Staðsetning: Frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal að Kleif í Fljótsdal – 20 km Áfangar og hnattstaða: Upphaf: 0,00 km, N65°01,40' – V15°33,32' Austurháls: 2,10 km, N65°00,94' – V15°32,05' Hölkná: 3,36 km, N65°00,88' - V15°30,70' Varða við hreppamörk: 12,60 km, N64°58,96' - V15°21,50' Kárahnjúkavegur: 17,56 km, N64°58,00' – V15°16,59' Varða við Kleifará: 20,32 km, N64°57,15' – V15°14,13' Lok: 23,50 km, N64°56,87' - V15°11,23' Hæð y. sjó: U.þ.b. 413 m við upphaf, 700 m hæst, 129 m við lok Samanlögð hækkun: 467 m Vegalengd: 23,50 km Tími: 4:58:28 klst Meðalhraði: 4,72 km/klst (12:42 mín/km) Dags.: Þriðjud. 5. júlí 2022, kl. 10:48 Hlaupafélagar: Alex Willumsen, Arna Friðriksdóttir, Hreiðar Ingi Júlíusson og Hringur Baldvinsson (alla leið) og Dagný Sigurbjörg Jónsdóttir og Ragnheiður Aðalsteinsdóttir (síðari hlutann)
Fróðleikur um leiðina:
Aðalbólsvegur er gömul reiðgata frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal, yfir Austurháls og austur um Fljótsdalsheiði að Kleif í Norðurdal í Fljótsdal. Leiðin er vörðuð frá fornu fari og ætti því að vera auðrötuð í góðu veðri. Vörðurnar eru komnar til ára sinna og eru sérstakar að því leyti að sumar þeirra eru hlaðnar úr torfi.
Hrafnkelsdalur er enginn venjulegur dalur, annars vegar vegna þess að hann er einn af þeim byggðu dölum á Íslandi sem liggja lengst frá sjó og hins vegar vegna þess hversu ríkur dalurinn er af sögu. Dalurinn gengur nánast í hásuður inn af Jökuldal og er um 18 km að lengd. Frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal er u.þ.b. 100 km akstursleið til sjávar, þar af um 45 km niður á Hringveginn þar sem hann kemur niður í Jökuldal.
Hrafnkelsdalur liggur að meðaltali í u.þ.b. 400 m hæð yfir sjó, en er engu að síður allvel gróinn með birki, fjalldrapa og víði. Jarðhiti er á nokkrum stöðum og líklega hefur dalurinn þótt býsna vænlegur til búsetu á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Þetta sést m.a. á því að fundist hafa fornar minjar um 16 býli í dalnum.
Hrafnkelsdalur er vettvangur Hrafnkels sögu Freysgoða, sem oft er nefnd sem ein af perlum íslenskra fornsagna. Lengi hefur verið deilt um sannleiksgildi sögunnar, þ.e. hvort líta beri á hana sem sagnfræði eða skáldskap. Margt bendir til að hið síðara eigi frekar við, en sagan ber þó alla vega vott um mikla staðþekkingu höfundar. Samkvæmt sögunni ólst Hrafnkell upp úti í Hróarstungu. Hann „lagði það í vanda sinn að ríða yfir heiðar á sumarið“, en þeirri iðju má e.t.v. líkja við fjallvegahlaup nútímans. Í einum af þessum reiðtúrum lá leiðin „upp eftir Fljótsdalsheiði“ sem „er yfirferðarill, grýtt mjög og blaut“. Þá sá hann eyðidal sem gekk inn úr Jökuldal og sýndist „byggilegri en aðrir dalir, þeir sem hann hafði áður séð“. Upp úr þessu gerði hann sér bæ á Aðalbóli og eftir það byggði hann „allan dalinn og gaf mönnum land“. „Hann var linur og blíður við sína menn, en stríður og stirðlyndur við Jökulsdalsmenn, og fengu þeir af honum öngvan jafnað“. Hann var með öðrum orðum „ójafnaðarmaður mikill, en menntur vel“, eins og segir í sögunni. Um 200-300 m norðaustan við bæinn á Aðabóli er Hrafnkelshaugur, þar sem Hrafnkell var heygður ásamt helstu nauðsynjum, hafi hann á annað borð verið til.
