Staðsetning: Frá Klyppstað í Loðmundarfirði að Gilsárteig í Eiðaþinghá
Áfangar og hnattstaða: 
Upphaf:      0,00 km, N65°21,84' – V13°54,18'
Bárðarstaðir:   4,40 km, N65°20,62' – V13°57,68'
Ármót í Klifdal: 8,50 km, N65°20,68' – V14°02,45'
Tóarvatn:    12,50 km, N65°21,50' – V14°06,20'
Þverá:      18,30 km, N65°22,69' – V14°12,67'
Lok:       24,00 km, N65°22,35' - V14°19,28'
Hæð y. sjó: U.þ.b. 20 m við upphaf, um 680 m hæst, um 70 m við lok
Samanlögð hækkun: Verður skráð að hlaupi loknu 
Vegalengd: Um 24,00 km
Tími: Verður skráður að hlaupi loknu
Meðalhraði: Verður skráður að hlaupi loknu
Dags.: Kemur í ljós (var á áætlun 2. júlí 2022 en var frestað vegna þoku)
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina:

Fjallvegahlaupið um Tó hefst við Klyppstað í Loðmundarfirði. Þara stendur nú skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, með svefnpokaplássi fyrir 38 manns. Áður var þar prestssetur, í það minnsta frá því á 17. öld. Reyndar er elsta heimild um kirkju á Klyppstað frá árinu 1367, þegar Oddur biskup Þorsteinsson vígði þar kirkju sem helguð var Maríu mey. 

Klyppstaður þótti heldur rýrt brauð og þangað virðast helst hafa ráðist prestar sem ekki fengu neitt skárra eða höfðu hórdómsbrot á samviskunni. Árið 1888 var Klyppstaðarprestakall lagt til Dvergasteins og annexían Húsavík til Desjamýrar. En þó að liðið sé nokkuð á aðra öld síðan prestur sat á Klyppstað, stendur þar enn járnklædd timburkirkja á hlöðnum grunni, byggð árið 1895.

Klyppstaður fór í eyði 1961 og 12 árum síðar lagðist byggð í Loðmundarfirði alfarið af þegar Kristinn Halldórsson, bóndi á Sævarenda, flutti burt. Áður voru að jafnaði 10 bæir í byggð í firðinum, auk fáeinna afbýla. Við upphaf 20. aldar voru íbúar í Loðmundarfirði 87 talsins. Árið 1950 var íbúafjöldinn kominn niður í 40 og 1967 var Kristinn á Sævarenda orðinn eini íbúinn.

Loðmundarfjörður þykir afar snjóþungur, en gróskumikill á sumrum. Í sóknarlýsingu Klyppstaðapresta er sveitin sögð „nafnkennd hér um Austfjörðu fyrir þoku og óþurrka á sumrum …, svo heilum vikum, já mánuðum saman, birtir ei upp þokum og stórrigningum, svo heyin skemmast tíðum … og … engin sveit í Austfjörðum er undirköstuð meira vetrarríki en þessi“, (HG, bls. 7).

Frá Klyppstað er hlaupið til suðvesturs á norðurbökkum Fjarðarár. Fyrstu 2,5 km eða þar um bil er fylgt jeppaslóða, sem endar við eyðibýlið Úlfsstaði. Áfram er þó leiðin greinileg. Eftir um 4,4 km hlaup er komið að Bárðarstöðum og þar má sjá rústir Árnastaða sunnan við ána. Enn er svo hlaupið inn með ánni og inn Bárðarstaðadal með Goðahnjúk (810 m) og síðan Herfell (1.089 m) á hægri hönd. Eftir um 8,5 km er komið að ármótum innst í Bárðarstaðadal. Þarna endar dalurinn í klettahvolfi og nefnist þar Klifdalur. Klettarnir fyrir dalbotninum mynda tvo stalla eða klif, Neðraklif og Efraklif. Vegurinn upp á klifin liggur um erfiða sneiðinga og klettaskorur – og þarna þurfti að taka niður burð af hestum þegar farið var með trúss upp úr dalnum. Af gönguleiðakorti má ráða að best sé að taka sveig til hægri til að komast upp á neðra klifið, en efra klifið virðist tekið beint á brattann. Sagt er að auðveldara sé að komast upp á klifin ef farið er inn dalinn sunnanverðan frá Árnastöðum.

Þegar komið er upp á Efraklif tekur fjallvegurinn Tó við, að sögn „grýttur og heldur ógreiðfær fram með gömlum vörðum“, (HG, bls. 16). Leiðin liggur utan í Vatnshæðum (847 m) við norðanvert Tóarvatn. Þar er hæsti punktur leiðarinnar, u.þ.b. 680 m.y.s. Frá Tóarvatni liggur leiðin nokkuð beint í vestnorðvestur niður Tóardal sunnanvert við Núpsá. Hlaupið er yfir Þverá við Neðri Múla og skömmu síðar er sveigt lítið eitt til vinstri og stefnan tekin í vestsuðvestur, yfir Unalæk og beina leið að bænum Gilsárteig í Eiðaþinghá. Þar lýkur hlaupinu.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu.

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu.

Helstu heimildir: