• Um
  • Hlaupasögur 2007-2016
    • Laxárdalsheiði
    • Svínaskarð
    • Skarðsheiðarvegur
    • Skálavíkurheiði
    • Þingmannavegur
  • Hlaupasögur 2017-2026
    • Sælingsdalsheiði
    • Bæjardalsheiði
    • Reykjadalur-Sanddalur
    • Brúnavíkurskarð og Súluskarð
    • Gönguskarð í Eyjafirði
    • Siglufjarðarskarð
    • Kálfsskarð
    • Vatnadalur
    • Sandsheiði
    • Hnjótsheiði
    • Tunguheiði við Örlygshöfn
    • Breiðuvíkurháls
    • Tunguheiði við Tálknafjörð
    • Kollabúðaheiði
    • Hjálpleysa
    • Víkurheiði og Dys
    • Sandvíkurskarð
    • Gerpisskarð
    • Fjallsselsvegur
    • Aðalbólsvegur
    • Dalaskarð
    • Strjúgsskarð og Litla-Vatnsskarð
    • Gyltuskarð
  • Næstu hlaup
  • Hlaupasögubrot
  • Hugmyndir
    • Hólmavatnsheiði
    • Skeggaxlarskarð
    • Sölvamannagötur
    • Kaldidalur
    • Gönguskarð við Njarðvík
    • Króardalsskarð
    • Sandaskörð
    • Kækjuskörð
    • Tó
    • Karlskálaskarð
    • Kerlingaháls
    • Dalverpi
    • Hellisheiði
  • Tölfræði

Fjallvegahlaup Stefáns

Fjallvegahlaup Stefáns

Greinasafn flokks: Óflokkað

„Ófeigsfjarðarheiði aflýst“

23 Fimmtudagur Júl 2020

Posted by stefangisla in Óflokkað

≈ Skrá ummæli

Skjáskot úr veðurfréttum RÚV 23/7 2020. (Smellið fyrir stærri mynd).

Ákveðið hefur verið að aflýsa fjallvegahlaupi yfir Ófeigsfjarðarheiði, sem ætlunin var að fram færi laugardaginn 25. júlí. Þetta er gert vegna slæmrar veðurspár, en í versta falli má búast við norðaustan 15 m/sek, talsverðri rigningu og 1°C um miðjan dag á laugardag. Við þessar aðstæður þarf ekki meira en slæma tognun eða önnur álíka skakkaföll til að hlaupurum sé hætta búin.

Þótt hlaupið falli niður fer Ófeigsfjarðarheiðin ekki neitt, þó að fyrirsögn þessar færslu gefi tilefni til að ætla annað. (Fyrirsagnir eiga að vera stuttar). Því er enn stefnt að fjallvegahlaupi yfir heiðina. Það verður þó ekki á þessu sumri úr því sem komið er. Ný tímasetning verður kynnt síðar.

Breytt Vestfjarðadagskrá

02 Fimmtudagur Júl 2020

Posted by stefangisla in Óflokkað

≈ Skrá ummæli

Á Rauðasandi 15. júlí 2010

Nú líður að stóru fjallvegahlaupatörninni á Vestfjörðum, þar sem ætlunin er að leggja nokkra fjallvegi að baki 11.-14. júlí nk. Sú breyting hefur verið gerð á dagskrá þessara daga að í stað þriggja fjallvegahlaupa laugardaginn 11. júlí verða tvö látin nægja. Fyrst verður hlaupið yfir Sandsheiði kl. 10 um morguninn og síðan yfir Hnjótsheiði kl. 15. Hnjótsheiðin kemur þar með í staðinn fyrir Kerlingaháls og Dalverpi sem upphaflega voru á dagskránni. Þær leiðir verða að bíða betri tíma.

Með þessari breytingu lítur Vestfjarðaáætlunin svona út:

  1. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 10:00:
    Sandsheiði – Frá Haukabergsrétt á Barðaströnd að Móbergi á Rauðasandi – 15 km
  2. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 15:00:
    Hnjótsheiði – Frá Lambavatni á Rauðasandi að Hnjóti í Örlygshöfn – 12 km
  3. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 11:00:
    Tunguheiði – Frá Örlygshöfn til Kollsvíkur – 11 km
  4. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 15:30:
    Hænuvíkurskarð – Frá Hænuvík til Breiðuvíkur – 11 km
  5. Þriðjudagur 14. júlí 2020, kl. 13:00:
    Tunguheiði – Frá Tálknafirði til Bíldudals – 13 km

Vonandi slást sem flestir í för með mér fyrir vestan.

