Kerlingaháls

Staðsetning: Frá Móbergi á Rauðasandi til Keflavíkur
       Ath: E.t.v. verður upphafspunkturinn færður vestar 
Hnattstaða:
Móberg:       N65°28,19' - V23°56,28'
XXXXXXXXX:      N65°' - V23°'
XXXXXXXXXXXXX:    N65°' - V23°'
Lok:         N65°30,51' - V24°15,03'
Hæð y. sjó: U.þ.b. xx m við upphaf, u.þ.b. 300 m hæst, u.þ.b. xx m við lok => Hækkun u.þ.b. xxx m, lækkun u.þ.b. xxx m, nettóhækkun u.þ.b. xx m  
Vegalengd: Um 12 km (eða styttra ef upphafspunkturinn verður færður vestar)
Tími: (Verður skráður í ferðalok)
Meðalhraði: (Verður skráður í ferðalok)
Dags.: ?
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina:

Hlaupið yfir Kerlingaháls hefst einhvers staðar á Rauðasandi, í síðasta lagi við Lambavatn, sem er ysti bærinn á sandinum. Skammt þar fyrir utan er hár grjóthóll sem nefnist Skaufhóll, væntanlega kenndur við skaufhala sem er eitt af mörgum nöfnum á tófu. Í Skaufhóli bjó álfkona sem gerði á sínum tíma tilraun til að ná séra Jóni Ólafssyni á Lambavatni á sitt vald eftir að hann hafði gantast með það á leið fram hjá hólnum að nú væru „allar dísir dauðar”. Jón varð á undan álfkonunni að kirkjunni í Saurbæ, enda hann á hesti en hún á hlaupum. Þar náði hann að hringja kirkjuklukkunum og við það brá álfkonunni svo að hún sneri tómhent til baka í Skaufhól. Þetta var líklega í lok 17. aldar og ekki víst að álfkonan búi þarna ennþá.

Frá Lambavatni eru u.þ.b. 3,7 km út að Naustabrekku eftir bílfærum slóða, fyrst um graslendi en síðan um svonefnda Brekkusanda utan við Skaufhól. Við Naustabrekku stóð samnefndur bær á sínum tíma og var hjáleiga frá Lambavatni. Þarna er lítið undirlendi og tæpast gott undir bú. Þó var búið á jörðinni fram yfir seinni heimstyrjöld og fyrr á öldum var þar nokkurt útræði. Nú stendur sumarbústaður þarna á bakkanum og fær rafmagn frá lítilli virkjun í læknum fyrir utan.

Hér er tekin vinkilbeygja til hægri upp Naustabrekku sem er býsna mikið á fótinn. Gatan upp er engu að síður greið, enda lögð í sneiðingum og hlaðin upp í giljum. Fljótlega er komið upp á brúnina, þar sem leiðin liggur um einstigi í klettum. Þegar upp er komið er hægt að halda beint áfram yfir Hnjótsheiði niður að Örlygshöfn, en í þessu hlaupi er beygt til vinstri (til vesturs) og lagt á Kerlingaháls. Þeirri leið lýsir Pétur Jónsson á Stökkum á Rauðasandi svo í Barðstrendingabók:

Þegar komið er á brún beygist vegurinn út eftir þverhníptum hamrabrúnum sem heita Hyrnur. … Er gatan þar víða svo tæp að sjá má fram af hengifluginu og fjörugrjótið beint fyrir neðan.

Leiðin yfir Kerlingaháls fer hæst í um 300 m. hæð, en eins og ráða má af lýsingu Péturs á Stökkum er óráð að stíga mikið út úr götunni vinstra megin.

Kerlingaháls heitir Kerlingaháls vegna þess að einu sinni voru þarna tvær kerlingar á ferð. Önnur gekk á undan og hin gekk í fótspor hennar. Það fór eitthvað í taugarnar á þeirri fyrri og endaði gangan með því að hún ávarpaði hina og sagði „Gakk þú nú í sporin mín, bölvuð”, og gekk síðan fram af brúninni. Hin fylgdi auðvitað á eftir og síðan hefur ekkert til þeirra spurst. Kerlingarnar tvær eru reyndar ekki eina fólkið sem hefur mætt örlögum sínum á þessum slóðum. Þarna feykti stórviðri séra Birni Bjarnasyni, presti í Sauðlauksdal, fram af brúninni snemma á 17. öld. og varð það hans bani. Nokkrum áratugum síðar fór eftirmaður hans, séra Þorbjörn Einarsson, sömu leið, en lifði fallið af.

Kerlingaháls var tiltölulega fjölfarinn fyrrum, bæði af prestum, sóknarbörnum og vermönnum. Kirkjan í Saurbæ á Rauðasandi var um tíma sóknarkirkja fyrir stóran hluta skagans sunnan Patreksfjarðar. Prestar fóru því þarna um og komust ekki allir á leiðarenda eins og fyrr segir. Almúginn lagði líka mikið á sig til að komast til kirkju, enda gat verið von á refsingu ef kirkjusóknin stóðst ekki mál. Þá fóru vermenn af Rauðasandi, Barðaströnd og víðar að þarna um í hópum á leið á vertíð í víkunum norðan Látrabjargs – og þeir sem lifðu vertíðina af fóru væntanlega svipaða leið til baka.

Síðasti kílómetri fjallvegahlaupsins um Kerlingaháls er allur á undanhaldinu, allt þar til komið er niður í Keflavík. Þar endar hlaupið við bæinn sem stóð þarna hátt í kílómetra frá sjónum. Þar var búið með kindur og kýr, auk þess sem útræði var töluvert og hlunnindi af fugli og eggjum úr Látrabjargi. Í byrjun 18. aldar voru sjö skip gerð út frá Keflavík á vorvertíð og voru þau öll í eigu Guðrúnar ríku Eggertsdóttur í Saurbæ, sem jafnframt átti Keflavíkurjörðina. Guðrún var harður húsbóndi. Á þessum bátum voru líklega hátt í 50 sjómenn. Reyndar eru til heimildir um útgerð allt að 13 skipa frá Keflavík um miðja 19. öld og af því má ráða að þá hafi mannfjöldinn verið hátt í 100 manns.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu

Helstu heimildir:

 • Gísli Már Gíslason og Ólafur B. Thoroddsen, 2020: Rauðasandshreppur hinn forni. Árbók Ferðafélags Íslands 2020. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
 • Helgi M. Arngrímsson, 2007: Vestfirðir og Dalir 4 – Útivera. Göngu- og reiðleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
 • Kjartan Ólafsson, 2019: Lambavatn og Naustabrekka. Sögur og sagnir. https://sogurogsagnir.is/sagnabrunnur/lambavatn-og-naustabrekka.