Gyltuskarð

Staðsetning: Frá Þúfnavöllum í Víðidal (í Staðarfjöllum) að Staðarrétt við Reynistað í Skagafirði.
Hnattstaða: 
Upphaf:          0,00 km, N65°38,30' - V19°49,48'
Vegarendi:        0,91 km, N65°38,76' - V19°49,23' 322 m
Miðdalsá:         7,42 km, N65°39,92' - V19°44,25' 281 m
Ranghalaá:        11,51 km, N65°39,25' - V19°40,15' 397 m
Lok:           18,36 km, N65°39,30' - V19°34,78'
Hæð y. sjó: 317 m við upphaf, 504 m hæst, 42 m við lok
Samanlögð hækkun: 519 m 
Vegalengd: 18,36 km
Tími: 2:31:55 klst.
Meðalhraði: 7,25 km/klst (8:16 mín/km)
Dags.: Þriðjudaginn 16. ágúst 2022 kl. 12:52
Hlaupafélagar: Rannveig Oddsdóttir

Fróðleikur um leiðina:

Gyltuskarð var fyrr á árum tiltölulega fjölfarin leið á milli byggðarinnar í Skagafirði og byggðarinnar sem þá var í Víðidal í Staðarfjöllum, eins og sá dalur er yfirleitt kallaður. Reyndar er Víðidalur ekki beinlínis í Staðarfjöllum, heldur á bak við þau, séð frá Skagafirði. Nú liggur torfarinn jeppaslóði eða smalavegur alla leiðina í gegnum skarðið, líklega á svipuðum slóðum og upphaflega leiðin. Það var ekki fyrr en með nútíma vegagerð sem ekki lá lengur beinast við að leggja vegi þar sem auðveldast er að fara um landið.

Fjallvegahlaupið um Gyltuskarð hefst við fornbýlið Þúfnavelli í Víðidal. Þar sjást engin augljós ummerki um búsetu, en þar stendur nú skáli Ferðafélags Skagafjarðar. Fyrsta spölinn er hlaupið eftir greinilegum fjárgötum niður með Víðidalsá að austanverðu með stefnu á smalaveginn, sem endar í greinilegu snúningsplani neðarlega í hlíðinni. Þetta plan sést vel frá skálanum.

Leiðin út og upp hlíðina er býsna brött á kafla, en á Hrossastöllum er sveigt til hægri (til austurs) upp í sjálft skarðið. Þaðan blasir við bæjarstæðið að Helgastöðum, aðeins utar í dalnum, en þar er talið að einhvern tímann hafi staðið kirkja eða bænhús. Þar er jafnvel gamall grafreitur, þó að það hafi líklega ekki verið endanlega staðfest. Þúfnavellir og Helgastaðir eru tveir af fjórum bæjum sem vitað er með vissu að búið hafi verið á í Víðidal, en líklega voru fleiri fjallakot þar fyrr á öldum. Lengst var búið á Gvendarstöðum, yst í dalnum, en þar lagðist byggð af árið 1898. Þangað liggur leiðin ekki í þessu hlaupi. Víðidalur lítur reyndar út fyrir að vera nokkuð búsældarlegur á sumrin, en veturnir hafa eflaust verið erfiðir

Á leiðinni upp í skarðið er fjallaklasinn Háheiði á hægri hönd og þar er fjallið Gylta (750 m) næst. Áfram er svo haldið eftir býsna hlaupalegum moldargötum, þar sem sums staðar er þrætt inn og út úr grónum þvergiljum. Þarna fer leiðin hæst í um 460 m.y.s.

Eftir tæplega 7,5 km er hlaupið yfir Miðdalsá á móts við Staðarsel sem stóð norðanvert (vinstra megin) í skarðinu. Þar var haft í seli frá Reynistað, sennilega bæði með kindur og nautgripi. Síðustu tvö árin mun hafa verið föst búseta í selinu, en það lagðist endanlega af um 1870. Á þessum slóðum eru reyndar til heimildir um allmörg sel, sem sumum mótar enn fyrir. Líklega hafa fæst þeirra nokkurn tímann verið með fasta búsetu.

Miðdalsá er vatnslítil og þar er hið eiginlega Gyltuskarð að baki. Þegar komið er yfir ána sveigir leiðin til suðurs (til hægri) áleiðis inn og upp á Seltungu, sem er svolítill fjallsrani á milli Miðdals og Fremri-Ranghala. Handan við Seltungu er komið niður í Ranghala á móts við rústir Bjálfasels. Þangað eru u.þ.b. 11,5 km frá Þúfnavöllum. Þarna rennur Ranghalaá eftir dalbotninum, á móti hlaupastefnunni. Hún sameinast Víðidalsá miklu norðar og að endingu skilar vatnið sér til sjávar sem hluti af Gönguskarðsá, rétt við Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki.

Rétt fyrir ofan Bjálfasel kemur Þjófagil neðan úr Staðaröxl vinstra megin við hlaupaleiðina. Samkvæmt Skarðsárannál voru 18 þjófar fangaðir þar árið 1453, en þeir höfðu „rænt konum og píkum, týgjum og vopnum og öðru fé“ (PS, bls. 99) og borið í helli í gilinu. Þjófarnir náðust, og hafa sennilega fengið flýtimeðferð í dómskerfinu. Þremur nóttum eftir handtökuna var alla vega búið að hengja þá alla nema einn, enda höfðu þeir þá verið fundnir sekir um skipulagða glæpastarfsemi. Sá eini sem slapp við hengingu var unglingur sem sannað þótti að hefði verið neyddur til að taka þátt í glæpunum. Sumir efast um sannleiksgildi þessarar frásagnar og benda á að talan 18 komi grunsamlega oft fyrir í þjóðsögum.

Frá Ranghalaá eru um 2 km upp á hæsta punkt leiðarinnar á Staðarfjöllum og þá hefst lækkunin í átt til Skagafjarðar. Þarna liggur vegurinn í sneiðingum niður Staðarfjöllin, nyrst á Kerlingarhálsi. Hlaupið endar svo á Sauðárkróksvegi nálægt Reynistað, nánar tiltekið við Staðarrétt, u.þ.b. 10 km innan við Sauðárkrók.

Ferðasagan:  

Verður skráð í fyllingu tímans, en þangað til má lesa söguna að miklu leyti í þar til gerðu myndaalbúmi á Facebook.

Lokaorð:

Í smíðum.

Helstu heimildir:

 • Ferðafélag Skagafjarðar (2001): Gönguleiðir í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði. Frá Skagafirði til Vatnsdals. Gönguleiðir á Norðurlandi vestra II. Gönguleiðakort. Hringur – Atvinnuþróunarfélag Skagafjarðar og Ferða- og  markaðsmiðstöð Austur-Húnavatnssýslu.
 • Páll Sigurðsson (2012): Skagafjörður vestan Vatna. Frá Skagatá að Jökli. Árbók Ferðafélags Íslands, Reykjavík.