Vatnadalur á laugardag

20 Laugardagur Jún 2020

Posted by stefangisla in Óflokkað

≈ Skrá ummæli

Laugardaginn 27. júní verður fjórða fjallvegahlaup sumarsins hlaupið um Vatnadal úr Gilsfirði norður í Steingrímsfjörð. Hlaupið er hluti af Hamingjuhlaupinu sem haldið er árlega í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík. Upphaflega var ætlunin að hlaupa yfir Kollabúðaheiði af þessu tilefni þennan dag, en þeirri áætlun var breytt þegar í ljós kom að rallýkeppni mun fara fram á sömu slóðum á sama tíma.

Hlaupið á laugardaginn hefst á veginum í vestanverðum Gilsfirði, nánar tiltekið við Mávadalsá, u.þ.b. 9 km fyrir innan Króksfjarðarnes. Frá Hólmavík eru um 35 km að Króksfjarðarnesi, þannig að vegalengdin frá Hólmavík að upphafsstaðnum er um 44 km eftir akveginum. Lagt verður af stað upp með Mávadalsá kl. 10:30 og fylgt sérstakri tímaáætlun eins og jafnan er gert í Hamingjuhlaupum. Tilgangurinn með því fyrirkomulagi er að fólk sem treystir sér ekki til að hlaupa alla leiðina eigi auðvelt með að koma inn í hlaupið á tilteknum stað á tilteknum tíma. Að þessu leyti svipar áætluninni til strætisvagnaáætlunar. Áætlunina má sjá á myndinni hér fyrir neðan, en sé smellt á hana birtist stærri og skýrari mynd.

Tímaáætlun Hamingjuhlaupsins 2020. Fyrstu sex áfangarnir eru jafnframt fjallvegahlaup um Vatnadal.

Fjallvegahlaupinu um Vatnadal lýkur á vegamótum á svokölluðum Innstrandavegi við brúna yfir Miðdalsá í Steingrímsfirði, u.þ.b. 650 m fyrir innan félagsheimilið Sævang þar sem Sauðfjársetrið er nú til húsa. Á Svævangi hófst einmitt hlaupaferillinn minn formlega 19. ágúst 1972. Vegalengdin í fjallvegahlaupinu er áætluð 24,6 km, en þegar því er lokið liggur fyrir að skokka síðustu 11,6 kílómetrana eftir malbikuðum vegi til Hólmavíkur, þar sem Hamingjuhlaupinu lýkur með móttöku og veitingum kl. 16:00. Reyndar verða veitingarnar öðruvísi en í fyrri Hamingjuhlaupum, þar sem hnallþóruhlaðborð í líkingu við það sem jafnan hefur beðið hlauparanna í endamarkinu þykir ekki samræmast kröfum um smitvarnir.

Vatnadalur var einnig hlaupinn í Hamingjuhlaupinu 2014, en þá var lagt af stað frá Kleifum í Gilsfirði og byrjað á að hlaupa áleiðis upp á Steinadalsheiði. Þaðan var svo farið yfir á Vatnadal og honum fylgt til byggða. Þessi leið er hins vegar ekki sú upprunalegasta og fékk því ekki náð hjá yfirstjórn fjallvegahlaupaverkefnisins. Leiðin upp með Mávadalsá er hins vegar ein þriggja leiða sem oftast var farin á árum áður á meðan Vatnadalur var enn mikilvæg samgönguleið á milli byggða.

Hlaupið yfir Vatnadal verður 58. hlaupið í fjallvegahlaupaverkefninu.

Myndin efst í þessari færslu var tekin á Vatnadal í hlaupinu 2014. Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa.

Bátsferð frá Siglunesi

15 Mánudagur Jún 2020

Posted by stefangisla in Óflokkað

≈ 1 athugasemd

Fjallvegahlaup morgundagsins um Kálfsskarð frá Siglufirði út á Siglunes er á áætlun. Lagt verður af stað frá Ráeyri (austanvert við fjarðarbotninn) kl. 10:00. Sú breyting hefur orðið á upphaflegri áætlun að boðið verður upp á bátsferð frá Siglunesi til baka til Siglufjarðar að hlaupi loknu. Gert er ráð fyrir að hlaupinu verði lokið í síðasta lagi um kl. 14:00 og bátsferðin til baka tekur í mesta lagi 20 mínútur. Áætlaður komutími til Siglufjarðar verður því um kl. 14:30 í síðasta lagi.

