Sandaskörð

Staðsetning: Frá Hólalandi í Borgarfirði að Ánastöðum í Hjaltastaðaþinghá
Hnattstaða:
Upphaf: Skráð síðar
Lok:    Skráð síðar
Hæð y. sjó: Fer hæst í 602 m  
Vegalengd: Um 21 km
Tími: (Verður skráður í ferðalok)
Meðalhraði: (Verður skráður í ferðalok)
Dags.: Óákveðið
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina:

Um Sandaskörð lá fyrr á árum alfaraleið frá Borgarfirði eystri upp á hérað. Hlaupaleiðin liggur upp aflíðandi brekkur inn eftir norðanverðum Hólalandsdal, nánast beint í vestur. Eftir u.þ.b. 4 km hlaup er farið yfir Miðá og handan við ána er komið að stígamótum. Leiðin til hægri liggur upp í Eiríksdalsvarp og yfir á Eiríksdal og er sú leið m.a. hlaupin í Dyrfjallahlaupum. Leiðin upp í Sandaskörð liggur hins vegar áfram beint í vestur upp Mannamela, Fláa og Biskupsbrekku upp í sjálf skörðin sem liggja á milli Beinageitarfjalls (1110 m) að sunnanverðu (til vinstri) og Grjótupsar (852 m) að norðanverðu (til hægri). Úr skörðunum liggur leiðin niður Sandadal meðfram Sandá. Þegar mesti hallinn er að baki er sveigt til vinstri og stefnan tekin á eyðibýlið Ánastaði ofarlega í Hjaltastaðaþinghá en þar endar hlaupið.

Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvernig örnefnið Beinageitarfjall sé tilkomið. Sumir segja að það sé dregið af skafli sem situr löngum vestanvert í fjallinu og líkist geit að lögun. Aðrir segja að nafnið tengist búskaparárum Margrétar ríku á Eiðum sem hafi haldið geitur í seli í Hraundal sunnan og vestan við fjallið. Þær á að hafa fennt á Beinahjalla og beinin sést þar lengi síðan. Enn aðrir segja að nafnið sé upphaflega úr gelísku.

Leiðin um Sandaskörð er harðsótt á vetrum enda veður óblíð þarna uppi. Til eru ýmsar sagnir af hrakningum á þessum slóðum og sumir þeirra sem lögðu á skörðin komust aldrei á leiðarenda. Ein þeirra var Áslaug Þorkelsdóttir frá Gilsárhjáleigu (nú Grund) í Borgarfirði sem slóst í för með Þórði Þórðarsyni fóstursyni sínum og fósturbróður seint í janúar 1884 á leið í heimsókn til skyldmenna í Hjaltastaðaþinghá. Áslaug var illa búin og ekki eins vön svaðilförum og Þórður, sem var „dugnaðarmaður og annálaður göngugarpur, svo að hann átti fáa sína líka á því sviði“, (PH, bls. 122). Áslaugu var ráðlagt að fara hvergi en hún hafði þau ráð að engu „enda var hún talið ókvalráð og nokkuð einþykk“, (PH, bls. 122). Áslaugu og Þórð bar af leið í aftakaveðri í skörðunum, hún varð úti á Eiríksdal en hann komst við illan leik til byggða að Sandbrekku. Þess má geta að umræddur Þórður var fæddur á Sævarenda í Loðmundarfirði árið 1859 og var albróðir og alnafni langafa Bjarkar Jóhannsdóttur, eiginkonu þess sem þetta ritar. 

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu

Nesti og annar búnaður:

Verður skráð að hlaupi loknu

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu

Helstu heimildir:

  • Helgi M. Arngrímsson o.fl. (2007): Víknaslóðir. Gönguleiðir á Austurlandi 1. Gönguleiðakort. Ferðamálahópurinn Borgarfirði eystri.
  • Hjörleifur Guttormsson (2008): Úthérað ásamt Borgarfirði eystra, Víkum og Loðmundarfirði. Árbók Ferðafélags Íslands. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
  • Pálmi Hannesson (2017): Feigðarför Áslaugar. Í Hrakningar á heiðavegum. Veröld, Reykjavík. Bls. 121-125.