Brúnavíkurskarð og Súluskarð

Staðsetning: Frá Ölduhamri í Borgarfirði um Brúnavík til Kjólsvíkur
Hnattstaða:
Kolbeinsfjara:        N65°32,16' - V13°45,35'
Brúnavíkurskarð:       N65°31,79' - V13°42,99'
Neyðarskýli í Brúnavík:    N65°31,60' - V13°41,22'
Brúnavík, neðan við Haftjörn: N65°31,40' - V13°40,98'
Súluskarð:          N65°30,29' - V13°40,56'
Syðravarp:          N65°29,99' - V13°40,71'
Kjólsvíkurmelar:       N65°29,52' - V13°40,60'
Kjólsvík:           N65°29,56' - V13°37,05'
Hæð y. sjó: 44 m við upphaf, 453 m hæst, 12 m við lok => Hækkun 409 m, lækkun 441 m, nettólækkun 32 m
Vegalengd: 13,39 km (eða um 12,8 km ef rétt leið er farin)
Tími: 3:12:18 klst.
Meðalhraði: 4,18 km/klst(14:22 mín/km)
Dags.: 17. júlí 2019, kl. 13:07
Hlaupafélagar: Birgitta Stefánsdóttir (9,84 km)

Fróðleikur um leiðina:

Leiðin um Brúnavíkurskarð hefst í Kolbeinsfjöru, utanvert við Lagsá í Borgarfirði. Þaðan liggur stikuð leið nokkurn veginn beint til fjalls og svo áfram upp með ánni með stefnu í austur, beint upp í Brúnavíkurskarð með Gránípu (439 m) á vinstri hönd og Geitfell (587 m) til hægri. Sjálft skarðið er í u.þ.b. 360 m hæð yfir sjó og þaðan liggur leiðin áfram í austur og um brattar brekkur niður í Brúnavík.

Brúnavíkurskarð var aðalleiðin á milli Borgarfjarðar og Brúnavíkur á meðan búið var í Brúnavík. Önnur leið liggur nokkru utar frá Höfn í Borgarfirði um Hafnarskarð og sú þriðja talsvert innar um Hofstrandarskarð. Árið 1960 var jeppaslóð rudd þar yfir en henni hefur lítið verið haldið við.

Brúnavík er næsta vík sunnan Borgarfjarðar. Víkin er allbreið og upp af henni gengur fremur brattur dalur sem einkennist af grónum melhryggjum og mýrum. Flestir urðu íbúar í Brúnavík árið 1891, en þá var tvíbýli þar með samtals 33 íbúum. Víkin þótti henta vel til búsetu á sínum tíma, þar sem þar voru góð tún og engjar, fremur snjólétt og þokkaleg fjörubeit. Allgóð lending er í víkinni við klappir nálægt bænum og þaðan var talsvert útræði, enda stutt á miðin.

Þó að Brúnavík og aðrar víkur á Víknaslóðum hafi verið grösugar og sumar þótt allgóðar til búskapar, er ljóst að lífsbaráttan var hörð þegar illa áraði. Einn af þeim síðustu sem bjuggu í Brúnavík var Stefán Filippusson (1870-1964) sem keypti jörðina árið 1898 í félagi við Erling bróður sinn og föður þeirra og flutti þangað ári síðar með lítinn bústofn – og bærinn „alveg kominn að hruni af fúa og hriplak ef nokkur dropi kom úr lofti“. Þessi fjölskylda hafði komið alla leið sunnan úr Fljótshverfi í Skaftafellssýslu vorið 1897 og þaðan höfðu Stefán og þrír bræður hans rekið kindurnar sínar austur á Hérað. Í frásögn sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1959 lýsir Stefán aðstæðum bænda á þessum tíma: „Þá var ekki verið að hlaða undir okkur bændadurgana. Við máttum velta út af eins og horgemlingar, ef við gátum ekki af eigin ramleik haft í okkur og á“. Sjósókn og kartöflurækt var það sem helst varð fjölskyldunni til bjargar næstu árin að sögn Stefáns og hann taldi sig hafa náð að afsanna það sem áður hafði verið sagt um Brúnavík, að þaðan færi enginn ríkari en hann kom. Hann hafi komið örsnauður, en verið í allgóðum efnum þegar hann fór. „Og þar með voru þau álög af jörðinni að hún auðgaði engan mann“ (Á.Ó., 1959). Þórunn móðir þeirra bræðra var grasalæknir og seinna fetaði Erlingur í þau fótspor og varð þjóðkunnur sem slíkur.

