Þingmannavegur

Staðsetning: Yfir Vaðlaheiði úr Eyjafirði yfir í Fnjóskadal
Nánar: Frá Eyrarlandi í Eyjafirði yfir Vaðlaheiði að tjaldstæðinu við Systragil í Fnjóskadal
Hnattstaða: 
Upphaf:        N65°39,69' - V18°02,11'
Brekkulækur (skilti): N65°39,75' - V18°00,94'
Þingmannalækur 1:   N65°39,60' - V17°59,98'
Þingmannalækur 2:   N65°39,76' - V17°59,09'
Hæsta hæð:      N65°40,44' - V17°58,32'
Systragilsdrög (brú): N65°40,83' - V17°57,70'
Systragil (vað):   N65°42,10' - V17°55,79'
Bæjargil (vað):    N65°42,35' - V17°54,45' 
Ofan við tjaldstæði: N65°42,38' - V17°54,35'
Lok:         N65°42,39' - V17°53,76'
Hæð y. sjó: 31 m við upphaf, 701 hæst, 100 við lok => Hækkun 670 m, lækkun 601 m, nettóhækkun 69 m.
Vegalengd: 10,74 km
Tími: 1:46:10 klst.
Meðalhraði: 6,07 km/klst (9:53 mín/km)
Dags.: Laugardag 11. júní 2016 kl. 13:08
Hlaupafélagar: Anton Örn Brynjarsson, Birgitta Stefánsdóttir, Birkir Þór Stefánsson, Bryndís Óladóttir, Elías Gunnar Þorbjörnsson, Grétar Ásgeirsson, Guðrún Nýbjörg Svanbergsdóttir, Gunnar Kristinn Jóhannsson, Hildur Andrjesdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Jónína Sveinbjörnsdóttir, Rakel Káradóttir, Sara Dögg Pétursdóttir, Sigríður Einarsdóttir, Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, Sonja Sif Jóhannsdóttir, Sævar Helgason, Sævar Skaptason, Örvar Sigurgeirsson

Fróðleikur um leiðina:

Þingmannavegur er gömul leið yfir Vaðlaheiði, sem liggur nokkru sunnar en Vaðlaheiðarvegurinn sem margir þekkja frá árunum áður en vegurinn um Víkurskarð var opnaður. Hlaupið um Þingmannaveg hefst við afleggjarann heim að Eyrarlandi, beint á móti flugvellinum á Akureyri, um 1,5 km innan við hringveginn. Hlaupið er beint til fjalls á suðurbarmi Brekkulækjar. Leiðin liggur eftir vegarslóða upp gömul tún og þegar túnunum sleppir er stefnt á gamla girðingu á norðurbakka Þingmannalækjar. Áfram er haldið yfir lækinn, en sunnan við hann hlykkjast gamli Þingmannavegurinn upp hlíðina. Efst í brekkunum er hlaupið aftur norður yfir lækinn og stefnan tekin í norðaustur með Þingmannahnjúk (728 m) á hægri hönd. Fylgt er vörðum eftir endilöngum Járnhrygg efst á Vaðlaheiði að Systragilsdrögum. Þar efst á heiðinni standa Systravörður hvor sínum megin við veginn. Farið er austur yfir Systragilsdrög á steinhlaðinni grjóthleðslu, rúmlega mannhæðarháu mannvirki frá árinu 1871. Áfram liggur svo leiðin í sneiðingum niður með innanverðu Systragili, en síðan er hlaupið norður yfir gilið og norður yfir Bæjargil. Rétt norðan við Bæjargilið er tekin kröpp hægri beygja og hlaupið beint niður á tjaldstæðið í Systragili. Þar endar hlaupið á þjóðveginum (Illugastaðavegi (nr. 833)) neðan við tjaldstæðið.

