Strjúgsskarð og Litla-Vatnsskarð

Staðsetning: Frá Strjúgsstöðum í Langadal að Þúfnavöllum í Víðidal (í Staðarfjöllum)
Nánar: Frá Strjúgsstöðum í Langadal, yfir Strjúgsskarð, þvert yfir Laxárdal fremri og yfir Litla-Vatnsskarð
Hnattstaða:
Upphaf:      0,00 km, N65°34,63' - V20°00,91'
Kárahlíð:     5,50 km, N65°36,70' - V19°56,82'
Litla-Vatnsskarð: 7,00 km, N65°36,75' - V19°54,40'
Móbergssel:   11,00 km, N65°37,81' - V19°50.94'
Lok:       14,00 km, N65°38,32' - V19°49,54'
Hæð y. sjó: U.þ.b. 60 m við upphaf, um 350 m hæst, um 320 m við lok
Vegalengd: Áætluð um 14 km
Tími: (Verður skráður í ferðalok)
Meðalhraði: (Verður skráður í ferðalok)
Dags.: Þriðjudaginn 16. ágúst 2022 kl. 10:00
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina:

Hlaupaleiðin hefst við Strjúgsstaði í Langadal, svo sem 17 km innan við Blönduós. Frá bænum er hlaupið eftir krókóttum og grófum jeppaslóða upp með Strjúgsá að innanverðu og upp í Strjúgsskarð þar fyrir ofan. Á nokkrum stöðum liggur slóðinn yfir grunn þvergil, en ekki þarf að búast við miklu vatnsrennsli úr þeim. Vestan við mitt skarðið eru tveir lágir hryggir, sem nefnast Haugar, sitt hvorum megin við Strjúgsá. Þar á landnámsmaðurinn Þorbjörn Strjúgur að vera heygður, og Gunnsteinn frændi hans líka. Ýmsir eru sagðir hafa leitað fjár í haugunum en orðið frá að hverfa vegna „válegra missýninga“ (JE, bls. 84).

Handan við Strjúgsskarð liggur leiðin um bæjarhlaðið í Kárahlíð í Laxárdal fremri. Þangað eru u.þ.b. 5,5 km frá Strjúgsstöðum. Í Kárahlíð fæddist skáldið og hagyrðingurinn Rósberg G. Snædal (1919-1983), sem var í miklum metum á æskuheimili mínu. Þar var mikið farið með kveðskap og góðir hagyrðingar voru nánast rokkstjörnur í okkar huga. Kárahlíð fór í eyði um 1940. Upphaflega var þarna sel frá Strjúgsstöðum og nefndist þá Strjúgssel. Fyrir ofan bæinn er Kárahlíðarhnjúkur (589 m).

Laxárdalur fremri liggur samsíða Langadal, en u.þ.b. 200 metrum hærra. Þar var því mun þrengra undir bú, og væntanlega bjuggu flestir við þröngan kost í litlum kotum. Rósberg G. Snædal „fæddist til öreigans kröppu kjara / er kenndu þau boðorð að hlýða og spara“ (ÞS, bls. 5), eins og hann lýsti því í ljóðinu Á annarra grjóti. Þarna var nánast „ekki til neitt af neinu“, eins og Rósberg orðaði það í viðtali 1977. Sem dæmi má nefna að líklega var bærinn í Kárahlíð ekki nema 6-8 fermetrar að grunnfleti. Samt „var alltaf eftirvænting í blænum, – líka í stórhríðinni“ (ÞS, bls. 4).

Um aldamótin 1900 voru 26 bæir í byggð í Laxárdal fremri og fram yfir 1930 voru þar enn 22 bæir. Á þessum árum bjuggu þarna samtals 200-300 manns. Upp úr 1945 voru ekki nema 6 bæir eftir í byggð í dalnum og til skamms tíma var þar aðeins búið á tveimur bæjum, þ.e. Balaskarði niðri í dalsmynninu (skammt frá veginum yfir Þverárfjall) og í Gautsdal.

Strjúgsskarð er eitt fjögurra skarða á milli Langadals og Laxárdals fremri – og var fyrr á árum mun fjölfarnara en hins skörðin, enda „greiðfærara og léttara yfirferðar“, að sögn Rósbergs. Um skarðið lá „þjóðbraut að sumarlagi um langan aldur, eins konar hjágata hinnar viðurkenndu póstleiðar um Stóra-Vatnsskarð“, (sem nú er einfaldlega kallað Vatnsskarð í daglegu tali). Oft stigu „þéttir jóreykir í Strjúgsskarði þegar stórir hópar velríðandi ferðamanna létu spretta úr spori um greiðfærur þess“ (ÞS, bls. 4).

