Karlskálaskarð

Staðsetning: Frá Karlstaðaskála í Vöðlavík að Ytri-Teigará í Reyðarfirði
Hnattstaða: 
Upphaf:     0,00 km, N65°01,82' - V13°40,48'
Karlskálaskarð: 5,00 km, N65°00,02' - V13°40,64'
Karlskáli:   9,00 km, N64°59,30' - V13°44,76'
Lok:      14,00 km, N65°00,71' - V13°48,31'
Hæð y. sjó: x m við upphaf, 525 m hæst => Hækkun xxx m
Vegalengd: Áætluð um 14 km
Tími: (xxxxx)
Meðalhraði: (xxxxx)
Dags.: (xxxxx) 
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina:

Karlskálaskarð er annar tveggja tiltölulega stuttra fjallvega milli Vöðlavíkur og Karlskála, sem á sínum tíma var mannmargur útgerðarstaður yst við Reyðarfjörð að norðanverðu. Nafn staðarins er oft skrifað með tveimur s-um (Karlsskáli) en hér er fylgt sama rithætti og í örnefnaskrá og í Árbók Ferðafélags Íslands frá 2005. Hinn fjallvegurinn þarna á milli er Sléttuskarð, einu fjalli vestar en Karlskálaskarð, álíka löng leið með sama upphafs- og lokapunkt. Af heimildum má ráða að Karlskálaskarð sé ögn greiðærara, auk þess sem gönguleiðin þar yfir er stikuð. Því varð sú leið fyrir valinu eftir nokkrar vangaveltur.

Fjallvegahlaupið yfir Karlskálaskarð hefst við kirkjugarðinn í Vöðlavík, sunnan við Kirkjubólsá, miðja vegu milli eyðibýlanna Þverár og Kirkjubóls. Báðir þessir bæir fóru í eyði á 7. áratug 20. aldar, rétt eins og aðrir bæir á svæðinu. Lengst var búið á Vöðlum, til 1970, en á blómaskeiði Vöðlavíkur voru þar allmargir bæir í byggð. Innarlega í víkinni er gistiskáli Ferðafélags Fjarðamanna, Karlstaðaskáli.

Frá kirkjugarðinum er hlaupið til suðvesturs og suðurs, upp með Þverá að austanverðu með Svartafjall (537 m) á vinstri hönd. Síðasti spölurinn upp í skarðið er nokkuð brattur, en annars er leiðin greiðfær. Leiðin upp í skarðið er í mesta lagi 4 km og eftir það er leiðin öll á undanhaldinu. Þar blasa brött fjöll við á báðar hendur, Snæfugl (757 m) að austanverðu (til vinstri) og Hesthaus (713 m) að vestan (til hægri).

Í Karlskálaskarði sveigir leiðin lítið eitt til hægri, þar sem hlaupið er niður Karlskáladal með Folöld á hægri hönd en Teistá vinstra megin (að austanverðu). Áfram er haldið utan í bröttum hlíðum til vesturs, þar til komið er að Karlskála eftir u.þ.b. 4 km niðurhlaup úr skarðinu. Við Karlskála er komið inn á jeppaveg og honum fylgt inn með ströndinni, framhjá eyðibýlunum Kambi, Kaganesi, Bjargi og Litlu-Breiðuvík, allt þar til komið er að Ytri-Teigará þar sem hlaupið endar.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu

Nesti og annar búnaður:

Verður skráð að hlaupi loknu

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu

Helstu heimildir:

 • Ferðafélag Fjarðamanna Austfjörðum (2002): Gönguleiðir á Fjarðaslóðum – austast á Austfjörðum. Gönguleiðir á Austurlandi II. Ferðafélag Fjarðamanna Austfjörðum.
 • Guðný Zoëga (2020): Karlskáli – fornleifaskráning. Byggðasafn Skagfirðinga. Rannsóknaskýrslur 2020/230. https://skyrslur.minjastofnun.is/Verkefni_2064.pdf.
 • Hjörleifur Guttormsson (2005): Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar. Árbók Ferðafélags Íslands 2005. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
 • Ína Dagbjört Gísladóttir (2001): Austast á Austurlandi. Í heimkynnum trölla, hafvætta og sjódrauga. Morgunblaðið 20. janúar 2001. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/584488.
 • Norðfirðingafélagið (2013): Af norðfirskum stofni.
  http://www.nordfirdingafelagid.is/2204642109/frettir/2204642109/182/af-nordfirskum-stofni.
 • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson, Björn Þorsteinsson og Guðjón Ármann Eyjólfsson (1984): Landið þitt Ísland, 5. bindi, U-Ö. Bókaútgáfann Örn og Örlygur hf.