Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2023 er nokkurn veginn tilbúin – og þar eru hvorki fleiri né færri en 8 leiðir á blaði. Auðvitað má þó alltaf búast við einhverjum breytingum þegar nær dregur. Áætlun er jú eitt og raunveruleikinn annað, enda ræðst raunveruleikinn í þessu tilviki af jafnfallvöltum þáttum og veðri og hlaupaheilsu eins manns. Dagskráin birtist á síðunni Næstu hlaup og þar verða allar breytingar settar inn jafnóðum og þær liggja fyrir. Breytingar verða líka kynntar á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins.
Stærsta fjallvegahlaupaverkefni sumarsins eru fimm fjallvegir á Hornströndum 4. og 5. júlí. Búið er að útvega sjóferð og gistingu fyrir 16 manns – og þau pláss eru öll „uppseld“. En auðvitað er öðrum frjálst að mæta á eigin vegum, enda eruð þið öll alltaf velkomin í fjallvegahlaupin (á eigin ábyrgð).
Fróðleikur um sjö af átta fyrirhuguðum fjallvegum sumarsins er kominn inn á fjallvegahlaupasíðuna (undir Næstu hlaup) og verður uppfærður smám saman eftir því sem þekkingin eykst.
Sumarið 2023 verður sjöunda sumarið í öðrum áfanga fjallvegahlaupaverkefninsins, en allt byrjaði þetta upp úr fimmtugsafmælinu mínu árið 2007. Fyrsta áfanganum lauk á sextugsafmælinu 2017 og þá var gefin út bók um 50 fyrstu leiðirnar. Bók nr. 2 með næstu 50 leiðum er svo væntanleg á sjötugsafmælinu 2027.
Sex fyrstu sumur annars áfanga (sumrin 2017-2022) skiluðu ekki nema 23 fjallvegum og því eru enn 27 leiðir óhlaupnar fram að sjötugsafmælinu. Ef allt hefði verið með felldu ættu helst 30 fjallvegir að vera að baki (5 að meðaltali á ári). En enn er nógur tími og nóg til af skemmtilegum valkostum. „Nóg frammi“ sem sagt.
(Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin í Hrafnkelsdal í byrjun júlí 2022. Þarna er meistari Páll á Aðalbóli að ferja okkur fimm saman yfir Hrafnkelu í upphafi fjallvegahlaups um Aðalbólsveg að Kleif í Fljótsdal. (Ljósm. Ragnhildur Aðalsteinsdóttir)).
Þungamiðjan í fjallvegahlaupadagskránni minni sumarið 2023 verður tveggja daga ferð á Hornstrandir 3.-5. júlí. Í þessari ferð er ætlunin að hlaupa fimm fjallvegi – og þeir sem ekki leggja í allan þann pakka geta notið þessara daga í lengri eða skemmri gönguferðum í nágrenni Hesteyrar. Að vanda eru öllum velkomið að slást í för með mér, bæði hlaupurum og ekki-hlaupurum, en eðlilega er framkvæmdin ögn flóknari og kostnaðurinn meiri en í venjulegum fjallvegahlaupum milli tveggja staða í byggð. Gert er ráð fyrir að hópurinn gisti á Hesteyri í tvær nætur og þar er ekki gistipláss nema fyrir 16 manns. Hér gildir sú einfalda regla „Fyrst koma, fyrst fá“ og því borgar sig að taka ákvörðun sem fyrst.
