Fjallsselsvegur

Staðsetning: Frá Skeggjastöðum í Jökuldal að Fjallsseli í Fellum
Áfangar og hnattstaða: 
Upphaf:     0,00 km (157 m), N65°21,46' – V14°49,66'
Varða á brún:  2,08 km (471 m), N65°20,63' - V14°48,18'
Miðheiðarháls:  7,76 km (666 m), N65°18,50' - V14°43,59'
Litla-Sandvatn: 8,66 km (651 m), N65°18,40' - V14°42,57'
Rangá:     11,25 km (581 m), N65°18,64' - V14°39,94'
Lok:      18,73 km (187 m), N65°17,76' - V14°34,14'
Hæð y. sjó: 157 m við upphaf, 666 m hæst, 187 m við lok
Samanlögð hækkun: 593 m 
Vegalengd: 18,73 km
Tími: 3:18:12 klst
Meðalhraði: 5,67 km/klst (10:35 mín/km))
Dags.: Laugard. 2. júlí 2022,kl. 14:40
Hlaupafélagar: Birkir Þór Stefánsson

Fróðleikur um leiðina:

Fjallsselsvegur var talsvert farinn fyrr á árum og var um tíma leið landpósta yfir Fljótsdalsheiði á milli Jökuldals og Fella. Leiðin hefst við afleggjarann niður að Skeggjastöðum og þaðan er stefna tekin því sem næst beint á brattann með stefnu í suðaustur. Leiðin upp er ekki greinileg og undirlagið erfitt, þar sem skiptast á þúfnakargar og mýrarsund. Á stöku stað má greina vörðubrot á holtum en þau duga skammt til rötunar. Eftir um 3,8 km hlaup er stiklað yfir Teigará utanvert í Skeggjastaðaheiði og enn haldið svipaðri stefnu. Þegar þarna er komið sögu sést Miðheiðarháls framundan og á norðurenda hálsins (lengst til vinstri) sjást tvær greinilegar vörður. Þangað er stefnt. Síðustu metrarnir upp á hálsinn eru býsna brattir en þegar upp er komið tekur greiðfærara land við, þó að sjálfur hálsinn sé grýttur og gróðurlítill.

Hæsti punktur leiðarinnar (666 m) er á Miðheiðarhálsi. Norður af hálsinum er Litla-Sandvatn. Leiðin liggur þó ekki niður að vatninu, heldur er haldið áfram eftir hálsbrúninni, nokkrum hundruð metrum sunnar. Á móts við Sandvatn er komið inn á greinilegan jeppaslóða sem liggur lengra suðvestur á Fljótsdalsheiði. Honum er auðvelt að fylgja til austurs, alla leið niður í Fell.

Af hálsbrúninni liggur slóðinn niður í Tröllagjótu og síðan meðfram Sandvatni að norðanverðu, þ.e. með vatnið á hægri hönd. Sandvatn er býsna stórt, hátt í 2 km breitt og um 3 km langt. Norður úr því rennur Rangá. Vaðið er yfir hana á breiðu vaði rétt neðan við vatnið. Áin er vatnsmikil en ekki djúp á vaðinu. Hins vegar geta steinar í botni verið hálir. Nokkur hundruð metrum handan við ána er veiðikofi og þaðan er greiðfær jeppaslóði til byggða, að vísu sums staðar grýttur og býsna brattur í sneiðingum í hlíðinni. Síðasta spölinn liggur leiðin um græn tún og gróskumikla skógrækt, um hlaðið á eyðibýlinu Fjallsseli og alla leið að bæjarhliðinu neðan við túnið.

Bærinn í Fjallsseli stendur efst allra bæja í Fellum, þ.e. í u.þ.b. 187 m hæð. Vitað er að búið var í Fjallsseli árið 1566, en búseta þar var ekki alveg samfelld í gegnum aldirnar. Jörðin var eign Áskirkju í Fellum til ársins 1910, en þá keypti Einar Eiríksson frá Bót jörðina. Húsið sem þar stendur enn lét Einar reisa árið 1916. Í Fjallsseli fæddist Ingunn Einarsdóttir, sem síðan bjó á Aðalbóli í Hrafnkelsdal mestan hluta ævinnar, (sjá frásögn af fjallvegahlaupi um Aðalbólsveg). Fjallssel fór í eyði árið 1988 eftir að riða kom upp á bænum.

Ferðasagan:  

Ákvörðun um að hlaupa Fjallsselsveg var tekin með skömmum fyrirvara, nánar tiltekið samdægurs, eftir að hætta þurfti við fjallvegahlaup um Kækjuskörð og Tó vegna þoku. Reyndar var þessi leið ekki uppgötvuð þennan dag. Hún hefur auðvitað verið lengi til staðar – og var m.a. skráð á hugmyndalista fjallvegahlaupaverkefnisins.

Birkir, bóndi í Tröllatungu á Ströndum, var eini hlaupafélaginn minn þennan daginn, eins og stundum áður. Betri hlaupafélagar eru vandfundnir. Birgitta mín skutlaði okkur frá Egilsstöðum inn að Smiðshöfða í Jökuldal – og við notuðum síðan veginn þaðan að Skeggjastöðum sem upphitun fyrir hlaupið. Þegar þangað kom beið okkar það vandasama verkefni að finna hvar væri best að leggja á fjallið. Samkvæmt gönguleiðakorti liggur leiðin beint upp frá bænum á Skeggjastöðum, en eftir á að hyggja gæti verið hyggilegra að leggja af stað ögn utar og fara þar upp með Garðá. Hér verður ekkert fullyrt um það, en við Birkir tókum alla vega þann kost að fylgja leiðsögn gönguleiðakortsins í öllu aðalatriðum.

Við félagarnir tilbúnir í hlaup dagsins við Refshöfða í Jökuldal.
Horft til baka niður að útihúsunum á Skeggjastöðum. Hinum megin Jöklu er bærinn Hvanná.

Hvort sem leiðin sem við Birkir völdum upp frá Skeggjastöðum var sú besta eður ei, var hún á köflum svo ógreiðfær að hún minnti mig helst á Helkunduheiðina sem ég hljóp fyrir allmörgum árum. Þarna var nefnilega svo mikið kargaþýfi að hlaup voru ómöguleg – og ganga ekkert sérstaklega möguleg heldur. Á svona stöðum þarf að nota þolinmæðina sem er reyndar skyldubúnaður í fjallvegahlaupum.

Sagan er enn í smíðum. ……

Lokaorð:

Fjallsselsvegur er eiginlega enginn vegur, fyrr en komið er upp á háheiðina í 660 m hæð. Þaðan liggur slóði til byggða í Fellum. Þegar á heildina er litið fer þessi fjallvegur ekki hátt á vinsældalistann. Til þess er undirlagið Jökuldalsmegin of erfitt. En það er alltaf gaman að hlaupa í góðum félagsskap.

Helstu heimildir:

 • Ferðafélag Fljótsdalshéraðs (2004): Útivist á Fljótsdalshéraði. Gönguleiðir á Austurlandi VI. Gönguleiðakort. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs.
 • Hjörleifur Guttormsson (2008): Úthérað ásamt Borgarfirði eystra, Víkum og Loðmundarfirði. Árbók Ferðafélags Íslands. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.

Þakkir:

 • Birgitta Stefánsdóttir fyrir flutninga