Þrjú fjallvegahlaup á næstu dögum

Fyrsta fjallvegahlaup sumarsins 2020 verður haldið næsta laugardag, þ.e.a.s. laugardaginn 13. júní 2020 kl. 13:00. Leiðin liggur um Gönguskarð, frá Garðsá í Eyjafirði að Reykjum í Fnjóskadal og vegalengdin er rétt um 26 km, já eða hugsanlega 27. Langtímaveðurspáin lofar góðu, nánar tiltekið mildri sunnanátt og líklega hlýindum og þurru veðri á Norðurlandi. En það skýrist auðvitað þegar nær dregur.

Hlaupið um Gönguskarð er byrjunin á viðburðaríku fjallvegahlaupasumri. Næstu daga þar á eftir liggur leiðin nefnilega til Siglufjarðar þar sem búið er bæta tveimur nýjum hlaupum við fjallvegahlaupadagskrána. Mánudaginn 15. júní kl. 15:00 verður lagt af stað frá Hraunum í Fljótum yfir Siglufjarðarskarð. Bílveginum yfir skarðið verður fylgt lengst af, en fyrstu kílómetrarnir fylgja þó eldri þjóðleið sem liggur ögn sunnar upp úr Fljótum. Hlaupið endar á aðalveginum við botn Siglufjarðar þegar u.þ.b. 13 km verða að baki.

Þriðjudaginn 16. júní kl. 10:00 er röðin svo komin að Kálfsskarði frá Siglufirði út á Siglunes. Hlaupið hefst við norðurenda flugvallarins á Ráeyri. Þaðan liggur leiðin út Staðarhólsströnd, inn Kálfsdal, yfir Kálfsskarð, út Nesdal að Reyðará og þaðan um Fúluvík og Löngumöl að Siglunesi. Vegalengdin er um 16 km., en hafa ber í huga að fara þarf fótgangandi eða hlaupandi til baka þar sem ekki er bílfært á þessum slóðum.

Á fjallvegahlaupadagskránni sem kynnt var hér á síðunni í nóvembermánuði síðastliðnum voru átta hlaup. Þeim hefur nú fjölgað í 11, annars vegar vegna þessara tveggja nýju hlaupa á Siglufirði og hins vegar vegna þessa að Hamingjuhlaupið 2020 verður jafnframt fjallvegahlaup. Þar verður sem sagt hlaupið yfir Kollabúðaheiði sunnan úr Þorskafirði norður í Staðardal á Ströndum – og þaðan áfram til Hólmavíkur þar sem öll hamingjuhlaup enda. Spölurinn úr Staðardal til Hólmavíkur verður reyndar ekki færður til bókar í fjallvegahlaupabókhaldinu.

Með framangreindum breytingum lítur fjallvegahlaupadagskráin 2020 svona út:

 1. Laugardagur 13. júní 2020, kl. 13:00:
  Gönguskarð – Frá Garðsá í Eyjafirði að Reykjum í Fnjóskadal – 26 km
 2. Mánudagur 15. júní 2020, kl. 15:00
  Siglufjarðarskarð – Frá Hraunum í Fljótum til Siglufjarðar – 13 km
 3. Þriðjudagur 16. júní 2020, kl. 10:00
  Kálfsskarð – Frá Siglufirði út á Siglunes – 16 km (og annað eins til baka)
 4. Laugardagur 27. júní 2020, (nánari tímasetning kynnt síðar)
  Kollabúðaheiði – Frá Kollabúðum í Þorskafirði að Kirkjubóli í Staðardal – 20 km (og síðan viðbótarskokk til Hólmavíkur í tilefni Hamingjudaga)
 5. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 10:00:
  Sandsheiði – Frá Haukabergsrétt á Barðaströnd að Móbergi á Rauðasandi – 15 km
 6. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 14:00:
  Kerlingaháls – Frá Móbergi á Rauðasandi til Keflavíkur – 12 km
  E.t.v. verður upphafspunkturinn færður vestar og ferðinni seinkað sem því nemur
 7. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 17:30:
  Dalverpi – Frá Keflavík að Sauðlauksdal – 14 km
 8. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 11:00:
  Tunguheiði – Frá Örlygshöfn til Kollsvíkur – 11 km
 9. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 15:30:
  Hænuvíkurskarð – Frá Hænuvík til Breiðuvíkur – 11 km
 10. Þriðjudagur 14. júlí 2020, kl. 13:00:
  Tunguheiði – Frá Tálknafirði til Bíldudals – 13 km
 11. Laugardagur 25. júlí 2020, kl. 10:00:
  Ófeigsfjarðarheiði – Úr Ófeigsfirði að Laugalandi í Skjaldfannardal – 39 km

