Króardalsskarð

Staðsetning: Frá Seyðisfirði að Firði í Mjóafirði
Hnattstaða: 
Upphaf:         0,00 km, N65°15,61' – V14°00,58'
Fjarðarárstöð:     2,00 km, N65°14,68' – V14°01,87'
Innri-Hádegisá:     3,20 km, N65°14,17' – V14°01,20'
Neðan við skarðið:   4,40 km, N65°13,60' – V14°01,83'
Króardalsskarð (Ganga): 5,30 km, N65°13,24' – V14°01,87'
Króardalsskarð (LMÍ):  5,30 km, N65°13,23' – V14°01,52'
Króardalur:       6,60 km, N65°12,67' – V14°00,79'
Lok:          8,80 km, N65°11,48' - V14°00,90'
Ath.: Vegalengdir í þessari töflu eru líklega nokkuð vanreiknaðaðar.
Þetta verður leiðrétt að hlaupi loknu.
Hæð y. sjó: Fer hæst í um 920 m 
Vegalengd: Um 11 km
Tími: (Verður skráður í ferðalok)
Meðalhraði: (Verður skráður í ferðalok)
Dags.: ???
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina:

Króardalsskarð dregur nafn sitt af Kró, sem er klettavik niður undir sjó Mjóafjarðarmegin. Hlaupaleiðin yfir skarðið er snarbrött Seyðisfjarðarmegin og brött Mjóafjarðarmegin, sögð vera erfið gangandi fólki og naumast fær með hesta. Þessi leið var samt oft farin á sínum tíma. Þarna yfir fóru prestar úr Seyðisfirði til að þjóna Mjófirðingum, leiðin var póstleið á árunum 1904-1940 og árið 1907 var lagður sími þarna yfir. Staurar stóðu þó illa vegna snjóflóða og var línan þá grafin í jörð. Reyndar tíðkuðust ferðir yfir skarðið enn fyrr. Sagt er að landnámsmennirnir Loðmundur í Loðmundarfirði og Eyvindur í Firði í Mjóafirði hafi barist þarna uppi í skarðinu og að þeim bardaga hafi lokið með því að Eyvindur og allir hans menn féllu. Loðmundur lét dysja hina föllnu og heitir þar síðan Fornmannahaugur.

Fjallavegahlaupið yfir Króardalsskarð hefst við vegamótin innst í byggðinni í Seyðisfirði, skammt frá tjaldstæðinu. Fyrsta spölinn er þjóðveginum fyllt áleiðis burt úr bænum, en eftir u.þ.b. 1,7 km er beygt til vinstri að Fjarðarárstöð. Þar er (líklega) hægt að komast yfir Fjarðará og síðan er lagt á brattann upp með utanverðri Innri-Hádegisá. Þegar komið er upp í u.þ.b. 450 m hæð (um 3,2 km frá upphafsstaðnum) er beygt til hægri og stefnt í suðsuðvestur í bilið á milli tveggja fjallshryggja ofar í hlíðinni. Eftir u.þ.b. 1,2 km til viðbótar eru hlaupararnir staddir beint fyrir neðan skarðið og þar er stefnan tekin sem leið liggur á brattann. Þessi síðasti spölur upp er líklega innan um 1 km.

Skarðið sjálft líkist meira fjallsegg en skarði. Vinstra megin við skarðið er Miðdegistindur (1.068 m) og Nóntindur (1.065 m) hægra megin. Úr skarðinu er stefnan tekin í suðaustur beint niður brekkurnar niður í Króardal. Þar rennur Króará í mörgum fossum til Mjóafjarðar. Ánni er fylgt lengst af, fyrst að austanverðu (vinstra megin við ána) en neðar í hlíðinni er farið vestur yfir ána, sömu leið og símalínan var lögð á sínum tíma. Hlaupið endar svo á Mjóafjarðarvegi, rétt innan við ána. Þar fyrir neðan er Króarártangi, en þaðan var rekin félagsútgerð frá Fjarðarbýlunum. Uppbygging á tanganum hófst eftir 1914 og þar risu fiskihús, frosthús og verbúð, auk bryggju. Þessi mannvirki, svo og fjárhús með 48 kindum, sópuðust út í sjó í miklu snjóflóði 22. febrúar 1941 og „fór hrönnin nánast þvert yfir fjörðinn“, eins og það er orðað í Árbók Ferðafélagsins. Þar fórst líka Óli Ólafsson, bóndi á Haga í Mjóafirði.

Í Firði var bændakirkja sem var lengi eina kirkjan í Mjóafirði. Henni var þjónað af prestum úr nágrannabyggðarlögum, þ.á.m. frá Dvergasteini í Seyðisfirði. Þaðan gengu prestar stundum yfir Króardalsskarð og þótti sá annexíuvegur langur og strangur. Einn þessara presta var Einar Hjörleifsson, sem þjónaði Firði frá Dvergasteini árin 1835-1850 og lét sig aldrei vanta á messudögum. Árið 1892 var svo kirkjan flutt út í Brekkuþorpið utar með firðinum.

Margbýlt var í Firði framan af 20. öld. Þegar mest var bjuggu þar 9 fjölskyldur, samtals 45 manns, flest úr sömu fjölskyldunni. Jörðin fór í eyði árið 1956, enda erfið til búskapar. Þarna er líka töluverð skriðuhætta. M.a. féllu tvær stórar skriður seint á 19. öld og skemmdu tún og önnur mannvirki.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu

Nesti og annar búnaður:

Verður skráð að hlaupi loknu

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu

Helstu heimildir:

 • Helgi M. Arngrímsson o.fl. (2007): Víknaslóðir. Gönguleiðir á Austurlandi 1. Gönguleiðakort. Ferðamálahópurinn Borgarfirði eystri.
 • Hjörleifur Guttormsson (2005): Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar. Árbók Ferðafélags Íslands 2005.
 • Morgunblaðið (1941). Maður ferst í snjóflóði. Frétt í Morgunblaðinu 25. febrúar 1941, bls. 3. https://timarit.is/page/1243170#page/n1/mode/2up.
 • Vilhjálmur Hjálmarsson (2006): Sjaldséðir Mjófirðingar. Sagnir um dularverur og dáið fólk. Höfundur gaf út.
 • Ath. frásögn Guðjóns Hermannssonar í Skuggahlíð í 12. hefti Múlaþings