Staðsetning: Frá Gilsfirði til Steingrímsfjarðar Áfangar og hnattstaða: Upphaf: 0,00 km, N65°26,91' - V21°44,67' Vatnaskil: 6,76 km, N65°29,69’ – V21°41,16’ Gegnt Melrakkagili: 10,44 km, N65°31,56’ – V21°40,47’ Hraundalur: 12,88 km, N65°32,68’ – V21°40,37’ Torffell: 19,15 km, N65°35,64’ – V21°38,17’ Tindur: 20,10 km, N65°36,03’ – V21°38,29’ Klúka: 23,23 km, N65°37,44' - V21°36,88' Lok: 25,23 km, N65°38,37' - V21°35,82' Hæð y. sjó: 58 m við upphaf, 330 m hæst, 25 m við lok => Hækkun 272 m, lækkun 305 m, nettólækkun 33 m Vegalengd: 25,23 km Tími: 4:14:02 klst. Meðalhraði: 5,96 km/klst(10:04 mín/km) Dags.: Laugardagur 27. júní 2020, kl. 10:23 Hlaupafélagar: Birgitta Stefánsdóttir Birkir Þór Stefánsson Finnur Dagsson Gunnar Viðar Gunnarsson Ingveldur H Ingibergsdóttir Ragnar Kristinn Bragason
Leiðarlýsing og ferðasaga:
Vatnadalur er ein af fleiri leiðum sem farnar voru á milli Breiðafjarðar og Stranda fyrr á árum. Hægt er að velja milli a.m.k. þriggja leiða fyrsta spölinn upp úr Gilsfirði. Innsta leiðin liggur upp grasi vaxna brekku sem teygir sig frá brúninni niður undir botn Brekkudals innan við bæinn á Gilsfjarðarbrekku. Oftar var þó farið upp með Glámi eins og kallað var, en Glámur er stakur klettur í brúninni upp og út af Gilsfjarðarbrekku. Þá er farið skáhallt upp frá Brekkubænum. Þarna var sæmileg hestagata, en við Glám hefur mikið hrunið úr henni á síðari árum þannig að hún er vafalítið alveg ófær hestum núorðið. Að öllum líkindum vefst þessi kafli þó ekki fyrir vönum göngumönnum. Þessa leið hafa móðurbræður mínir á Kleifum líklega farið á árunum í kringum 1930 þegar leiðin lá gjarnan til Hólmavíkur á böll.
Ysta leiðin liggur upp með Mávadalsá milli Gilsfjarðarbrekku og Gilsfjarðarmúla, og var það kallað að „fara upp með Bergi“. Þarna rennur Mávadalsá í bröttu gili, Berg er klettabelti í gilbarminum og leiðin liggur upp með því gilmegin. Ekki var talið ráðlegt að fara upp með Bergi með hesta, enda gatan þröng. Síðari tíma heimildir herma þó að ónefndur bóndi í Gilsfirði hafi einhvern tímann riðið þarna niður vel við skál. Það þótti glæfraför, en hún endaði giftusamlega.
Í bók sinni Virkisvetur segir Björn Th. Björnsson frá ferðalagi af Ströndum suður til Gilsfjarðar. Menn hafa getið sér þess til að lýsing Björns eigi einmitt við leiðina suður Vatnadal, en erfitt er að fullyrða um það með nokkurri vissu. Virkisvetur segir annars frá ævi Andrésar Guðmundssonar, sem uppi var á síðari hluta 15. aldar. Hann var launsonur Guðmundar Arasonar ríka, auðugasta manns á Íslandi á sinni tíð. Andrés var bóndi og sýslumaður og bjó fyrst lengi á Felli í Kollafirði og síðan í Saurbæ á Rauðasandi. Andrés átti í miklum erfðadeilum við venslafólk sitt, sérstaklega Þorleif Björnsson, son Björns hirðstjóra sem var mágur Guðmundar ríka. Þorleifur lét gera virki á Reykhólum, sem Andrés náði á sitt vald sumarið 1482 á meðan Þorleifur brá sér af bæ. Þorleifur náði svo virkinu aftur í bardaga 3. janúar 1483, en þá mun skotvopnum hafa verið beitt í fyrsta sinn hérlendis.
Í fjallvegahlaupinu um Vatnadal sem hér er lýst var farin ysta leiðin af þeim þremur sem nefndar voru hér að framan, þ.e.a.s. upp með Bergi. Hlaupið var hluti af árlegu Hamingjuhlaupi í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík. Við vorum samt ekki mjög hamingjusöm með veðrið þennan laugardagsmorgun, því að þegar við stigum út úr bílunum við Mávadalsá mætti okkur norðan strekkingur sem stóð niður ána með svolítilli þokusúld. En hitastigið var bærilegt og því engin hætta á ferðum.

