Þungamiðjan í fjallvegahlaupadagskránni minni sumarið 2023 verður tveggja daga ferð á Hornstrandir 3.-5. júlí. Í þessari ferð er ætlunin að hlaupa fimm fjallvegi – og þeir sem ekki leggja í allan þann pakka geta notið þessara daga í lengri eða skemmri gönguferðum í nágrenni Hesteyrar. Að vanda eru öllum velkomið að slást í för með mér, bæði hlaupurum og ekki-hlaupurum, en eðlilega er framkvæmdin ögn flóknari og kostnaðurinn meiri en í venjulegum fjallvegahlaupum milli tveggja staða í byggð. Gert er ráð fyrir að hópurinn gisti á Hesteyri í tvær nætur og þar er ekki gistipláss nema fyrir 16 manns. Hér gildir sú einfalda regla „Fyrst koma, fyrst fá“ og því borgar sig að taka ákvörðun sem fyrst.

Dagskrá þessara júlídaga verður í stuttu máli sem hér segir:

  • Mánudagur 3. júlí:
    • Siglt frá Bolungarvík (eða Ísafirði) síðdegis
    • Kvöldverður á Hesteyri
    • Gisting á Hesteyri
  • Þriðjudagur 4. júlí:
    • Morgunverður á Hesteyri
    • Hlaup um nálæga fjallvegi (tekur nánast allan daginn)
    • Kvöldverður á Hesteyri
    • Gisting á Hesteyri
  • Miðvikudagur 5. júlí
    • Morgunverður á Hesteyri
    • Hlaup um nálæga fjallvegi (tekur stóran hluta dagsins)
    • Sigling til baka síðdegis

Sem fyrr segir er gistipláss á Hesteyri fyrir 16 manns. Þar er um að ræða svefnpokagistingu í þremur herbergjum, en hægt er að fá uppbúin rúm fyrir ögn hærra verð. Verðskráin fyrir sumarið 2023 liggur ekki fyrir, en sólarhringurinn kostar væntanlega um 22.500 kr/mann. Inni í þeim pakka er gisting, morgunverður og kvöldverður. Gistingin er frátekin fyrir fjallvegahlaupara fram til jóla. Þá þarf að ganga frá endanlegri pöntun, enda eftirspurn mikil frá öðrum hópum. Bátsferðin báðar leiðir gæti kostað u.þ.b. 25.000 kr, þannig að heildarkostnaðurinn fyrir þessa tvo daga verður nálægt 70.000 kr/mann.

Sem fyrr segir ætla ég að hlaupa fimm fjallvegi á þessum tveimur dögum. Röð fjallveganna er ekki alveg ákveðin, en þetta gæti t.d. litið svona út:

  • Dagur 1:
    • Hesteyrarskarð frá Hesteyri að Látrum í Aðalvík, um 11 km
    • Tunguheiði frá Látrum í Aðalvík til Fljótavíkur, um 10 km
    • („Ferjuleið“ inn fyrir Fljótavatn (ekki fjallvegahlaup), um 7 km)
    • Háaheiði frá Fljótavík til Hesteyrar, um 11 km
  • Dagur 2:
    • Kjaransvíkurskarð frá Hesteyri til Kjaransvíkur, um 13 km
    • Þorleifsskarð frá Kjaransvík til Fljótavíkur, um 11 km
    • (Heimferð (ekki fjallvegahlaup) um Háuheiði, um 11 km)

Leiðirnar eru sýndar í mjög grófum dráttum á kortinu efst í þessari færslu, (sem er að grunni til „tekið að láni“ frá Landmælingum Íslands). Stærra kort birtist ef smellt er á þetta.

Þau ykkar sem vilja vera með mér í þessum pakka ættu að láta mig vita sem fyrst, því að 16 pláss gætu verið fljót að fyllast. Þetta er ekkert bindandi til að byrja með, en endanleg ákvörðun þarf sem fyrr segir að liggja fyrir um jól. Hægt er að senda mér skilaboð á Messenger, senda tölvupóst á stefan@environice.is eða heyra í mér í síma 862 0538. Þeim sem geta sjálf komið sér á staðinn og eiga aðra gistimöguleika er svo auðvitað líka meira en velkomið að mæta og taka þátt í gleðinni.

Nokkrir helstu fjallvegahlauparar sögunnar úti undir vegg Læknishússins á Hesteyri á góðum sumardegi í júlí 2016.