiltekið út að Stuðlum þar sem annað fjallvegahlaup dagsins hefst. Þessi leið er greiðfarin eftir þokkalegum dráttarvélaslóða. Ég hljóp þarna einmitt í Barðsneshlaupinu 2015 og fannst það gaman.

Dagskrá þriðjudagsins hefst kl. 10 og ég ímynda mér að hlaupið yfir Víkurheiði og Dys taki í allra mesta lagi 3 klst. Með rólegu skokki út að Stuðlum ætti þá allt að vera klárt fyrir næsta fjallvegahlaup um kl. 13:30. Í svona áætlunum þarf þó alltaf að vera einhver sveigjanleiki.

Í öðru fjallvegahlaupi dagsins liggur leiðin fyrst upp frá Stuðlum yfir Sandvíkurskarð til Sandvíkur – og svo þvert yfir láglendið í Sandvík og yfir Gerpisskarð til Vöðlavíkur. Þessum tveimur skörðum var slegið saman í einn fjallveg til að ná lágmarksvegalengd fjallvegahlaupanna, 9 km. Reglur eru nú einu sinni reglur. Þetta tvískipta fjallvegahlaup er samtals á að giska 10 km og tekur sjálfsagt um 2 klst., enda fara skörðin hvort um sig í 500-700 m hæð.

Næsta verkefni verður að komast frá Vöðlum í Vöðlavík yfir að kirkjugarðinum sunnanvert í víkinni, á milli eyðibýlanna Þverár og Kirkjubóls. Þessi „ferjuleið“ er svipað löng og fyrri „ferjuleið“ dagsins og með svipuðum útreikningum og áður má áætla að hægt verði að leggja upp frá kirkjugarðinum í síðasta fjallvegahlaup dagsins kl. 16:00 eða þar um bil. Opinber tímasetning er reyndar kl. 15:30, en í svona ferðum getur margt raskað þeim áætlunum sem gerðar eru við fjarlæg skrifborð.

Þriðja og síðasta fjallvegahlaup miðvikudagsins átti upphaflega að vera yfir Sléttuskarð frá Vöðlavík til Reyðarfjarðar. Í gærkvöldi var hins vegar tekin sú ákvörðun að hlaupa frekar yfir Karlskálaskarð, en báðar leiðirnar hafa sama upphafs- og lokapunkt og eru svipað langar. Karlskálaskarð er bara einu fjalli austar og hefur þann kost að þar er stikuð gönguleið – og svo er nafnið ögn sértækara og tengdara sögu svæðisins.

Leiðin yfir Karlskálaskarð er varla meira en 8 km úr Vöðlavík að Karlskála. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að hún sé lengd með svolitlum endaspretti inn að Ytri-Teigará til að loka hringferð dagsins. Þannig gæti þetta teygst í 13 km. Mjög lauslega áætlaður komutími að Ytri-Teigará er kl. 19:00.

Eftirfarandi tafla sýnir mjög grófa áætlun um vegalengdir og tímasetningar miðvikudagsins:

Því er svo við að bæta að fyrirhuguðu fjallvegahlaupi yfir Króardalsskarð, sem var á dagskrá laugardaginn 3. júlí sl., var frestað í öryggisskyni vegna mikils fannfergis og vatnavaxta.

Hlaupið fyrir austan

Fjögur fjallvegahlaup eru á dagskrá í vikunni, öll á Austurlandi. Áætlun næstu daga er sem hér segir:

 1. Þriðjudagur 6. júlí 2021, kl. 10:00, Fjallvegahlaup nr. 65:
  Hjálpleysa – Frá Áreyjum í Reyðarfirði að Grófargerði á Völlum – 16 km
 2. Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 10:00, Fjallvegahlaup nr. 66:
  Víkurheiði og Dys – Frá Ytri-Teigará í Reyðarfirði yfir í Viðfjörð – 13 km
 3. Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 13:30, Fjallvegahlaup nr. 67:
  Sandvíkurskarð og Gerpisskarð – Frá Stuðlum í Viðfirði að Vöðlum í Vöðlavík – 10 km
  Nákvæm tímasetning er háð því hvernig gengur í hlaupi nr. 66.
 4. Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 15:30, Fjallvegahlaup nr. 68:
  Sléttuskarð – Frá Kirkjubóli í Vöðlavík að Ytri-Teigará í Reyðarfirði – u.þ.b. 15 km
  Nákvæm tímasetning er háð því hvernig gengur í hlaupi nr. 67.