Björk er sú sem öðrum fremur hefur gert fjallvegahlaupin möguleg með óteljandi bílferðum og löngum biðum eftir hlaupurum við endamörk. Myndin er tekin við Mávadalsá í Gilsfirði.

Hlauparar tilbúnir við Mávadalsá með norðanvind í hári. F.v. Birgitta, Finnur, Gunnar, Ingveldur, SG og Birkir. Björk tók myndina. Seinna bættist Ragnar Kristinn Bragason í hópinn, en hafði legið á greni um nóttina og varð því seinn fyrir.
Við lögðum sex saman af stað upp brattann innan við Mávadalsá, en sá sjöundi átti eftir að bætast við síðar. Fyrsti spölurinn var býsna brattur og fyrr en varði vorum við komin upp að þessu margumtalaða Bergi á barmi gljúfursins sem Mávadalsá rennur í. Upp með þessum kletti liggur leiðin um þrönga götu með gljúfrið á vinstri hönd.

Lagt af stað upp með Mávadalsá að innanverðu. Ef vel er gáð sést í toppinn á Berginu upp af grasbrekkunni. (Ljósm. Björk).

Þetta er Bergið sem blasir við þegar fyrsta brekkan upp með ánni er að baki. Leiðin liggur eftir þröngri götu upp með því vinstra megin.

Gitta og Inga Dísa komnar að Berginu.

Horft til baka yfir Gilsfjörð úr brekkunni neðan við Bergið. Handan fjarðar sést mynni Ólafsdals. Þoka í miðjum hlíðum.
Gatan upp með Bergi er einstigi og vel hægt að ímynda sér að þar sé erfitt að sitja hest. Úr götunni er snarbratt niður í gil Mávadalsár en gilbakkinn að sunnanverðu er þó enn brattari.

Birkir og Finnur undir Berginu. Bratt er niður í Mávadalsá beggja vegna, þó sýnu brattara hinum megin.

Gitta á leið upp með Bergi.

Enn á leið upp með Bergi.

Leiðin upp með Bergi er ekki sérlega löng, varla nema rúmlega 100 metrar. Spölkorn þar fyrir innan tekur við mýkra landslag með grösugum árbökkum.

Á leið inn grösugan bakka Mávadalsár í u.þ.b. 140 m hæð yfir sjó. U.þ.b. 1,4 km og 20 mín. að baki. Inga Dísa fremst í flokki.
Grösugu bakkarnir entust okkur ekki lengi og þegar tæpir 2 km voru að baki frá upphafspunktinum þrengdist gilið á nýjan leik og næsta kílómetrann eða þar um bil lá leiðin utan í brattri skriðu. Þarna var engin greinilega gata, en við tókum stefnuna á ská upp frá ánni. Úr þessu varð hálfgert príl á köflum, enda var hækkunin þarna u.þ.b. 150 m á einum km. En eftir það var líka nánast öll hækkunin að baki.
Hugsanlega er til einhver skynsamlegri leið upp úr Mávadal en sú sem við fórum þennan dag. Þannig væri e.t.v. þjóðráð að beygja frá ánni á grasbakkanum fyrir innan Berg og komast þannig strax upp fyrir skriðuna í stað þess að brölta utan í henni. En þessi hluti leiðarinnar er, eins og fyrr segir, ógreinilegur þegar á hólminn er komið.

Lengra upp með gljúfri Mávadalsár blasti þessi margbrotni skafl við í snarbrattri brekku hinum megin við ána. Þarna voru merki um snjóflóð.

Komin upp úr mesta brattanum í gljúfrinu. U.þ.b. 2,5 km og 40 mín. að baki. Í fjarlægð má greina veru í humátt á eftir hlaupurunum. Þetta reyndist vera Ragnar Bragason á Heydalsá. Hann lagði seinna af stað úr Gilsfirði, en var þarna langt kominn með að vinna upp forskotið.

Enn á uppleið eftir greinilegum fjárgötum í þokusúld og sterkum mótvindi. Ragnar nálgast.

Næstum komin í fulla hæð. U.þ.b. 3 km og 45 mín. að baki. Leiðin búin að vera seinfarin í súldinni.
Mávadalur og Vatnadalur ná næstum saman, en eru þó aðskildir með svolitlu hafti. Þessi hluti leiðarinnar er dæmigerður fyrir landslagið á hálsum á sunnanverðum Ströndum; hörð og gróðurlítil malarholt með mýrarsundum og litlum tjörnum á milli. Á þessum tiltölulega flata kafla er frekar lítið um kennileiti, en leiðin er auðrötuð, fyrst meðfram Mávadalsá og síðan eftir greinilegum hestagötum, jafnt á holtum sem í móum.