Dagskrá þessara júlídaga verður í stuttu máli sem hér segir:
Mánudagur 3. júlí:
Siglt frá Bolungarvík (eða Ísafirði) síðdegis
Kvöldverður á Hesteyri
Gisting á Hesteyri
Þriðjudagur 4. júlí:
Morgunverður á Hesteyri
Hlaup um nálæga fjallvegi (tekur nánast allan daginn)
Kvöldverður á Hesteyri
Gisting á Hesteyri
Miðvikudagur 5. júlí
Morgunverður á Hesteyri
Hlaup um nálæga fjallvegi (tekur stóran hluta dagsins)
Sigling til baka síðdegis
Sem fyrr segir er gistipláss á Hesteyri fyrir 16 manns. Þar er um að ræða svefnpokagistingu í þremur herbergjum, en hægt er að fá uppbúin rúm fyrir ögn hærra verð. Verðskráin fyrir sumarið 2023 liggur ekki fyrir, en sólarhringurinn kostar væntanlega um 22.500 kr/mann. Inni í þeim pakka er gisting, morgunverður og kvöldverður. Gistingin er frátekin fyrir fjallvegahlaupara fram til jóla. Þá þarf að ganga frá endanlegri pöntun, enda eftirspurn mikil frá öðrum hópum. Bátsferðin báðar leiðir gæti kostað u.þ.b. 25.000 kr, þannig að heildarkostnaðurinn fyrir þessa tvo daga verður nálægt 70.000 kr/mann.
Sem fyrr segir ætla ég að hlaupa fimm fjallvegi á þessum tveimur dögum. Röð fjallveganna er ekki alveg ákveðin, en þetta gæti t.d. litið svona út:
Dagur 1:
Hesteyrarskarð frá Hesteyri að Látrum í Aðalvík, um 11 km
Tunguheiði frá Látrum í Aðalvík til Fljótavíkur, um 10 km
(„Ferjuleið“ inn fyrir Fljótavatn (ekki fjallvegahlaup), um 7 km)
Háaheiði frá Fljótavík til Hesteyrar, um 11 km
Dagur 2:
Kjaransvíkurskarð frá Hesteyri til Kjaransvíkur, um 13 km
Þorleifsskarð frá Kjaransvík til Fljótavíkur, um 11 km
(Heimferð (ekki fjallvegahlaup) um Háuheiði, um 11 km)
Leiðirnar eru sýndar í mjög grófum dráttum á kortinu efst í þessari færslu, (sem er að grunni til „tekið að láni“ frá Landmælingum Íslands). Stærra kort birtist ef smellt er á þetta.
Þau ykkar sem vilja vera með mér í þessum pakka ættu að láta mig vita sem fyrst, því að 16 pláss gætu verið fljót að fyllast. Þetta er ekkert bindandi til að byrja með, en endanleg ákvörðun þarf sem fyrr segir að liggja fyrir um jól. Hægt er að senda mér skilaboð á Messenger, senda tölvupóst á stefan@environice.is eða heyra í mér í síma 862 0538. Þeim sem geta sjálf komið sér á staðinn og eiga aðra gistimöguleika er svo auðvitað líka meira en velkomið að mæta og taka þátt í gleðinni.
Nokkrir helstu fjallvegahlauparar sögunnar úti undir vegg Læknishússins á Hesteyri á góðum sumardegi í júlí 2016.
Stefnt er að fjallvegahlaupum yfir annars vegar Strjúgsskarð og Litla-Vatnsskarð (fjallvegahlaup nr. 72) og hins vegar Gyltuskarð (fjallvegahlaup nr. 73) þriðjudaginn 16. ágúst 2022. Lagt verður af stað frá Strjúgsstöðum kl. 10 um morguninn. Upphaflega stóð til að hlaupa þessar leiðir 9. ágúst, en hlaupunum var þá frestað vegna eindreginnar rigningarspár. Spáin fyrir 16. ágúst lítur mun betur út.
Vonandi slást sem flestir í för með mér á þessum fjallvegum. Þátttökugjöld eru engin, fólk tekur þátt á eigin ábyrgð og þarf sjálft að sjá um flutninga. Vegna þess síðastnefnda getur verið snjallt að láta vita af fyrirhugaðri þátttöku, því að oft er hægt að sameinast í bíla.
Fjallvegahlaup morgundagsins (9. ágúst), annars vegar um Strjúgsskarð og Litla-Vatnsskarð – og hins vegar um Gyltuskarð, frestast um óákveðinn tíma vegna mikillar rigningar sem búist er við að gangi yfir svæðið fyrri hluta dagsins. Ný dagsetning verður væntanlega kynnt fljótlega.