Kostnaður við bátsferðina greiðist af höfuðpaur fjallvegahlaupanna, en frjáls framlög annarra þátttakenda eru vel þegin, allt að 10 þús. kr./mann.

Annars er það helst að frétta af fjallvegahlaupaverkefninu að ferðin um Gönguskarð sl. laugardag gekk vel, en leiðin var seinfarin í erfiðu undirlagi. Og kl. 15 í dag verður lagt upp á Siglufjarðarskarð frá Hraunum í Fljótum.

(Uppfært 15. júní kl. 20:45. Brottför í hlaupið um Kálfsskarð verður frá Ráeyri 16. júní kl. 10:00).

Þrjú fjallvegahlaup á næstu dögum

06 Laugardagur Jún 2020

Posted by stefangisla in Óflokkað

≈ Skrá ummæli

Fyrsta fjallvegahlaup sumarsins 2020 verður haldið næsta laugardag, þ.e.a.s. laugardaginn 13. júní 2020 kl. 13:00. Leiðin liggur um Gönguskarð, frá Garðsá í Eyjafirði að Reykjum í Fnjóskadal og vegalengdin er rétt um 26 km, já eða hugsanlega 27. Langtímaveðurspáin lofar góðu, nánar tiltekið mildri sunnanátt og líklega hlýindum og þurru veðri á Norðurlandi. En það skýrist auðvitað þegar nær dregur.

Hlaupið um Gönguskarð er byrjunin á viðburðaríku fjallvegahlaupasumri. Næstu daga þar á eftir liggur leiðin nefnilega til Siglufjarðar þar sem búið er bæta tveimur nýjum hlaupum við fjallvegahlaupadagskrána. Mánudaginn 15. júní kl. 15:00 verður lagt af stað frá Hraunum í Fljótum yfir Siglufjarðarskarð. Bílveginum yfir skarðið verður fylgt lengst af, en fyrstu kílómetrarnir fylgja þó eldri þjóðleið sem liggur ögn sunnar upp úr Fljótum. Hlaupið endar á aðalveginum við botn Siglufjarðar þegar u.þ.b. 13 km verða að baki.

Þriðjudaginn 16. júní kl. 10:00 er röðin svo komin að Kálfsskarði frá Siglufirði út á Siglunes. Hlaupið hefst við norðurenda flugvallarins á Ráeyri. Þaðan liggur leiðin út Staðarhólsströnd, inn Kálfsdal, yfir Kálfsskarð, út Nesdal að Reyðará og þaðan um Fúluvík og Löngumöl að Siglunesi. Vegalengdin er um 16 km., en hafa ber í huga að fara þarf fótgangandi eða hlaupandi til baka þar sem ekki er bílfært á þessum slóðum.

Á fjallvegahlaupadagskránni sem kynnt var hér á síðunni í nóvembermánuði síðastliðnum voru átta hlaup. Þeim hefur nú fjölgað í 11, annars vegar vegna þessara tveggja nýju hlaupa á Siglufirði og hins vegar vegna þessa að Hamingjuhlaupið 2020 verður jafnframt fjallvegahlaup. Þar verður sem sagt hlaupið yfir Kollabúðaheiði sunnan úr Þorskafirði norður í Staðardal á Ströndum – og þaðan áfram til Hólmavíkur þar sem öll hamingjuhlaup enda. Spölurinn úr Staðardal til Hólmavíkur verður reyndar ekki færður til bókar í fjallvegahlaupabókhaldinu.

