Gönguskarð í Eyjafirði

Staðsetning: Frá Garðsá í Eyjafirði að Reykjum í Fnjóskadal
Áfangar og hnattstaða: 
Upphaf:          0,00 km, N65°36,10' - V17°59,27'
Gerðisá:          1,83 km, N65°35,51' - V17°57,55'
Kanagil:          5,00 km, N65°34,32' - V17°55,71'
Fossgil:          7,10 km, N65°34,32' - V17°55,71'
Gönguskarðslækur:     12,90 km, N65°31,05' - V17°52,89'
Gönguskarð:        15,00 km, N65°30,73' - V17°50,52' 
Varða í Skarðsdal:    17,60 km, N65°29,83' - V17°48,27' 
Vegur í Bleiksmýrardal:  20,55 km, N65°30,34' - V17°45,13'
Lok:           30,26 km, N65°35,05' - V17°46,30'
Hæð y. sjó: 131 m við upphaf, 599 m hæst, 218 m við lok => Hækkun 468 m, lækkun 381 m, nettóhækkun 87 m
Vegalengd: 30,26 km 
Tími: 4:52:57 klst. 
Meðalhraði: 6,20 km/klst(9:41 mín/km)
Dags.: Laugardagur 13. júní 2020, kl. 13:33 
Hlaupafélagar: 
Anna Berglind Pálmadóttir 
Birgitta Stefánsdóttir
Birkir Þór Stefánsson
Rannveig Oddsdóttir
Sigríður Einarsdóttir
Sigurður (Bibbi) Sigurðsson (að hluta)

Leiðarlýsing og ferðasaga:

Hlaupið yfir Gönguskarð hófst við bæinn Garðsá í Garðsárdal, austanmegin í Eyjafjarðarsveit, um 9 km innan við hringveginn þar sem hann liggur yfir leirurnar innan við Akureyri. Garðsá er eina byggða bólið í dalnum og rétt utan við mynni Bæjardals. Garðsá rennur niður Bæjardal en ekki Garðsárdal eins og ætla mætti. Þar rennur hins vegar Þverá ytri og upp með henni liggur leiðin með stefnu í suðaustur inn Garðsárdal.

Eins og fleiri dalir norðanlands hefur dalurinn sitt hvort nafnið sitt hvorum megin við ána, þ.e.a.s. Garðsárdalur norðaustanmegin en Öngulsstaðadalur suðvestanmegin. Sá síðarnefndi kemur ekki beint við sögu á þessu ferðalagi.

Orri Óttarsson, bóndi á Garðsá, tók á móti okkur þegar við komum þar í hlaðið og gaf okkur ítarlegar leiðbeiningar um bestu leiðina inn dalinn, eða „setti okkur í stefnuna“ eins og hann orðaði það, með vísun í tiltekna sögu úr sveitinni sem ekki verður rakin hér. Í stuttu máli gengu þessar leiðbeiningar út á að best væri að halda sig uppi í hlíðinni fyrstu kílómetrana en færa sig svo niður á árbakkann þegar komið væri inn að Fossgili. Í hlíðinni þarna megin í dalnum eru nefnilega nokkur gil og sum þeirra brött og erfið yfirferðar niðri við ána. Hins vegar borgar sig ekki heldur að fara of ofarlega. Þetta snerist sem sagt um að hitta á gilin þar sem auðveldast væri að klöngrast yfir. Handan við Þverá liggur reyndar vegarslóði inn dalinn sem fljótt á litið sýnist upplagt að fylgja til að byrja með. Þá myndi maður hins vegar þurfa að vaða ána til að komast upp í Gönguskarð og þessa á veður maður ekki að gamni sínu á hlýjum vordegi.

