Norðurland eftir viku

Fjallvegahlaup - tákn um frelsi. Myndin er tekin í norðanverðu Arnardalsskarði á Snæfellsnesi vorið 2016.

Fjallvegahlaup – tákn um frelsi. Myndin er tekin í norðanverðu Arnardalsskarði á Snæfellsnesi vorið 2016.

Á næstu helgi (11.-12. júní) verður röðin komin að fjallvegahlaupum nr. 46 og 47. Ég geri ráð fyrir að enginn vilji missa af þessum hlaupum og því er þessum pistli ætlað að minna á þau.

Á laugardaginn (11. júní) ætla ég að hlaupa gamla Þingmannaveginn frá Eyrarlandi í Eyjafirði yfir Vaðlaheiði að Hróarsstöðum í Fnjóskadal, já eða kannski bara að tjaldsvæðinu í Systragili sem er þar steinsnar frá. Þessi leið kvað vera um 12 km löng og 680 m há. Á leiðinni er hlaupið yfir frægt mannvirki, en það er mikil steinhleðsla yfir Systragilsdrög efst í heiðinni að austanverðu. Þarna átti upphaflega að byggja trébrú („upphaflega“ var árið 1870) með grjóthleðslum beggja vegna, en svo var ákveðið að hlaða þetta allt úr grjóti af því að margir góðir menn ætluðu það hentara. Mig grunar reyndar að grjót sé endingarbetra efni. Lagt verður upp frá Eyrarlandi kl. 13:00 á laugardag. Já, og vel á minnst: Eyrarland er austan við botn Eyjafjarðar, beint á móti Akureyrarflugvelli, um 1,5 km sunnan við hringveginn.

Sunnudaginn 12. júní verður svo tekið á rás yfir Kiðaskarð milli Skagfirska efnahagssvæðisins og þess húnvetnska. Lagt verður af stað kl. 13:00 neðan við bæinn á Mælifellsá í Skagafirði, u.þ.b. 12 km innan við Varmahlíð. Frá Mælifellsá eru tveir af mestu millivegalengda- og langhlaupurum Íslandssögunnar. Alla leiðina er hlaupið eftir vegarslóða sem kvað vera þokkalega fær fjórhjóladrifsbílum á sumrin. Dreg þó í efa að sumarið sé komið í þeim skilningi. Leiðin gæti teygst upp í 20 km og mesta hæð er líklega um 620 m.y.s. Hlaupinu lýkur við Stafnsrétt í Svartárdal, eða kannski á aðalveginum spölkorni neðar í dalnum. Þaðan er rúmlega 20 km akstur niður að Húnaveri, neðan við brekkuna upp á Vatnsskarð.

Nánari upplýsingar um þessar tvær leiðir má finna á þar til gerðum upplýsingasíðum sem birtast ef smellt er á tenglana framar í þessum pistli.

Vonast til að hlaupin um þessa fjallvegi verði fjölmenn og góðmenn. Og þegar þessir fjallvegir hafa verið hlaupnar verða ekki nema þrír eftir af þessum 50 sem málið snýst um.

Auglýsingar

Kíkt í fjallvegahlaupabókhaldið

IMG_4303webÞegar þetta er skrifað hef ég lagt að baki 45 af þeim 50 fjallvegum sem ég gaf sjálfum mér í 5-tugsafmælisgjöf fyrir rúmum 9 árum. Nú bíða aðeins 5 fjallvegir þess að verða hlaupnir og á miðnætti 23. júlí nk. verður hinum „fýsíska“ þætti verkefnisins lokið. Með þetta í huga hef ég ákveðið að opna hluta af fjallvegahlaupabókhaldinu – eins og sjá má hér að neðan. Enn er nefnilega tækifæri til að hressa upp á einstakar línur í þessu mikilvæga bókhaldi.

Helstu kennitölur eða hagstærðir bókhaldsins eru þessar eins og staðan er í dag:

  • 45 fjallvegahlaup
  • 875,16 km
  • 128:10:22 klst. (5 sólarhringar, 8 klst, 10 mín og 22 sek)
  • Meðalhraði 6,83 km/klst
  • 83 hlaupafélagar

Eftirfarandi tafla sýnir fjölda hlaupa og hlaupinna kílómetra allra hlaupafélaga sem farið hafa með mér 3 ferðir eða fleiri og hlaupið 50 km eða meira, raðað eftir fjölda ferða. Þetta er taflan sem allir hljóta að hafa beðið eftir í ofvæni:

Fjallvegahlaupabókhaldstafla 160528

Ötulustu hlaupafélagarnir 2007-2016. (Birt með fyrirvara um villur).