Leiðarlýsingar vegna framangreindra leiða er í smíðum.

Eins og ævinlega eru allir velkomnir með mér í þessi hlaupaævintýri (á eigin ábyrgð). Mikilvægt er að þeir sem hafa hug á þátttöku fylgist með breytingum sem kynntar verða á þessari síðu og á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins. Stundum þarf nefnilega að breyta áætlunum vegna utanaðkomandi ástæðna (einkum veðurlags) eða jafnvel innanaðkomandi ástæðna (einkum heilsufars).

Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin í síðasta fjallvegahlaupinu sem lokið er, þ.e.a.s. hlaupi nr. 54 sem hlaupið var síðasta sumar yfir Brúnavíkurskarð og Súluskarð frá Borgarfirði eystri til Kjólsvíkur. Vonir standa til að skyggni verði betra í áformuðum hlaupum sumarsins en þennan tiltekna dag í júlí 2019.

A.m.k. 8 fjallvegahlaup á dagskrá næsta sumar

Nú liggja fyrir drög að fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2020. Átta hlaup eru á dagskránni eins og hún lítur út núna, en sjálfsagt verða einhverjar breytingar gerðar þegar nær dregur. Sunnanverðir Vestfirðir verða í aðalhlutverki að þessu sinni, en þar er ætlunin að hlaupa nokkra fremur stutta og alþýðlega fjallvegi í aðdraganda Hlaupahátíðar á Vestfjörðum sem hefst fimmtudaginn 16. júlí. Þar með gefst ágætt tilefni til að taka rúmlega vikulangt sumarfrí fyrir vestan, hlaupa fyrst nokkra fjallvegi og taka svo fullan þátt í hlaupahátíðinni í framhaldinu. Fyrsta hlaup ársins verður þó væntanlega norður í Eyjafirði 13. júní, auk þess sem stefnt er að einhverri fjallvegahlaupauppákomu í maí. Það mál á bara eftir að skýrast.

Svona litur fjallvegahlaupadagskráin 2020 út eins og staðan er í dag:

 1. Laugardagur 13. júní 2020, kl. 13:00:
  Gönguskarð – Frá Garðsá í Eyjafirði að Reykjum í Fnjóskadal – 26 km
 2. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 10:00:
  Sandsheiði – Frá Haukabergsrétt á Barðaströnd að Móbergi á Rauðasandi – 15 km
 3. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 14:00:
  Kerlingaháls – Frá Móbergi á Rauðasandi til Keflavíkur – 12 km
  E.t.v. verður upphafspunkturinn færður vestar og ferðinni seinkað sem því nemur
 4. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 17:30:
  Dalverpi – Frá Keflavík að Sauðlauksdal – 14 km
 5. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 11:00:
  Tunguheiði – Frá Örlygshöfn til Kollsvíkur – 11 km
 6. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 15:30:
  Hænuvíkurskarð – Frá Hænuvík til Breiðuvíkur – 11 km
 7. Þriðjudagur 14. júlí 2020, kl. 13:00:
  Tunguheiði – Frá Tálknafirði til Bíldudals – 13 km
 8. Laugardagur 25. júlí 2020, kl. 10:00:
  Ófeigsfjarðarheiði – Úr Ófeigsfirði að Laugalandi í Skjaldfannardal – 39 km

Sumarið 2020 verður fjórða sumarið í öðrum áfanga fjallvegahlaupaverkefninsins, en allt byrjaði þetta upp úr fimmtugsafmælinu mínu árið 2007. Fyrsta áfanganum lauk á sextugsafmælinu 2017 og þá var gefin út bók um 50 fyrstu leiðirnar. Bók nr. 2 með næstu 50 leiðum er svo væntanleg á sjötugsafmælinu 2027.