Leiðarlýsingar eru ekki allar komnar inn, en verið er að vinna í því. Tenglum verður bætt hér inn þegar eitthvað er farið að gerast.

Vonandi slást sem flestir í för með mér í þessum hlaupum. Veðurspáin lofar góðu sbr. þessa mynd af vef Veðurstofu Íslands, en þar er sýnd staðaspá fyrir Austfirði á hádegi miðvikudaginn 7. júlí:

Kollabúðaheiði frestað til kl. 17

Fjallvegahlaupið/Hamingjuhlaupið yfir Kollabúðaheiði á morgun, laugardaginn 26. júní, hefst í Þorskafirði kl. 17:00 en ekki kl. 8:30 eins og áformað var. Þessi breyting er tilkomin vegna mikils hvassviðris sem spáð er fyrri hluta dagsins. Áætlaður komutími til Hólmavíkur breytist til samræmis við þetta. Hlaupinu lýkur þannig á Hólmavík kl. 22:30 annað kvöld.

Endurskoðuð tímaáætlun Hamingjuhlaupsins sést hér að neðan. Skýrari mynd sést ef smellt er á þessa:

Kollabúðaheiði bætist á listann

Í dag var endanlega valin leið fyrir Hamingjuhlaupið 2021, en Hamingjuhlaupið er árlegur viðburður í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík. Að þessu sinni varð leiðin yfir Kollabúðaheiði fyrir valinu og þar sem sú ágæta heiði uppfyllir öll skilyrði verður þetta jafnframt fjallvegahlaup nr. 64, þ.e.a.s. fyrstu u.þ.b. 20,4 kílómetrarnir. Eftir það tekur við u.þ.b. 17,1 km malbikshlaup til Hólmavíkur.

Fjallvegahlaupið (og Hamingjuhlaupið) yfir Kollabúðaheiði hefst innst í Þorskafirði laugardaginn 26. júní 2021 kl. 8:30. Eins og jafnan í Hamingjuhlaupum verður fylgt fyrirfram ákveðinni tímaáætlun, sem miðast við að hlaupinu ljúki á Hólmavík þegar Hamingjudagar standa sem hæst, stundvíslega kl. 14:00 sama dag. Í reynd svipar tímaáætluninni mjög til strætisvagnaáætlunar, þar sem hlaupararnir verða staddir á fyrirfram ákveðnum stöðum á fyrirfram ákveðnum tímum. Þeir sem ekki treysta sér til að hlaupa alla leið geta þannig komið inn (og/eða farið út) þar sem þeim hentar.

Með þessari breytingu lítur fjallvegahlaupadagskrá sumarsins svona út:

 1. Laugardagur 26. júní 2021, kl. 8:30
  Kollabúðaheiði – Úr botni Þorskafjarðar yfir í Staðardal í Steingrímsfirði – 20 km
 2. Laugardagur 3. júlí 2021, kl. 13:00:
  Króardalsskarð – Úr botni Seyðisfjarðar í botn Mjóafjarðar – 11 km
 3. Þriðjudagur 6. júlí 2021, kl. 10:00:
  Hjálpleysa – Frá Áreyjum í Reyðarfirði að Grófargerði á Völlum – 16 km
 4. Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 10:00:
  Víkurheiði og Dys – Frá Ytri-Teigará í Reyðarfirði yfir í Viðfjörð – 13 km
  Þessi leið var á dagskrá fyrra fjallvegahlaupaverkefnis 4. ágúst 2015. Lögðum af stað sex saman, en urðum frá að hverfa vegna gríðarlegs vatnsveðurs sem gekk yfir Austurland um þær mundir. Nú mun þetta örugglega ganga betur.
 5. Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 13:30:
  Sandvíkurskarð og Gerpisskarð – Frá Stuðlum í Viðfirði að Vöðlum í Vöðlavík – 10 km
  Nákvæm tímasetning er háð því hvernig gengur í hlaupi nr. 3.
 6. Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 15:30:
  Sléttuskarð – Frá Kirkjubóli í Vöðlavík að Ytri-Teigará í Reyðarfirði – u.þ.b. 15 km
  Nákvæm tímasetning er háð því hvernig gengur í hlaupi nr. 4.