Þeim sem vilja breyta þessari töflu er bent á síðustu 5 fjallvegahlaupin, sem verða eins og hér segir:

  • 11.06.2016 Þingmannavegur/Vaðlaheiði – 12 km
  • 12.06.2016 Kiðaskarð – 17 km
  • 14.07.2016 Klofningsheiði – 14 km
  • 19.07.2016 Sléttuheiði – 14 km
  • 23.07.2016 Arnarvatnsheiði – 81 km

Sjáumst næst á Þingmannaveginum. Meira um það fljótlega.

Svínbjúgur á þriðjudag

Efnisorð

, ,

Svínbjúgur wikiloc 200Síðdegis á þriðjudag (24. maí) er röðin komin að fjallvegahlaupi nr. 45 frá Hóli í Hörðudal um Svínbjúg. Hlaupinu lýkur svo við suðurenda Hítarvatns. Hlaupaleiðin er samtals um 22 km að lengd, en henni er lýst nánar á þar til gerðri síðu hér á vefnum.

Lagt verður upp frá eyðibýlinu Hóli í Hörðudal um kl. 16:00 á þriðjudaginn. Að Hóli er um 80 km akstur frá Borgarnesi um Bröttubrekku. Beygt er til vinstri út af aðalveginum um 6,5 km sunnan við Búðardal og ekið sem leið liggur með stefnu á Stykkishólm. Eftir um 7 km akstur eftir þeim vegi er aftur tekin vinstri beygja inn á vestari Hörðudalsveginn. Þá eru um 3 km eftir heim á hlað á Hóli.

Hlaupið endar sem fyrr segir sunnan við Hítarvatn. Að endamarkinu er rúmlega 40 km akstur frá Borgarnesi, fyrst sem leið liggur vestur á Mýrar (um 20 km) og svo upp Hítardalsveg (aðrir 20 km). Síðasti spölurinn frá bænum í Hítardal og upp að vatni er líklega frekar grófur, en leiðin ætti þó að vera fær öllum bílum.

Vonast til að njóta samvista við sem flesta á þessari skemmtilegu leið á þriðjudaginn, þrátt fyrir að þetta sé virkur dagur. Veðurspáin gæti reyndar verið hagstæðari, en búast má við strekkingsmótvindi, rigningu og u.þ.b. 8 stiga hita.

Fjallvegahlaupadagskráin 2016

Nú er ekki seinna vænna að fastsetja dagskrá fjallvegahlaupaverkefnisins sumarið 2016, sem er eins og alþjóð veit síðasta sumar verkefnisins. Það hefur vafist fyrir mér að koma þessari dagskrá saman enda ljóst að hún verður meira krefjandi en nokkru sinni fyrr. Þetta leit allt vel út í árslok 2014, 8 sumur og 40 hlaup búin og 2 sumur og 10 hlaup eftir, alveg eins og það átti að vera. En sumarið 2015 brá svo við að af ólíkum ástæðum kláraði ég ekki nema 3 hlaup og á því 7 stykki eftir fyrir þetta síðasta sumar. Og ég var löngu búinn að ákveða að síðasta hlaupið skyldið hlaupið 23. júlí, þannig að tíminn er frekar naumur. Á dagskránni þarf líka að vera pláss fyrir Þrístrending, Hamingjuhlaup, einhver keppnishlaup og jafnvel fyrir verkefni á borð við vinnu og fjölskyldu. En hvað um það. Fjallvegahlaupadagskráin liggur fyrir og verður tíunduð í þessum pistli, með venjulegum fyrirvara um breytingar.

1. Arnardalsskarð, laugardag 21. maí 2016 (Hlaup #44)
Arnardalsskarð er um 14 km leið þvert yfir Snæfellsnes frá Bláfeldi í Staðarsveit til Grundarfjarðar. Leiðin er brött upp að sunnanverðu og fer líklega í 700 m hæð þar sem hæst er. Þar uppi má búast við snjó á þessum árstíma, en það ræðst eðlilega af veðurfari næstu mánaða. Líklega verður lagt í hann strax eftir hádegi, t.d. kl. 13:00, en það verður nánar kynnt þegar nær dregur.

