Á sunnudaginn (11. júní) ætla ég að hlaupa yfir Sælingsdalsheiði úr Saurbæ í Dölum að Laugum í Sælingsdal. Reikna með að leggja af stað úr Saurbænum kl. 13:00 og vonast til að sem flestir sláist í för með mér. Vegalengdin er um 15 km og hæst fer leiðin í um 400 m.y.s. Þátttakan kostar ekkert nema fyrirhöfnina við að koma sér á staðinn og heim aftur.
Upphaflega ætlaði ég að hlaupa yfir Skeggaxlarskarð þennan dag, en eftir að hafa rannsakað leiðina dálítið og ráðfært mig við kunnuga ákvað ég að velja Sælingsdalsheiðina frekar. Hún er nær helmingi styttri, sögufrægari, með betra undirlag og líklega auðveldari vatnsföll, en endapunkturinn er í báðum tilvikum sá sami.
Sem fyrr segir er ætlunin að leggja af stað úr Saurbænum kl. 13:00. Upphafspunkturinn (hnattstaða 65°20,71’N – 21°55,14’V) er á vegamótum neðst í Hvammsdal, skammt fyrir neðan bæinn Kjarlaksvelli. Til að komast akandi að sunnan að þessum punkti er stefnan tekin á Skriðuland, sem er um 37 km vestan við Búðardal (á leiðinni til Hólmavíkur). Við Skriðuland er beygt til vinstri inn á veg nr. 590 í átt að Staðarhólskirkju og Félagsheimilinu Tjarnarlundi. Eftir u.þ.b. 1,6 km er aftur beygt til vinstri, nú inn á veg nr. 594. Þessum vegi er fylgt um 4,5 km að upphafspunktinum. Þar skammt frá er fjárrétt þar sem upplagt er að leggja bílum.
Hlaupaleiðin liggur inn Hvammsdal upp með Hvammsdalsá að austan, framhjá eyðibýlunum Hvammsdalskoti og Hvammsdal. Úr Hvammsdal er svo farið upp Sprengibrekku upp á sjálfa heiðina sem er mjög stutt og fer hæst í um 400 m hæð eins og fyrr segir. Lengst af er fylgt jeppaslóðum og/eða línuvegi, en háspennulína liggur þarna yfir. Af heiðinni er fremur bratt niður í Sælingsdal. Þar er komið inn á bílveg við bæinn Sælingsdal og honum fylgt síðustu 5-6 kílómetrana niður að Laugum, þar sem hægt verður að komast frítt í sund í boði Dalabyggðar og Önnu Margrétar Tómasdóttur, staðarhaldara. Þar verður líka hægt að kaupa fjallvegahlaupabókina á sérstökum hlauparakjörum.
Sælingsdalsheiði var fjölfarin á fyrri árum og kemur m.a. við sögu í Laxdælu og jafnvel líka í Sturlungu. Sem hlaupaleið er heiðin þokkalega auðveld að sögn þeirra sem til þekkja. Á leiðinni þarf þó að vaða tvær ár og nokkra læki, en þessi vatnsföll eru tiltölulega vatnslítil í venjulegu árferði.
Sem fyrr segir hefst hlaupið á vegamótunum neðan við Kjarlaksvelli kl. 13 á sunnudag. Frést hefur að einhverjir ætli að byrja daginn á að hlaupa frá Laugum norður yfir heiðina og slást svo í för með hinum sem láta sér eina ferð nægja. Þessir einhverjir leggja væntanlega af stað frá Laugum upp úr kl. 10:30.
Vonast til að fá fylgd sem flestra yfir heiðina, en minni jafnframt á að þátttakendur verða þarna á eigin ábyrgð.