Tunguheiði við Örlygshöfn

Staðsetning: Frá Kollsvík að Efri-Tungu í Örlygshöfn 
Áfangar og hnattstaða:
Upphaf:                       0,00 km, N65°36,83' - V24°18,90'
Krossgötur í Hænuvíkurskarði: 4,85 km, N65°35,35' - V24°14,88' 298
Lok:                         10,32 km, N65°34,62' - V24°09,12'
Hæð y. sjó: 33 m við upphaf, 339 m hæst, 8 m við lok => Hækkun 306 m, lækkun 331 m, nettólækkun 25 m   
Vegalengd: 10,32 km
Tími: 2:03:06 klst.
Meðalhraði: 5,03 km/klst (11:56 mín/km)
Dags.: Sunnudag 12. júlí 2020, kl. 12:00
Hlaupafélagar: 
Birgitta Stefánsdóttir
Birkir Þór Stefánsson

Fróðleikur um leiðina:

Eftirfarandi leiðarlýsing miðast við að hlaupið hefjist í Örlygshöfn. Vegna aðstæðna var ákveðið að snúa hlaupinu við og byrja í Kollsvík. Lýsingin verður lagfærð fljótlega í samræmi við þetta.

Frá Efri-Tungu í Örlygshöfn liggur gömul reiðleið um Tunguheiði vestur í Kollsvík.

Tunguheiði er ekki sérlega frumlegt nafn á heiði, en nafn heiðarinnar tengist væntanlega nafni bæjarins þar sem fjallvegahlaupið yfir heiðina hefst. Leiðin liggur beint í vestur frá Efri-Tungu inn Tungudal og er nokkuð brött fyrsta spölinn. Leiðin upp í heiðarbrúnina er varla meira en 3 km og þar stendur varðan Digri-Eyjólfur. Eftir að komið er fram hjá henni liggur leiðin yfir Hálffara og nokkru vestar er komið að krossgötum í Hænuvíkurskarði. Eftir það sveigir leiðin meira til norðvesturs niður Húsadal, allt þar til komið er að bænum í Kollsvík þar sem hlaupið endar.

Örnefnið Hálffari er óvenjulegt við fyrstu sýn, en Þórhallur Vilmundarson leiddi að því rök á sínum tíma að það táknaði að leiðin yfir heiðina væri hálfnuð. Mörg sambærileg dæmi væri að finna, bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Örnefnið Hálfdán væri eitt slíkt dæmi.

Kollsvík á sér langa og merka sögu. Þar nam land Kollur sem kom til Íslands í samfloti með Örlygi Hrappssyni, fóstbróður sínum. Örlygur náði landi í Örlygshöfn en Kollur braut skip sitt í Kollsvík. Örlygur hafði verið í fóstri hjá Patreki biskupi í Suðureyjum og þess vegna heitir Patreksfjörður Patreksfjörður.

Í Kollsvík hefur verið stundaður landbúnaður um aldir og auk þess var þar ein stærsta verstöð Vestfjarða um langt skeið. Mikinn fróðleik um sögu og staðhætti í víkinni er að finna á vefnum Kollsvik.is, svo og í samantekt Kjartans Ólafssonar um Kollsvík og Kollsvíkurver.

Í Kollsvík eru tvær fornar bújarðir, þ.e. Láginúpur syðst í víkinni og Kollsvík um tveimur km norðar. Kollsvíkurbærinn hét áður Kirkjuból, en þar mun hafa verið hálfkirkja eða annað guðshús fyrr á öldum. Auk þessara tveggja bæja var búið á nokkrum minni býlum í víkinni um lengri eða skemmri tíma, auk þurrabúða sem tengdust róðrum frá Kollsvíkurverum. Árið 1910 voru tíu heimili í víkinni og íbúar samtals 84. Árið 1920 var íbúatalan komin niður í 64 og í 49 árið 1930.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu

Helstu heimildir:

  • Gísli Már Gíslason og Ólafur B. Thoroddsen, 2020: Rauðasandshreppur hinn forni. Árbók Ferðafélags Íslands 2020. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
  • Helgi M. Arngrímsson, 2007: Vestfirðir og Dalir 4 – Útivera. Göngu- og reiðleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
  • Kjartan Ólafsson, 2019: Kollsvík og Kollsvíkurver. Sögur og sagnir. https://sogurogsagnir.is/sagnabrunnur/kollsvik-og-kollsvikurver.
  • Kollsvík, á.á.: Kollsvík. Staðhættir, náttúra og mannlíf. https://kollsvik.is.
  • Þórhallur Vilmundarson, 1994: Mælifell. Síðari hluti. Lesbók Morgunblaðsins 11. júní 1994, bls. 8-9. https://timarit.is/page/3310667#page/n8/mode/2up.