2. Svínbjúgur, þriðjudag 24. maí 2016 (Hlaup #45)
Svínbjúgur er gömul leið úr Hörðudal suður að Hítardal á Mýrum. Þessi leið er lengi búin að vera í sigti hjá mér, en ég hafði upphaflega hugsað mér að hlaupa hana til norðurs. Nú er ég búinn að skipta um skoðun og ætla að hefja hlaupið við Hól í Hörðudal. Vegalengdin gæti verið allt frá 22 km upp í 30 km. Síðarnefnda talan gildir ef hlaupið er alla leið til bæjar í Hítardal. Býst við að sú verði raunin. Sjálfur þekki ég ekki leiðina, en Jónas Kristjánsson segir að þetta sé „skemmtilegasta leiðin um hálendið milli Mýra og Dala, enda er hún með öllu ófær jeppum“. Þarna á ég líka eftir að ákveða nákvæma tímasetningu, en fyrsta tillaga er að leggja af stað úr Hörðudal kl. 16:00. Þetta er jú á virkum degi.

3. Þingmannavegur/Vaðlaheiði, laugardag 11. júní 2016 (Hlaup #46)
Þingmannavegur er gömul leið yfir Vaðlaheiði, frá Eyrarlandi í Eyjafirði að Hróarstöðum í Fnjóskadal. Þetta munu vera 12 km og á leiðinni gefur að líta dæmi um einkar vandaðar veghleðslur frá fyrri tíð. Ég geri ráð fyrir að leggja af stað úr Eyjafirði kl. 13:00, þar til annað verður ákveðið.

4. Kiðaskarð, sunnudag 12. júní 2016 (Hlaup #47)
Kiðaskarð er um 17 km löng leið frá Mælifelli í Skagafirði að Stafnsrétt í Svartárdal. Mér skilst að þessi leið sé jeppafær að sumarlagi og mesta hæð í skarðinu er líklega um 550 m.y.s. Býst við að leggja af stað frá vegamótum við Mælifellsá kl. 13:00.

5. Þrístrendingur, laugardag 18. júní 2016
Sumarið 2016 verður Þrístrendingur hlaupinn í sjöunda sinn. Lagt verður upp frá Kleifum í Gilsfirði kl. 10:30 árdegis, hlaupið norður Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, því að þessar leiðir hef ég farið oft áður. En þessi hlaup eru alltaf skemmtileg! Ferðasögur frá liðnum sumrum eru geymdar í gagnaverum víða um heim. Dæmi um það er ferðasagan frá sumrinu 2015.

6. Hamingjuhlaupið, laugardag 2. júlí 2016
Þennan dag verður kominn tími á 8. Hamingjuhlaupið, en það tilheyrir flokki gleðihlaupa rétt eins og Þrístrendingur. Þarna er hlaupið eftir fyrirfram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Hamingjuleiðin 2016 er ekki endanlega ákveðin en flest bendir til að hlaupið hefjist í Bjarnarfirði syðri. Alla vega lýkur því á Hólmavík, enda er viðburðurinn hluti af hinni sívinsælu bæjarhátíð Hamingjudögum. Vegalengdin verður sennilega með styttra móti þetta árið, varla mikið meira en 25-30 km. Þetta verður allt kynnt miklu betur þegar nær dregur.

7. Klofningsheiði, fimmtudag 14. júlí 2016 (Hlaup #48)
Hlaupið yfir Klofningsheiði hefst á Flateyri. Þegar komið er niður af heiðinni er hlaupið niður Sunddal og Staðardal til Keravíkur, út fyrir Spilli og inn til Suðureyrar við Súgandafjörð. Leiðin upp er brött og hæst er farið í rúmlega 600 m hæð. Vegalengdin er áætluð um 14 km.

8. Vesturgatan, sunnudag 17. júlí 2016
Það vill svo skemmtilega til að Hlaupahátíðin á Vestfjörðum verður einmitt haldin dagana eftir Klofningsheiðarhlaupið. Hátíðin hefst á fimmtudag eða föstudag og nær hápunkti með Vesturgötunni á sunnudag. Þar ætla ég að vera, enda fær maður hvergi betri móttökur. Vesturgatan er ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu en ég nefni hana hérna samt. Hún fellur svo vel að þessu öllu saman. Mæli með að hlauparar fjölmenni þangað.