Nánari upplýsingar um fjallvega- og Hamingjuhlaupið yfir Kollabúðaheiði verða settar inn á næstu dögum.

Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins lítur dagsins ljós

Hér birtast fyrstu drög að fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2021. Eins og hún lítur út núna eru fimm hlaup á blaði, öll á Austurlandi fyrstu dagana í júlí. Trúlega á hlaupunum eftir að fjölga eitthvað, en sumarið mitt verður óvenju viðburðaríkt á öðrum sviðum og þá getur skipulagið riðlast.

Svona lítur fjallvegahlaupadagskráin 2021 út eins og staðan er í dag:

 1. Laugardagur 3. júlí 2021, kl. 13:00:
  Króardalsskarð – Úr botni Seyðisfjarðar í botn Mjóafjarðar – 11 km
 2. Þriðjudagur 6. júlí 2021, kl. 10:00:
  Hjálpleysa – Frá Áreyjum í Reyðarfirði að Grófargerði á Völlum – 16 km
 3. Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 10:00:
  Víkurheiði og Dys – Frá Ytri-Teigará í Reyðarfirði yfir í Viðfjörð – 13 km
  Þessi leið var á dagskrá fyrra fjallvegahlaupaverkefnis 4. ágúst 2015. Lögðum af stað sex saman, en urðum frá að hverfa vegna gríðarlegs vatnsveðurs sem gekk yfir Austurland um þær mundir. Nú mun þetta örugglega ganga betur.
 4. Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 13:30:
  Sandvíkurskarð og Gerpisskarð – Frá Stuðlum í Viðfirði að Vöðlum í Vöðlavík – 10 km
  Nákvæm tímasetning er háð því hvernig gengur í hlaupi nr. 3.
 5. Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 15:30:
  Sléttuskarð – Frá Kirkjubóli í Vöðlavík að Ytri-Teigará í Reyðarfirði – u.þ.b. 15 km
  Nákvæm tímasetning er háð því hvernig gengur í hlaupi nr. 4.

Sumarið 2021 verður fimmta sumarið í öðrum áfanga fjallvegahlaupaverkefninsins, en allt byrjaði þetta upp úr fimmtugsafmælinu mínu árið 2007. Fyrsta áfanganum lauk á sextugsafmælinu 2017 og þá var gefin út bók um 50 fyrstu leiðirnar. Bók nr. 2 með næstu 50 leiðum er svo væntanleg á sjötugsafmælinu 2027.

Fjögur fyrstu sumur annars áfanga (sumrin 2017-2020) skiluðu ekki nema þrettán fjallvegum, en ef allt hefði verið með felldu ættu helst um 20 fjallvegir að vera að baki (5 að meðaltali á ári). En enn er nógur tími og nóg til af óhlaupnum leiðum. Það ætti sem sagt ekki að vera neinn vandi að hlaupa 37 fjallvegi næstu sex sumur.