Sem fyrr segir er Þingmannavegur gömul leið, en ekki er þó hægt að fullyrða hversu gömul hún er. Í Ljósvetningasögu er getið um Þingmannaleið en það þarf ekki að hafa verið sama leiðin. Vera kann að hún hafi verið á svipuðum slóðum Eyjafarðarmegin en komið niður í Fnjóskadal nokkru innar, e.t.v. við Veturliðastaði. Hlaupaleiðin virðist þó alla vega vera elsta þekkta leiðin. Hvað sem þessu líður hljóta menn að hafa átt leið þarna yfir heiðina frá því að land byggðist. Skammt frá bænum Eyrarlandi þar sem hlaupið hefst var t.d. hinn forni þingstaður Vaðlaþing. Þangað hafa menn sjálfsagt fjölmennt forðum vestur yfir heiðina, en átt samleið með hlaupurum til baka, hvort sem leiðin þá var nákvæmlega sú sama og nú.

Grjóthleðslan við Systragil er umtöluð, enda er þetta sem fyrr segir mikið mannvirki sem hefur staðið af sér umferð, veður og vind í nær 150 ár. Sigurður Davíðsson, hreppstjóri á Veturliðastöðum í Fnjóskadal, er sagður hafa verið yfirsmiður við framkvæmdina. Upphaflega átti að hlaða veginn að brúnni úr grjóti en byggja sjálfa brúna úr timbri, sem Lárus Sveinbjörnsson, sýslumaður í Þingeyjarsýslu, fól Jónatani Þorlákssyni, hreppstjóra í Hálshreppi, með bréfi dags. 7. júlí 1870 að „taka út nú í kauptíð á Akureyri“. Timbrið var þó aldrei keypt, þar sem sýslumaður féllst á það með bréfi dags. 25. febrúar 1871 að „brúin verði öll úr grjóti gjörð“, þar sem „margir góðir menn“ ætluðu það hentara.

Ferðasagan:  

Föstudaginn 10. júní 2016 brugðum við hjónin okkur í helgarferð til Akureyrar í tilefni af því að þessa helgi stefndi ég á tvö fjallvegahlaup norðanlands. Með í för voru líka dóttir og tengdasonur sem bæði tóku einhvern þátt í verkefninu. Fyrra hlaupið hófst eftir hádegi á laugardeginum í einmunaveðurblíðu, hægum vindi, hálfskýjuðu veðri, svolitlu mistri og 15 stiga hita á láglendi.

Laugardagshlaupið um gamla Þingmannaveginn yfir Vaðlaheiði reyndist vera eitt fjölmennasta fjallvegahlaupið frá upphafi og vafalítið líka eitt af þeim góðmennustu. Samtals vorum við 20 sem lögðum af stað frá Eyrarlandi og var uppistaðan í þeim hópi vaskir hlauparar úr UFA/Eyrarskokki, enda hlaupaleiðin rétt við bæjardyrnar hjá þeim. Sævar og Bryndís voru líka komin að sunnan og Birkir bóndi í Tröllatungu hafði skroppið alla leið af Ströndunum. Þetta gat ekki annað en orðið góður dagur.

Birkir og Birgitta gera klárt fyrir Þingmannaveginn.

Birkir og Birgitta gera klárt fyrir Þingmannaveginn.

Björk skutlaði okkur Gittu að Eyrarlandi og svo var fastmælum bundið að hún myndi sækja okkur að Systragili svo sem tveimur tímum síðar. Og þegar allir voru mættir var lagt af stað frá Eyrarlandi, beint upp hlíðina.

Allt hér um bil tilbúið við Eyrarland. Standandi f.v.: Örvar, Elías, Sigþóra, Hildur, Jónína, Ingibjörg, Gunnar, Rakel, Anton, Sara Dögg, Grétar, Sonja Sif, Stefán G., Sævar Helgason, Sævar Skaptason, Guðrún Nýbjörg og Birgitta. Sitjandi f.v.: Birkir, Sigríður og Bryndís. (Ljósm. Björk Jóhannsd.).

Allt hér um bil tilbúið við Eyrarland. Standandi f.v.: Örvar, Elías, Sigþóra, Hildur, Jónína, Ingibjörg, Gunnar, Rakel, Anton, Sara Dögg, Grétar, Sonja Sif, Stefán, Sævar Helgason, Sævar Skaptason, Guðrún Nýbjörg og Birgitta. Sitjandi f.v.: Birkir, Sigríður og Bryndís. (Ljósm. Björk Jóhannsd.).

