Hnjótsheiði

Staðsetning: Frá Lambavatni á Rauðasandi að Hnjóti í Örlygshöfn 
Áfangar og hnattstaða:
Upphaf:        0,00 km, N65°29,55' - V24°05,46'
Skaufhóll:       1,88 km, N65°29,71' - V24°07,66'
Naustabrekka:     4,08 km, N65°30,02' - V24°10,01'
Vegamót við Hyrnur:  4,81 km, N65°30,23' - V24°10,22'
Hæsti punktur:     6,76 km, N65°30,91' - V24°09,43'
Krossgötur í Dalverpi: 7,74 km, N65°31,38' - V24°09,41'
Lok:         13,88 km, N65°33,76' - V24°09,43'
Hæð y. sjó: 11 m við upphaf, 336 m hæst, 20 m við lok => Hækkun 325 m, lækkun 316 m, nettóhækkun 9 m  
Vegalengd: 13,88 km
Tími: 2:24:14 klst.
Meðalhraði: 5,77 km/klst (10:23 mín/km)
Dags.: Laugardag 11. júlí 2020, kl. 14:44
Hlaupafélagar: 
Adda Hrund Hjálmarsdóttir
Arna Friðriksdóttir
Birkir Þór Stefánsson
Brynjar Leó Hreiðarsson
Dagný Sigurbjörg Jónsdóttir
Egill Ari Hreiðarsson
Hlynur Örn Hjálmarsson
Hringur Baldvinsson
Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Þóra Hrund Hjálmarsdóttir

Leiðarlýsing og ferðasaga:

Hnjótsheiði er ein af fjölmörgum leiðum milli byggðanna sunnan Patreksfjarðar og er að sögn „enn mjög greinileg og auðfarin”, (GMG, bls. 127). Hlaupið hefst við Lambavatn, sem er ysti bær á Rauðasandi. Skammt þar fyrir utan (um 1,9 km) er hár grjóthóll sem nefnist Skaufhóll, væntanlega kenndur við skaufhala sem er eitt af mörgum nöfnum á tófu. Í Skaufhóli bjó álfkona sem gerði á sínum tíma tilraun til að ná séra Jóni Ólafssyni á Lambavatni á sitt vald eftir að hann hafði gantast með það á leið fram hjá hólnum að nú væru „allar dísir dauðar”. Jón varð á undan álfkonunni að kirkjunni í Saurbæ, enda hann á hesti en hún á hlaupum. Þar náði hann að hringja kirkjuklukkunum og við það brá álfkonunni svo að hún sneri tómhent til baka í Skaufhól. Þetta var líklega í lok 17. aldar og ekki víst að álfkonan búi þarna ennþá. Af séra Jóni er það hins vegar að frétta að hann endaði ævi sína ölvaður á hestbaki á leið suðuryfir Hnjótsheiði að næturlagi einhvern tímann á árinu 1703. Þar var síðar reistur trékross og staðurinn nefndur Krossholt. Ekki er vitað um tengsl þessara atburða.

Frá Lambavatni eru u.þ.b. 4 km út að Naustabrekku eftir jeppafærum slóða, fyrst um graslendi en síðan um svonefnda Brekkusanda utan við Skaufhól. Við Naustabrekku stóð samnefndur bær á sínum tíma og var hjáleiga frá Lambavatni. Þarna er lítið undirlendi og tæpast gott undir bú. Þó var búið á jörðinni fram yfir seinni heimstyrjöld og fyrr á öldum var þar nokkurt útræði. Nú stendur sumarbústaður þarna á bakkanum og fær rafmagn frá lítilli virkjun í læknum fyrir utan.

Hlaupið yfir Hnjótsheiði var seinna fjallvegahlaupið af tveimur þennan laugardag. Með mér í för voru Birkir bóndi, sem hafði líka fylgt mér yfir Sandsheiði í súldinni fyrr um daginn, og Hringur Baldvinsson úr Hafnarfirði. Auk þeirra slógust átta göngumenn með í för. Þau lögðu ögn fyrr af stað enda reiknuðu þau með að verða lengur á leiðinni en við þremenningarnir.

