Gönguskarð í Eyjafirði

Staðsetning: Frá Garðsá í Eyjafirði að Reykjum í Fnjóskadal
Áfangar og hnattstaða: 
Upphaf:          0,00 km, N65°36,10' - V17°59,27'
Gerðisá:          1,83 km, N65°35,51' - V17°57,55'
Kanagil:          5,00 km, N65°34,32' - V17°55,71'
Fossgil:          7,10 km, N65°34,32' - V17°55,71'
Gönguskarðslækur:     12,90 km, N65°31,05' - V17°52,89'
Gönguskarð:        15,00 km, N65°30,73' - V17°50,52' 
Varða í Skarðsdal:    17,60 km, N65°29,83' - V17°48,27' 
Vegur í Bleiksmýrardal:  20,55 km, N65°30,34' - V17°45,13'
Lok:           30,26 km, N65°35,05' - V17°46,30'
Hæð y. sjó: 131 m við upphaf, 599 m hæst, 218 m við lok => Hækkun 468 m, lækkun 381 m, nettóhækkun 87 m
Vegalengd: 30,26 km 
Tími: 4:52:57 klst. 
Meðalhraði: 6,20 km/klst(9:41 mín/km)
Dags.: Laugardagur 13. júní 2020, kl. 13:33 
Hlaupafélagar: 
Anna Berglind Pálmadóttir 
Birgitta Stefánsdóttir
Birkir Þór Stefánsson
Rannveig Oddsdóttir
Sigríður Einarsdóttir
Sigurður (Bibbi) Sigurðsson (að hluta)

Fróðleikur um leiðina:

Hlaupið yfir Gönguskarð hófst við bæinn Garðsá í Garðsárdal, austanmegin í Eyjafjarðarsveit, um 9 km innan við hringveginn þar sem hann liggur yfir leirurnar innan við Akureyri. Garðsá er eina byggða bólið í dalnum og rétt utan við mynni Bæjardals. Garðsá rennur niður Bæjardal en ekki Garðsárdal eins og ætla mætti. Þar rennur hins vegar Þverá ytri og upp með henni var hlaupið með stefnu í suðaustur inn Garðsárdal. Eins og fleiri dalir norðanlands hefur dalurinn sitt hvort nafnið sitt hvorum megin við ána, þ.e.a.s. Garðsárdalur norðaustanmegin en Öngulsstaðadalur suðvestanmegin. Sá síðarnefndi kemur ekki beint við sögu á þessu ferðalagi.

++++++++++++++

Eftir um 2,5 km hlaup, þar sem m.a. er vaðið yfir Gerðisá, er komið að bænum Þröm. Þröm fór í eyði 1965 og var síðasti bærinn sem búið var á innan við Garðsá. Fyrir ofan bæinn er Þremshnjúkur (827 m). Á Þröm er snjóflóðahætta og þar fórst maður í snjóflóði árið 1862, (skv. greinargerð með eldra aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar). Sagt er að Guðlaugur Jóhannesson sem bjó á Þröm um miðja 19. öld hafi einhvern tímann, ásamt sonum sínum tveimur, lent í viðureign við naut frá Garðsá sem elti þá alla leið inn í bæjargöngin. Þar braut nautið allt og bramlaði, m.a. matardisk sem annar sonurinn hafði verið að borða af þegar nautið birtist.

Margar sögur hafa gengið af bræðrunum Sveini og Sölva Steinari Magnússonum sem bjuggu á Þröm 1937-1965. Sveinn var heilsuveill og taldi áfengi nýtast sér best sem meðal við kvillum sínum. Veikindunum fylgdu ofsjónir og þegar verst lét sá Sveinn mikið af draugum í húsinu. Steinar aðstoðaði bróður sinn í þessum vandræðum með því að halda uppi skothríð á draugana úr haglabyssu og að eigin sögn skaut hann mest 75 skotum á einum degi. Það dugði til að reka alla draugana fram á dal og yfir Gönguskarð. Annar mikilvægur liður í heimahjúkruninni sem Steinar sinnti var að sækja meðul til Akureyrar, væntanlega aðallega áfengi. Sjúkrasamlagið tók engan þátt í þeim kostnaði. Aðstoð við baðferðir kváðu hins vegar ekki hafa verið hluti af heimahjúkruninni.

Sjálfur var Steinar á Þröm ekki sérlega hræddur við drauga og taldi mun meiri hættu stafa af kommúnistum. Ókunnugir sem leið áttu um dalinn voru þá e.t.v. taldir vera rússneskir njósnarar og þá var haglabyssan jafnvel tekin fram í varnarskyni. Annars virðist Steinar hafa verið lífsglaður maður sem átti góð samskipti við fólk og lét mótlæti ekki buga sig.