Við fórum ekki sérlega hratt á uppleiðinni. Það var þó ekki bara vegna þess að hlíðin væri brött, heldur líka vegna útsýnisins sem blasti við þegar litið var um öxl. Hinum megin við fjarðarbotninn var Akureyri eins og mynd á póstkorti í sólskininu. Ég var búinn að fá ágæta leiðsögn um það hvernig best væri að bera sig að í hlíðinni, en var samt ekkert alveg með leiðina á hreinu. Reyndar finnst mér yfirleitt erfitt að rata eftir munnlegum leiðbeiningum og vil frekar fá GPS-punkta á helstu viðkomustöðum og þar sem taka þarf afdrifaríkar beygjur. GPS-punktur segir mér miklu meira en t.d. „stór steinn upp með læknum þegar þú ert nýkominn yfir girðinguna“, svo tekið sé tilbúið dæmi um algenga leiðsögn. Það sem sumum finnst vera helsta kennileitið á einhverri leið getur sem best farið fram hjá einhverjum öðrum sem horfir, eðli málsins samkvæmt, öðrum augum á leiðina. GPS-punktar eru kannski frekar þurrir, en þeir eru ekkert matskenndir. Hins vegar eru þeir stundum rangt skráðir og þá eru þeir verri en engir.

Á leið upp með Litlagili. Framundan er skilti sem vísar til hægri á Þingmannahnjúk. Það er rétta leiðin (til að byrja með).

Á leið upp með Brekkulæk. Rúmir 900 m að baki. Framundan er skilti sem vísar á Þingmannahnjúk til hægri. Það er rétta leiðin (til að byrja með).

Hvað sem líður öllum vangaveltum um leiðsögn og GPS-punkta er leiðin upp Þingmannaveginn svo sem ekki vandrötuð. Eftir að hafa steðjað nákvæmlega 940 m beint upp hlíðina komum við að skilti á suðurbakka Brekkulækjar, sem vísaði á Þingmannhnjúk til hægri. Fæst okkar ætluðu svo sem á Þingmannahnjúk en rétta leiðin er samt í stefnu þangað, yfir efstu túnin fyrir ofan Eyrarland og áfram yfir Þingmannalæk. Líklega hittum við ekki alveg á stystu leiðina að þeim stað þar sem farið er yfir lækinn, en það var svo sem aukaatriði. Við lækinn tók ég GPS-punkt til síðari nota og innan við lækinn varð Þingmannavegurinn greinilegri. Vegurinn þarna upp sneiðingana hefur greinilega verið kerrufær fyrr á árum enda leiðin fjölfarin.

Hlaupið í halarófu suður yfir efsta túnið ofan við Eyrarland. Birkir fremstur í flokki sem oftar.

Hlaupið (eða gengið) í halarófu suður yfir efsta túnið ofan við Eyrarland. Birkir fremstur í flokki sem oftar. Akureyri langt að baki.

 

Horft suður yfir Þingmannlæk. Sunnan við lækinn liggur Þingmannavegurinn í sneiðingum upp brekkurnarog skömmu síðar liggur leiðin aftur norður yfir lækinn.

Horft suður yfir Þingmannlæk. Sunnan við lækinn liggur Þingmannavegurinn í sneiðingum upp brekkurnar og skömmu síðar liggur leiðin aftur norður yfir lækinn.

Fyrr en varði vorum við komin að þeim stað þar sem vegurinn liggur aftur norður yfir Þingmannlæk. Þar sýndi GPS-úrið 3,26 km og 57:12 mín og hæðarmælirinn stóð í 559 m. Þarna áðum við drykklanga stund, nánar tiltekið í u.þ.b. 8 mín. skv. mínum mælingum. Sumir þurftu aðeins að fækka fötum í blíðunni og aðrir voru búnir að ákveða að skreppa upp á Þingmannahnjúk í leiðinni og koma svo í humátt á eftir okkur hinum yfir heiðina. Í fjölmennum fjallvegahlaupum er líka alltaf gott að taka sér hvíldir annað slagið til að hinkra eftir þeim sem dregist hafa aftur úr.

