Staðsetning: Úr Austdal í Seyðisfirði yfir í Daladal í Mjóafirði Hnattstaða: Upphaf: 0,00 km, N65°17,08' - V13°46,51' Bæjarstæði: 1,55 km, N65°16,97' - V13°44,75' Línuvegur: 4,60 km, N65°16,10' - V13°42,44' Dalaskarð: 7,00 km, N65°15,61' - V13°40,96' Lok: 11,66 km, N65°15,24' - V13°36,39' Hæð y. sjó: 5 m við upphaf, 628 m hæst, 14 m við lok Samanlögð hækkun: 654 m Vegalengd: 11,66 km Tími: 3:10:59 klst Meðalhraði: 3,66 km/klst (16:23 mín/km) Dags.: Miðvikud. 6. júlí 2022, kl. 14:19 Hlaupafélagar: Birgitta Stefánsdóttir og Sara Kristjánsdóttir
Fróðleikur um leiðina:
Dalaskarð er forn en fremur fáfarin leið á milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar, óstikuð og merkt sem erfið gönguleið á kortum. Erfiðasti kaflinn er í skarðinu sjálfu, en í því eru nánast þverhnípt klettahöft sem reyna töluvert á þau sem þarna fara um. Brattinn er þó enn meiri Mjóafjarðarmegin. Raflína liggur um skarðið, sem þykir erfið í viðhaldi ef eitthvað fer úrskeiðis. Engar heimildir virðast til um slysfarir í skarðinu þrátt fyrir brattann.
Fjallvegahlaupið yfir Dalaskarð hefst við bílastæði neðst í Austdal í Seyðisfirði, en ekki er með góðu móti fært á fólksbílum lengra út með firðinum. Hins vegar er traust göngubrú á Austdalsá og fyrsti kaflinn því auðhlaupinn. Eftir u.þ.b. 1,5 km er komið að eyðibýlinu Bæjarstæði, en þar væri í raun eðlilegast að segja að fjallvegurinn yfir Dalaskarð hæfist. Engin hús eru uppistandandi á Bæjarstæði, en tóftir bæjarins eru greinilegar í skrúðgrænu njólabeði.
Frá Bæjarstæði liggur leiðin liggur upp og út brekkurnar fyrir ofan bæinn, upp með Innri-Sandá (Fremri-Sandá) að innanverðu og síðan yfir hana. Auðveldast er að fylgja línuvegi sem er greinilegur allt frá túngarðinum fyrir ofan bæinn. Hægt er þó að sníða af stærstu beygjurnar, þar sem vegurinn krækir eftir holtum en fer ekki beint yfir móana. Hvort sem línuveginum er fylgt í smáatriðum eða ekki, er allan tímann stefnt í suðaustur og allan tímann blasir Dalaskarð við, vinstra megin við Kistufell sem er áberandi hæsti tindurinn í brúninni.
Innri-Sandá er sakleysisleg á góðum sumardegi, en getur verið hættuleg yfirferðar í vorleysingum. Vorið 1930 fórst unglingspiltur frá Skálanesi í ánni á leið heim úr sendiferð inn að Eyrum í tengslum við ferminguna hans sem átti að fara fram tveimur vikum síðar.
Hlíðin upp í Dalaskarð er öll býsna brött en síðasti spölurinn er þó langbrattastur. Þar fer línuvegurinn í kröppum, löngum sneiðingum, en ef fólk vill er hægt að ráðast beint á brattann. Þarna má sjá Sauðabotnstinda (741 m) í nokkurri fjarlægð til vinstri (til norðausturs) en Kistufell (930 m) til hægri (til suðvesturs) sem fyrr segir.
Strax handan við skarðið er komið fram á þverhnípta klettabrún, þar sem alls ekki er augljóst hvar sé óhætt að leita niðurgöngu. Sjálfsagt liggur þetta beinna við þegar horft er á klettabeltið neðan frá, sérstaklega þegar ekki er þoka. Hver sem besta leiðin er, liggur hún í snarbröttum sneiðingum, bæði niður efsta klettabeltið og eitt eða tvö klettabelti þar fyrir neðan. Á milli klettabelta eru flatir hjallar, grýttir og blautir.
Eftir prílið niður úr skarðinu liggur leiðin nánast beint af augum niður Daladal. Línuvegurinn liggur lengst af innanvert við Dalaá, sem rennur þarna niður í nokkrum flúðum og fossum, en líklega er leiðin utan við ána engu síðri. Leiðin liggur um holt, mýrar og móa og undir lokin um gróin tún. Hlaupið endar svo þegar komið er niður á Mjóafjarðarveg neðst í dalnum, en þaðan eru um 2,6 km út að Dalatanga. Búseta á þessu svæði er löngu aflögð, en síðast var búið í Minnidölum sem stóðu niðurundir sjónum innan við ána. Minnidalir fóru í eyði 1944.
Ferðasagan:
Dalaskarð var síðasta hlaupið mitt af þremur í sérstakri fjallvegahlaupaviku á Austurlandi. Þessa daga dvöldum við fjölskyldan í sumarhúsi í útjaðri Egilsstaða og þaðan keyrðum við þrjú saman út á Seyðisfjörð í fremur björtu en svölu sumarveðri. Skildum bílinn eftir á bílastæði við Austdalsá, því að sem fyrr segir verður ekki lengra komist á fólksbíl. Svo var hlaupið af stað.