9. Sléttuheiði, þriðjudag 19. júlí 2016 (Hlaup #49)
Hlaupaleiðin sem um ræðir liggur frá Sæbóli í Aðalvík, inn Staðardal, upp Fannadal, yfir Sléttuheiði og inn Hesteyrarbrúnir að Hesteyri. Leiðin er greiðfarin en gróf og eitthvað um 14 km að lengd. Siglt verður með báti frá Ísafirði að Sæbóli kl. 9 um morguninn og til baka frá Hesteyri um kl. 18:30. Þeir sem ekki treysta sér til að hlaupa Sléttuheiðina geta keypt sér gönguferð með leiðsögn þessa sömu leið og eru bátsferðirnar þá innifaldar. Það er með öðrum orðum frekar einfalt að gera meira en bara hlaupaferð úr þessu. Bátsferðin ein og sér kostar tæplega 20 þús. kr. báðar leiðir og gönguferðin tæplega 30 þús. kr. með siglingum. Ef 10 manns taka sig saman og mynda hóp fæst afsláttur.

10. Arnarvatnsheiði, laugardag 23. júlí 2016 (Hlaup #50)
Arnarvatnsheiðin verður síðasti fjallvegurinn í fjallvegahlaupaverkefninu. Lagt verður af stað kl. 5:00 árdegis úr Miðfirði þar sem Arnarvatnsheiðarvegur hefst og endað í námunda við Kalmanstungu í Borgarfirði um kl. 18:30. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er þessi spölur 81,41 km og þar með langlengsti fjallvegurinn í verkefninu. Að hlaupi loknu verður fjallvegahlaupaverkefnið kvatt með formlegum hætti og verður sá viðburður kynntur nánar fljótlega.

Sem fyrr segir er þetta allt birt með fyrirvara um breytingar. Þær verða kynntar jafnóðum og þeirra verður vart.

Vonast til að njóta félagsskapar sem flestra á þessu síðasta sumri fjallvegahlaupaverkefnisins. Gott er að fá sem mest viðbrögð við dagskránni sem fyrst. Þá er líka auðveldara að laga áformin að „þörfum markaðarins“.

Í fjallvegahlaupum er alltaf gaman og alltaf gott veður (ja, nema kannski stundum). Þessi mynd er tekin í Gervidal á leið upp á Skálmardalsheiði í ágúst 2014.

Í fjallvegahlaupum er alltaf gaman og alltaf gott veður (ja, nema kannski stundum). Þessi mynd var tekin í Gervidal á leið upp á Skálmardalsheiði í ágúst 2014. Þá var gott veður en ekki átakanlega hlýtt.

Unnið að sagnaritun

Fjallvegahlaupin mín skiptast eiginlega í þrjá verkþætti. Fyrst þarf að velja leiðir og taka saman ýmsan fróðleik um þær. Svo þarf að hlaupa þessar leiðir. Síðasti verkþátturinn er að skrifa ferðasöguna. Sá verkþáttur á það til að dragast, en myndir úr ferðalögunum hressa upp á minnið þegar loks er sest niður við sagnaritun.

Þegar þetta er skrifað hafa 43 fjallvegir verið hlaupnir en um 10% af ferðasögunum eru enn óskrifaðar. Í gær birtist saga af Reykjaheiði frá því í ágúst 2014 og uppi eru fögur áform um að ljúka öðrum skrifum hið fyrsta. Reyndar er skrifum seint fulllokið því lengi er hægt að lagfæra og bæta inn upplýsingum og heimildum. Það gerist smátt og smátt.

Og nú styttist líka í að fjallvegahlaupadagskráin fyrir árið 2016 líti dagsins ljós. Á þeirri dagskrá verða 7 fjallvegir, fleiri en nokkru sinni fyrr. Ástæðan er sú að árið 2016 er 10. ár fjallvegahlaupaverkefnisins – og þar með líka það síðasta. Leiðirnar sjö verða hver annarri skemmtilegri.

Á hlaupum upp Reykjaheiði 7. ágúst 2014. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Á hlaupum upp Reykjaheiði 7. ágúst 2014. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Haukadalsskarð á laugardaginn

Efnisorð

Haukadalsskarð kort lmí einfÁ laugardaginn er komið að því að hlaupa yfir Haukadalsskarð frá Smyrlhóli í Haukadal í Dölum langleiðina að Staðarskála í Hrútafirði. Ætlunin er að hefja hlaupið kl. 10 árdegis og má ætla að skokkið yfir í Hrútafjörð taki 2,5 til 3,5 klst. Vegalengdin er um 20 km.