Þess má geta að þetta er í annað sinn sem fjallvegahlaupi yfir Strjúgsskarð er frestað. Það gerðist líka 2015. Leiðin hefur sem sagt verið lengi á verkefnalistanum.
Þriðjudaginn 9. ágúst 2022 ætla ég að hlaupa tvo fjallvegi á Norðurlandi vestra, nánar tiltekið eftirtalda:
Strjúgsskarð og Litla-Vatnsskarð frá Strjúgsstöðum í Langadal (um 17 km innan við Blönduós), yfir Strjúgsskarð að Kárahlíð í Laxárdal fremri þar sem Rósberg G. Snædal fæddist 1919, og áfram yfir Litla-Vatnsskarð að skála Ferðafélags Skagfirðinga við fornbýlið Þúfnavelli í Víðidal (í Staðarfjöllum). Þessi leið er eitthvað um 14 km og eftir því sem næst verður komist er hægt að fylgja grófum jeppaslóða nánast alla leið. Þetta verður væntanlega fjallvegur nr. 72 í fjallvegahlaupaverkefninu mínu.
Gyltuskarð frá Þúfnavöllum í Víðidal (í Staðarfjöllum) að Staðarrétt við Reynistað í Skagafirði (um 10 km innan við Sauðárkrók). Þessi leið er eitthvað um 18 km og þarna er líka hægt að fylgja grófum jeppaslóða mestalla leið. Þetta verður þá fjallvegur nr. 73.
Hlaup dagsins hefjast við Strjúgsstaði kl. 10:00 umræddan þriðjudagsmorgun og af fenginni reynslu má ætla að þau taki samanlagt 6-8 klst með hæfilegum áningum. Gaman væri að sjá sem flesta þennan dag, en að vanda tekur fólk þátt í þessu ævintýri á eigin ábyrgð.
Nánari upplýsingar um fjallvegina tvo er að finna undir Næstu hlaup á fjallvegahlaup.is.
(Þar sem ég hef hvorki komið í Laxárdal fremri né í Víðidal (í Staðarfjöllum) læt ég nægja að birta hér eina af uppáhalds fjallvegahlaupamyndunum mínum, en hún var tekin í Garðsárdal í Eyjafirði 13. júní 2020).
Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2022 er farin að taka á sig mynd, vonum seinna. Enn sem komið er hafa aðeins fjögur hlaup verið ákveðin, öll á Austurlandi fyrstu dagana í júlí. Ef allt gengur vel munu fleiri bætast við þegar líður á sumarið.
Svona lítur fjallvegahlaupadagskráin 2022 út eins og staðan er í dag:
Laugardagur 2. júlí 2021, kl. 10:00: Kækjuskörð – Frá Þverárbrú í Borgarfirði að Stakkahlíð í Loðmundarfirði – 13 km
Laugardagur 2. júlí 2021, kl. 12:30: Tó – Frá Klyppstað í Loðmundarfirði að Gilsárteig í Eiðaþinghá – 24 km Nákvæm tímasetning er háð því hvernig gengur í hlaupi nr. 1.
Þriðjudagur 5. júlí 2021, kl. 10:00: Aðalbólsvegur– Frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal að Kleif í Fljótsdal – 21 km
Miðvikudagur 6. júlí 2021, kl. 14:00: Dalaskarð – Frá Seyðisfirði að Dalatanga – 11 km
Upphaflega var gert ráð fyrir að fjallvegahlaupasumarið hæfist suðvestanlands í maí og að í júní yrði hlaupið á Norðurlandi. Ekkert varð þó úr þessu vegna þrálátra meiðsla. Meiðslin eru ekki úr sögunni, en ástæða þykir til að ætla að þau komi ekki í veg fyrir að áætlunin hér að framan geti orðið að veruleika.
Sumarið 2022 verður sjötta sumarið í öðrum áfanga fjallvegahlaupaverkefninsins, en allt byrjaði þetta upp úr fimmtugsafmælinu mínu árið 2007. Fyrsta áfanganum lauk á sextugsafmælinu 2017 og þá var gefin út bók um 50 fyrstu leiðirnar. Bók nr. 2 með næstu 50 leiðum er svo væntanleg á sjötugsafmælinu 2027.