Byggðin í Hrafnkelsdal var blómlegust á 10. öld, en á 15. öld var dalurinn allur kominn í eyði. Talið er líklegt að dalurinn hafi upphaflega byggst af hópi landnema með innbyrðis tengsl, en í reynd hafi auðlindir dalsins ekki borið þennan fjölda til langs tíma, m.a. vegna skorts á eldiviði. Þar við bættust svo áhrif náttúrunnar, sem var óvægin á köflum. Líklega lagðist byggðin af eftir öskufall frá miklu eldgosi á Landmannaafrétti 1477.
Hrafnkelsdalur mun hafa byggst á nýjan leik á árunum 1770-1775, einkum „fyrir tilverknað Valþjófsstaðapresta, … sem styrktu frumbýlinga … m.a. með viðum til byggingar bæjarhúsa“, (HG, bls. 289). Valþjófsstaður hafði þá eignarhald á dalnum og uppbyggingin hefur líklega verið liður í að verja það eignarhald. Á þessum tíma hófst búskapur á Vaðbrekku og á Aðalbóli, og hefur sá búskapur staðið æ síðan að frátöldu hléi sem varð í 2-3 ár eftir Öskjugosið 1875. Þessir tveir bæir eru einu byggðu bólin í dalnum.
Á Vaðbrekku hefur sama fjölskyldan búið í rétta öld, nánar tiltekið frá árinu 1922 þegar Aðalsteinn Jónsson (1895-1983) og Ingibjörg Jónsdóttir (1901-1987) settust þar að. Þau eignuðust 10 börn sem létu víða til sín taka, þ.á m. Stefán búfjárerfðafræðing (1928-2009) og Jón Hnefil guðfræðing (1927-2010), sem báðir komu við sögu í skólagöngu minni. Jón Hnefill kenndi mér sögu í menntaskóla og Stefán var m.a. leiðbeinandinn minn og samstarfsmaður síðustu árin mín í Háskóla Íslands. Einn sonurinn, Aðalsteinn (f. 1932) sem nú er nýlátinn, tók við búinu á Vaðbrekku 1958. Síðar tók Sigurður sonur hans við búi og nú býr fjórði ættliðurinn, Aðalsteinn Sigurðarson, á jörðinni, titlaður „afdalabóndi“ í símaskránni.
Sama fjölskyldan hefur búið á Aðalbóli frá árinu 1945, en þá settust þar að hjónin Ingunn Einarsdóttir (1914-2007) og Páll Gíslason (1912-1981). Ingunn og Soffía tengdamóðir mín voru nánar, en hittust þó sjaldan enda langt á milli Hólmavíkur og Hrafnkelsdals. Páll var „bókasafnari og ritfær í besta lagi, einnig líkamlega öflugur sem kom sér vel er Brúarkláfur slitnaði undan honum 1945 og hann bjargaði sér á sundi úr Jöklu“, (HG, bls. 291). Rétt eins og hjónin á Vaðbrekku eignuðum Páll og Ingunn 10 börn. Einn sonurinn, Páll Pálsson, er sjálfmenntaður fræðimaður sem hefur lagt mikið af mörkum við rannsóknir á minjum í Hrafnkelsdal og þar í kring. Einhver börn og barnabörn Páls og Ingunnar búa enn á Aðalbóli og reka þar m.a. ferðaþjónustu sem nefnist Sámur bóndi eftir einni af lykilpersónunum í Hrafnkels sögu Freysgoða.