Hlaupið yfir Haukadalsskarð verður fjallvegahlaup nr. 43. Að því loknu verða því 7 fjallvegir eftir af fjallvegahlaupaverkefninu. Að meðaltali hef ég hlaupið 5 fjallvegi á ári, en verð líklega nokkuð á eftir áætlun í lok þessa árs. Haukadalsskarðið verður e.t.v. síðasti fjallvegur ársins, en enn er þó hugsanlegt að eitthvað bætist við í lok sumars eða með haustinu. Þau mál eru í athugun.

Leiðarlýsingin fyrir Haukadalsskarð er enn að mestu óskrifuð, en upplýsingar um hlaupið er annars að finna á hlaup.is. Gott væri að fá einhverja nasasjón af þátttöku fyrirfram. Það gæti auðveldað fólkflutninga milli endamarks og upphafsstaðar.

Vonast til að sem flestir sláist í för með mér á laugardaginn. Öllum er velkomið að taka þátt, enda gera hlauparar það á eigin ábyrgð.

Sjáumst við þá ekki bara á laugardaginn?

Austfirðir í næstu viku

Efnisorð

,

Nú er kominn tími til að bæta fjallvegum nr. 42 og 43 í safnið. Fjallvegur nr. 42 verður Víkurheiði og Dys sem ég ætla að hlaupa þriðjudaginn 4. ágúst kl. 11. Legg þá af stað frá Kerlingará utan við Stóru-Breiðuvík í Reyðarfirði. Fjallvegur nr. 43, Berufjarðarskarð, verður svo hlaupinn tveimur dögum síðar, þ.e.a.s. fimmtudaginn 6. ágúst kl. 11. Þá hefst hlaupið við bæinn Höskuldsstaði í Breiðdal.

Fjallvegahlaupin eru ekki keppnishlaup, heldur snúast þau um útiveru, hreyfingu og góðan félagsskap. Þátttökugjöld eru engin og öllum er frjálst að slást í hópinn á eigin ábyrgð. Þátttakendur þurfa ekkert að skrá sig, en samt er gott að hafa einhverja hugmynd um hverjir ætla að vera með. Þá er líka auðveldara að nýta ferðir og svoleiðis.

Fyrstu drög að leiðarlýsingum þessara tveggja leiða er að finna hérna á fjallvegahlaupasíðunni undir „Næstu hlaup“. Þar eru m.a. GPS-punktar sem gott er að eiga í handraðanum. Ef allt gengur að óskum bæti ég einhverjum upplýsingum þarna við næstu daga. Svo er líka eitthvað um þetta hlaup.is, (sjá tengla ofar í þessari færslu).

Sjáumst í næstu viku!

Víkurheiði og Dys

Víkurheiði og Dys

Berufjarðarskarð

Berufjarðarskarð

Flatnavegur á laugardaginn

Nú er komið að því: Fyrsta fjallvegahlaup ársins og það 41. frá upphafi verður hlaupið á laugardag (30. maí). Hlaupið hefst kl. 15:00 við Rauðamelsölkeldu í Eyja- og Miklaholtshreppi og lýkur við Setberg, neðst í Litla-Langadal á Skógarströnd. Vegalengdin er u.þ.b. 20 km og hæsti punktur á leiðinni eitthvað um 250 m.y.s.

Leiðin að rásmarkinu við Rauðamelsölkeldu er auðrötuð. Frá hringtorginu á Vesturlandsvegi ofan við Borgarnes er ekið sem leið liggur til vesturs eftir þjóðvegi nr. 54 um 41 km vestur af Haffjarðará. Um það bil 2,5 km vestan við ána er beygt til hægri, ekið fram hjá Gerðubergi og staðnæmst á vesturbakka Flatnaár, tæpa 7 km frá aðalveginum.

Leiðin að endamarkinu er sömuleiðis frekar auðrötuð. Þá er ekið vestur Mýrar og síðan norður Heydalsveg (þjóðveg nr. 55). Þegar komið er norður yfir er beygt vestur Skógarströnd. Eftir um 19 km akstur er beygt inn í Litla-Langadal, en vegamótin þar láta lítið yfir sér. Frá vegamótunum er um 2 km akstur að bænum Setbergi, sem er auðþekktur af reisulegu tveggja hæða íbúðarhúsi með grænu þaki. Þar endar hlaupið sem sagt. Vegalengdin frá Borgarnesi að Setbergi er u.þ.b. 85 km. Nánari staðsetningar með gps-hnitum má sjá á fjallvegahlaup.is.

