Þriðjudaginn 9. ágúst 2022 ætla ég að hlaupa tvo fjallvegi á Norðurlandi vestra, nánar tiltekið eftirtalda:
- Strjúgsskarð og Litla-Vatnsskarð frá Strjúgsstöðum í Langadal (um 17 km innan við Blönduós), yfir Strjúgsskarð að Kárahlíð í Laxárdal fremri þar sem Rósberg G. Snædal fæddist 1919, og áfram yfir Litla-Vatnsskarð að skála Ferðafélags Skagfirðinga við fornbýlið Þúfnavelli í Víðidal (í Staðarfjöllum). Þessi leið er eitthvað um 14 km og eftir því sem næst verður komist er hægt að fylgja grófum jeppaslóða nánast alla leið. Þetta verður væntanlega fjallvegur nr. 72 í fjallvegahlaupaverkefninu mínu.
- Gyltuskarð frá Þúfnavöllum í Víðidal (í Staðarfjöllum) að Staðarrétt við Reynistað í Skagafirði (um 10 km innan við Sauðárkrók). Þessi leið er eitthvað um 18 km og þarna er líka hægt að fylgja grófum jeppaslóða mestalla leið. Þetta verður þá fjallvegur nr. 73.
Hlaup dagsins hefjast við Strjúgsstaði kl. 10:00 umræddan þriðjudagsmorgun og af fenginni reynslu má ætla að þau taki samanlagt 6-8 klst með hæfilegum áningum. Gaman væri að sjá sem flesta þennan dag, en að vanda tekur fólk þátt í þessu ævintýri á eigin ábyrgð.
Nánari upplýsingar um fjallvegina tvo er að finna undir Næstu hlaup á fjallvegahlaup.is.
(Þar sem ég hef hvorki komið í Laxárdal fremri né í Víðidal (í Staðarfjöllum) læt ég nægja að birta hér eina af uppáhalds fjallvegahlaupamyndunum mínum, en hún var tekin í Garðsárdal í Eyjafirði 13. júní 2020).