Fyrsti spölurinn var allur eftir bókinni og þar bar fátt til tíðinda. Fyrsta verkefnið var eiginlega bara að finna bæjarstæðið á Bæjarstæði, því að þar skyldi beygt til fjalls. Það reyndist auðvelt, því að þar eru greinilegar tóftir í njólabeði og vel grænt allt í kring.



Leiðin upp frá Bæjarstæði er hvorki brött né torfarin, þó að hún sé öll á fótinn. Við fylgdum línuveginum að hluta, en vegurinn var greinilega lagður með hliðsjón af orðatiltækinu að „betri sé krókur en kelda“. Hann fylgir því holtum, en sneiðir hjá mýrarlautum. Við vorum ekkert endilega á sama máli þennan dag og styttum okkur því gjarnan leið þar sem vegurinn lá í hlykkjum. Til dæmis fórum við yfir Innri-Sandá miklu neðar en vegurinn liggur og klöngruðust upp holt þar sem erfitt hefði verið að ryðja greiðan veg.





Ferðalagið upp hlíðina var tíðindalítið. Veðrið lék við okkur og við þurftum ekki að reyna mikið á ratvísina. Leiðinni var jú heitið upp í skarðið og þangað sáum við nánast allan tímann, auk þess sem GPS-punkturinn í skarðinu var á sínum stað í úrinu mínu. Þar við bættist svo línuvegurinn sem við fylgdum þegar okkur þótti henta. Ofarlega í hlíðinni breyttist landslagið, eins og gengur, og gróðurlitlir hjallar tóku við af grónum brekkum. Og efst voru brattar skriður, þar sem línuvegurinn liggur í kröppum sneiðingum. Annars segja myndirnar þennan hluta ferðasögunnar betur en mörg orð.







Þegar við vorum komin upp í skarðið tók nýr veruleiki við. Sólin hafði skinið á okkur mestalla leiðina og allan tímann hafði verið augljóst hvert halda skyldi. En þegar við komum fram á brúnina Mjóafjarðarmegin sáum við nánast ekkert nema þoku. Að vísu sáust sólarblettir á hjöllum þarna fyrir neðan, en þokan lá alveg upp að brúninni – og þessi brún er klettabrún og engar vísbendingar um hvar ráðlegast sé að leita niðurgöngu. Þarna tók Gitta af skarið og ákvað að við skyldum reyna fyrir okkur lengst til hægri, þ.e.a.s. vestast í klettabrúninni. Það reyndist vel. Reyndar hleypur maður ekkert þarna niður og þarf svolítið að klifra, en eftir á að hyggja var þetta ekki bráðhættulegt ef varlega var farið. Við komumst sem sagt fljótlega niður á næsta hjalla og fram á næstu klettabrún, sem okkur tókst líka vel að skáskera einhvern veginn.





Smám saman minnkaði þokan, útsýni opnaðist niður Daladal og grösugar brekkur tóku við af hjöllunum, rétt eins og Seyðisfjarðarmegin. Við ákváðum að halda okkur utan við Dalaá allan tímann, þó að línuvegurinn liggi lengst af innan við ána. Reyndar sáum við seinna að þessi vegur liggur langleiðina upp í skarðið, en þar urðum við aldrei vör við hann í þokunni.




Þegar hér var komið sögu var örstutt eftir niður á veginn í Mjóafirði – og þó að leiðin yfir skarðið sé stutt var léttir að vera kominn á leiðarenda eftir kvíðann sem sótti að uppi í skarðinu, þegar ekki var ljóst hvert halda skyldi. Niðri á vegi beið Þorkell eftir okkur, en áður en við settumst inn í bíl til að aka aftur upp á Hérað tókum við létt skokk eftir veginum út að Dalatanga. Sá spölur var hluti af hlaupaæfingu dagsins, en fjallvegahlaupinu lauk samt neðst í Daladal.


Lokaorð:
Leiðin um Dalaskarð er snarbrött efst, sérstaklega Mjóafjarðarmegin – og hentar líklega hvorki óvönum né lofthræddum. En hún er stutt og náttúrufegurðin mikil. Best er að vera þarna á ferð þegar ekki er þoka.
Helstu heimildir:
- Ferðafélag Fjarðamanna Austfjörðum (2002): Gönguleiðir á Fjarðaslóðum – austast á Austfjörðum. Gönguleiðir á Austurlandi II. Ferðafélag Fjarðamanna Austfjörðum.
- Helgi M. Arngrímsson o.fl. (2007): Víknaslóðir. Gönguleiðir á Austurlandi 1. Gönguleiðakort. Ferðamálahópurinn Borgarfirði eystri.
- Hjörleifur Guttormsson (2005): Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar, Árbók Ferðafélag Íslands.
- Philip Vogler o.fl. (2017): Fjallvegir á Austurlandi. Múlasýslur. Óbirt drög.
- Örnefnastofnun (1990): Bæjarstæði. Viðbót. Örnefnaskrá. https://nafnid.is/ornefnaskra/21579.
Þakkir:
- Þorkell Stefánsson fyrir flutninga