Margir kannast sjálfsagt við bók Gunnars M. Magnúss um Skáldið á Þröm, en sú Þröm var lítið herbergi í fjárhúsi vestur í Súgandafirði og tengdist Þröm í Garðsárdal ekki neitt.

Um 1,5 km innan við Þröm er komið að Kanagili sem skiptir löndum milli Þramar og Kristness. Nálægt Kanagili liggur forn leið yfir Reykjaskarð til Grjótárdals suðvestur úr Fnjóskadal. Kristnesbærinn stóð svo um 1,5 km þar fyrir innan, en þar lagðist byggð af fyrir löngu, líklega upp úr 1870. Innan við Kristnes liggur leiðin m.a. yfir Fossgil og Kolgrafaragil.

Þegar um 11 km eru að baki frá Garðsá er sveigt lítið eitt til vinstri og stefnan tekin í austur og upp í Gönguskarð, eftir gönguslóðum meðfram Gönguskarðslæk og fram hjá svonefndum Þröskuldum. Þar er sveigt lítið eitt til hægri og stefnt í suðaustur. Þaðan hallar austuraf.

Á vissan hátt má líkja ferðalaginu í gegnum Gönguskarð við tímavél. Garðsárdalsmegin í skarðinu eru jarðlögin nefnilega u.þ.b. 4 milljón ára gömul, en austan við skarðið eru þau helmingi yngri, þ.e. um 2 milljón ára.

Eftir u.þ.b. 2-3 km hlaup niður úr skarðinu er komið að Skarðsá. Þar er tekin vinkilbeygja til vinstri og hlaupið norðaustur og niður með ánni þar til hún rennur í Fnjóská við Skarðssel niðri í Bleiksmýrardal. Að Skarðsseli eru um 19 km frá upphafspunktinum.

Bleiksmýrardalur er vestastur þriggja dala sem ganga til suðurs inn úr Fnjóskadal. Dalurinn er langur og djúpur, samtals tæpir 60 km frá syðstu drögum norðaustur af Hofsjökli og út að Reykjum. Reyndar er Bleiksmýrardalur talinn lengsti óbyggði dalur landsins. Dalurinn er vel gróinn og hefur öldum saman verið afréttarland. Utarlega í dalnum er allstórvaxinn birkiskógur, sérstaklega vestanmegin. Hlíðar dalsins eru brattar og þar mun hafa orðið mikið tjón á búsmala í skriðuföllum árið 1818.

Þó að Bleiksmýrardalur hafi lengi verið óbyggður benda gamlar tóttir til að þar hafi einhvern tímann verið byggð, og reyndar eru til sagnir um allmikla byggð þar fyrr á öldum. Líklega hefur þar þó ekki endilega verið um heilsársbúsetu að ræða, heldur gætu þarna hafa verið sel eins og nöfnin gefa til kynna. Þarna á líka að hafa verið útilegumannabyggð.

Við Skarðssel er komið inn á jeppaslóða sem fylgt er meðfram Fnjóská norður og niður Bleiksmýrardal, allt þar til komið er að Reykjum þar sem hlaupið endar. Á leiðinni er m.a. farið fram hjá eyðibýlunum Smiðjuseli (um 22 km frá upphafsstað), Fardísartóftum (um 23 km), Káraseli (um 23,5 km) og Reykjaseli (um 25 km). Reykjasel var síðasti bærinn í byggð í Bleiksmýrardal, ásamt Tungu hinum megin við ána. Líklega hefur þó ekki verið búið í Reykjaseli frá því um 1800.

Heimildir til nánari skoðunar:
Sagt er að síðasta hestaat á Íslandi hafi verið háð í Vindhólanesi á Bleiksmýrardal árið 1623. (Wikipedia)
(Ath. Árbækur FÍ 1938 og 1969).
(Ath. þekkta þjóðsögu, tröllasöguna um Jón Loppufóstra, sem á að hafa gerst á Bleiksmýrardal).
(Ath. Jón Sigurðsson, Saga Þingeyinga III. S. 150)

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu

Nesti og annar búnaður:

Verður skráð að hlaupi loknu

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu

Helstu heimildir:

 • Búnaðarsamband Eyjafjarðar (1993): Byggðir Eyjafjarðar 1990. II. bindi. Búnaðarsamband Eyjafjarðar, Akureyri.
 • Erlingur Davíðsson (1967): Öldungurinn frá Þröm. Viðtal. Dagur, 11. tbl., 11. feb. 1967, (bls. 4-5). https://timarit.is/page/2658259#page/n3/mode/2up.
 • Hallgrímur Gíslason (2020): Munnleg heimild.
 • Sigfús Helgi Hallgrímsson (2006). Þáttur af Þramarbræðrum. Súlur 45. hefti, (bls. 10-25).
 • Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson (1984): Landið þitt Ísland, 1. bindi A-G. Örn og Örlygur hf., Reykjavík.