Fimm fyrstu sumur annars áfanga (sumrin 2017-2021) skiluðu ekki nema 18 fjallvegum, en ef allt hefði verið með felldu ættu helst 25 fjallvegir að vera að baki (5 að meðaltali á ári). En enn er nógur tími og nóg til af óhlaupnum leiðum.
Vonandi slást sem flestir í för með mér á fjallvegunum fyrir austan í sumar, en að vanda eru allir velkomnir (á eigin ábyrgð). Breytingar á dagskránni verða kynntar á þessari síðu og á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins. Á næstu vikum verður líka settur inn einhver fróðleikur um leiðirnar fjórar.
Þess má geta að Dyrfjallahlaupið verður haldið fyrir austan laugardaginn 9. júlí. Þar verða hlaupnar sömu leiðir og í fyrra, um Breiðuvík og Brúnavík á Víknaslóðum. Dyrfjallahlaupið gæti því sem best orðið endirinn á frábærri fjallahlaupaferð um Austurland í næsta mánuði.
(Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin í Sandvíkurskarði í sumarblíðunni fyrir austan í byrjun júlí 2021).
Viðfjarðarbærinn. (Í vinnuferð um Norðfjarðarflóa haustið 2019).
Eins og fram hefur komið er Austurlandið vettvangur fjallvegahlaupa tvo næstu daga. Á dagskrá eru fjögur hlaup, sem verða fjallvegahlaup nr. 65-68 ef allt fer að óskum. Erindi þessa pistils er að rýna aðeins nánar í þessa dagskrá.
Þriðjudagur 6. júlí Dagskrá morgundagsins er einföld. Þá ætla ég að hlaupa Hjálpleysu frá Áreyjum í Reyðarfirði að Grófargerði á Völlum, samtals um 16 km. Leiðin er brött á köflum en auðrötuð, því að Hjálpleysa er bara dalur og fjöllin beggja vegna svo brött að maður getur engan veginn álpast yfir þau af gáleysi. Leiðarlýsingin fyrir þessa leið er nokkurn veginn tilbúin og þar er hægt að finna einhvern viðbótarfróðleik. Þar kemur þó ekkert fram um snjóalög, sem líklega eru töluverð þegar haft er í huga að leiðin fer hæst í 768 m yfir sjó og að í þröngum dölum er sólargangurinn stuttur. Auk þess eru víða miklar fannir í fjöllum fyrir austan þetta sumarið.
Miðvikudagur 7. júlí Dagskrá miðvikudagsins er talsvert margslungnari en dagskrá morgundagsins og heildarvegalengdin meiri. Dagurinn hefst með annarri tilraun minni til að hlaupa Víkurheiði og Dys frá ósum Ytri-Teigarár í norðanverðum Reyðarfirði yfir í Viðfjörð. Þessi leið er um 13 km og auðrötuð, enda jeppafær vegur alla leið. Helsti farartálminn er Þverá, sem kemur úr fjöllunum þarna vesturaf og rennur til sjávar í Vöðlavík. Hún á það til að vera nokkuð vatnsmikil – og ég hef frétt að sú sé einmitt raunin núna, enda mikill snjór til fjalla og síðustu dagar hlýrri en tíðkast hefur í sumar. Þegar ég reyndi fyrst að efna til fjallvegahlaups þarna yfir, sem var þriðjudaginn 4. ágúst 2015, var áin ófær gangandi fólki. Reyndar komumst við aldrei svo langt, því að vatnsveðrið var þvílíkt að við snerum við eftir tæplega 4 km brölt áleiðis upp Víkurheiði.
Við upphaf endaslepps fjallvegahlaups yfir Víkurheiði og Dys í miklu vatnsveðri 4. ágúst 2015. (Mig minnir að Haukur Þórðarson hafi tekið myndina).
Þegar Víkurheiði og Dys eru að baki tekur við 4 km „ferjuleið“ frá Viðfjarðarbænum áleiðis út Barðsnes, nánar tiltekið út að Stuðlum þar sem annað fjallvegahlaup dagsins hefst. Þessi leið er greiðfarin eftir þokkalegum dráttarvélaslóða. Ég hljóp þarna einmitt í Barðsneshlaupinu 2015 og fannst það gaman.