Áð sunnan við efra vaðið á Þingmannlæk.

Stutt hvíldarstund Örvars og Sigþóru sunnan við efra vaðið á Þingmannlæk.

Meginþorri hópsins kominn norðuryfir Þingmannaveg með stefnu á Járnhrygg. Þeir sem vilja halda á Þingmannahnjúk geta hins vegar beygt þarna til hægri.

Meginþorri hópsins kominn norður yfir Þingmannalæk með stefnu á Járnhrygg. Þeir sem vilja halda á Þingmannahnjúk geta hins vegar beygt þarna til hægri.

Eftir stutta viðdvöl við Þingmannalæk var hlaupið aftur norður yfir lækinn og upp Járnhrygg. Þarna var greinileg slóð víðast hvar og vörður þar að auki, þannig að villuhættan var lítil. Af ummerkjum mátti sjá að einhver hafði verið of fótfúinn til að fara þessa leið hlaupandi, því að þarna voru allt of greinileg og allt of djúp för eftir torfæruhjól sem höfðu skorið landið sundur, bæði á grónum og ógrónum köflum. Þó að komið væri fram undir miðjan júní var enn snjór í lautum, klaki ekki alls staðar farinn úr jörðu og djúpur aur í holtum. Vélknúin ökutæki eiga ekkert erindi í svona aðstæður og geta valdið miklum skaða sem náttúran er áratugi að lagfæra.

Slóð eftir torfæruhjól. Svona sár gróa seint.

Slóð eftir torfæruhjól. Svona sár gróa seint.

Dæmigerð vörðumynd af Birki bónda.

Dæmigerð vörðumynd af Birki bónda.

Á Járnhrygg var farið að dreifast töluvert úr hópnum. Fótfráustu Akureyringarnir voru komnir langt á undan en við Birkir fylgdumst að einhvers staðar fyrir aftan miðjan hóp. Okkur skortir aldrei umræðuefni og fyrr en varir vorum við komnir á topp Vaðlaheiðarinnar. Þar sýndi úrið 4,83 km og 1:12:57 klst. Meðalhraðinn hafði sem sagt ekki verið nema rétt um 4 km/klst, sem þykir hægur gönguhraði á jafnsléttu. En við vorum að vísu búnir með u.þ.b. 670 m hækkun. Eftir á að hyggja er Vaðlaheiðin ótrúlega há miðað við hvað leiðin upp er stutt og greið.

Bryndís og Guðrún Nýbjörg við spegilsléttan poll nálægt háheiðinni. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Bryndís og Guðrún Nýbjörg við spegilsléttan poll nálægt háheiðinni. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Mér fannst áfanginn frá hæsta punkti heiðarinnar og niður að brúnni frægu á Systragilsdrögum alskemmtilegasti hluti leiðarinnar. Þarna er uppbyggður, beinn og breiður vegur sem líklega hefur verið gerður seint á 19. öld, þ.e.a.s. um svipað leyti og unnið var að brúargerðinni. Þessi mannvirki hafa staðist tímans tönn merkilega vel, en yfirborðið er orðið vel gróið og mjúkt undir fæti og því tilvalið að herða aðeins á hlaupunum.

Uppbyggður Þingmannavegur handan við háheiðina.

Uppbyggður Þingmannavegur handan við háheiðina.

Glæsilegur hópur glæsilegra Eyrarskokkara var kominn á undan mér að hinni margnefndu brú. Lækjardrögin voru enn bakkafull af snjó og því gafst ekki færi á að virða mannvirkið almennilega fyrir sér. Gaman væri að fara þarna um síðsumars og skoða hleðsluna betur. „Það skal vanda sem lengi á að standa“, eins og máltækið segir, og þarna hefur það greinilega verið gert. Það er eiginlega bara ævintýri að þessi brú skuli hafa verið hlaðin árið 1871 og vera enn í eins góðu standi og raun ber vitni. Sjálfsagt hefur einhvern tímann verið dyttað að henni, en sama er. Þarna hefur ekki verið kastað til höndunum. Hefði brúin verið gerð úr timbri eins og upphaflega var ætlunin er hætt við að ellimörkin væru greinilegri.