Brúnavík fór í eyði 1944. Bæjarrústirnar sjást vel en annars eru þar engin mannvirki nema neyðarskýli Landsbjargar.

Í Brúnavík eru sérstæðir klettar við sjóinn með miklu líparíti sem gefur klettunum og fjörunni sérstakan svip. Í víkinni finnast nokkrar sjaldgæfar plöntur, m.a. ljósalyng (Andromeda polifolia) sem aðeins vex á tveimur öðrum stöðum á Íslandi.

Leiðin frá Borgarfirði til Brúnavíkur um Brúnavíkurskarð er ekki nema um 4,5 km að lengd og uppfyllir því ekki skilyrði fjallvegahlaupaverkefnisins (>9 km). Því marki er hins vegar hægt að ná með því að halda áfram ferðinni um Súluskarð til Kjólsvíkur. Áfram er því hlaupið frá neyðarskýlinu í Brúnavík, stiklað yfir Brúnavíkurá í fjörunni og síðan sveigt til hægri (til suðausturs) upp greiðfæra mela og gróið land. Þar er m.a. farið fram hjá Haftjörn, um 800 m ofan við fjöruna.

Leiðin upp í Súluskarð liggur fyrst vinstra megin (austan megin) inn dalinn inn af Brúnavík og sveigir síðan lítið eitt til vinstri inn austanverðan Súludal. Eftir því sem ofar dregur verður leiðin grýttari og síðasti spölurinn upp í skarðið er nokkuð brattur. Skarðið sjálft er í um 370 m hæð og þar opnast útsýni niður í Hvalvík. Þar var búið um tíma, síðast á árunum 1832-1842, en annars var víkin að mestu nýtt frá Brúnavík. Leiðin niður í Hvalvík er brött og verður látin bíða betri tíma. Í Súluskarði eru um 8 km búnir af hlaupinu.

Rétt sunnan við Súluskarð er komið á hæsta punkt leiðarinnar í Syðravarpi (450 m) með Víðidalsfjall (572 m) á vinstri hönd og Súlutind (471 m) til hægri. Á Kjólsvíkurmelum þar rétt suðuraf er um þrjár leiðir að velja. Hlaupaleiðin sem hér um ræðir liggur til vinstri niður í Kjólsvík, en til hægri liggur leiðin um Kjólsvíkurskarð upp á Þrándarhrygg. Þriðji valkosturinn væri að halda beint áfram suður í Breiðuvík.

Leiðin niður í Kjólsvík er brött á köflum og fylgir fjárgötum sem liggja í aðalatriðum beint niður í víkina. Neðarlega í brekkunum er sveigt til vinstri að bæjarrústunum í Kjólsvík, sem standa undir brattri fjallshlíð nyrst í víkinni. Þar endar hlaupið.

Kjólsvík þótti grasgefin og því fremur hentug til búsetu, en graslendi spilltist í skriðu 1773. Hins vegar breyttist lendingin í víkinni til hins betra í leiðinni. Kjólsvík fór endanlega í eyði 1938, en áratugina þar á undan höfðu lengst af verið þar u.þ.b. 10 manns til heimilis.

