Staðsetning: Frá Þverárbrú í Borgarfirði að Stakkahlíð í Loðmundarfirði Áfangar og hnattstaða: Upphaf: 0,00 km, N65°27,61' – V13°50,53' Kollur: 0,70 km, N65°27,33' - V13°50,72' Kirkjusteinn: 5,00 km, N65°25,38' – V13°51,77' Kækjuskörð: 5,80 km, N65°25,09' - V13°51,54' Hrauná (brú): 9,70 km, N65°23,46' - V13°51,82' Lok: 13,00 km, N65°22,12' - V13°52,00' Hæð y. sjó: U.þ.b. 66 m við upphaf, um 772 m hæst, um 20 m við lok Samanlögð hækkun: Verður skráð að hlaupi loknu Vegalengd: Um 13,00 km Tími: Verður skráður að hlaupi loknu Meðalhraði: Verður skráður að hlaupi loknu Dags.: Kemur í ljós. Var á dagskrá 1. júlí 2022 en var frestað vegna þoku. Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir
Fróðleikur um leiðina:
Um Kækjuskörð liggur gömul alfaraleið úr Borgarfirði eystri til Loðmundarfjarðar. Þessi leið var gjarnan fyrsti hlutinn af ferðum Borgfirðinga til Seyðisfjarðar, enda talsvert styttra en að fara „um Háls og Heiði“, þ.e.a.s. yfir Húsavíkurheiði og Nesháls (sjá fjallvegahlaup nr. 17 og 18).
Örnefnið Kækjuskörð er fremur óvenjulegt. Getum hefur verið að því leitt að nafnið sé komið af gelíska orðinu caigeann, sem einnig er til í færeysku (køkja) og þýðir „hlykkjótt slóð“ eða „ógreiðfær fjallvegur“, (HG, bls. 70).
Fjallvegahlaupið um Kækjuskörð hefst við brúna yfir Þverá í Borgarfirði, skammt austan við bæinn Hvannstóð, u.þ.b. 7,5 km innan við þorpið í Bakkagerði. Stefnan er tekin beint í suður vestan við ána, sem sagt með ána á vinstri hönd. Eftir nokkur hundruð metra er komið að steininunum Kolli, sem þekktur er úr álfasögum. Áfram er svo haldið í sömu stefnu inn Kækjudal, upp með Kækjudalsárgili að vestanverðu. Eftir um 3 km hlaup er komið í Svartabotn og þar fer landið að hækka og dalurinn að þrengjast. Þar er Þriggjahnjúkafjall (879 m) á vinstri hönd og Miðfjall (769 m) til hægri. Efst í dalnum er sveigur á ánni, en áfram er haldið sömu stefnu nánast beint í suður að Kirkjusteini, en þar mun vera álfakirkja. Á þessum kafla er farið austur yfir Kækjudalsá. Frá Kirkjusteini er svo stuttur og brattur kafli upp Kinn upp í Kækjuskörð. Þar er sjaldan snjólaust.
Í Kækjuskörðum er hæsti punktur leiðarinnar og eftir það tekur landið að lækka. Við tekur frekar brött leið niður urðir og mela vestan í Orustukambi með Stakfell (643 m á hægri hönd). Leiðin upp þessar brekkur er sögð „lítt fær nema með lausa hesta“ og sjálfsagt gildir það sama um niðurleiðina. Þessi hluti leiðarinnar einkennist af litadýrð fjallanna í kring, en þarna er mikið um líparit og flikruberg – og í jarðlögum finnast kísilrunnir steingervingar fornra skóga frá tertíertímabilinu.
Þegar komið er niður í Lönguhlíð sveigir leiðin lítið eitt til vinstri (til austurs) og þar tekur gróið land við af urðunum. Leiðin liggur síðan aftur beint í suður, niður Fitjar og yfir brú á Hrauná. Þar er komið inn á grófan jeppaslóða sem liggur í gegnum Stakkahlíðarhraun, þar til komið er á leiðarenda við bæinn Stakkahlíð í Loðmundarfirði.
Stakkahlíðarhraun er að öllum líkindum ekki hraun í venjulegri merkingu þess orðs, heldur framhlaup, það næststærsta á Íslandi á eftir Vatnsdalshólum. Talið er að þessi mikla skriða hafi fallið fyrir 1.000-2.000 árum. Ef marka má Landnámu gerðist það einmitt á landnámsöld eftir að landnámsmaðurinn Loðmundur hafði búið einn vetur í Loðmundarfirði.
„Eftir það bar hann á skip sitt öll föng sín, en er segl var dregið lagðist hann niður og bað engan mann vera svo djarfan að hann nefndi sig. En er hann hafði skamma hríð legið varð gnýr mikill; þá sáu menn að skriða mikil hljóp á bæ þann er Loðmundur hafði búið á“.
Stakkahlíð þótti á sínum tíma með betri jörðum í Loðmundarfirði. Þar var „landrúm, engjar innan seilingar frá bæ í blám og á ennum, bátgengt inn um ós Fjarðarár í ládeyðu og lending í kíl inn af“ (HG, bls. 20). Stefán Gunnarsson frá Skógum í Öxarfirði hóf búskap í Stakkahlíð 1842 og afkomendur hans bjuggu þar alla tíð síðan, allt þar til jörðin fór í eyði árið 1967. Eftir það ráku afkomendur Stefáns ferðaþjónustu í Stakkahlíð á sumrin á tímabilinu 1990-2005. Í Stakkahlíð stendur enn reisulegt íbúðarhús úr steini, sem byggt var árið 1914.
Ferðasagan:
Verður skráð að hlaupi loknu.
Lokaorð:
Verða skráð að hlaupi loknu.
Helstu heimildir:
- Helgi M. Arngrímsson o.fl.: Víknaslóðir. Gönguleiðir á Austurlandi 1. Gönguleiðakort. Ferðamálahópurinn Borgarfjarðar eystri, 2007.
- Hjörleifur Guttormsson: Úthérað ásamt Borgarfirði eystra, Víkum og Loðmundarfirði. Árbók Ferðafélags Íslands 2008. Ferðafélag Íslands, Reykjavík 2008.