Sonja Sif við brúna yfir Systragilsdrög.

Sonja Sif við brúna yfir Systragilsdrög.

Við brúna voru 5,75 km og 1:20:10 að baki og í sjálfu sér bara stutt eftir til byggða og allt á undanhaldinu. Enn teygðist úr hópnum og sjálfur var ég oftast einn á ferð. Ég veit fátt skemmtilegra en hlaup niður aflíðandi halla á fjöllum eftir greinilegri götu í góðu sumarveðri. Ég veit ekki alveg hvort ég á að blanda „kraftbirtingarhljómi guðdómsins“ inn í þessa umræðu, en ég þykist alla vega skilja hugtakið. Sá skilningur skerpist við svona aðstæður.

Hér falla öll vötn til Fnjóskadals og gatan þangað greið og greinileg.

Hér falla öll vötn til Fnjóskadals og gatan þangað greið og greinileg.

Fyrr en varði var ég kominn að vaðinu í Systragili. Líklega var ég kominn fram úr flestum þegar þarna var komið sögu, nema hvað Birkir og Grétar voru farnir sína leið. Þeir eru vanir smalar og léttir á fæti. Þarna var öll villuhætta fyrir löngu úr sögunni, nema hvað það var kannski spurning hvort maður myndi hitta á stystu leið niður á tjaldstæðið við Systragil eða enda förina við Hróarsstaði. Áfanginn frá brúnni niður að vaðinu yfir Systragil mældist 3,05 km og hafði ekki tekið mig nema rétt um 15 mínútur, enda allt niður í móti og lítið um áningar og myndatökur. Heildarvegalengdin var þar með komin í 8,80 km.

Sara Dögg á vaðinu. (Ljósm. Sævar Sk.).

Sara Dögg á vaðinu í Systragili. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Það er ástæðulaust að fjölyrða neitt um síðustu kílómetrana í þessu hlaupi. Ég var enn einn míns liðs og naut þess að fara hratt yfir. Það er líka auðvelt þegar undirlagið er gott og landið hallar í rétta átt. Þarna var ég lengst af á 13-15 km hraða á klst. og auðvitað missti ég af beygjunni niður að tjaldstæðinu í Systragili og endaði þess í stað í túninu á Hróarsstöðum. Þar hitti ég Birki og Grétar sem höfðu ratað rétta leið og síðan skokkað út veginn til að gá að mannaferðum. Ég ákvað að afturkalla þennan síðasta spöl með því að hlaupa til baka upp brekkurnar þangað til ég fyndi réttu leiðina niður. Með svolitlum reiknikúnstum gæti ég þá skráð þetta allt rétt eins og ekkert hefði í skorist. Til þess þurfti ég bara að draga síðasta spölinn niður að Hróarsstöðum frá heildarvegalengdinni og bæta svo brekkunni niður að tjaldstæðinu við útkomuna. Þannig varð til heildarvegalengdin sem sést fremst í þessum kafla. Þetta var svo sem ágæt villa, því að ég fékk meiri æfingu út úr þessu fyrir bragðið.

Á leiðréttingarkaflanum upp frá Hróarsstöðum mætti ég nokkrum hlaupurum sem höfðu fylgt fordæmi mínu í villunni. Þessu fólki smalaði ég náttúrulega til baka og ekki leið á löngu þar til við vorum komin á þann stað þar sem ég hefði átt að taka krappa hægri beygju rétt norðan við Bæjargil (sjá GPS-punkta fremst í kaflanum). Þá var ekkert annað eftir en að drífa sig niður snarbratta brekkuna ofan við tjaldstæðið og niður á veg þar sem hlaupið átti að enda. Og stuttu seinna var allur hópurinn kominn á leiðarenda.

