Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2023 er nokkurn veginn tilbúin – og þar eru hvorki fleiri né færri en 8 leiðir á blaði. Auðvitað má þó alltaf búast við einhverjum breytingum þegar nær dregur. Áætlun er jú eitt og raunveruleikinn annað, enda ræðst raunveruleikinn í þessu tilviki af jafnfallvöltum þáttum og veðri og hlaupaheilsu eins manns. Dagskráin birtist á síðunni Næstu hlaup og þar verða allar breytingar settar inn jafnóðum og þær liggja fyrir. Breytingar verða líka kynntar á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins.

Stærsta fjallvegahlaupaverkefni sumarsins eru fimm fjallvegir á Hornströndum 4. og 5. júlí. Búið er að útvega sjóferð og gistingu fyrir 16 manns – og þau pláss eru öll „uppseld“. En auðvitað er öðrum frjálst að mæta á eigin vegum, enda eruð þið öll alltaf velkomin í fjallvegahlaupin (á eigin ábyrgð).

Fróðleikur um sjö af átta fyrirhuguðum fjallvegum sumarsins er kominn inn á fjallvegahlaupasíðuna (undir Næstu hlaup) og verður uppfærður smám saman eftir því sem þekkingin eykst.

Sumarið 2023 verður sjöunda sumarið í öðrum áfanga fjallvegahlaupaverkefninsins, en allt byrjaði þetta upp úr fimmtugsafmælinu mínu árið 2007. Fyrsta áfanganum lauk á sextugsafmælinu 2017 og þá var gefin út bók um 50 fyrstu leiðirnar. Bók nr. 2 með næstu 50 leiðum er svo væntanleg á sjötugsafmælinu 2027.

Sex fyrstu sumur annars áfanga (sumrin 2017-2022) skiluðu ekki nema 23 fjallvegum og því eru enn 27 leiðir óhlaupnar fram að sjötugsafmælinu. Ef allt hefði verið með felldu ættu helst 30 fjallvegir að vera að baki (5 að meðaltali á ári). En enn er nógur tími og nóg til af skemmtilegum valkostum. „Nóg frammi“ sem sagt.

(Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin í Hrafnkelsdal í byrjun júlí 2022. Þarna er meistari Páll á Aðalbóli að ferja okkur fimm saman yfir Hrafnkelu í upphafi fjallvegahlaups um Aðalbólsveg að Kleif í Fljótsdal. (Ljósm. Ragnhildur Aðalsteinsdóttir)).