Að vanda er öllum velkomið að taka þátt í hlaupinu á eigin ábyrgð. Þátttakendur þurfa sjálfir að koma sér á upphafspunktinn og frá lokapunktinum, en af umhverfisástæðum er hvatt til að fólk sameinist um bíla eftir föngum.

Nánari upplýsingar um hlaupið er að finna á fjallvegahlaup.is og hlaup.is. Ef eitthvað er óljóst er um að gera að hafa samband í síma 862 0538 eða á stefan@environice.is.

Vonast til að sjá sem flesta á laugardaginn.

Flatnavegur kort lmí 960

 

Strjúgsskarði frestað

Ég ætla að fresta fjallvegahlaupinu um Strjúgsskarð um óákveðinn tíma, en þetta hlaup var á dagskrá laugardaginn 11. júlí 2015. Ástæður frestunarinnar eru tvær. Annars vegar þarf ég að létta aðeins á hlaupadagskrá sumarsins til að skapa rými fyrir aðrar og ögn fjölskylduvænni athafnir og hins vegar þarf ég að endurskoða æfingaáætlunina mína fyrir Laugavegshlaupið 18. júlí. Hef glímt við smávægileg meiðsli í vetur og þeirra vegna þarf ég að skipuleggja tímann fram að Laugaveginum öðruvísi en ella til að eiga möguleika á að ná þeim markmiðum sem ég hef sett mér þar. Strjúgsskarðið passaði ekki vel inn í þá mynd enda ekki nema viku fyrir Laugaveginn.

Eftir þessa breytingu lítur fjallvega- og skemmtihlaupadagskrá sumarsins svona út:

30.05.2015, kl. 15:00  Flatnavegur – 20 km
20.06.2015, kl. 10:30  Þrístrendingur – 41 km
27.06.2015, kl. ??:??   Hamingjuhlaupið – 32 km
04.08.2015, kl. 11:00  Víkurheiði og Dys – 14 km
06.08.2015, kl. 11:00  Berufjarðarskarð – 10 km
15.08.2015, kl. 10:00  Haukadalsskarð – 20 km

Biðst velvirðingar á þeim óþægindum og vonbrigðum sem þessi breyting kann að valda.

Fjallvegahlaupadagskrá 2015-2016

reykjaheidi_SG

Ein af fjölmörgum góðum fjallvegahlaupamyndum Sævars Skaptasonar. Þessi var tekin á Reykjaheiði 7. ágúst 2014.

Fjallvegahlaupadagskráin 2015 liggur nú fyrir í öllum aðalatriðum. Og það er líka búið að leggja drög að dagskránni fyrir 2016. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið! Dagskráin er í grófum dráttum sem hér segir:

1. Flatnavegur, laugardag 30. maí 2015 (#41)
Flatnavegur verður 41. fjallvegurinn í fjallvegahlaupaverkefninu. Þetta er um 20 km leið sem liggur frá Rauðamelsölkeldu í Eyja- og Miklaholtshreppi að bænum Setbergi neðst í Litla-Langadal á Skógarströnd. Upphaflega hafði ég reyndar reiknað með að vegalengdin væri ekki nema 14 km, en mælingar benda til að leiðin sé þessum mun lengri. Þetta ætti þó að vera býsna viðráðanlegur spotti fyrir næstum hvern sem er. Leiðin fer hæst í um 250 m hæð yfir sjó, en undirlagið kvað vera þokkalegt og víða hægt að fylgja slóðum. Þetta er í raun frekar dalavegur en fjallvegur. Nákvæmar tímasetningar hafa ekki verið ákveðnar, en þó er vitað að lagt verður af stað síðdegis umræddan laugardag. Á Setbergi verður grillað að hlaupi loknu. Þar verður nógur matur fyrir alla en þess er vænst að þeir sem hans njóta borgi svo sem 1.000 krónur upp í kostnað. Þetta verður allt kynnt nánar þegar nær dregur.