Orri Óttarsson, bóndi á Garðsá, „setti hópinn í stefnuna“ áður en lagt var af stað. F.v. Birgitta, SG, Orri, Birkir, Rannveig, Anna, Sigríður og Sigurdur. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Líklega er á engan hallað þótt því sé haldið fram að enginn hafi gefið ítarlegri og skilmerkilegri leiðbeiningar í upphafi fjallvegahlaups en Orri á Garðsá gerði þennan dag. Áður en langt var liðið á hlaupið vorum við þó orðin meðvituð um að ef við hefðum munað allt sem hann sagði hefði okkur gengið betur að finna bestu leiðirnar. Það skolaðist sem sagt fljótt til hvar væri best að hækka sig eða lækka í hlíðinni til að hitta rétt á mismunandi gil. Örnefnin voru líka orðin nokkuð mörg og líklega nógu erfitt fyrir miðaldra fólk eins og flest okkar að muna giljanöfnin í réttri röð, þótt ekki væri annað; Garðsá, Gerðisá, Þramargil (nokkur), Kanagil, Fossgil, Kolgrafagil og Smiðjugil, svo eitthvað sé nefnt. Næst þegar von er á góðum leiðbeiningum ætti upptökutæki að vera með í för.

Bændurnir á Garðsá og í Tröllatungu á stuttum fundi um heyskaparhorfur og kal í túnum.

Fyrstu skrefin – með stefnu á fjárhúsin á Garðsá. Veðrið lék við okkur þennan dag með sólskini og 15 stiga hita.

Stefnan tekin skáhallt til fjalls innan við túngirðinguna á Garðsá. Þarna borgar sig að hækka sig jafnt og þétt til að hitta rétt á kindagötur og vöð. Langt til hægri á myndinni er flatt fjall með miklum sköflum í hlíðum. Þetta er fjallið Almenningur og Gönguskarð liggur inn til vinstri hérna megin við það.

Fyrsta vatnsfallið á leiðinni var Garðsá, rétt innan við túngirðinguna. Sú á er brúuð og því enginn farartálmi. Áfram héldum við síðan inn og upp hlíðina í samræmi við leiðsögn Orra. Eftir á að hyggja fórum við þó ekki nógu hátt til að finna götu sem liggur þarna ofarlega í hlíðinni. Þess í stað lá leiðin um seinfarna móa og holt. Eftir u.þ.b. 1,8 km lá leiðin yfir Gerðisá án þess að neitt sérstakt bæri til tíðinda.

Haldið á brattann, 10 mínútur að baki. Hlaupadrottningarnar Rannveig og Anna Berglind í fararbroddi, en þær náðu einmitt fyrsta og öðru sætinu í Laugavegshlaupinu þetta árið. Í þessu hlaupi voru sem sagt engir byrjendur á ferð.

Við Gerðisá, 1,83 km og 24 mínútur að baki. Horft niður eftir ánni og út til Eyjafjarðar.

Enn lá leiðin upp á við, nokkurn veginn beint upp af bænum á Þröm, u.þ.b. 2,5 km og 34 mín. að baki.

Á að giska 700 m innan við Gerðisá stóð bærinn Þröm niður undir Þverá. Við fórum hins vegar talsvert ofar í hlíðinni og misstum því af þessum sögufræga stað. Þröm fór í eyði 1965 og var síðasti bærinn sem búið var á innan við Garðsá. Fyrir ofan bæinn er Þremshnjúkur (827 m) og nokkur lítil gil sem almennt eru kölluð Þramargil. Á Þröm er snjóflóðahætta og þar fórst maður í snjóflóði árið 1862, (skv. greinargerð með eldra aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar). Sagt er að Guðlaugur Jóhannesson sem bjó á Þröm um miðja 19. öld hafi einhvern tímann, ásamt sonum sínum tveimur, lent í viðureign við naut frá Garðsá sem elti þá alla leið inn í bæjargöngin. Þar braut nautið allt og bramlaði, m.a. matardisk sem annar sonurinn hafði verið að borða af þegar nautið birtist.

Margar sögur hafa gengið af bræðrunum Sveini og Sölva Steinari Magnússonum sem bjuggu á Þröm 1937-1965. Sveinn var heilsuveill og taldi áfengi nýtast sér best sem meðal við kvillum sínum. Veikindunum fylgdu ofsjónir og þegar verst lét sá Sveinn mikið af draugum í húsinu. Steinar aðstoðaði bróður sinn í þessum vandræðum með því að halda uppi skothríð á draugana úr haglabyssu og að eigin sögn skaut hann mest 75 skotum á einum degi. Það dugði til að reka alla draugana fram á dal og yfir Gönguskarð. Annar mikilvægur liður í heimahjúkruninni sem Steinar sinnti var að sækja meðul til Akureyrar, væntanlega aðallega áfengi. Sjúkrasamlagið tók engan þátt í þeim kostnaði.