Fjallvegahlaupið yfir Hnjótsheiði var þreytt í tveimur hópum. Þessi hópur lagði fyrr af stað en hinn og reiknaði með að verða lengur á leiðinni. F.v. Dagný, Þóra, Adda, Hlynur, Arna, Brynjar, Ragnhildur og Egill. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

SG, Hringur og Birkir tilbúnir við Lambavatn á Rauðasandi. Sumir hlaupa alltaf í stuttbuxum. (Ljósm. Björk).

Birkir, Hringur og SG á leið út Brekkusanda. Skaufhóll í baksýn lengst til hægri. (Ljósm. Ragnhildur Aðalsteinsdóttir).

Dagný í fararbroddi á leið út sandinn milli Lambavatns og Naustabrekku. Hér voru hóparnir sameinaðir um stund. (Ljósm. Ragnhildur).

Á leið út sandinn. (Ljósm. Ragnhildur).

Leiðin út að Naustabrekku var tiltölulega fljótfarin og veðrið var orðið þurrara en það hafði verið á Sandsheiði um morguninn. Leiðin upp sjálfa Naustabrekku er býsna mikið á fótinn og því öllu seinlegri. Gatan þarna upp er engu að síður greið, enda lögð í sneiðingum og vel troðin. Eftir svo sem 700 m brölt vorum við komnir upp á brúnina og þar er um tvær leiðir að velja. Annar möguleikinn er að beygja til vinstri (til vesturs) og hlaupa Kerlingaháls eftir þverhníptum brúnum út í Keflavík, en að öðrum kosti er beygt til hægri (til austurs) og fylgt skilti sem bendir á Sauðlauksdal. Það er rétta leiðin ef ætlunin er að fara yfir Hnjótsheiði, eins og raunin var þennan dag. Fyrsti spölurinn liggur austur eftir brúninni en svo er fljótlega beygt til norðurs og þeirri stefnu haldið að mestu það sem eftir er.

Birkir og Hringur í túninu á Naustabrekku, tilbúnir í brekkuna sjálfa.

Efst í Naustabrekkutúninu, búskapur löngu aflagður og enginn til að slá túnið. Skorarfjall í baksýn.

Á leið upp Naustabrekku. Þarna liggur gatan í greinilegum og vel lögðum sneiðingum.

Gatan upp Naustabrekku. Hyrnur lengst til vinstri.

Vegvísirinn á brúninni. Þarna voru 5 km að baki frá Lambavatni skv. skiltinu. Garminúrið sýndi nákvæmlega 4,8 km og 50 mín. Við tókum stefnuna á Sauðlauksdal. Slóðin liggur reyndar bara u.þ.b. 300 m í þessa átt (austur eftir brúninni) og beygir síðan til norðurs.

Dæmigerð mynd af götu dagsins, tekin í svo sem 250 m hæð.

Nokkur þoka var á heiðinni, aldrei þó mjög dimm. (Ljósm. Ragnhildur).

Okkur miðaði allvel upp heiðina. Slóðinn var víðast hvar vel greinilegur og auðrataður þrátt fyrir svolítinn þokuslæðing. Hæsta punkti heiðarinnar var náð eftir eftir tæplega 6,8 km og eftir það hallaði undan fæti niður í Dalverpi. Þegar nákvæmlega 7,74 km og 1:23:46 klst. voru að baki komum við að krossgötum við Ódyggðahól, þar sem leiðin yfir Hnjótsheiði liggur þvert á gönguleiðina um Dalverpi. Eftir þeirri leið fóru menn úr Sauðlauksdal út í Keflavík eða áfram um Brúðgumaskarð út í útvíkurnar norðan Látrabjargs. Á þeim slóðum var mikið útræði fyrrum og margt um vermenn víða að.