Fjallvegahlaupið eftir Aðalbólsvegi hefst um 0,7 km utan við bæinn á Aðalbóli, eða með öðrum orðum um 6,9 km innan við Vaðbrekku. Hlaupið hefst með því að vaðið er yfir ána Hrafnkelu á Fljótsdælingavaði. Áin getur reyndar verið býsna vatnsmikil, þannig að stundum er ráð að fá flutning yfir ána á sexhjóli eða torfærubíl. Af eyrinni hinum megin er haldið beint til fjalls, fyrst beint í austur en síðan suðaustur. Þessi fyrsti spölur er brattur og eftir u.þ.b. 2 km er leiðin komin upp í tæplega 670 m hæð á Austurhálsi. Eftir það eru hæðarbreytingar litlar, en hæst fer leiðin í um 700 m hæð talsvert austar á heiðinni.
Um hálfum km austan við Austurháls er vaðið yfir Hölkná. Hölkná er ekkert stórfljót, en nokkuð breið og getur náð meðalmanni vel í hné. Handan við Hölkná er haldið alllengi beina línu í suðaustur, yfir eystri kvísl Hölknár, innan við Eyvindarfjöll og áfram yfir fremur slétt mýrlendi. Þar þarf að vaða nokkrar kvíslar sem leggja til vatn í Eyvindará. Þórisstaðakvísl er þeirra stærst, en þangað eru um 12 km frá upphafsstaðnum. Austan við Þórisstaðakvísl liggur leiðin yfir Kofaöldu og Bræðraöldu, en handan við þá síðarnefndu er Langavatn. Leiðin liggur við suðurenda vatnsins. Þar austan við er Svartalda og eftir henni liggur Fljótsdalsheiðarvegur, almennt kallaður Kárahnjúkavegur í daglegu tali. Að þessum vegi eru um 17,5 km frá upphafsstaðnum og ekki nema rúmir 6 km á leiðarenda. Áfram er svo haldið í svipaða stefnu (suðaustur) um hallalítið votlendi og holt. Eftir drykklanga stund er komið að upptökum Kleifarár og í raun er hægt að fara hvort sem er utanvert (vinstra megin) eða innanvert (hægra megin) við hana. Þarna eru nokkrar greinilegar vörður sem vísa fólki á ytri leiðina.
Loks eftir u.þ.b. 19 km hlaup byrjar landið að lækka og eftir það er að mestu hægt að fylgja vörðum niður bratta sneiðinga, alla leið niður á veginn utan við Kleifará þar sem hlaupið endar. Á þessum síðustu kílómetrum eru nokkrir þverhníptir klettaveggir, þannig að engin leið er að halda alveg beinni stefnu. Þegar hlaupið er niður hlíðina fer lítið fyrir fegurð Kleifarár, en þegar horft er til baka upp hlíðina sést að í ánni eru allmargir fallegir fossar.
Bærinn Kleif er innsti bærinn af fjórum sem lengi voru í byggð vestan við Jökulsá í Norðurdal í Fljótsdal. Þessir bæir fóru allir í eyði á síðustu áratugum 20. aldar að Egilsstöðum frátöldum (næstinnsta bænum, um 2,6 km utan við Kleif), en þar er Óbyggðasetur nú til húsa. Við Kleif er kláfur yfir ána, sem nýlega var gerður upp. Handan við ána er eyðibýlið Glúmsstaðasel.
Þorfinnur Sigmundsson (1904-1981) var síðasti ábúandinn á Kleif. Hann vann mikið verk við ræktun og aðra uppbyggingu á staðnum og árið 1956 reisti hann t.d. 16 kW rafstöð í Kleifará til heimilisnota. Af tillitssemi við nágrannana í Glúmsstaðaseli setti hann þá upp sterka útiljósaperu sem lýsti vel yfir ána. Framan af búskaparárunum á Kleif þurfti Þorfinnur að stunda heyskap uppi á heiðinni. Árið 1930 kom hann sér upp 600 m löngum vírstreng af brúninni niður að bæ til að geta sent heybaggana niður með auðveldum hætti. Þessi búnaður dugði í 20 ár, en eftir þann tíma var Þorfinnur búinn að rækta nógu mikið niðri í dalnum til að vera ekki lengur háður heiðarheyskapnum.