Hlaupið niður brekkurnar að tjaldstæðinu í Systragili.

Hlaupið niður brekkurnar að tjaldstæðinu í Systragili.

Horft niður á tjaldstæðið og yfir Fnjóská.

Horft niður á tjaldstæðið og yfir Fnjóská.

Það var létt yfir fólki við endamarkið í Fnjóskadal enda fátt betra fyrir andann en að hlaupa á fjöllum í svona góðu veðri með svona góðu fólki. Sumir Akureyringarnir voru meira að segja ekki búnir að fá nóg af þessari upplifun og lögðu því hiklaust af stað sömu leið til baka. Aðrir létu sér nægja svolítinn viðbótarhlaupatúr í Fnjóskadalnum og enn aðrir, þ.á.m. við feðginin, söfnuðust í tiltæka bíla og héldu til Akureyrar á fjórum jafnfljótum. Það var mikil gleði í loftinu þennan laugardag.

Við Systragil beið Björk aðalbílstjóri eftir Bryndísi og öðrum hlaupurum sem vantaði far til Akureyrar.

Við Systragil beið Björk aðalbílstjóri eftir Bryndísi og öðrum hlaupurum sem vantaði far til Akureyrar.

Hópmynd að hlaupi loknu. Á myndina vantar fimm hlaupara sem gátu ekki stillt sig um að hlaupa strax sömu leið til baka. (Ljósm. Björk).

Hópmynd að hlaupi loknu. Á myndina vantar fimm hlaupara sem gátu ekki stillt sig um að hlaupa strax sömu leið til baka. (Ljósm. Björk).

Nesti og annar búnaður:

Nestið mitt í þessu hlaupi var að vanda einungis orkugel og vatn í brúsa. Gelið lét ég ósnert enda leiðin ekki löng og drakk lítið af vatninu. Nesti er naumast nauðsynlegt á stuttri leið sem þessari og næg tækifæri gefast á leiðinni til að drekka vatn úr lækjum. Ég var klæddur í síðar hlaupabuxur og stuttermabol og þurfti engan veginn á meiri fötum að halda. Bar léttan hlaupabakpoka á baki en notaði ekkert af því sem í honum var. Á fótum hafði ég utanvegahlaupaskó af gerðinni Saucony Peregrine, fengna hjá Dansporti, styrktaraðila fjallvegahlaupanna 2016. Þeir reyndust mjög vel, fóru vel með fætur jafnt á mjúku undirlagi sem hörðu og voru fljótir að losa sig við vatn. Þetta var fyrsta ferðin þeirra og langt í frá sú síðasta.

Lokaorð:

Þingmannavegur er afar hentug göngu- og hlaupaleið. Leiðin er einkar vel í sveit sett og auðvelt að komast að upphafs- og lokapunkti. Hækkun er töluverð en hvergi erfið. Alla leið er hægt að fylgja stikum eða vörðum en á tveimur stöðum á uppleiðinni úr Eyjafirði getur framhaldið þó orkað tvímælis. Sömuleiðis er auðvelt að missa af leiðinni niður á tjaldstæðið í Systragili, en það kemur lítið að sök þar sem frá þeim stað er vegarslóði niður á hlaðið á Hróarsstöðum svo sem 1 km utar í Fnjóskadal. Útsýni af leiðinni er fagurt, sérstaklega þegar horft er til baka yfir Akureyri og Eyjafjörð. Þetta er fjallvegur sem auðvelt er að mæla með til útivistar. Vélknúin ökutæki eiga hins vegar ekkert erindi þarna um.

Helstu heimildir:

 • Aðalheiður Kjartansdóttir (2010): Þingmannaleið gengin.
  http://www.641.123.is/blog/2010/07/29/467893
 • Gönguleiðanefnd Ferðafélags Akureyrar (1998): Gönguleiðir yfir Vaðlaheiði. Gönguleiðakort.
 • Þormóður Sveinsson (1952): Þingmannavegur og grjóthleðslan á Vaðlaheiði. Ferðir. Útg. Ferðafélag Akureyrar.