Mosar

Staðsetning: Frá Fremri-Brekku í Saurbæ í Bitrubotn neðan við Brunngil
Áfangar og hnattstaða: 
Upphaf:        0,00 km, N65°21,47' - V21°46,91'
Sýslumörk:      7,00 km, N65°21,94' - V21°38,84'
Brunngil:      17,00 km, N65°24,43' - V21°30,84'
Lok:         21,00 km, N65°26,36' - V21°28,10'
Hæð y. sjó: U.þ.b. 60 m við upphaf, um 620 m hæst, um 10 m við lok
Samanlögð hækkun: Verður skráð að hlaupi loknu 
Vegalengd: Um 21,00 km
Tími: Verður skráður að hlaupi loknu
Meðalhraði: Verður skráður að hlaupi loknu
Dags.: Laugard. 9. sept. 2023, kl. 11:00
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina (enn í smíðum):

Úr Brekkudal í Saurbæ yfir í Brunngilsdal í Bitru liggur gamall og fáfarinn fjallvegur sem kallast Mosar. Í athugasemdum við örnefnaskrá Fremri-Brekku í Saurbæ kemur reyndar fram að örnefnið Mosar eigi við drögin upp úr Brekkudalsbotni. Sagt var að „þegar þokan kæmi niður í Mosana, mætti búast við góðu, léttskýjuðu veðri“. Þeir sem áttu leið þarna um á síðustu öld notuðu þetta örnefni yfir fjallveginn sjálfan og var þá talað um að „fara Mosa“. Pabbi minntist stundum á þessa leið og líklega fór hann þarna yfir nokkrum sinnum um eða fyrir miðja 20. öld á leið í smíðavinnu í Saurbæ. Um það leyti sem fyrirhugað er að hlaupa Mosa verða einmitt liðin 115 ár frá fæðingu pabba, en hann fæddist á Brunngili 11. september 1908.

Leiðin um Mosa hefst á Vestfjarðavegi fyrir neðan bæinn Fremri-Brekku í Saurbæ. Fyrstu kílómetrana er hlaupið eftir slóða inn og austur Brekkudal, sunnan við ána, eða alla vega meðfram ánni. Eftir um 4 km hlaup verður slóðinn ógreinilegur en áfram er ánni fylgt inn í dalbotninn. Leiðin upp úr dalbotninum, þ.e.a.s. leiðin upp hina eiginlegu Mosa, virðist nokkuð brött og ekki augljóst á korti hvorum megin við ána er best að halda sig. Líklega er leiðin þó greiðari að norðanverðu. Eftir um 5,5 km hlaup eru hlaupararnir komnir upp í brúnina. Leiðin liggur þaðan áfram upp á hæstu hæðir leiðarinnar, rétt norðan við Hólkonuhnjúk (704 m) (á hægri hönd). (Eða krækir maður kannski suður fyrir hann)? Á vinstri hönd er Hvolsfjall (751 m) nokkru fjær. Þarna eru líklega um 7 km að baki og þarna liggja líka sýslumörk Dalasýslu og Strandasýslu.

Frá sýslumörkunum er tiltölulega bratt niður í Hólkonudal. Ekki liggur fyrir hvar er best að fara niður í dalbotninn, en það skýrist trúlega þegar að er komið. Áfram liggur leiðin svo til norðausturs niður Hólkonudal með Þórkötlumúla á vinstri hönd, en múlinn skilur dalinn frá Húsadal. Eftir um 15 km hlaup er komið niður að dalamótunum þar sem Hólkonudalur og Húsadalur renna saman og verða að Brunngilsdal. Neðan við dalamótin heitir Gullbárðarflói og þaðan er varla meira en 1 km niður að eyðibýlinu Brunngili. Þar bjuggu afi minn og amma í byrjun 20. aldar og þar fæddist pabbi (Gísli Gíslason) sem fyrr segir. Í Brunngilsdal sat hann yfir ánum frá 8 ára aldri eða þar um bil, en hleypti heimdraganum 1926. Pabbi bjó fyrstu búskaparárin sín og mömmu í Hvítarhlíð og síðan í Gröf í Bitru frá 1956 til dauðadags í ársbyrjun 2000.

Brunngil hefur verið í eyði síðan 1948, en enn standa þar útveggir íbúðarhússins, sem steypt var um 1930. Athygli vekur einnig listilega hlaðinn túngarður úr grjóti. Garðurinn er verk Jóns Jónssonar, langafa míns, en hann bjó á Brunngili á árunum 1865-1899.

Frá Brunngili er torfær jeppaslóði rúma 2 km niður að bænum Þórustöðum, sem er fyrsta byggða bólið á þessari leið. Nokkru neðar er nýbýlið Sandhólar, þar sem ekki er lengur föst búseta, og skammt þar frá lýkur þessari leið við vegamót þjóðvegar nr. 68, sem nú kallast Innstrandavegur á kortum Vegagerðarinnar. Leiðin þangað frá Þórustöðum er á að giska 2 km.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu.

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu.

Helstu heimildir:

 • Hallgrímur Gíslason (2008): Niðjatal Gísla Jónssonar, konu hans Helgu Bjargar Þorsteinsdóttur og barnsmóður Magnfríðar Pálsdóttur. Óbirt handrit.
 • Helgi M. Arngrímsson (2007): Vestfirðir og Dalir 6 – Útivera. Göngu- og reiðleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
 • Landmælingar Íslands (1987): Uppdráttur Íslands. Blað 33. Óspakseyri. Landmælingar Íslands.
 • Örnefnaskrá (1972): Fremri-Brekka. Athugasemdir. Skráð af Brynjúlfi Sæmundssyni eftir Eysteini Þórðarsyni. https://nafnid.arnastofnun.is/ornefnaskra/16490.