Flestir dalir eru einhalla og í botni þeirra rennur á frá dalbotni til sjávar. Laxárdalur fremri sker sig úr hvað þetta varðar, því að innarlega í dalnum eru vatnaskil, nánar tiltekið á móts við Litla-Vatnsskarð. Þar, hjá Kattaraugum, eru upptök Laxár sem rennur síðan í norðurátt áleiðis til sjávar norðan við Blönduós. Þetta er reyndar bara lítill lækur til að byrja með, en neðar í dalnum safnast fljótlega í hann meira vatn og í vorleysingum verður áin að fljóti sem nokkrir nafngreindir menn hafa drukknað í. Ekki er langur spölur frá upptökum árinnar að Auðólfsstaðaá sem rennur ofan úr Litla-Vatnsskarði skamma leið suður Laxárdal og síðan til vesturs um Auðólfsstaðaskarð út í Blöndu.

Frá Kárahlíð er hlaupið þvert yfir Laxárdal fremri nálægt vatnskilunum og upp í Litla-Vatnsskarð. Þarna er enginn jeppaslóði til staðar og landið mjög blautt. Einhver orðaði það svo að áin sjálf væri líklega þurrust. Vestan við skarðið stóð bærinn Litla-Vatnsskarð, en hann fór í eyði 1931. Þar í grennd er aftur komið inn á grófan jeppaslóða sem liggur sunnanvert (hægra megin) í skarðinu. Austast í skarðinu stóð bærinn Móbergssel (í eyði síðan 1895) við norðausturenda Móbergsselstjarnar. Þaðan var annar hagyrðingur, Sveinn Hannesson sem yfirleitt var kenndur við Elivoga. Kveðskapur hans var bitrari en Rósbergs. Um 100 m suðaustur af rústum Móbergssel er að finna sérstakt náttúrufyrirbæri, Móbergsbrunn. Brunnurinn er u.þ.b. 2-3 m í þvermál og 1,5 m á dýpt. Í botninum voru tvö göt og upp um þau kom silungur en skaust niður aftur ef styggð kom að. Auðvelt var að veiða þennan fisk og árið 1900 er sagt að þar hafi veiðst 500 silungar á einum degi. Seinna hentu einhverjir grjóti í brunninn, þannig að götin tepptust og veiðar lögðust af.

Við Móbergssel eru um 11 km búnir af hlaupinu. Þaðan er hlaupið sem leið liggur niður í Víðidal (í Staðarfjöllum) og yfir ána sem rennur eftir dalbotninum. Hinum megin við ána er fornbýlið Þúfnavellir, þar sem hlaupið endar. Við Þúfnavelli stendur skáli Ferðafélags Skagfirðinga.

Strjúgsskarð og Litla-Vatnsskarð eru augljóslega tveir fjallvegir en ekki bara einn. En hvor fjallvegur um sig er of stuttur til að uppfylla skilyrði Fjallvegahlaupaverkefnisins.

Orðið strjúgur er fátítt í daglegu máli. Á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum kemur fram að í Landnámu sé getið um landnám Þorbjarnar strúgs í Langadal og er bærinn sagður kenndur við hann. Talið er að viðurnefni Þorbjarnar hafi þýtt „hroki“ eða eitthvað því um líkt. Orðið kvað einnig hafa verið notað um mat sem búinn var til úr dýra- eða fiskabeinum með því að leggja þau í súr. Einnig getur orðið merkt „reiði“ og jafnvel „kalsavindur“ í sumum héruðum. Eins eru til vísbendingar um að orðið tengist vatnsföllum og gæti hafa falið í sér merkingu á borð við „streyma“ eða „renna“.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu

Helstu heimildir:

 • Ferðafélag Skagafjarðar (2001): Gönguleiðir í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði. Frá Skagafirði til Vatnsdals. Gönguleiðir á Norðurlandi vestra II. Gönguleiðakort. Hringur – Atvinnuþróunarfélag Skagafjarðar og Ferða- og  markaðsmiðstöð Austur-Húnavatnssýslu.
 • Jón Eyþórsson (1964): Austur-Húnavatnssýsla. Árbók Ferðafélags Íslands, Reykjavík.
 • Páll Sigurðsson (2012): Skagafjörður vestan Vatna. Frá Skagatá að Jökli. Árbók Ferðafélags Íslands, Reykjavík.
 • Vísindavefurinn (2013): Hvaðan kemur orðið Strjúgsárdalur? https://www.visindavefur.is/svar.php?id=63797.
 • Þórgunnur Snædal (1999): Yfir fjöllin flýgur þrá. Lesbók Morgunblaðsins 7. ágúst, bls. 4-5. https://timarit.is/page/3314706#page/n3/mode/2up

1 athugasemd við “Strjúgsskarð og Litla-Vatnsskarð”

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s