Með framangreindum breytingum lítur fjallvegahlaupadagskráin 2020 svona út:

  1. Laugardagur 13. júní 2020, kl. 13:00:
    Gönguskarð – Frá Garðsá í Eyjafirði að Reykjum í Fnjóskadal – 26 km
  2. Mánudagur 15. júní 2020, kl. 15:00
    Siglufjarðarskarð – Frá Hraunum í Fljótum til Siglufjarðar – 13 km
  3. Þriðjudagur 16. júní 2020, kl. 10:00
    Kálfsskarð – Frá Siglufirði út á Siglunes – 16 km (og annað eins til baka)
  4. Laugardagur 27. júní 2020, (nánari tímasetning kynnt síðar)
    Kollabúðaheiði – Frá Kollabúðum í Þorskafirði að Kirkjubóli í Staðardal – 20 km (og síðan viðbótarskokk til Hólmavíkur í tilefni Hamingjudaga)
  5. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 10:00:
    Sandsheiði – Frá Haukabergsrétt á Barðaströnd að Móbergi á Rauðasandi – 15 km
  6. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 14:00:
    Kerlingaháls – Frá Móbergi á Rauðasandi til Keflavíkur – 12 km
    E.t.v. verður upphafspunkturinn færður vestar og ferðinni seinkað sem því nemur
  7. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 17:30:
    Dalverpi – Frá Keflavík að Sauðlauksdal – 14 km
  8. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 11:00:
    Tunguheiði – Frá Örlygshöfn til Kollsvíkur – 11 km
  9. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 15:30:
    Hænuvíkurskarð – Frá Hænuvík til Breiðuvíkur – 11 km
  10. Þriðjudagur 14. júlí 2020, kl. 13:00:
    Tunguheiði – Frá Tálknafirði til Bíldudals – 13 km
  11. Laugardagur 25. júlí 2020, kl. 10:00:
    Ófeigsfjarðarheiði – Úr Ófeigsfirði að Laugalandi í Skjaldfannardal – 39 km

Leiðarlýsingar vegna framangreindra leiða er í smíðum.

Eins og ævinlega eru allir velkomnir með mér í þessi hlaupaævintýri (á eigin ábyrgð). Mikilvægt er að þeir sem hafa hug á þátttöku fylgist með breytingum sem kynntar verða á þessari síðu og á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins. Stundum þarf nefnilega að breyta áætlunum vegna utanaðkomandi ástæðna (einkum veðurlags) eða jafnvel innanaðkomandi ástæðna (einkum heilsufars).

Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin í síðasta fjallvegahlaupinu sem lokið er, þ.e.a.s. hlaupi nr. 54 sem hlaupið var síðasta sumar yfir Brúnavíkurskarð og Súluskarð frá Borgarfirði eystri til Kjólsvíkur. Vonir standa til að skyggni verði betra í áformuðum hlaupum sumarsins en þennan tiltekna dag í júlí 2019.

A.m.k. 8 fjallvegahlaup á dagskrá næsta sumar

24 Sunnudagur Nóv 2019

Posted by stefangisla in Óflokkað

≈ Skrá ummæli

Nú liggja fyrir drög að fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2020. Átta hlaup eru á dagskránni eins og hún lítur út núna, en sjálfsagt verða einhverjar breytingar gerðar þegar nær dregur. Sunnanverðir Vestfirðir verða í aðalhlutverki að þessu sinni, en þar er ætlunin að hlaupa nokkra fremur stutta og alþýðlega fjallvegi í aðdraganda Hlaupahátíðar á Vestfjörðum sem hefst fimmtudaginn 16. júlí. Þar með gefst ágætt tilefni til að taka rúmlega vikulangt sumarfrí fyrir vestan, hlaupa fyrst nokkra fjallvegi og taka svo fullan þátt í hlaupahátíðinni í framhaldinu. Fyrsta hlaup ársins verður þó væntanlega norður í Eyjafirði 13. júní, auk þess sem stefnt er að einhverri fjallvegahlaupauppákomu í maí. Það mál á bara eftir að skýrast.

Svona litur fjallvegahlaupadagskráin 2020 út eins og staðan er í dag:

  1. Laugardagur 13. júní 2020, kl. 13:00:
    Gönguskarð – Frá Garðsá í Eyjafirði að Reykjum í Fnjóskadal – 26 km
  2. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 10:00:
    Sandsheiði – Frá Haukabergsrétt á Barðaströnd að Móbergi á Rauðasandi – 15 km
  3. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 14:00:
    Kerlingaháls – Frá Móbergi á Rauðasandi til Keflavíkur – 12 km
    E.t.v. verður upphafspunkturinn færður vestar og ferðinni seinkað sem því nemur
  4. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 17:30:
    Dalverpi – Frá Keflavík að Sauðlauksdal – 14 km
  5. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 11:00:
    Tunguheiði – Frá Örlygshöfn til Kollsvíkur – 11 km
  6. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 15:30:
    Hænuvíkurskarð – Frá Hænuvík til Breiðuvíkur – 11 km
  7. Þriðjudagur 14. júlí 2020, kl. 13:00:
    Tunguheiði – Frá Tálknafirði til Bíldudals – 13 km
  8. Laugardagur 25. júlí 2020, kl. 10:00:
    Ófeigsfjarðarheiði – Úr Ófeigsfirði að Laugalandi í Skjaldfannardal – 39 km

