Staðsetning: Úr Þorskafjarðarbotni norður í Staðardal í Steingrímsfirði Áfangar og hnattstaða: Upphaf: 0,00 km, N65°36,12' - V22°05,22' Af Þorskafjarðarheiði: 6,51 km, N65°38,94' - V22°01,60' Þriðjungaá: 12,47 km, N65°41,26' - V21°56,97' Lok: 20,96 km, N65°45,30' - V21°53,37' Hæð y. sjó: 83 m við upphaf, 575 m hæst, 123 m við lok => Hækkun 492 m, lækkun 452 m, nettóhækkun 40 m Vegalengd: 20,96 km Tími: 2:59:33 klst Meðalhraði: 7,00 km/klst (8:34 mín/km) Dags.: Laugard. 26. júní 2021, kl. 17:04 Hlaupafélagar: Arnór Freyr Ingunnarson, Birkir Þór Stefánsson, Ragnar K. Bragason og Sóley Birna Hjördísardóttir
Fróðleikur um leiðina:
Kollabúðaheiði er ein allmargra fjallvega á milli Breiðafjarðar og Stranda. Þessi leið var nokkuð fjölfarin fram eftir 19. öld, en líklega flestum gleymd á 21. öldinni. Síðustu áratugi hafa mannaferðir þarna yfir helst tengst viðhaldi og síðar niðurrifi sauðfjárveikivarnagirðingar sem girt var úr botni Steingrímsfjarðar suður í Þorskafjörð til að hefta útbreiðslu mæðiveiki um og fyrir miðja 20. öld.
Fjallvegahlaupið yfir Kollabúðaheiði hefst á vegamótum í botni Þorskafjarðar, þar sem lagt er upp á Þorskafjarðarheiðina (þjóðveg nr. 608) af Vestfjarðavegi (nr. 60). Örnefnið Kollabúðaheiði er gamalt, en að öllum líkindum var fyrst farið að tala um Þorskafjarðarheiði í tengslum við lagningu bílvegar yfir heiðina. Vísbendingu um þetta má finna í umræðu um fjárlög á Alþingi 26. maí 1941, þar sem Bergur Jónsson, Alþingismaður Barðstrendinga, lagði til „nokkra hækkun á styrk til Kollabúðaheiðarvegar“. Bergi þótti ekki ná nokkurri átt að Alþingi væri “að píra með 10-15 þús. kr. fjárveitingar til þessa akvegar […] um Kollabúðaheiði og norður yfir Langadal að Ísafjarðardjúpi“ og lagði því, ásamt öðrum, fram tillögu „þar sem við bætum aðeins 20 þús. kr. við þær 15 þús. kr., sem til þessa vegar eru ætlaðar á fjárlögum“. Kollabúðaheiði lá að fornu áleiðis í Staðardal og því hefur orðið að finna hinum nýja akvegi annað nafn þegar á reyndi.
Rétt eins og heiðarnöfnin liggja leiðirnar yfir heiðarnar saman fyrstu 6,7 kílómetrana eða þar um bil. Þessi spölur fylgir sem sagt bílveginum í norðnorðaustur upp býsna brattar brekkur, fyrst upp Suðurbrún og síðan upp með Sleggjuhjallagili að austanverðu. Þegar komið er í u.þ.b. 450 m hæð ofan við upptök gilsins er beygt til hægri, til norðausturs, út af veginum inn á gömlu leiðina yfir hina eiginlegu Kollabúðaheiði. Þarna er landið tiltölulega flatt og einkennist af tjörnum og lækjardrögum. Eftir u.þ.b. 2,8 km og 50 m hækkun til viðbótar er komið að sýslumörkum Strandasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu, sem nú eru fyrst og fremst hreppamörk Reykhólahrepps og Strandabyggðar. Eftir það falla öll vötn til Steingrímsfjarðar og þarna rétt hjá eru einmitt upptök Ósár sem rennur til sjávar rétt innan við Hólmavík.
Norðan við hreppamörkin er hlaupið áfram í sömu stefnu með Miðheiðarvatn á vinstri hönd og Miðheiðarborg til hægri. Þessi örnefni eru ekki sérlega frumleg, þar sem þau má finna á flestum heiðum á þessum slóðum. Eftir þetta lækkar landið smátt og smátt og þá fer að sjást niður í Aratungudal á vinstri hönd. Hægra megin hallar niður í Vatnadal sem Grjótá rennur úr niður í Steingrímsfjörð. Sömu stefnu er haldið það sem eftir er leiðarinnar. Niðurleiðin er hvergi brött, en þó hallar vel undan fæti síðustu 2 km eða þar um bil.
Hlaupið endar þegar komið er niður á aðalveginn rétt innan við sumarhúsið að Hólum í Staðardal. Vegalengdin frá hreppamörkum niður á veg er rétt um 11 km.
Ekki virðist mikið til af sögnum um ferðir yfir Kollabúðaheiði, þó að orðrómur sé á kreiki um að þar sé bæði huldufólk og draugar. Sú sem frægust hefur orðið af ferðum þarna yfir er líklega Kollabúðakisa, sem Sumarliði Brandsson bóndi í Kollabúðum fann í Kollabúðadal á venjulegum þriðjudegi að vori til um miðja 19. öld, aðframkomna og með klærnar fastar í bakinu á dauðum erni. Fljótlega kom í ljós að þarna var kominn heimiliskötturinn á Stað í Steingrímsfirði, mikill veiðiköttur sem m.a. hafði „oft setið um að veiða örn, sem var þar stundum upp við fjallið“. Þetta hefur greinilega tekist á endanum, því að þegar fólk kom heim úr messu á Stað sunnudaginn næsta þarna á undan, var kötturinn týndur. Örninn hefur greinilega varist vel, en þó orðið að láta undan að lokum. Sumarliði hlúði að kettinum og fór með hann heim að Kollabúðum þar sem hann dvaldist síðan til dánardægurs. „Þótti ýmsum gestum gaman að sjá kisu, því loftferðalög voru þá ókunn hjer um slóðir“, eins og það er orðað í frásögn af þessum atburðum, sem birtust í tímaritinu Hlín í janúar 1941 undir yfirskriftinni „Sönn saga“.
Ferðasagan:
Ferðasagan er í smíðum.
Lokaorð:
Kollabúðaheiði er þægileg fjallvegahlaupaleið eftir tiltölulega sléttum vegarslóða sem er greinilegur næstum alla leið. Villuhætta er því alla jafna lítil, í það minnsta yfir sumartímann. Engar brattar brekkur eru á leiðinni. Vaða þarf yfir 1-3 vatnsföll, en þau eru hættulaus við venjulegar aðstæður. Óhætt er að mæla með þessari leið fyrir þá sem vilja reyna á sig án þess að lenda í mjög krefjandi aðstæðum.
Helstu heimildir:
- Alþingi, 1941: Þingtíðindi 26.05.1941. Sameinað þing: 21. fundur, 56. löggjafarþing. 1. mál, fjárlög. https://www.althingi.is/altext/56/r_txt/0202.txt.
- Helgi M. Arngrímsson, 2007: Vestfirðir og Dalir 6– Útivera. Göngu- og reiðleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
- Hlín, 1941: Flugfarþeginn. (Sönn saga). Hlín, 24. árg., 1. tbl. 1.1.1941, bls. 133-134. https://timarit.is/page/4991287#page/n133/mode/2up.
Þakkir:
- Hafdís Sturlaugsdóttir fyrir ábendingar um örnefni
- Matthías Lýðsson fyrir ábendingar um örnefni
- Þórður Halldórsson fyrir ábendingar um leiðina