Þá er það ákveðið: Fjallvegahlaupabókin mín kemur út á sextugsafmælinu mínu 18. mars nk., enda verða þá liðin nákvæmlega 10 ár frá því að ég gaf sjálfum mér fjallvegahlaupaverkefnið í afmælisgjöf. Í tilefni af útgáfunni eru allir velkomnir í útgáfuhóf Bókaútgáfunnar Sölku kl. 14-16 umræddan dag á Kex Hostel í Reykjavík. Þarna verður hægt að nálgast fyrstu eintökin af bókinni á sérstöku kynningartilboði og ég er vís til að árita bækur og segja frá fjallvegahlaupaverkefninu í stuttu(?) máli. Takið daginn frá og bíðið spennt eftir nánari upplýsingum!
Því er svo við að bæta, að þó að fjallvegahlaupaverkefninu sé lokið sem slíku hef ég í hyggju að standa fyrir a.m.k. fjórum fjallvegahlaupum í sumar:
- Laugardaginn 13. maí verður efnt til sérstaks fjallvegahlaupabókarhlaups á suðvesturhorninu. Hugmyndin er að hlaupa yfir Svínaskarð af Esjumelum og upp í Kjós – eða öfugt. Þetta eru u.þ.b. 19,53 km og verður kynnt nánar áður en langt um líður.
- Sunnudaginn 11. júní ætla ég að hlaupa um Skeggaxlarskarð í Dölum, um 20 km leið frá Laugum í Sælingsdal að Búðardal á Skarðsströnd – eða öfugt.
- Laugardaginn 1. júlí verður hið árlega Hamingjuhlaup í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík. Að þessu sinni liggur leiðin yfir Bæjardalsheiði milli Reykhólasveitar og Steingrímsfjarðar. Leiðin yfir heiðina er um 23 km og síðan bætast við um 7 km eftir malbikinu frá Hrófá til Hólmavíkur. Að vanda verður hlaupið skipulagt þannig að auðvelt sé að taka þátt í völdum hlutum þess.
- Mánudaginn 24. júlí ætla ég að hlaupa yfir Víkurheiði og Dys frá Reyðarfirði til Viðfjarðar, en þarna urðum við frá að hverfa í gríðarmikilli rigningu sumarið 2015. Leiðin er um 13 km. Þegar komið er í Viðfjörð er um tvo möguleika að ræða. Einfaldasta leiðin er líklega að fá einhvern jeppamann til að sækja sig þangað, enda leiðin fær á góðum jeppum á sumrin. Hin leiðin er að bregða sér út fyrir Viðfjarðarmúla og inn í Hellisfjörð, en sú leið er 6,77 km samkvæmt frásögn minni af Barðsneshlaupinu 2015. Frá Hellisfirði er svo hægt að leggja upp í annað fjallvegahlaup dagsins um Hrafnaskörð til Reyðarfjarðar. Sú leið er u.þ.b. 11 km, sem myndi þýða að dagleiðin öll yrði um 31 km fyrir þá sem velja þessa útfærslu. Lokapunktur hlaupsins um Hrafnaskörð er um 3 km innan við upphafspunkt hlaupsins um Víkurheiði og Dys, nánar tiltekið rétt innan við bæinn Útstekk.
Þetta verður allt nánar kynnt þegar nær dregur.
Gjört í Borgarfirði 4. mars 2017,
Stefán Gíslason