Vatnadalur

Staðsetning: Frá Gilsfirði til Steingrímsfjarðar
Áfangar og hnattstaða: 
Upphaf:          0,00 km, N65°26,91' - V21°44,67'
Vatnaskil:         6,76 km, N65°29,69’ – V21°41,16’
Gegnt Melrakkagili:    10,44 km, N65°31,56’ – V21°40,47’
Hraundalur:        12,88 km, N65°32,68’ – V21°40,37’
Torffell:         19,15 km, N65°35,64’ – V21°38,17’
Tindur:          20,10 km, N65°36,03’ – V21°38,29’
Klúka:          23,23 km, N65°37,44' - V21°36,88'
Lok:           25,23 km, N65°38,37' - V21°35,83'
Hæð y. sjó: 58 m við upphaf, 330 m hæst, 20 m við lok => Hækkun 272 m, lækkun 310 m, nettólækkun 38 m
Vegalengd: 25,23 km 
Tími: 4:14:02 klst. 
Meðalhraði: 5,96 km/klst(10:04 mín/km) 
Dags.: Laugardagur 27. júní 2020, kl. 10:23 
Hlaupafélagar: 
Birgitta Stefánsdóttir
Birkir Þór Stefánsson
Finnur Dagsson
Gunnar Viðar Gunnarsson
Ingveldur H Ingibergsdóttir
Ragnar Kristinn Bragason

Fróðleikur um leiðina:

Vatnadalur er ein af fleiri leiðum sem farnar voru á milli Breiðafjarðar og Stranda fyrr á árum. Hægt er að velja milli a.m.k. þriggja leiða fyrsta spölinn upp úr Gilsfirði. Ysta leiðin liggur upp með Mávadalsá milli Gilsfjarðarbrekku og Gilsfjarðarmúla, og var það kallað að „fara upp með Bergi“. Berg er líklega nafnið á klettabelti uppi í brúninni sem farið er upp með. Þarna þótti naumast óhætt að fara með hesta, en síðari tíma heimildir herma þó að ónefndur bóndi í Gilsfirði hafi einhvern tímann riðið þarna niður vel við skál. Það þótti glæfraför, en hún endaði giftusamlega. 

Úr Gilsfjarðarbotni var yfirleitt farið upp með Glámi eins og kallað var, en Glámur er stakur klettur í brúninni upp og út af Gilsfjarðarbrekku. Þá er farið skáhallt upp frá Brekkubænum. Þarna var sæmileg hestagata, en við Glám hefur mikið hrunið úr henni á síðari árum þannig að hún er vafalítið alveg ófær hestum núorðið. Að öllum líkindum vefst þessi kafli þó ekki fyrir vönum göngumönnum. Þessa leið hafa móðurbræður mínir á Kleifum líklega farið á árunum í kringum 1930 þegar leiðin lá gjarnan til Hólmavíkur á böll.

Þriðji möguleikinn er að fara upp grasi vaxna brekku sem teygir sig frá brúninni niður undir botn Brekkudals innan við bæinn á Gilsfjarðarbrekku.

Í bók sinni Virkisvetur segir Björn Th. Björnsson frá ferðalagi af Ströndum suður til Gilsfjarðar. Menn hafa getið sér þess til að lýsing Björns eigi einmitt við leiðina suður Vatnadal, en erfitt er að fullyrða um það með nokkurri vissu. Virkisvetur segir annars frá ævi Andrésar Guðmundssonar, sem uppi var á síðari hluta 15. aldar. Hann var launsonur Guðmundar Arasonar ríka, auðugasta manns á Íslandi á sinni tíð. Andrés var bóndi og sýslumaður og bjó fyrst lengi á Felli í Kollafirði og síðan í Saurbæ á Rauðasandi. Andrés átti í miklum erfðadeilum við venslafólk sitt, sérstaklega Þorleif Björnsson, son Björns hirðstjóra sem var mágur Guðmundar ríka. Þorleifur lét gera virki á Reykhólum, sem Andrés náði á sitt vald sumarið 1482 á meðan Þorleifur brá sér af bæ. Þorleifur náði svo virkinu aftur í bardaga 3. janúar 1483, en þá mun skotvopnum hafa verið beitt í fyrsta sinn hérlendis.

Í fjallvegahlaupinu um Vatnadal verður farin ysta leiðin af þeim þremur sem nefndar voru hér að framan. Hlaupið hefst á veginum í vestanverðum Gilsfirði, nánar tiltekið við Mávadalsá, u.þ.b. 9 km fyrir innan Króksfjarðarnes. Fyrsta spölinn er brölt upp með ánni að innanverðu, en það er einmitt sú leið sem kölluð var að „fara upp með Bergi“. Hækkunin er öll tekin á fyrstu kílómetrunum og fyrr en varir tekur að halla niður í Vatnadal. Hlaupaleiðin niður dalinn liggur að vestanverðu, þ.e. vinstra megin við Miðdalsá sem rennur eftir dalbotninum. Leiðin er seinfarin, því að þarna eru engar sléttar grundir þar sem virkilega er hægt að spretta úr spori, heldur skiptast á blautar mýrar og grösugir móar. Eftir því sem neðar dregur í dalnum verða kindagötur hins vegar gleggri og þar er auðveldara að hlaupa við fót en í ósnertum móum.

Eftir u.þ.b. 9,8 km hlaup eru hlaupararnir staddir beint á móti Melrakkagili, sem er stærsta gilið af mörgum í austurhlíð dalsins. Á þessum slóðum er kindagöturnar orðnar greinilegri og sums staðar má greina slóðir eftir jeppa sem stundum eru notaðir til að flytja smala þarna inneftir á haustin. Sums staðar eru líka nokkuð sléttar eyrar meðfram ánni. U.þ.b. 2,3 km neðar liggur leiðin svo um mynni Hraundals sem gengur þarna vestur úr Miðdal. Þessar slóðir eru allar heldur fáfarnar af mönnum en sauðfé hefur þarna gott beitiland á sumrum.

Neðan við Hraundal fer undirlendið smám saman breikkandi og leiðin verður greiðari. Samt er þarna töluvert um þúfur og skorninga sem koma í veg fyrir hröð hlaup. Farið er um Sléttuhlíð, meðfram Miðdalsá að vestanverðu og niður fyrir Torffell. Þar er komið á góðan jeppaslóða og eftirleikurinn því til þess að gera auðveldur. Frá Torffelli er rétt um 1 km niður að eyðibýlinu Tind. Drjúgum spöl fyrir neðan Tind liggur vegurinn á vaði austuryfir ána neðan við bæinn Gestsstaði og svo áfram niður með ánni fram hjá Klúku allt þar til komið er á aðalveginn um Strandir til Hólmavíkur (þjóðveg nr. 68) rétt fyrir innan félagsheimilið Sævang þar sem Sauðfjársetrið er nú til húsa. Þar endar þetta fjallvegahlaup.

Ferðasagan:  

Er í smíðum

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu

Helstu heimildir:

 • Birgitta Stefánsdóttir frá Kleifum (1915-2008): Munnleg heimild.
 • .