Sölvamannagötur

Staðsetning: Frá Markhöfða í Hrútafirði að Sólheimum í Laxárdal
Hnattstaða:
Upphaf: N65°09,01' - V21°05,52' (VII)
Lok:    N65°13,11' - V21°22,11' (VII)
Hæð y. sjó: (Verður skráð í ferðalok). Væntanlega hæst um 200 m y.s.  
Vegalengd: Um 16 km
Tími: (Verður skráður í ferðalok)
Meðalhraði: (Verður skráður í ferðalok)
Dags.: Óákveðið
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina:

Norðanmenn fóru Sölvamannagötu fyrr á tímum á leið á sölvafjörur í Gilsfirði, en þar var nóg til af þessum rauðþörungum. Auðvitað endaði leið sölvamanna ekki á Sólheimum, heldur var haldið áfram niður Laxárdal að Sámsstöðum og síðan um svonefndar Hálsagötur að Ljárskógaseli og þaðan áfram að Glerárskógum í Hvammssveit. Ekki er ólíklegt að þaðan hafi leiðin legið norður Sælingsdalsheiði, norður í Hvammsdal inn af Saurbænum.

Hlaupaleiðin um Sölvamannagötur hefst rétt norðan við Markhöfða, sem er nýbýli í landi Fjarðarhorns í Hrútafirði, skammt norðan við Staðarskála. Leiðin liggur í vestnorðvestur um Freyjusund, rétt sunnan við Djúputjörn og yfir Austurkvísl og Vesturkvísl sem sameinaðar mynda Laxá í Hrútafirði. Á vesturbakka Vesturkvíslar er eyðibýlið Kvíslasel, en þangað eru um 8 km frá upphafsstaðnum. U.þ.b. 4 km síðar er komið inn á veginn yfir Laxárdalsheiði (veg. nr. 59), norðan við Sólheimabungu og sunnan við Laxárvatn. Síðustu fjóra kílómetrana eða svo er veginum fylgt til vesturs og síðan heim að Sólheimum þar sem hlaupið endar.

Sölvamannagötur eru fáfarnar nú til dags, en fyrr á öldum áttu menn þar leið um í fleiri erindagjörðum en til þess eins að tína söl í Gilsfirði. Þarna á Gunnar á Hlíðarenda t.d. að hafa farið á sínum tíma til að hitta Hrút á Hrútsstöðum, dulbúinn sem Kaupa-Héðinn og vel nestaður með handrit frá Njáli. Eitthvað koma Sölvamannagötur líka við sögu í Sturlungu – og í Öldinni okkar er sagt frá ferðalagi Einars Þorleifssonar hirðstjóra þarna austur yfir árið 1463 með tólf manna fylgdarliði á hestum. Hópurinn hreppti vonskuveður og urðu sumir úti en aðrir komust niður í Hrútafjörð, sumir þó örendir og frosnir við hnakkana.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu

Nesti og annar búnaður:

Verður skráð að hlaupi loknu

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu

Helstu heimildir:

Gönguleiðakort. Vestfirðir og Dalir, 7.