Við Kjólsvík er kennt svokallað Kjólsvíkurmál sem upp kom árið 1705. Þá hafði vinnukona á bænum eignast barn með vinnumanni, eða jafnvel húsbóndanum, og vinnumaðurinn hafði borið barnið út. Vinnumaðurinn var líflátinn á Alþingi þá um sumarið og vinnukonan hlaut sömu örlög þremur árum síðar. Bóndinn og húsfreyjan á bænum sluppu með vægari refsingar. Útburður barna hefur að sjálfsögðu alltaf verið refsiverður, en á þessum tíma var líka tekið hart á hórdómsbrotum. Í þokkabót trúðu margir því að máttarvöldin refsuðu mannfólkinu fyrir hvers konar siðferðisbresti með ótíð og náttúruhamförum. Þess vegna þótti ráðamönnum enn mikilvægara en ella að uppræta slíkt og þá fór réttlætið hiklaust í manngreinarálit.

Ferðasagan:  

Fjallvegahlaupið sem hér um ræðir hófst við mastrið á Ölduhamri, tæpum kílómetra innar en lýsingin hér að framan gefur til kynna. Þar var upphaf leiðarinnar samkvæmt gönguleiðakorti frá 2007, en síðan þá hefur upphafsstaðurinn verið færður út í Kolbeinsfjöru. Rétt er að halda sig við þann stað þegar leiðin er farin, en þaðan er heildarvegalengdin líklega um 13 km.

Við Gitta vorum tvö á ferð þennan júlídag fyrir austan. Veðrið var ekki alveg eins og að var stefnt, hægur vindur að vísu en talsverð þoka og svolítil súld annað veifið. Á endanum var þó ákveðið að láta slag standa þó að útsýni yrði fyrirsjáanlega takmarkað.

Þegar við vorum nýlögð að stað frá Ölduhamri áttuðum við okkur á að búið var að færa merktu leiðina út fyrir Lagsá. Eftir 2 km rölt í hlíðinni vorum við komin inn á hana og eftir það gekk ferðin greiðar.

Komin á rétta leið, u.þ.b. 2 km að baki. Í baksýn sést Lagsá renna niður hlíðina, en Skriðnafjall er ógreinilegt í þokunni handan fjarðar.

Kominn í 275 m hæð, 2,3 km að baki.

Leiðin upp í Brúnavíkurskarð er ekki ýkja löng og þangað vorum við komin fyrr en varði. Þetta var auðratað, greinilegur slóði alla leið og nýlega búið að endurnýja merkingar. Vegalengdin upp í skarðið mældist 2,9 km en hefði líklega verið nær 2,5 km ef við hefðum farið rétta leið frá upphafi. Þarna voru 45 mín liðnar og hæðarmælirinn sýndi 362 m.

Gitta í Brúnavíkurskarði en í baksýn bíður Austfjarðaþokan átekta.

Brúnirnar upp af Brúnavík, en af þeim dregur víkin nafn sitt.

Leiðin úr Brúnavíkurskarði niður í Brúnavík var greið og fljótfarin niður troðnar götur, sem sums staðar voru reyndar svolítið sleipar í bleytunni. Á leiðinni hlupum við framhjá fossi og mættum fáeinum göngumönnum, en annars bar fátt til tíðinda. Þokan var gisnari þegar neðar dró og við fengum sæmilegt útsýni yfir víkina, afskaplega grösugt land með stórbrotna kletta upp af fjörunni. Við áðum stutta stund við neyðarskýli Landsbjargar niðri í víkinni og fengum þýsk hjón til að aðstoða okkur við myndatöku. Að skýlinu voru 4,7 km frá upphafsstaðnum skv. okkar mælingum en væru líklega um 4,3 km ef miðað væri við Kolbeinsfjöru.

Á niðurleið, ofarlega í hlíðum Brúnavíkur.

Neðarlega í hlíðinni, búin að vera á ferðinni í nákvæmlega klukkustund og varla meira en 600 m eftir niður á jafnsléttu.

Besta yfirlitsmyndin sem náðist í Brúnavík þennan dag. Bæjarrústirnar til vinstri og þokan skammt undan.

Við neyðarskýli Landsbjargar í Brúnavík. Að skýlinu voru 4,7 km frá upphafsstaðnum og klukkan sýndi 1:05 klst. Þetta var engin hraðferð.

Síðari og lengri áfangi ferðarinnar hófst með því að við óðum Brúnavíkurá niðri í fjörunni. Reyndar þurftum við ekkert að vaða því að þarna var hægt að stikla á steinum með lagni. Því er vart að treysta alla daga, því að áin er nokkuð straumhörð.