Sjálfur var Steinar á Þröm ekki sérlega hræddur við drauga og taldi mun meiri hættu stafa af kommúnistum. Ókunnugir sem leið áttu um dalinn voru þá e.t.v. taldir vera rússneskir njósnarar og þá var haglabyssan jafnvel tekin fram í varnarskyni. Annars virðist Steinar hafa verið lífsglaður maður sem átti góð samskipti við fólk og lét mótlæti ekki buga sig.

Margir kannast sjálfsagt við bók Gunnars M. Magnúss um Skáldið á Þröm, en sú Þröm var lítið herbergi í fjárhúsi vestur í Súgandafirði og tengdist Þröm í Garðsárdal ekki neitt.

Hlaupið yfir eitt af Þramargilunum á snjóbrú. Tæpir 3 km og 37 mín. að baki.

Gitta og Birkir nýkomin yfir eitt af Þramargiljunum. Akureyri í fjarska.

Um 2 km innan við Þröm er komið að Kanagili sem skiptir löndum milli Þramar og Kristness. Nálægt Kanagili liggur forn leið yfir Reykjaskarð til Grjótárdals suðvestur úr Fnjóskadal. Kristnesbærinn stóð svo um 1,5 km þar fyrir innan, en þar lagðist byggð af fyrir löngu, líklega upp úr 1870.

Þegar við komum að Kanagili vorum við líklega komin aðeins of ofarlega í hlíðina og þurftum að lækka okkur töluvert til að finna heppilegan stað til að komast yfir gilið. Vatnið í gilinu var ekki til trafala og jafnvel hægt að komast yfir á snjóbrúm.

Horft niður Kanagil. Helgá beint á móti. Þarna voru rétt um 5 km og 1:05 klst. að baki. Þetta var sem sagt engin hraðferð.

Eftir að við vorum komin yfir Kanagil ákváðum við að hefja lækkun á nýjan leik, enda töldum við okkur muna að hægt væri að hlaupa eftir eyrum Þverár eftir að komið væri inn að Fossgili. Það reyndist rétt en kaflinn frá Kanagili að Fossgili var þó seinfarinn og ekki hafði okkur enn tekist að hitta á góðar fjárgötur til að hlaupa eftir. Þessi tiltekni kafli er um 2 km að lengd.

Við lítið gil í hlíðinni ofan við Kristnes. 5,8 km og 1:19 klst. að baki.

Loksins komin á betra hlaupaland á eyrunum innan við Fossgil. 7,4 km og 1:40 klst. að baki.

Gitta á sprettinum inn eyrarnar innan við Fossgil.

Rannveig komin inn fyrir Kolgrafagil, sem sést vel á myndinni. Rúmir 9 km að baki. Eins og sjá má er landslagið þarna talsvert ólík því sem er neðar í dalnum, undirlendið meira og hlaupaleiðin greiðari.

Horft til baka niður eyrarnar innan við Smiðjugil (11 km og 2:11 klst. að baki). Eins og sjá má liggur vegarslóði þarna eftir ánni (Þverá). Við álpuðumst til að fylgja honum og óðum því austasta álinn í ánni. Sáum fljótlega eftir því og vorum fegin að komast til baka og upp í kindagötuna.

Á sama stað í sömu kindagötu við Þverá. Stutt eftir í Gönguskarð (hérna megin við fjallið með snjónum í).

Þegar tæpir 13 km og allmörg gil voru að baki var komið að því að sveigja til vinstri og taka stefnuna austur og upp í Gönguskarð. Fyrst þurfti þó að komast yfir Gönguskarðslæk, en í hlýindunum þennan dag fannst okkur sem þetta örnefni hefði verið valið af óþarflega mikilli hógværð.