Áfangi nr. 2 hefur farið hægt af stað af ýmsum ástæðum, einkum vegna meiðsla, annríkis og mishagstæðs tíðarfars. Þannig tókst ekki að ljúka nema fjórum fjallvegum (nr. 51-54) fyrstu þrjú sumrin (2017-2019), sem þýðir að næstu 7 sumur þarf að afgreiða 46 fjallvegi til viðbótar. Þetta ætti reyndar að vera auðvelt, því að nóg er til bæði af fjallvegum og tíma.

Vonandi slást sem flestir í för með mér á fjallvegum næsta sumars, en þar eru allir velkomnir (á eigin ábyrgð). Breytingar á dagskránni verða kynntar á þessari síðu og á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins. Á næstu vikum og mánuðum verður líka settur inn einhver fróðleikur um allar þessar leiðir.

Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin í fjallvegahlaupi nr. 46 11. júní 2016 þegar leiðin lá yfir Vaðlaheiði eftir Þingmannavegi. Gönguskarð, sem er efst á lista næsta sumars, er á svipuðum slóðum en nokkru innar í landinu.

Hlaup nr. 54, 55 og 56 að bresta á!

Á morgun, miðvikudaginn 17. júlí ætla ég að reima á mig fjallvegahlaupaskóna á Borgarfirði eystri. Leiðin liggur frá Borgarfirði um Brúnavíkurskarð og Súluskarð niður í Kjólsvík, samtals um 12 km leið. Á fimmtudaginn er svo röðin komin að Stórurð annars vegar og Gönguskarði hins vegar.

Dagskrá tveggja næstu daga lítur í stuttu máli þannig út:

 • Miðvikudagur 17. júlí 2019, kl. 13:00: Fjallvegahlaup nr. 54:
  Brúnavíkurskarð og Súluskarð – Frá Ölduhamri í Borgarfirði eystri til Kjólsvíkur – 12 km. Þarna verða tveir fjallvegir sameinaðir í eitt hlaup (til að ná vegalengdinni upp fyrir 9 km, sem er lágmarksvegalengd samkvæmt afar ströngum reglum fjallvegahlaupaverkefnisins).
 • Fimmtudagur 18. júlí 2019, kl. 9:00: Fjallvegahlaup nr. 55:
  Stórurð – Frá Hólalandi í Borgarfirði eystri að Unaósi á Héraði – 22 km. Þetta er reyndar líklega bara að hluta til gömul þjóðleið, en sú leið lá frá Hólalandi um Eiríksdal að Hrafnabjörgum við Selfljót. Þessi útfærsla hentar bara betur af því að hún er svo vel troðin og merkt.
 • Fimmtudagur 18. júlí 2019, kl. 14:00: Fjallvegahlaup nr. 56:
  Gönguskarð – Frá Unaósi á Héraði að Hlíðartúni í Njarðvík – 10 km. Þarna býr sagan við hvert fótmál, m.a. í Stapavík, og staðsetningin gerir það að verkum að einkar hentugt er að hlaupa þessa leið í beinu framhaldi af Stórurð.

Samkvæmt upphaflegri fjallvegahlaupadagskrá ætlaði ég að hlaupa Sandaskörð þriðjudaginn 23. júlí nk., en því hlaupi þarf ég að fresta um óákveðinn tíma. Leiðin um Sandaskörð liggur frá Hólalandi í Borgarfirði eystri að Ánastöðum í Hjaltastaðaþinghá.

Drög að leiðarlýsingum fyrir Brúnavíkurskarð og Súluskarð annars vegar og Gönguskarð hins vegar má finna hér á síðunni, en leiðarlýsing um Stórurð hefur ekki enn verið skrifuð.

Vonandi slást sem flestir í för með mér næstu daga. Allir eru að vanda velkomnir á eigin ábyrgð, þátttakan kostar ekki neitt og engin verðlaun verða veitt, nema vonandi góðar minningar.