Dagskrá þriðjudagsins hefst kl. 10 og ég ímynda mér að hlaupið yfir Víkurheiði og Dys taki í allra mesta lagi 3 klst. Með rólegu skokki út að Stuðlum ætti þá allt að vera klárt fyrir næsta fjallvegahlaup um kl. 13:30. Í svona áætlunum þarf þó alltaf að vera einhver sveigjanleiki.
Í öðru fjallvegahlaupi dagsins liggur leiðin fyrst upp frá Stuðlum yfir Sandvíkurskarð til Sandvíkur – og svo þvert yfir láglendið í Sandvík og yfir Gerpisskarð til Vöðlavíkur. Þessum tveimur skörðum var slegið saman í einn fjallveg til að ná lágmarksvegalengd fjallvegahlaupanna, 9 km. Reglur eru nú einu sinni reglur. Þetta tvískipta fjallvegahlaup er samtals á að giska 10 km og tekur sjálfsagt um 2 klst., enda fara skörðin hvort um sig í 500-700 m hæð.
Næsta verkefni verður að komast frá Vöðlum í Vöðlavík yfir að kirkjugarðinum sunnanvert í víkinni, á milli eyðibýlanna Þverár og Kirkjubóls. Þessi „ferjuleið“ er svipað löng og fyrri „ferjuleið“ dagsins og með svipuðum útreikningum og áður má áætla að hægt verði að leggja upp frá kirkjugarðinum í síðasta fjallvegahlaup dagsins kl. 16:00 eða þar um bil. Opinber tímasetning er reyndar kl. 15:30, en í svona ferðum getur margt raskað þeim áætlunum sem gerðar eru við fjarlæg skrifborð.
Þriðja og síðasta fjallvegahlaup miðvikudagsins átti upphaflega að vera yfir Sléttuskarð frá Vöðlavík til Reyðarfjarðar. Í gærkvöldi var hins vegar tekin sú ákvörðun að hlaupa frekar yfir Karlskálaskarð, en báðar leiðirnar hafa sama upphafs- og lokapunkt og eru svipað langar. Karlskálaskarð er bara einu fjalli austar og hefur þann kost að þar er stikuð gönguleið – og svo er nafnið ögn sértækara og tengdara sögu svæðisins.
Leiðin yfir Karlskálaskarð er varla meira en 8 km úr Vöðlavík að Karlskála. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að hún sé lengd með svolitlum endaspretti inn að Ytri-Teigará til að loka hringferð dagsins. Þannig gæti þetta teygst í 13 km. Mjög lauslega áætlaður komutími að Ytri-Teigará er kl. 19:00.
Eftirfarandi tafla sýnir mjög grófa áætlun um vegalengdir og tímasetningar miðvikudagsins:
Fjögur fjallvegahlaup eru á dagskrá í vikunni, öll á Austurlandi. Áætlun næstu daga er sem hér segir:
Þriðjudagur 6. júlí 2021, kl. 10:00, Fjallvegahlaup nr. 65: Hjálpleysa – Frá Áreyjum í Reyðarfirði að Grófargerði á Völlum – 16 km
Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 10:00, Fjallvegahlaup nr. 66: Víkurheiði og Dys – Frá Ytri-Teigará í Reyðarfirði yfir í Viðfjörð – 13 km
Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 13:30, Fjallvegahlaup nr. 67: Sandvíkurskarð og Gerpisskarð– Frá Stuðlum í Viðfirði að Vöðlum í Vöðlavík – 10 km Nákvæm tímasetning er háð því hvernig gengur í hlaupi nr. 66.
Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 15:30, Fjallvegahlaup nr. 68: Sléttuskarð– Frá Kirkjubóli í Vöðlavík að Ytri-Teigará í Reyðarfirði – u.þ.b. 15 km Nákvæm tímasetning er háð því hvernig gengur í hlaupi nr. 67.
