Gerpisskarð

Staðsetning: Frá neyðarskýlinu í Sandvík að Karlstöðum í Vöðlavík
Áfangar og hnattstaða: 
Upphaf:        0,00 km, N65°05,35' - V13°33,27'
Sandvíkurá:    1,14 km, N65°04,98' - V13°32,51'
Sandvíkurvatn: 3,93 km, N65°03,75' - V13°33,30'
Gerpisskarð:   5,98 km, N65°03,10' - V13°33,57'
Vöðlar:       10,37 km, N65°02,10' - V13°36,99'
Lok:          13,27 km, N65°01,80' - V13°40,45' -
Hæð y. sjó: 43 m við upphaf, 670 m hæst, 36 m við lok
Heildarhækkun: 
Vegalengd: 13,27 km
Tími: 3:16:30 klst
Meðalhraði: 4,05 km/klst (14:48 mín/km)
Dags.: Miðvikudag 7. júlí 2021, kl. 15:54 
Hlaupafélagar: Arnór Freyr Ingunnarson, Birkir Þór Stefánsson, Salome Hallfreðsdóttir og Sóley Birna Hjördísardóttir

Fróðleikur um leiðina:

Sandvík var lengi austasta mannabyggð á Íslandi og þar var búið á fimm bæjum fram á 20. öld. Sá síðasti þeirra fór í eyði 1946. Eina uppistandandi byggingin í víkinni er neyðarskýli – og þar liggur beint við að hefja fjallvegahlaupið um Gerpisskarð yfir í Vöðlavík. Frá neyðarskýlinu er hlaupið um slétta mela til suðausturs og eftir u.þ.b. 1 km er komið að Sandvíkurá. Hún er oftast vatnslítil og jafnvel hægt að stikla þar yfir þurrum fótum. Áfram er svo haldið til suðurs þvert yfir láglendið í Sandvík og framhjá fornbýlunum Fífustöðum og Þorljótsstöðum. Eftir um 1 km í viðbót fer landið hækkandi á ný. Þegar komið er upp í tæplega 300 m hæð væri hægt að beygja til vinstri inn á gönguleið út á Gerpi, sem er austasti oddi Íslands. Hér er hins vegar ekki gert ráð fyrir þeim útúrdúr, heldur hlaupið áfram suður á bóginn með Sandvíkurvatn á vinstri hönd. Þegar vatnið er að baki liggur leiðin síðan upp í Gerpisskarð í u.þ.b. 670 m. Þar er ægifagurt útsýni í björtu veðri, enda fátt sem skyggir á. Úr Gerpisskarði er hlaupið um bratt gil niður í Gerpisdal og á þeim kafla þarf að fara að öllu með gát. Úr Gerpisdal sést vel út í Seley og Gerpi. Úr Gerpisdal er síðan fylgt götum inn með hlíðinni og fyrir mynni Tregadals, beinustu leið til bæjar að Vöðlum. Endasprettur er svo hlaupinn eftir greiðfærum vegi að skála Ferðafélags Fjarðamanna á Karlstöðum, innarlega í Vöðlavík. Þar endar hlaupið.

(Þessi leiðarlýsing er ekkert nema uppkast).

Ferðasagan:  

Sagan er í smíðum.

Lokaorð:

Leiðin um Gerpisskarð er tilkomumikil og ekki fyrir lofthrædda. Víða er hlaupaleiðin snarbrött, en torfærast er þó niður gilið Vöðlavíkurmegin. Í reynd er þetta miklu frekar gönguleið en hlaupaleið. Samt er ekki annað hægt en að mæla með þessari leið fyrir vel útbúna fjallahlaupara, en líklega þó bara yfir sumarmánuðina. Landslagið á þessum slóðum hreyfir við manni á allt annan hátt en vel lögð gangstétt.

Helstu heimildir:

  • Ferðafélag Fjarðamanna Austfjörðum (2002): Gönguleiðir á Fjarðaslóðum – austast á Austfjörðum. Gönguleiðir á Austurlandi II. Ferðafélag Fjarðamanna Austfjörðum.
  • Hjörleifur Guttormsson (2005): Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar. Árbók Ferðafélags Íslands 2005. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson, Björn Þorsteinsson og Guðjón Ármann Eyjólfsson (1984): Landið þitt Ísland, 5. bindi, U-Ö. Bókaútgáfann Örn og Örlygur hf.