Enn á leið inn með Mávadalsá en hækkunin nánast búin. Klukkutími og u.þ.b. 4,5 km að baki .
Áður en halla tekur norðuraf liggur leiðin framhjá tveimur litlum vötnum. Farið er austan (hægra megin) við fyrra vatnið, en vestan við það seinna. Þarna er slóðin greinileg og villuhætta lítil þótt leiðin sé öll ómerkt.

Komin uppundir fyrra vatnið af tveimur á vatnaskilum. Þarna voru u.þ.b. 6,3 km að baki og 400 m síðar fór að halla norðuraf.

Birkir og Gitta skammt frá fyrra vatninu af tveimur.

Hlaupið áfram meðfram seinna vatninu að vestanverðu. Vatnadalur framundan í þokunni. U.þ.b. 7,3 km og 1:28 klst. að baki.
Hlaupaleiðin niður Vatnadal liggur að vestanverðu, þ.e. vinstra megin við Miðdalsá sem rennur eftir dalbotninum. Leiðin er seinfarin, því að þarna eru engar sléttar grundir þar sem virkilega er hægt að spretta úr spori, heldur skiptast á blautar mýrar og grösugir móar. Eftir því sem neðar dregur í dalnum verða kindagötur hins vegar gleggri og þar er auðveldara að hlaupa við fót en í ósnertum móum.
Strekkingsvindur úr norðri blés í fangið alla leið, skyggni var takmarkað vegna þoku og talsverð úrkoma á köflum. En hitastigið var nógu hátt til að þessu fylgdi engin vosbúð.

Komin áleiðis niður í Vatnadal. Enn mótvindur og þoka.
Eftir rúmlega 10 km hlaup vorum við stödd beint á móti Melrakkagili, sem er stærsta gilið af mörgum í austurhlíð dalsins. Á þessum slóðum er kindagöturnar orðnar greinilegri og inn á milli má greina slóðir eftir jeppa sem stundum eru notaðir til að flytja smala þarna inneftir á haustin. Sums staðar eru líka nokkuð sléttar eyrar meðfram ánni. U.þ.b. 2,4 km neðar liggur leiðin svo um mynni Hraundals sem gengur þarna vestur úr Miðdal. Þessar slóðir eru allar heldur fáfarnar af mönnum en sauðfé hefur þarna góðan frið og gott beitiland á sumrum.

Inga Dísa á móts við Melrakkagil í Vatnadal. 10,4 km og 1:55 klst. að baki.

Í brattri götu utan í Hraundalsmúla neðst í Vatnadal. Hinum megin við múlann gengur Hraundalur inn til suðvesturs (til vinstri).
Neðan við Hraundal fer undirlendið smám saman breikkandi og leiðin verður greiðari. Samt er þarna töluvert um þúfur og skorninga sem koma í veg fyrir hröð hlaup. Farið er um Sléttuhlíð, meðfram Miðdalsá að vestanverðu og niður fyrir Torffell. Þar er komið á góðan jeppaslóða og eftirleikurinn því til þess að gera auðveldur. Frá Torffelli er rétt um 1 km niður að eyðibýlinu Tindi.

Komin niður á láglendið innarlega í Miðdal í Steingrímsfirði, nánar tiltekið undir Sléttuhlíð rétt neðan við Hraundal.
Drjúgum spöl fyrir neðan Tind liggur vegurinn á vaði austuryfir ána neðan við bæinn Gestsstaði og svo áfram niður með ánni fram hjá Klúku allt þar til komið er á aðalveginn um Strandir til Hólmavíkur (þjóðveg nr. 68) rétt fyrir innan félagsheimilið Sævang þar sem Sauðfjársetrið er nú til húsa. Þar endar þetta fjallvegahlaup.

Gitta og Ragnar á fullri ferð niður Miðdal, skammt ofan við Gestsstaði.

Á leið niður Miðdal. Gestsstaðir framundan til hægri og fjær sést út á Steingrímsfjörð.

Vaðið yfir Miðdalsá skammt ofan við bæinn á Klúku.

Endasprettur fjallvegahlaupsins niður melana neðst í Miðdal.
Lokaorð:
Vatnadalur er fáfarinn og fáum kunnur. Leiðin er ómerkt og ekki augljóst hvar best sé að fara upp að sunnanverðu. Dalurinn sjálfur er auðrataður en ekki fljótfarinn. Vatnadalur hentar vel til utanvegahlaupa, þar er grösugt og gott næði og hlaupaleiðin kemur á óvart í látleysi sínu.
Helstu heimildir:
- Birgitta Stefánsdóttir frá Kleifum (1915-2008): Munnleg heimild.
- Hermann Jóhannesson frá Kleifum: Munnleg heimild.