Á krossgötum í Dalverpi. Breiðgatan sem kemur inn í myndina frá vinstri liggur utan úr Breiðuvík og heldur svo áfram út úr myndinni hægra megin áleiðis í Sauðlauksdal. Leiðin að Hnjóti liggur hins vegar yfir holtið á bak við okkur eins og skiltið sýnir. Svona vegvísar eru ómetanlegir á stöðum eins og þessum þar sem kennileiti eru fá þótt götur séu greinilegar. (Ljósm. Birkir).

Á krossgötunum sýndi hæðarmælirinn í úrinu 254 m.y.s. Norðan við krossgöturnar tekur hin eiginlega Hnjótsheiði við, en hún er reyndar nokkru lægri en hæðirnar sunnar við Dalverpi. Hækkunin á þessum kafla er því lítil. Þarna er ýmist hægt að fylgja gömlu leiðinni eða línuvegi meðfram nærliggjandi háspennulínu. Þegar um 11 km eru að baki fer að halla niður í Heiðardal. Þar greikkuðum við sporið og náðum góðum endaspretti niður að Hnjóti í Örlygshöfn þar sem hlaupið endaði.

Horft niður að Hnjóti. Ekkert nema endaspretturinn eftir. Sumum finnst fátt skemmtilegra en að hlaupa hættulega hratt niður svona brekkur.

Við Birkir á síðustu metrunum rétt hjá safninu á Hnjóti. Sé rýnt í myndina sést ljós olíutankur hægra megin á myndinni og girðing þar upp með. Leiðin niður af Hnjótsheiði liggur meðfram þessari girðingu. Í baksýn má líka sjá bláleitan bíl Magnúsar í Botni. Á þessum bíl ók Magnús um sveitir og seldi ýmsar nytjavörur. Slíkar ferðir eru löngu aflagðar (með ísbílinn sem undantekningu), en fólk á mínum aldri rámar þó í þá tíma þegar Magnús var enn á ferðinni. (Ljósm. Björk).

Á Hnjóti er rekið Minjasafn Egils Ólafssonar. Egill og Ragnheiður kona hans tóku við búi á Hnjóti af foreldrum Egils árið 1953. Egill hóf snemma að safna menningarverðmætum frá liðinni tíð og smám saman varð þannig til stórt minjasafn sem opnað var almenningi. Byggt var yfir safnið á árunum í kringum 1980 og það var svo formlega opnað 22. júní 1983 þegar Egill og Ragnheiður gáfu Vestur-Barðastrandasýslu safnið. Seinna varð safnið einnig flugminjasafn. Hefðbundinn búskapur lagðist af á Hnjóti árið 2009 en þar er nú rekin margþætt ferðaþjónusta auk safnastarfseminnar. Safnið er nú í eigu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps.

Farið yfir reynslu dagsins yfir kaffi og kökum (sem komu á borðið rétt eftir að myndin var tekin) á Hnjóti með Björk og Gittu sem sátu í móttökunefnd þessa sextugasta fjallvegahlaups.

Lokaorð:

Hnjótsheiði hentar vel til fjallvegahlaupa, þó að undirlagið sé grýtt og hart. Gatan yfir heiðina er greinileg og stikuð að hluta, hækkunin frekar lítil og leiðin ekki löng. Rétt eins og aðrar leiðir er þessi eflaust fallegri í góðu veðri og þá væri góð hugmynd að leggja upp frá Hnjóti til að geta notið útsýnisins sem birtist þegar komið er fram á brúnirnar Rauðasandsmegin.

Helstu heimildir:

 • Gísli Már Gíslason og Ólafur B. Thoroddsen, 2020: Rauðasandshreppur hinn forni. Árbók Ferðafélags Íslands 2020. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
 • Helgi M. Arngrímsson, 2007: Vestfirðir og Dalir 4 – Útivera. Göngu- og reiðleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
 • Kjartan Ólafsson, 2019: Lambavatn og Naustabrekka. Sögur og sagnir. https://sogurogsagnir.is/sagnabrunnur/lambavatn-og-naustabrekka.

Þakkir:

 • Birgitta Stefánsdóttir fyrir flutninga, aðstoð og hvatningu
 • Björk Jóhannsdóttir fyrir flutninga, aðstoð og hvatningu