Komin yfir Gönguskarðslæk. Um 12,9 km og 2:23 klst. að baki. Best er að halda strax á brattann upp sneiðinga í taglinu sunnan við „lækinn“ og fylgja svo hjallanum sem mótar þarna fyrir í miðju fjalli. En einhvern veginn álpuðust við til að halda fyrst aðeins lengra inn í gilið, sem þýddi náttúrulega að brattinn upp á hjallann varð enn snarpari.

Rannveig komin yfir Gönguskarðslæk. Garðsárdalur að baki.

Okkur sóttist seint ferðalagið upp með Gönguskarðslæk, enda hittum við sem fyrr segir ekki á bestu leiðina þó að hún ætti eiginlega að vera frekar augljós. Þegar við vorum komin upp á hjallann sunnanvert við lækinn varð þetta allt auðveldara enda varð þar fyrir okkur greinileg hestagata. Þarna voru þó enn miklar fannir í lautum og sums staðar talsverður hliðarhalli.

Horft til baka niður til Garðsárdals. Komin langleiðina upp í skarðið.

Horft til austurs á sama stað og á síðustu mynd. Eins og sjá má liggur greinileg gata þarna eftir hjallanum.

Á vissan hátt má líkja ferðalaginu í gegnum Gönguskarð við tímavél. Garðsárdalsmegin í skarðinu eru jarðlögin nefnilega u.þ.b. 4 milljón ára gömul, en austan við skarðið eru þau helmingi yngri, þ.e. um 2 milljón ára. En við tókum ekkert sérstaklega eftir þessum tímamun á hlaupunum.

Uppi í Gönguskarði er landið tiltölulega flatt þar til komið er á svonefndan Þröskuld sem myndar eins konar brún austast í skarðinu. Þar er sveigt lítið eitt til hægri og stefnt í suðaustur niður aflíðandi brekkur, allt þar til komið er að vörðu sem stendur á háum hóli á gilbarmi Skarðsár. Að vörðunni eru 2,6 km ofan úr skarðinu.

Birkir í snjónum í Gönguskarði, þar sem tekið var að halla austur af. Ef vel er gáð sést í bakið á samferðakonunum allnokkru fjær, rétt við Þröskuld þar sem niðurleiðin hefst fyrir alvöru. Þarna voru um 15,6 km og 3:07 klst. að baki.

Birkir á leið upp að vörðunni á gilbarmi Skarðsár. 17,6 km og 3:19 klst. að baki.

Við fyrrnefnda vörðu er tekin vinkilbeygja til vinstri og hlaupið norðaustur og niður Skarðsdal með Skarðsá á hægri hönd, allt þar til hún rennur í Fnjóská við Skarðssel niðri í Bleiksmýrardal. Leiðin niður dalinn er öll á undanhaldinu en engu að síður seinfarin þegar á reynir. Bæði er að hlíðin er brött og sums staðar skriðurunnin og eins hitt að gatan hverfur sums staðar í kjarri sem engin fljótleg leið er gegnum.

Horft niður Skarðsdal. Fjær sjást austurhlíðar Bleiksmýrardals.

Leiðin niður Skarðsdal var afar seinfarin í kjarrinu.

Eftir rúmlega 20 km hlaup frá Garðsá vorum við komin niður í Bleiksmýrardal og ekkert eftir nema að skokka niður að Reykjum eftir þokkalegum vegi sem væntanlega er fær flestum fjórhjóladrifnum bílum þrátt fyrir nokkra læki sem vaða þarf yfir. Þessi síðasti áfangi reyndist þó býsna drjúgur, enda mældist hann rétt um 10 km.

Komin á beinu brautina niður með Fnjóská í Bleiksmýrardal.

Bleiksmýrardalur er vestastur þriggja dala sem ganga til suðurs inn úr Fnjóskadal. Dalurinn er langur og djúpur, samtals tæpir 60 km frá syðstu drögum norðaustur af Hofsjökli og út að Reykjum. Reyndar er Bleiksmýrardalur talinn lengsti óbyggði dalur landsins. Dalurinn er vel gróinn og hefur öldum saman verið afréttarland. Utarlega í dalnum er allstórvaxinn birkiskógur, sérstaklega vestanmegin. Hlíðar dalsins eru brattar og þar mun hafa orðið mikið tjón á búsmala í skriðuföllum árið 1818.