Handan við ána beið okkar þessi afar sérstæða fjara, sem ég held að megi segja að sé helsta einkenni Brúnavíkur. Fjaran sjálf er flöt eins og þægileg baðströnd en upp af henni rísa brattir líparitklettar sem ramma inn sérstöðuna. Þegar maður stendur þarna niðri í fjörunni er ekki augljóst hvert halda skuli, en við vissum þó að leiðin lá inn í landið á nýjan leik og þá skiptir líklega ekki öllu máli hvar er ráðist til uppgöngu.

Þegar við vorum komin upp úr fjörunni komum við fljótlega auga á stíginn áleiðis inn eftir víkinni með stefnu á Súludal. Haftjörn var þarna á sínum stað og þegar við komum framhjá henni fór þokan að þéttast.

Við Haftjörn í Brúnavík. Þangað er um 1 km frá neyðarskýlinu.

Á greinilegum slóða á leið inn í þokuna, enn í stefnu beint inn úr Brúnavík, en skömmu síðar beygði slóðinn til vinstri með stefnu á Súluskarð. Þarna voru 1,6 km að baki frá neyðarskýlinu.

Eftir því sem landið hækkaði þéttist þokan, þó aldrei svo að við misstum sjónar af leiðinni. Hún var líka ágætlega merkt. Þarna hækkar landið nokkuð ört og gróðurinn víkur fyrir eyðilegri grýttum holtum. Um það bil 2,3 km frá neyðarskýlinu komum við að vegamótum þar sem hægt hefði verið að taka hægri beygju inn á jeppaslóðann yfir Hofstrandarskarð, en það stóð ekki til. Áfram skyldi haldið upp í Súluskarð.

Við vegamót neðst í Súludal. Leiðin þaðan í Breiðuvík liggur um Súluskarð.

Í Súludal. Brattasti kílómetri leiðarinnar framundan – upp í Súluskarð.

Eftir því sem ofar dró þéttist þokan og súldin ágerðist. Hið rómaða útsýni úr Súluskarði var ósýnilegt þennan dag og myndatökur næsta tilgangslausar. Rétt sunnan við skarðið áðum við stutta stund í skjóli við kletta og tókum upp nesti. Þar voru um 8 km búnir af ferðalaginu, þar af rétt um 3,5 km frá neyðarskýlinu.

Nestistíminn var stuttur enda kólnar manni fljótt í súldinni þó að hitastigið sé annars bærilegt. Eftir stutta stund vorum við komin í Syðravarp, en vegna þokunnar var engin leið að átta sig á hæðum, lægðum og örnefnum nema með hjálp GPS-punktanna sem voru hluti af undirbúningi ferðarinnar.

Þessi mynd var tekin rétt áður en við komum að Syðravarpi, en það mun vera hæðin handan við skaflinn.

Á Syðravarpi var hæsti punktur leiðarinnar samkvæmt GPS-úrinu mínu, 453 m.y.s. Þar voru búnir 8,8 km og 2:25 klst. af ferðalaginu og stutt eftir suður á Kjólsvíkurmela þar sem hægt er að velja um þrjár leiðir á krossgötum. Þegar þarna var komið sögu vorum við feðginin á báðum áttum hvort ráðlegt væri að ljúka ferðalaginu samkvæmt áætlun eða hvort við ættum heldur að taka hægri beygju upp í Kjólsvíkurskarð og fara svo jeppaveginn niður Þrándarhrygg til byggða í Borgarfirði. Kjólsvík var greinilega full af þoku og landið forblautt. Ferðalagið þangað niður, ef af yrði, gat varla flokkast sem náttúruskoðun, heldur miklu frekar sem formsatriði til að geta merkt við að þessu tiltekna fjallvegahlaupi væri lokið.

Á Kjólsvíkurmelum. 9,8 km og 2:35 klst. að baki í heildina. Þarna þurfti að taka ákvörðun um næstu skref.