Leiðarlýsingar eru ekki allar komnar inn, en verið er að vinna í því. Tenglum verður bætt hér inn þegar eitthvað er farið að gerast.
Vonandi slást sem flestir í för með mér í þessum hlaupum. Veðurspáin lofar góðu sbr. þessa mynd af vef Veðurstofu Íslands, en þar er sýnd staðaspá fyrir Austfirði á hádegi miðvikudaginn 7. júlí:
Fjallvegahlaupið/Hamingjuhlaupið yfir Kollabúðaheiði á morgun, laugardaginn 26. júní, hefst í Þorskafirði kl. 17:00 en ekki kl. 8:30 eins og áformað var. Þessi breyting er tilkomin vegna mikils hvassviðris sem spáð er fyrri hluta dagsins. Áætlaður komutími til Hólmavíkur breytist til samræmis við þetta. Hlaupinu lýkur þannig á Hólmavík kl. 22:30 annað kvöld.
Endurskoðuð tímaáætlun Hamingjuhlaupsins sést hér að neðan. Skýrari mynd sést ef smellt er á þessa:
Í dag var endanlega valin leið fyrir Hamingjuhlaupið 2021, en Hamingjuhlaupið er árlegur viðburður í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík. Að þessu sinni varð leiðin yfir Kollabúðaheiði fyrir valinu og þar sem sú ágæta heiði uppfyllir öll skilyrði verður þetta jafnframt fjallvegahlaup nr. 64, þ.e.a.s. fyrstu u.þ.b. 20,4 kílómetrarnir. Eftir það tekur við u.þ.b. 17,1 km malbikshlaup til Hólmavíkur.
Fjallvegahlaupið (og Hamingjuhlaupið) yfir Kollabúðaheiði hefst innst í Þorskafirði laugardaginn 26. júní 2021 kl. 8:30. Eins og jafnan í Hamingjuhlaupum verður fylgt fyrirfram ákveðinni tímaáætlun, sem miðast við að hlaupinu ljúki á Hólmavík þegar Hamingjudagar standa sem hæst, stundvíslega kl. 14:00 sama dag. Í reynd svipar tímaáætluninni mjög til strætisvagnaáætlunar, þar sem hlaupararnir verða staddir á fyrirfram ákveðnum stöðum á fyrirfram ákveðnum tímum. Þeir sem ekki treysta sér til að hlaupa alla leið geta þannig komið inn (og/eða farið út) þar sem þeim hentar.
Með þessari breytingu lítur fjallvegahlaupadagskrá sumarsins svona út:
Laugardagur 26. júní 2021, kl. 8:30 Kollabúðaheiði – Úr botni Þorskafjarðar yfir í Staðardal í Steingrímsfirði – 20 km
Laugardagur 3. júlí 2021, kl. 13:00: Króardalsskarð – Úr botni Seyðisfjarðar í botn Mjóafjarðar – 11 km
Þriðjudagur 6. júlí 2021, kl. 10:00: Hjálpleysa – Frá Áreyjum í Reyðarfirði að Grófargerði á Völlum – 16 km
Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 10:00: Víkurheiði og Dys – Frá Ytri-Teigará í Reyðarfirði yfir í Viðfjörð – 13 km Þessi leið var á dagskrá fyrra fjallvegahlaupaverkefnis 4. ágúst 2015. Lögðum af stað sex saman, en urðum frá að hverfa vegna gríðarlegs vatnsveðurs sem gekk yfir Austurland um þær mundir. Nú mun þetta örugglega ganga betur.
Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 13:30: Sandvíkurskarð og Gerpisskarð – Frá Stuðlum í Viðfirði að Vöðlum í Vöðlavík – 10 km Nákvæm tímasetning er háð því hvernig gengur í hlaupi nr. 3.
Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 15:30: Sléttuskarð – Frá Kirkjubóli í Vöðlavík að Ytri-Teigará í Reyðarfirði – u.þ.b. 15 km Nákvæm tímasetning er háð því hvernig gengur í hlaupi nr. 4.
Nánari upplýsingar um fjallvega- og Hamingjuhlaupið yfir Kollabúðaheiði verða settar inn á næstu dögum.