2. Þrístrendingur, laugardag 20. júní 2015
Í sumar verður Þrístrendingur hlaupinn í sjötta sinn. Lagt verður upp frá Kleifum í Gilsfirði kl. 10:30 árdegis, hlaupið norður Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég farið oft áður. En þessi hlaup eru alltaf skemmtileg! Ferðasögur frá liðnum sumrum eru geymdar í gagnaverum víða um heim. Dæmi um það er ferðasagan frá sumrinu 2014.

3. Hamingjuhlaupið, laugardag 27. júní 2015
Þennan dag verður kominn tími á 7. Hamingjuhlaupið, en það tilheyrir flokki skemmti- og félagshlaupa rétt eins og Þrístrendingur. Þarna er hlaupið eftir fyrirfram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Hamingjuleiðin 2015 liggur um Laxárdalsheiði frá Klukkufelli í Reykhólasveit, inn fyrir Þiðriksvallavatn og síðan sem leið liggur til Hólmavíkur. Vegalengdin er sjálfsagt rúmlega 30 km og þeir sem ekki treysta sér alla leiðina geta slegist í hópinn hvar sem er eftir að komið er niður í Þiðriksvalladal. Þetta verður allt kynnt miklu betur þegar nær dregur, en þangað til er hægt að stytta sér stundir við lestur eldri frásagna af Hamingjuhlaupum, t.d. frá sumrinu 2014.

4. Strjúgsskarð, laugardag 11. júlí 2015 (#42)
Ég hef horft svo oft upp í Strjúgsskarð á leiðinni til Akureyrar að nú hlýtur að vera kominn tími til að hlaupa það. Þá er lagt af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal, svo sem 17 km innan við Blönduós, hlaupið upp í skarðið og niður í Laxárdal, yfir hann, yfir Litla-Vatnsskarð og loks út Víðidal og Hryggjardal alla leið til Sauðárkróks. Þetta er því í raun meira en einn fjallvegur þó að ég hafi ákveðið að taka þetta sem eitt verkefni. Vegalengdin er eitthvað um 31 km.

5. Laugavegurinn, laugardag 18. júlí 2015
Laugavegurinn er ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, en mér finnst bara svo gaman að hlaupa hann að ég get ekki sleppt því. Set hann því hér með til minnis. Hvet aðra til að hlaupa hann líka, en þá þarf maður náttúrulega að skrá sig fljótlega.

6. Barðsneshlaupið, laugardag 1. ágúst 2015
Barðsneshlaupið fyrir austan er ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, ekki frekar en Laugavegurinn. Mig hefur bara lengi langað til að hlaupa það og ætla að láta verða af því næsta sumar.

7. Víkurheiði og Dys, þriðjudag 4. ágúst 2015 (#43)
Víkurheiði liggur frá Stóru-Breiðuvík í Reyðarfirði út í Vöðlavík. Ég ætla hins vegar að beygja til norðurs á miðri leið og hlaupa um svonefnda Dys niður í Viðfjörð. Þar býst ég við að sagðar verði sögur af nýunnum afrekum í Barðsneshlaupinu og af Viðfjarðarundrunum, sem voru líklega minna skemmtileg. Leiðin öll er um 14 km og líklega hægt að komast á bíl til baka til byggða.

8. Berufjarðarskarð, fimmtudag 6. ágúst 2015 (#44)
Leiðin um Berufjarðarskarð liggur frá Höskuldsstöðum í Breiðdal í botn Berufjarðar. Vegalengdin er um 10 km, en ágætlega brött, fer mest í um 760 m hæð yfir sjó.

9. Haukadalsskarð, laugardag 15. ágúst 2015 (#45)
Haukadalsskarð liggur úr Haukadal í Dölum yfir að Brú í Hrútafirði. Þetta er aðgengilegur fjallvegur, enda jeppafær. Vegalengdin er eitthvað um 20 km. Heyrst hefur að seldir verði hamborgarar í Staðarskála að hlaupi loknu.

10. Þrístrendingur, laugardag 18. júní 2016
Sumarið 2016 verður Þrístrendingur hlaupinn í sjöunda sinn. Fjölyrði ekki frekar um það en vísa í það sem fram kemur framar í þessum pistli.

11. Hamingjuhlaupið, laugardag 2. júlí 2016
Þennan dag verður kominn tími á 8. Hamingjuhlaupið, (sjá framar). Ekki er enn ljóst hvaða leið verður hlaupin í þetta skiptið.