Þorfinnur á Kleif var orðheppinn og til eru hressileg viðtöl sem blaðamenn tóku við hann. Í viðtali sem Jóhanna Kristjónsdóttir tók 1980 kemur fram að húsið á Kleif hafi verið byggt 1941 og bætt við það 10 árum síðar. Nýi hlutinn var að miklu leyti úr asbesti og í viðtalinu segist Þorfinnur viss um að skrattinn hafi skemmt sér við að búa til asbest í frístundum sínum. Þessi skýring stemmir nokkuð vel við það sem nú er vitað um áhrif asbests á heilsu fólks. Þorfinnur nefnir líka að á hans yngri árum hafi verið talsverður samgangur milli bæjanna í dalnum. „Það var meðan fólk hafði tíma til að vera til“, (JK). Þorfinnur las mikið og sagðist ekki hafa mátt fara í bókaverslanir. „Þær eru tómar á eftir“, (JK).
Ferðasagan:
Ferðasagan er í smíðum. Frumdrög að henni má lesa úr textum í myndaalbúmi á Facebook.
Lokaorð:
Hrafnkeli Freysgoða þótti Fljótsdalsheiði vera „yfirferðarill, grýtt mjög og blaut“. Þess vegna á hann að hafa fundið aðra og betri leið en þá sem menn voru vanir að fara á hans dögum. Nýja og betri leiðin á að hafa legið sunnan við Eyvindarfjöll, líklega á svipuðum slóðum og við fórum í júlí 2022. Gamla leiðin hefur örugglega verið einstaklega blaut ef þessi á að hafa verið þurrari. Í stuttu máli er leitun að blautari fjallvegum, en þarna eru stígar ógreinilegir og því kunna aðrir að hitta á þurrari leið en þá sem við fórum. Þrátt fyrir þetta er vel hægt að mæla með þessari leið fyrir þá sem þola vel að vökna. Þarna býr mikil saga og margt fallegt ber fyrir augu.
Helstu heimildir:
- Adolf Friðriksson (1998): Fornleifakönnun vegna Fljótsdalsvirkjunar. Fornleifastofnun Íslands. https://fornleif.is/wp-content/uploads/2018/01/FS053-98141-Flj%C3%B3tsdalsvirkjun.pdf
- Áskell Heiðar Ásgeirsson (2000): Ferðaleiðir á öræfum umhverfis Snæfell.
(Vantar að finna þetta)! - Bragi Halldórsson o.fl. (ritstj.) (1986): Hrafnkels saga. Íslendingasögur. Síðara bindi, (bls. 1397-1416). Svart á hvítu. Reykjavík.
- Ferðafélag Fljótsdalshéraðs (2004): Útivist á Fljótsdalshéraði. Gönguleiðir á Austurlandi VI. Gönguleiðakort. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs.
- Hjörleifur Guttormsson (2018): Upphérað og öræfin suður af. Árbók Ferðafélags Íslands. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
- Jóhanna Kristjónsdóttir (1980): Ég hef alltaf komið mér vel við stúlkur – fram að fermingaraldri – eftir það líta þær ekki við mér. Viðtal. Morgunblaðið 24. ágúst. (Bls. 36). https://timarit.is/page/1530495#page/n3/mode/2up
- Morgunblaðið (2007): Ingunn Einarsdóttir. Minningargreinar 17. mars. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1135104
- Morgunblaðið (2022): Andlát: Aðalsteinn Aðalsteinsson, bóndi og hreindýraveiðimaður. Frétt á mbl.is 5. apríl. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/04/05/andlat_adalsteinn_adalsteinsson_bondi_og_veidimadur
- Stefán Bjarnason (1981): Þorfinnur Sigmundsson, bóndi, Kleif. Minningargrein. Íslendingaþættir Tímans. 47. tbl. 16. des. (Bls. 7-8). https://timarit.is/page/3576111#page/n6/mode/2up