Rétt er að benda sérstaklega á að hið einstaka Dyrfjallahlaup fer fram á laugardaginn í þriðja sinn. Fjallvegahlaupin sem hér um ræðir eru tilvalin undirbúningur fyrir það, auk þess sem hlaupið um Stórurð nýtist að hluta sem brautarskoðun. Frestur til að skrá sig í Dyrfjallahlaupið rennur út á föstudag.

Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin á Þrándarhrygg 26. júní 2010 í fjallvegahlaupi nr. 16. Þann dag hlupum við fjögur saman yfir Gagnheiði frá Borgarfirði eystri til Breiðuvíkur. Á myndinni sést einmitt niður í Brúnavík, þangað sem leiðin liggur á morgun.

Fjallvegahlaup nr. 53 framundan

Nú er komið að því. Fjallvegahlaupavertíðin hefst formlega við Fellsendarétt í Dölum laugardaginn 8. júní nk. kl. 10 árdegis með fjallvegahlaupi um Reykjadal og Sanddal með endamarki um 2 km neðan við Sveinatungu í Norðurárdal. Hlaupið, sem er u.þ.b. 25 km að lengd (með venjulegum 20% skekkjumörkum) er fjallvegahlaup nr. 53 frá upphafi og nr. 3 í nýju Fjallvegahlaupabókinni sem hlýtur að koma út fimmtudaginn 18. mars 2027, þ.e.a.s. á sjötugsafmælinu mínu.

Ég ætla mér að hafa gaman að þessu á laugardaginn og þeim mun meira gaman sem fleiri mæta. Allir eru að vanda velkomnir á eigin ábyrgð, þátttakan kostar ekki neitt og engin verðlaun verða veitt, nema vonandi góðar minningar.

Drög að leiðarlýsingu má finna hér á síðunni, enn mjög gróf að vísu. En við rötum þetta nú samt alveg. Svo gerði ég líka tilraun til að búa til kort á Google Maps. Tek enga ábyrgð á gæðum þess.

Vonast til að sjá sem flesta.

Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins hefst á laugardaginn

Á laugardaginn (18. maí) hefst fjallvegahlaupavertíð sumarsins með sérstöku fjallvegahlaupabókarhlaupi um Skarðsheiðarveg sunnan af Skorholtsmelum í Melasveit upp í Hreppslaug í Andakíl. Þetta er sama leiðin og ég hljóp með góðum félögum þann 21. júní 2011, en því ferðalagi er lýst í Fjallvegahlaupabókinni minni (leið nr. 20).

Hlaupið á laugardaginn hefst kl. 10:00, en nánari upplýsingar er að finna á Facebooksíðu hlaupsins. Boðið verður upp á veitingar í Hreppslaug að hlaupi loknu og þess vegna er nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku í hlaupinu. Annars verður erfitt að áætla hversu mikið þarf af veitingunum. Skráningin fer fram með því að smella á þar til gerðan tengil á Facebooksíðunni.

Hin eiginlegu fjallvegahlaup hefjast svo í júní, en með „eiginlegum fjallvegahlaupum“ er hér átt við hlaupin sem gerð verða sérstök skil í Fjallvegahlaupabók nr. 2 sem kemur út fimmtudaginn 18. mars 2027. Hlaup sumarsins verða kynnt hér á síðunni (sjá m.a. næstu færslu fyrir neðan þessa) og á Facebooksíðu fjallvegahlaupanna, auk þess sem ég segi samferðafólki mínu á laugardaginn örugglega undan og ofan af áformum sumarsins.

Leiðin um Skarðsheiðarveginn er rétt tæpir 20 km, fylgir öll greinilegum stígum og er auðveld yfirferðar þrátt fyrir töluverða hækkun. Landslagið er fallegt og undirlagið fjölbreytilegt. Líklega eru línuvegirnir á sunnanverðri leiðinni fljótfarnari en reiðgatan, en „línuvegi skortir eitthvað af þeim andblæ og upplifun sem fylgir hálfgrónum gömlum götum sem liggja lágt í landinu“, svo ég vitni nú í eigin orð frá árinu 2011. Þess vegna förum við reiðgöturnar.