12. Klofningsheiði, fimmtudag 14. júlí 2016 (#46, #47 eða #48)
Hlaupið yfir Klofningsheiði hefst á Flateyri. Þegar komið er niður af heiðinni er hlaupið niður Sunddal og Staðardal til Keravíkur, út fyrir Spilli og inn til Suðureyrar við Súgandafjörð. Leiðin upp er brött en hæst er farið í rúmlega 600 m hæð. Vegalengdin er áætluð um 14 km.

13. Vesturgatan, sunnudag 17. júlí 2016
Það vill svo skemmtilega til að Hlaupahátíðin á Vestfjörðum verður einmitt haldin dagana eftir Klofningsheiðarhlaupið. Hátíðin hefst á fimmtudag eða föstudag og nær hápunkti með Vesturgötunni á sunnudag. Þar ætla ég að vera, enda veit ég hvað maður fær góðar móttökur fyrir vestan. En Vesturgatan er svo sem ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu.

14. Sléttuheiði, þriðjudag 19. júlí 2016 (#47, #48 eða #49)
Hlaupaleiðin sem um ræðir liggur frá Sæbóli í Aðalvík, inn Staðardal, upp Fannadal, yfir Sléttuheiði og inn Hesteyrarbrúnir að Hesteyri. Leiðin er greiðfarin en gróf og eitthvað um 14 km að lengd. Boðið hefur verið upp á bátsferðir frá Ísafirði að Sæbóli kl. 9 á þriðjudagsmorgnum yfir sumarmánuðina og til baka frá Hesteyri seinni partinn. Dagsetning hlaupsins yfir Sléttuheiði miðast við að svipaðar ferðir verði enn í boði sumarið 2016. Þeir sem ekki treysta sér til að hlaupa þennan spöl geta væntanlega komist í gönguferð með leiðsögn þessa sömu leið, sem miðast einmitt við þessar sömu bátsferðir. Það er með öðrum orðum frekar einfalt að gera meira en bara hlaupaferð úr þessu.

15. Arnarvatnsheiði, laugardag 23. júlí 2016 (#50)
Arnarvatnsheiðin verður síðasti fjallvegurinn í fjallvegahlaupaverkefninu. Lagt verður upp úr Miðfirði, væntanlega í grennd við Aðalból, að morgni dags og endað í námunda við Kalmanstungu í Borgarfirði þegar tekið verður að kvölda. Þessi spölur er eitthvað um 70 km og þar með langlengsti fjallvegurinn í verkefninu. Að hlaupi loknu verður fjallvegahlaupaverkefnið kvatt með formlegum hætti, en hver sá háttur verður kemur mun betur í ljós þegar nær dregur.

Eins og ráða má af upptalningunni hér að framan er enn ekki búið að taka ákvörðun um staðsetningu og tímasetningu tveggja fjallvegahlaupa sumarið 2016. Þar er reyndar úr vöndu að ráða, því að nóg er til af óhlaupnum fjallvegum og verkefnið tekur aðeins við 50 slíkum. Þeir fjallvegir sem helst hafa verið orðaðir við þessi tvö lausu sæti eru Sandsheiði (15 km) frá Barðaströnd vestur á Rauðasand, Kiðaskarð (17 km) frá Mælifelli í Skagafirði að Stafnsrétt í Svartárdal, Þingmannavegur (12 km) yfir Vaðlaheiði og Fimmvörðuháls (22 km) frá Skógum að Goðalandi í Þórsmörk. Öll góð ráð um þetta eru vel þegin, svo og hæfilegur hópþrýstingur frá þeim sem telja einhverjar leiðir öðrum nauðsynlegri.

Rétt er að taka fram að allt er þetta birt með fyrirvara um breytingar en svona lítur þetta alla vega út í andránni.

Sem fyrr vonast ég til að sem flestir sláist í för með mér í þessum hlaupum. Félagsskapurinn hefur verið mér mikils virði, enda skapast einhvern veginn þéttari og endingarbetri kynni á fjöllum en í byggð þar sem undirstaðan er malbik, fundarborð og tölvuskjáir.

Hjaltadalsheiði 2014

Á harðaspretti niður Hörgárdal eftir fjallvegahlaup yfir Hjaltadalsheiði 5. ágúst 2014. Þrír fremstu hlaupararnir á myndinni eru líka þau sem oftast hafa slegist í för með mér í fjallvegahlaupunum. Þar er hörð keppni í gangi!