Vonandi slást sem flestir í för með mér á fjallvegunum fyrir austan í sumar, en að vanda eru allir velkomnir (á eigin ábyrgð). Breytingar á dagskránni verða kynntar á þessari síðu og á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins. Á næstu vikum verður líka settur inn einhver fróðleikur um allar þessar leiðir, eftir því sem tími vinnst til skrifta. Og til að gera enn betra sumarfrí úr þessari fjallvegaferð á Austurland er upplagt að skella sér í Dyrfjallahlaupið sem verður haldið laugardaginn 10. júlí. Þar verður hlaupin ný leið, sem reyndar fylgir að hluta til leiðinni yfir Brúnavíkurskarð og Súluskarð, sem við feðginin hlupum í þoku og rigningu sumarið 2019. Myndin sem fylgir þessari færslu var einitt tekin í þeirri ferð við neyðarskýli Landsbjargar í Brúnavík.

„Ófeigsfjarðarheiði aflýst“

Skjáskot úr veðurfréttum RÚV 23/7 2020. (Smellið fyrir stærri mynd).

Ákveðið hefur verið að aflýsa fjallvegahlaupi yfir Ófeigsfjarðarheiði, sem ætlunin var að fram færi laugardaginn 25. júlí. Þetta er gert vegna slæmrar veðurspár, en í versta falli má búast við norðaustan 15 m/sek, talsverðri rigningu og 1°C um miðjan dag á laugardag. Við þessar aðstæður þarf ekki meira en slæma tognun eða önnur álíka skakkaföll til að hlaupurum sé hætta búin.

Þótt hlaupið falli niður fer Ófeigsfjarðarheiðin ekki neitt, þó að fyrirsögn þessar færslu gefi tilefni til að ætla annað. (Fyrirsagnir eiga að vera stuttar). Því er enn stefnt að fjallvegahlaupi yfir heiðina. Það verður þó ekki á þessu sumri úr því sem komið er. Ný tímasetning verður kynnt síðar.

Breytt Vestfjarðadagskrá

Á Rauðasandi 15. júlí 2010

Nú líður að stóru fjallvegahlaupatörninni á Vestfjörðum, þar sem ætlunin er að leggja nokkra fjallvegi að baki 11.-14. júlí nk. Sú breyting hefur verið gerð á dagskrá þessara daga að í stað þriggja fjallvegahlaupa laugardaginn 11. júlí verða tvö látin nægja. Fyrst verður hlaupið yfir Sandsheiði kl. 10 um morguninn og síðan yfir Hnjótsheiði kl. 15. Hnjótsheiðin kemur þar með í staðinn fyrir Kerlingaháls og Dalverpi sem upphaflega voru á dagskránni. Þær leiðir verða að bíða betri tíma.

Með þessari breytingu lítur Vestfjarðaáætlunin svona út:

 1. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 10:00:
  Sandsheiði – Frá Haukabergsrétt á Barðaströnd að Móbergi á Rauðasandi – 15 km
 2. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 15:00:
  Hnjótsheiði – Frá Lambavatni á Rauðasandi að Hnjóti í Örlygshöfn – 12 km
 3. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 11:00:
  Tunguheiði – Frá Örlygshöfn til Kollsvíkur – 11 km
 4. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 15:30:
  Hænuvíkurskarð – Frá Hænuvík til Breiðuvíkur – 11 km
 5. Þriðjudagur 14. júlí 2020, kl. 13:00:
  Tunguheiði – Frá Tálknafirði til Bíldudals – 13 km

Vonandi slást sem flestir í för með mér fyrir vestan.

Vatnadalur á laugardag

Laugardaginn 27. júní verður fjórða fjallvegahlaup sumarsins hlaupið um Vatnadal úr Gilsfirði norður í Steingrímsfjörð. Hlaupið er hluti af Hamingjuhlaupinu sem haldið er árlega í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík. Upphaflega var ætlunin að hlaupa yfir Kollabúðaheiði af þessu tilefni þennan dag, en þeirri áætlun var breytt þegar í ljós kom að rallýkeppni mun fara fram á sömu slóðum á sama tíma.