Vonast til að hitta sem flest ykkar á laugardag. Öllum er velkomið að taka þátt, sér að kostnaðarlausu en á eigin ábyrgð.

Við Miðfitjahól, þar sem Skarðsheiðarvegurinn rís hæst, nánar tiltekið í u.þ.b. 470 m hæð. Í baksýn (t.h.) er hæsta fjall Skarðsheiðarinnar, Heiðarhorn (1.053 m). (Myndin er tekin 2011).

Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins í mótun

Tímabært að fara að reima á sig skóna á nýjan leik.

Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2019 er smám saman að taka á sig mynd. Ætlunin er að hlaupa 7-8 nýja fjallvegi í sumar, auk þess sem nokkrar eldri leiðir verða rifjaðar upp til fróðleiks og skemmtunar. Eftirfarandi dagsetningar hafa verið ákveðnar, en það sem á vantar verður kynnt á næstunni.

 1. Laugardagur 18. maí: Fjallvegahlaupavertíðin 2019 hefst formlega með upprifjun á u.þ.b. 23 km fjallvegahlaupi í nágrenni Reykjavíkur. Hlaupið verður skipulagt í samvinnu við Bókaútgáfuna Sölku. Von er á nánari kynningu á næstu dögum eða vikum.
 2. Laugardagur 8. júní: Reykjadalur – Frá Fellsendarétt í Miðdölum að Sveinatungu í Norðurárdal – um 25 km. (FJALLVEGAHLAUP)!
 3. Laugardagur 15. júní: Þrístrendingur (Steinadalsheiði, Bitruháls og Krossárdalur, (leiðir nr. 14, 15 og 8 í Fjallvegahlaupabókinni)). Hlaupið er ekki beinlínis hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, heldur fyrst og fremst félagslegt skemmti- og æfingahlaup, sem nú verður hlaupið í 9. sinn. Heildarvegalengdin er 41 km, en auðvelt að skipta henni niður í styttri kafla.
 4. Laugardagur 29. júní: Hamingjuhlaupið. Rétt eins og Þrístrendingur er þetta hlaup ekki beinlínis hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, heldur fyrst og fremst félagslegt skemmti- og æfingahlaup, sem haldið er árlega í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík. Þetta verður 11. Hamingjuhlaupið frá upphafi og leiðin liggur úr Trékyllisvík til Hólmavíkur, nánar tiltekið yfir Naustvíkurskörð og Trékyllisheiði (fjallveg nr. 22 í bókinni). Heildarvegalengdin er um 53,5 km en er gjarnan skipt niður í styttri kafla.
 5. Miðvikudagur 17. júlí: Brúnavíkurskarð og Súluskarð – Frá Ölduhamri í Borgarfirði eystri til Kjólsvíkur – 12 km. Þarna verða tveir fjallvegir sameinaðir í eitt hlaup (til að ná vegalengdinni upp fyrir 9 km). (FJALLVEGAHLAUP)!
 6. Fimmtudagur 18. júlí: Stórurð – Frá Hólalandi í Borgarfirði eystri að Unaósi á Héraði – 22 km. Þetta er reyndar líklega bara að hluta til gömul þjóðleið, en sú leið lá frá Hólalandi um Eiríksdal að Hrafnabjörgum við Selfljót. Þessi útfærsla hentar bara betur af því að hún er svo vel troðin og merkt. Hlaupið er tveimur dögum fyrir Dyrfjallahlaupið sem fylgir sömu slóðinni framan af. Þetta gæti því verið ágætis brautarskoðun. (FJALLVEGAHLAUP)!
 7. Fimmtudagur 18. júlí: Gönguskarð – Frá Unaósi á Héraði að Hlíðartúni í Njarðvík – 10 km. Þarna býr sagan við hvert fótmál og auðvitað hentar vel að taka þetta í beinu framhaldi af Stórurð. (FJALLVEGAHLAUP)!
 8. Þriðjudagur 23. júlí: Sandaskörð – Frá Hólalandi í Borgarfirði eystri að Ánastöðum í Hjaltastaðaþinghá – 21 km. (FJALLVEGAHLAUP)!