Þó að Bleiksmýrardalur hafi lengi verið óbyggður benda gamlar tóttir til að þar hafi einhvern tímann verið byggð, og reyndar eru til sagnir um allmikla byggð þar fyrr á öldum. Líklega hefur þar þó ekki endilega verið um heilsársbúsetu að ræða, heldur gætu þarna hafa verið sel eins og nöfnin gefa til kynna. Þarna á líka að hafa verið útilegumannabyggð.

Á leiðinni niður Bleiksmýrardal er m.a. farið fram hjá eyðibýlunum Smiðjuseli, Fardísartóftum, Káraseli og Reykjaseli. Reykjasel var síðasti bærinn í byggð í Bleiksmýrardal, ásamt Tungu hinum megin við ána. Líklega hefur þó ekki verið búið í Reykjaseli frá því um 1800. Fátt minnir nú á þessa byggð, annað en sumarbústaðir neðarlega í dalnum.

Við Reyki í Fnjóskadal hefur orkufyrirtækið Norðurorka virkjað jarðhitann og þaðan liggur nú hitaveitulögn til Grenivíkur. Þarna endaði fjallvegahlaupið um Gönguskarð og eins og svo oft áður beið Björk eftir okkur í endamarkinu með nægar veitingar og fararskjóta til að auðvelda okkur að komast til baka til Akureyrar.

Tvær af þremur sterkustu ofurhlaupakonum Íslands á endasprettinum við Reyki í Fnjóskadal, Rannveig nær og Anna Berglind fjær. Reyndar sést ekki mikið til þeirrar síðarnefndu á myndinni. (Ljósm. Björk).

Við Reyki í Fnjóskadal að hlaupi loknu. Fimm hlauparar mættir og sá sjötti rétt ókominn. (Ljósm. Björk).

Lokaorð:

Gönguskarð milli Garðsárdals og Bleiksmýrardals er ekki aðeins vinsæl gönguleið, heldur líka fjölbreytt, falleg og sæmilega auðrötuð hlaupaleið. Undirlagið er að vísu erfitt á löngum köflum, sérstaklega ef ekki tekst að hitta á bestu slóðirnar. Leiðin er í lengra lagi fyrir óvana en hægt að stytta hana um u.þ.b. 10 km með bílferð frá Skarðsá niður Bleiksmýrardal.

Helstu heimildir:

 • Búnaðarsamband Eyjafjarðar (1993): Byggðir Eyjafjarðar 1990. II. bindi. Búnaðarsamband Eyjafjarðar, Akureyri.
 • Erlingur Davíðsson (1967): Öldungurinn frá Þröm. Viðtal. Dagur, 11. tbl., 11. feb. 1967, (bls. 4-5). https://timarit.is/page/2658259#page/n3/mode/2up.
 • Hallgrímur Gíslason (2020): Munnleg heimild og óbirt minnisblöð.
 • Norðurorka (á.á.): Reykir í Fnjóskadal.
  https://www.no.is/is/um-no/vinnslusvaedi-nordurorku/fnjoskadalur
 • Sigfús Helgi Hallgrímsson (2006). Þáttur af Þramarbræðrum. Súlur 45. hefti, (bls. 10-25).
 • Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson (1984): Landið þitt Ísland, 1. bindi A-G. Örn og Örlygur hf., Reykjavík.
Heimildir til nánari skoðunar:
Sagt er að síðasta hestaat á Íslandi hafi verið háð í Vindhólanesi á Bleiksmýrardal árið 1623. (Wikipedia)
(Ath. Árbækur FÍ 1938 og 1969).
(Ath. þekkta þjóðsögu, tröllasöguna um Jón Loppufóstra, sem á að hafa gerst á Bleiksmýrardal).
(Ath. Jón Sigurðsson, Saga Þingeyinga III. S. 150)

Þakkir:

 • Björk Jóhannsdóttir fyrir flutninga, veitingar og margs konar stuðning
 • Hallgrímur Gíslason á Akureyri fyrir mikið magn upplýsinga um hlaupaleiðina
 • Orri Óttarsson á Garðsá fyrir hjálpsemi og einstaklega greinargóða leiðsögn