Sumarið 2020 verður fjórða sumarið í öðrum áfanga fjallvegahlaupaverkefninsins, en allt byrjaði þetta upp úr fimmtugsafmælinu mínu árið 2007. Fyrsta áfanganum lauk á sextugsafmælinu 2017 og þá var gefin út bók um 50 fyrstu leiðirnar. Bók nr. 2 með næstu 50 leiðum er svo væntanleg á sjötugsafmælinu 2027.

Áfangi nr. 2 hefur farið hægt af stað af ýmsum ástæðum, einkum vegna meiðsla, annríkis og mishagstæðs tíðarfars. Þannig tókst ekki að ljúka nema fjórum fjallvegum (nr. 51-54) fyrstu þrjú sumrin (2017-2019), sem þýðir að næstu 7 sumur þarf að afgreiða 46 fjallvegi til viðbótar. Þetta ætti reyndar að vera auðvelt, því að nóg er til bæði af fjallvegum og tíma.

Vonandi slást sem flestir í för með mér á fjallvegum næsta sumars, en þar eru allir velkomnir (á eigin ábyrgð). Breytingar á dagskránni verða kynntar á þessari síðu og á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins. Á næstu vikum og mánuðum verður líka settur inn einhver fróðleikur um allar þessar leiðir.

Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin í fjallvegahlaupi nr. 46 11. júní 2016 þegar leiðin lá yfir Vaðlaheiði eftir Þingmannavegi. Gönguskarð, sem er efst á lista næsta sumars, er á svipuðum slóðum en nokkru innar í landinu.

Fjallvegahlaupi um Gönguskarð aflýst

18 Fimmtudagur Júl 2019

Posted by stefangisla in Óflokkað

≈ Skrá ummæli

Fjallvegahlaupi dagsins um Gönguskarð hefur verið aflýst vegna veðurs. Rigningin fer minnkandi en enn er dimm þoka á svæðinu, bæjarlækir í foráttuvexti og aðstæður til útivistar með verra móti.

Fjallvegahlaupi um Stórurð aflýst

18 Fimmtudagur Júl 2019

Posted by stefangisla in Óflokkað

≈ Skrá ummæli

Fjallvegahlaupi dagsins um Stórurð hefur verið aflýst vegna veðurs. Mikil rigning er á svæðinu og dimm þoka. Ákvörðun um hlaupið yfir Gönguskarð verður tekin á næstu klukkutímum, en það hlaup er á dagskrá kl. 14 í dag, (fimmtudaginn 18. júlí 2019).

Hlaup nr. 54, 55 og 56 að bresta á!

16 Þriðjudagur Júl 2019

Posted by stefangisla in Óflokkað

≈ Skrá ummæli

Á morgun, miðvikudaginn 17. júlí ætla ég að reima á mig fjallvegahlaupaskóna á Borgarfirði eystri. Leiðin liggur frá Borgarfirði um Brúnavíkurskarð og Súluskarð niður í Kjólsvík, samtals um 12 km leið. Á fimmtudaginn er svo röðin komin að Stórurð annars vegar og Gönguskarði hins vegar.

Dagskrá tveggja næstu daga lítur í stuttu máli þannig út:

  • Miðvikudagur 17. júlí 2019, kl. 13:00: Fjallvegahlaup nr. 54:
    Brúnavíkurskarð og Súluskarð – Frá Ölduhamri í Borgarfirði eystri til Kjólsvíkur – 12 km. Þarna verða tveir fjallvegir sameinaðir í eitt hlaup (til að ná vegalengdinni upp fyrir 9 km, sem er lágmarksvegalengd samkvæmt afar ströngum reglum fjallvegahlaupaverkefnisins).
  • Fimmtudagur 18. júlí 2019, kl. 9:00: Fjallvegahlaup nr. 55:
    Stórurð – Frá Hólalandi í Borgarfirði eystri að Unaósi á Héraði – 22 km. Þetta er reyndar líklega bara að hluta til gömul þjóðleið, en sú leið lá frá Hólalandi um Eiríksdal að Hrafnabjörgum við Selfljót. Þessi útfærsla hentar bara betur af því að hún er svo vel troðin og merkt.
  • Fimmtudagur 18. júlí 2019, kl. 14:00: Fjallvegahlaup nr. 56:
    Gönguskarð – Frá Unaósi á Héraði að Hlíðartúni í Njarðvík – 10 km. Þarna býr sagan við hvert fótmál, m.a. í Stapavík, og staðsetningin gerir það að verkum að einkar hentugt er að hlaupa þessa leið í beinu framhaldi af Stórurð.