Eftir að hafa metið stöðuna með hjálp korts sem sett hafði verið upp þarna á krossgötunum ákváðum við að ég myndi koma mér niður í Kjólsvík með hjálp GPS-úrsins, en Gitta myndi láta gott heita og taka stefnuna á Þrándarhrygg. Hún var reyndar ekki með GPS-tæki en hafði þó kort meðferðis og við gerðum líka ráð fyrir að leiðin yrði sæmilega auðrötuð eftir stikum. Það var reyndar ofmat, því að stikurnar voru gamlar og máðar og sama mátti reyndar segja um merkingu leiðarinnar niður í Kjólsvík. En allt gekk þetta samt að óskum.

Eftir að leiðir skildu reyndi ég að flýta mér sem mest niður í Kjólsvík. En sú ferð varð miklu seinlegri en ég hafði reiknað með. Ég týndi stikunum fljótlega í þokunni en fann þó slóðann annað slagið. Þess á milli hélt ég bara stefnu beint niður bratta hlíðina og tók mið af lækjum sem hlutu að renna til sjávar. Í úrinu mínu átti ég GPS-punkt hjá bæjarrústunum í Kjólsvík og þangað hlaut ég að komast að endingu þó að mér þætti ferðalagið ögn óþægilegt. Landið var líka forblautt og dálítið sleipt á köflum. Líklega fór ég aðeins of sunnarlega niður til að byrja með, en þarna eru kröpp gil þannig að maður getur ekki farið alveg hvar sem er. Auðvitað fann ég endapunktinn að lokum en þurfti að vísu að fara talsverðan spöl þvert á leið í blálokin. Það villti örlítið fyrir mér hversu norðarlega í víkinni bærinn hafði staðið, en eftir á að hyggja hefur þetta sjálfsagt verið eina bæjarstæðið. Sunnar í víkinni eru snarbrattir sjávarkambar sem virðast síður en svo ákjósanlegir fyrir mannabústaði. Sama fannst mér reyndar gilda um alla víkina þennan dag og hugsaði að hún væri kjörinn staður fyrir drungalega atburði.

Leiðin sem ég fór frá vegamótunum á Kjólsvíkurmelum niður að bæjarrústunum var rétt um 3,5 km en tók mig engu að síður u.þ.b. 35 mín. sem er ekki meira en röskur gönguhraði. Leiðin upp aftur tók ekki mikið lengri tíma en þá gekk ögn betur að rata eftir slóðanum. En þessu fjallvegahlaupi lauk við bæjarrústirnar og því verður ferðalagið aftur til byggða ekki tíundað nánar hér.

Bæjarrústirnar í Kjólsvík í þoku og sudda. En þarna er vissulega grösugt.

Lokaorð:

Leiðin um Brúnavíkurskarð og Súluskarð til Kjólsvíkur er hvorki löng né ströng, en samanlögð hækkun er þó um 800 m. og leiðin nokkuð seinfarin. Merkingar eru víðast góðar, en þegar ég átti leið þarna um voru stikurnar orðnar lélegar sunnan til. Á leiðinni er víða gott útsýni og náttúrufegurð og því er það hálfgerð sóun að fara þarna um í súld og þoku sem byrgir sýn og gerir umhverfið og söguna miklu grárra en það er.

Helstu heimildir:

 • Árni Óla (1959): Fyrir 60 árum: Þegar ég reisti bú í Brúnavík. Lesbók Morgunblaðsins 6. desember 1959, (bls. 569-572). http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=241065&lang=4
 • Helgi M. Arngrímsson o.fl. (2007): Víknaslóðir. Gönguleiðir á Austurlandi 1. Gönguleiðakort. Ferðamálahópurinn Borgarfirði eystri.
 • Hjörleifur Guttormsson (2008): Úthérað ásamt Borgarfirði eystra, Víkum og Loðmundarfirði. Árbók Ferðafélags Íslands. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
 • Náttúrufræðistofnun Íslands (á.á.): Ljósalyng (Andromeda polifolia). https://www.ni.is/biota/plantae/anthophyta/ljosalyng-andromeda-polifolia