Hlaupið á laugardaginn hefst á veginum í vestanverðum Gilsfirði, nánar tiltekið við Mávadalsá, u.þ.b. 9 km fyrir innan Króksfjarðarnes. Frá Hólmavík eru um 35 km að Króksfjarðarnesi, þannig að vegalengdin frá Hólmavík að upphafsstaðnum er um 44 km eftir akveginum. Lagt verður af stað upp með Mávadalsá kl. 10:30 og fylgt sérstakri tímaáætlun eins og jafnan er gert í Hamingjuhlaupum. Tilgangurinn með því fyrirkomulagi er að fólk sem treystir sér ekki til að hlaupa alla leiðina eigi auðvelt með að koma inn í hlaupið á tilteknum stað á tilteknum tíma. Að þessu leyti svipar áætluninni til strætisvagnaáætlunar. Áætlunina má sjá á myndinni hér fyrir neðan, en sé smellt á hana birtist stærri og skýrari mynd.

Tímaáætlun Hamingjuhlaupsins 2020. Fyrstu sex áfangarnir eru jafnframt fjallvegahlaup um Vatnadal.

Fjallvegahlaupinu um Vatnadal lýkur á vegamótum á svokölluðum Innstrandavegi við brúna yfir Miðdalsá í Steingrímsfirði, u.þ.b. 650 m fyrir innan félagsheimilið Sævang þar sem Sauðfjársetrið er nú til húsa. Á Svævangi hófst einmitt hlaupaferillinn minn formlega 19. ágúst 1972. Vegalengdin í fjallvegahlaupinu er áætluð 24,6 km, en þegar því er lokið liggur fyrir að skokka síðustu 11,6 kílómetrana eftir malbikuðum vegi til Hólmavíkur, þar sem Hamingjuhlaupinu lýkur með móttöku og veitingum kl. 16:00. Reyndar verða veitingarnar öðruvísi en í fyrri Hamingjuhlaupum, þar sem hnallþóruhlaðborð í líkingu við það sem jafnan hefur beðið hlauparanna í endamarkinu þykir ekki samræmast kröfum um smitvarnir.

Vatnadalur var einnig hlaupinn í Hamingjuhlaupinu 2014, en þá var lagt af stað frá Kleifum í Gilsfirði og byrjað á að hlaupa áleiðis upp á Steinadalsheiði. Þaðan var svo farið yfir á Vatnadal og honum fylgt til byggða. Þessi leið er hins vegar ekki sú upprunalegasta og fékk því ekki náð hjá yfirstjórn fjallvegahlaupaverkefnisins. Leiðin upp með Mávadalsá er hins vegar ein þriggja leiða sem oftast var farin á árum áður á meðan Vatnadalur var enn mikilvæg samgönguleið á milli byggða.

Hlaupið yfir Vatnadal verður 58. hlaupið í fjallvegahlaupaverkefninu.

Myndin efst í þessari færslu var tekin á Vatnadal í hlaupinu 2014. Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa.

Bátsferð frá Siglunesi

Fjallvegahlaup morgundagsins um Kálfsskarð frá Siglufirði út á Siglunes er á áætlun. Lagt verður af stað frá Ráeyri (austanvert við fjarðarbotninn) kl. 10:00. Sú breyting hefur orðið á upphaflegri áætlun að boðið verður upp á bátsferð frá Siglunesi til baka til Siglufjarðar að hlaupi loknu. Gert er ráð fyrir að hlaupinu verði lokið í síðasta lagi um kl. 14:00 og bátsferðin til baka tekur í mesta lagi 20 mínútur. Áætlaður komutími til Siglufjarðar verður því um kl. 14:30 í síðasta lagi.

Kostnaður við bátsferðina greiðist af höfuðpaur fjallvegahlaupanna, en frjáls framlög annarra þátttakenda eru vel þegin, allt að 10 þús. kr./mann.

Annars er það helst að frétta af fjallvegahlaupaverkefninu að ferðin um Gönguskarð sl. laugardag gekk vel, en leiðin var seinfarin í erfiðu undirlagi. Og kl. 15 í dag verður lagt upp á Siglufjarðarskarð frá Hraunum í Fljótum.

(Uppfært 15. júní kl. 20:45. Brottför í hlaupið um Kálfsskarð verður frá Ráeyri 16. júní kl. 10:00).