Samkvæmt upphaflegri fjallvegahlaupadagskrá ætlaði ég að hlaupa Sandaskörð þriðjudaginn 23. júlí nk., en því hlaupi þarf ég að fresta um óákveðinn tíma. Leiðin um Sandaskörð liggur frá Hólalandi í Borgarfirði eystri að Ánastöðum í Hjaltastaðaþinghá.

Drög að leiðarlýsingum fyrir Brúnavíkurskarð og Súluskarð annars vegar og Gönguskarð hins vegar má finna hér á síðunni, en leiðarlýsing um Stórurð hefur ekki enn verið skrifuð.

Vonandi slást sem flestir í för með mér næstu daga. Allir eru að vanda velkomnir á eigin ábyrgð, þátttakan kostar ekki neitt og engin verðlaun verða veitt, nema vonandi góðar minningar.

Rétt er að benda sérstaklega á að hið einstaka Dyrfjallahlaup fer fram á laugardaginn í þriðja sinn. Fjallvegahlaupin sem hér um ræðir eru tilvalin undirbúningur fyrir það, auk þess sem hlaupið um Stórurð nýtist að hluta sem brautarskoðun. Frestur til að skrá sig í Dyrfjallahlaupið rennur út á föstudag.

Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin á Þrándarhrygg 26. júní 2010 í fjallvegahlaupi nr. 16. Þann dag hlupum við fjögur saman yfir Gagnheiði frá Borgarfirði eystri til Breiðuvíkur. Á myndinni sést einmitt niður í Brúnavík, þangað sem leiðin liggur á morgun.

Fjallvegahlaup nr. 53 framundan

02 Sunnudagur Jún 2019

Posted by stefangisla in Óflokkað

≈ Skrá ummæli

Nú er komið að því. Fjallvegahlaupavertíðin hefst formlega við Fellsendarétt í Dölum laugardaginn 8. júní nk. kl. 10 árdegis með fjallvegahlaupi um Reykjadal og Sanddal með endamarki um 2 km neðan við Sveinatungu í Norðurárdal. Hlaupið, sem er u.þ.b. 25 km að lengd (með venjulegum 20% skekkjumörkum) er fjallvegahlaup nr. 53 frá upphafi og nr. 3 í nýju Fjallvegahlaupabókinni sem hlýtur að koma út fimmtudaginn 18. mars 2027, þ.e.a.s. á sjötugsafmælinu mínu.

Ég ætla mér að hafa gaman að þessu á laugardaginn og þeim mun meira gaman sem fleiri mæta. Allir eru að vanda velkomnir á eigin ábyrgð, þátttakan kostar ekki neitt og engin verðlaun verða veitt, nema vonandi góðar minningar.

Drög að leiðarlýsingu má finna hér á síðunni, enn mjög gróf að vísu. En við rötum þetta nú samt alveg. Svo gerði ég líka tilraun til að búa til kort á Google Maps. Tek enga ábyrgð á gæðum þess.

Vonast til að sjá sem flesta.

← Eldri færslur
Nýrr færslur →
mars 2023
M F V F F S S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031  
« Sep    

Blogg tölfræði

  • 29.498 hits

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com. eftir Ignacio Ricci.

Privacy & Cookies: This site uses cookies. By continuing to use this website, you agree to their use.
To find out more, including how to control cookies, see here: Cookie Policy
  • Fylgja Fylgja
    • Fjallvegahlaup Stefáns
    • Already have a WordPress.com account? Log in now.
    • Fjallvegahlaup Stefáns
    • Sérsníða
    • Fylgja Fylgja
    • Skrá mig
    • Innskráning
    • Report this content
    • Skoða vef í lesara
    • Manage subscriptions
    • Collapse this bar
 

Hleð athugasemdir...