Eins og sjá má eru fimm eiginleg fjallvegahlaup komin hér á blað en a.m.k. tvö til viðbótar munu bætast við listann á næstu dögum eða vikum.

Vonast til að sjá sem flesta á fjallvegum sumarsins!

Þessi mynd, sem tekin var í Svartárdal sumarið 2016, sýnir svo ekki verður um villst hvað fjallvegahlaup eru skemmtileg!

Engin fjallvegahlaup skipulögð í sumar

Nú er ljóst að ég mun ekki hlaupa neina fjallvegi í sumar. Ég hef nefnilega ekki verið hlaupafær frá því í janúar vegna þrálátra meiðsla – og nú er útséð um að úr rætist fyrr en eftir að bestu fjallvegahlaupamánuðir ársins verða liðnir. Þetta þýðir að fjallvegahlaup næstu sumra verða ögn fleiri en ella, því að enn er stefnt að því að hlaupa 50 nýja fjallvegi fyrir sjötugsafmælið 2027.

Brjósklos er hin opinbera ástæða þess óvænta og óvenjulega ástands sem lýst er hér að framan. Raunveruleg orsök kann hins vegar að vera önnur, en úr því fæst væntanlega skorið á næstu vikum. Að vissu leyti gildir hér það sama og í yfirlýsingu Mikka refs í bakaríinu, þ.e.a.s.: „Sama er mér hvað þú kallar það“. En þegar betur er að gáð er rétt greining lykillinn að réttri meðferð.

Fjallvegahlaup leggjast ekki af þó að ég dvelji á hliðarlínunni um stund. Því vil ég hvetja allt áhugafólk um útivist og hreyfingu til að finna fjallvegahlauparann í sjálfu sér og leggja sem flesta fjallvegi að baki í sumar, gjarnan í góðra vina hópi. Vonandi kemur Fjallvegahlaupabókin í góðar þarfir á þeirri vegferð.

Vorið 2019 hækkar sól á lofti á ný og þá hefst nýtt fjallvegahlaupatímabil. Hlakka til að hlaupa með sem flestum ykkar þá.

Horft úr Arnardalsskarði til Grundarfjarðar og Kirkjufells vorið 2016.

83 fjallvegir á listanum

Leitin að fjallvegum gengur vel. Ég ákvað í sumar að hlaupa 50 slíka fyrir sjötugsafmælið, til viðbótar við þá 50 sem voru afgreiddir á sextugsaldrinum. Þegar sú ákvörðun var tekin vissi ég um rúmlega 30 leiðir sem biðu þess að vera hlaupnar. Síðustu daga og vikur hefur listinn lengst jafnt og þétt og nú eru samtals 83 leiðir komnar á blað. Þó á ég eftir að kanna hluta af Norðurlandinu betur. Það er sem sagt til nóg af fjallvegum á Íslandi!

Eitthvað af leiðunum 83 mun augljóslega mæta afgangi. Hvaða leiðir verða fyrir valinu ræðst að hluta til af tilviljunum, en sumar eru jú líka e.t.v. áhugaverðari eða liggja betur við höggi en aðrar.

Að sjálfsögðu þigg ég allar ábendingar um nýjar leiðir með þökkum – og svo má líka alveg reyna að hafa áhrif á hvaða 50 leiðir verða teknar fyrir næstu 9 sumur. Listann í heild sinni má finna á hugmyndasíðu þessa vefsvæðis.

Myndin sem fylgir þessum orðum var tekin í Kerlingarfjöllum í sumar. Þar eru reyndar engin fjallvegahlaup fyrirhuguð, enda gera „reglur fjallvegahlaupaverkefnisins“ ráð fyrir að hlaupið sé á milli byggða, en ekki bara fram og aftur í óbyggðum. En Kerlingarfjöll eru staður sem óhætt er að mæla með þegar hlé gefst á milli fjallvegahlaupa.