Fyrsta fjallvegahlaup sumarsins 2020 verður haldið næsta laugardag, þ.e.a.s. laugardaginn 13. júní 2020 kl. 13:00. Leiðin liggur um Gönguskarð, frá Garðsá í Eyjafirði að Reykjum í Fnjóskadal og vegalengdin er rétt um 26 km, já eða hugsanlega 27. Langtímaveðurspáin lofar góðu, nánar tiltekið mildri sunnanátt og líklega hlýindum og þurru veðri á Norðurlandi. En það skýrist auðvitað þegar nær dregur.

Hlaupið um Gönguskarð er byrjunin á viðburðaríku fjallvegahlaupasumri. Næstu daga þar á eftir liggur leiðin nefnilega til Siglufjarðar þar sem búið er bæta tveimur nýjum hlaupum við fjallvegahlaupadagskrána. Mánudaginn 15. júní kl. 15:00 verður lagt af stað frá Hraunum í Fljótum yfir Siglufjarðarskarð. Bílveginum yfir skarðið verður fylgt lengst af, en fyrstu kílómetrarnir fylgja þó eldri þjóðleið sem liggur ögn sunnar upp úr Fljótum. Hlaupið endar á aðalveginum við botn Siglufjarðar þegar u.þ.b. 13 km verða að baki.

Þriðjudaginn 16. júní kl. 10:00 er röðin svo komin að Kálfsskarði frá Siglufirði út á Siglunes. Hlaupið hefst við norðurenda flugvallarins á Ráeyri. Þaðan liggur leiðin út Staðarhólsströnd, inn Kálfsdal, yfir Kálfsskarð, út Nesdal að Reyðará og þaðan um Fúluvík og Löngumöl að Siglunesi. Vegalengdin er um 16 km., en hafa ber í huga að fara þarf fótgangandi eða hlaupandi til baka þar sem ekki er bílfært á þessum slóðum.

Á fjallvegahlaupadagskránni sem kynnt var hér á síðunni í nóvembermánuði síðastliðnum voru átta hlaup. Þeim hefur nú fjölgað í 11, annars vegar vegna þessara tveggja nýju hlaupa á Siglufirði og hins vegar vegna þessa að Hamingjuhlaupið 2020 verður jafnframt fjallvegahlaup. Þar verður sem sagt hlaupið yfir Kollabúðaheiði sunnan úr Þorskafirði norður í Staðardal á Ströndum – og þaðan áfram til Hólmavíkur þar sem öll hamingjuhlaup enda. Spölurinn úr Staðardal til Hólmavíkur verður reyndar ekki færður til bókar í fjallvegahlaupabókhaldinu.

Með framangreindum breytingum lítur fjallvegahlaupadagskráin 2020 svona út:

  1. Laugardagur 13. júní 2020, kl. 13:00:
    Gönguskarð – Frá Garðsá í Eyjafirði að Reykjum í Fnjóskadal – 26 km
  2. Mánudagur 15. júní 2020, kl. 15:00
    Siglufjarðarskarð – Frá Hraunum í Fljótum til Siglufjarðar – 13 km
  3. Þriðjudagur 16. júní 2020, kl. 10:00
    Kálfsskarð – Frá Siglufirði út á Siglunes – 16 km (og annað eins til baka)
  4. Laugardagur 27. júní 2020, (nánari tímasetning kynnt síðar)
    Kollabúðaheiði – Frá Kollabúðum í Þorskafirði að Kirkjubóli í Staðardal – 20 km (og síðan viðbótarskokk til Hólmavíkur í tilefni Hamingjudaga)
  5. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 10:00:
    Sandsheiði – Frá Haukabergsrétt á Barðaströnd að Móbergi á Rauðasandi – 15 km
  6. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 14:00:
    Kerlingaháls – Frá Móbergi á Rauðasandi til Keflavíkur – 12 km
    E.t.v. verður upphafspunkturinn færður vestar og ferðinni seinkað sem því nemur
  7. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 17:30:
    Dalverpi – Frá Keflavík að Sauðlauksdal – 14 km
  8. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 11:00:
    Tunguheiði – Frá Örlygshöfn til Kollsvíkur – 11 km
  9. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 15:30:
    Hænuvíkurskarð – Frá Hænuvík til Breiðuvíkur – 11 km
  10. Þriðjudagur 14. júlí 2020, kl. 13:00:
    Tunguheiði – Frá Tálknafirði til Bíldudals – 13 km
  11. Laugardagur 25. júlí 2020, kl. 10:00:
    Ófeigsfjarðarheiði – Úr Ófeigsfirði að Laugalandi í Skjaldfannardal – 39 km

Leiðarlýsingar vegna framangreindra leiða er í smíðum.

Eins og ævinlega eru allir velkomnir með mér í þessi hlaupaævintýri (á eigin ábyrgð). Mikilvægt er að þeir sem hafa hug á þátttöku fylgist með breytingum sem kynntar verða á þessari síðu og á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins. Stundum þarf nefnilega að breyta áætlunum vegna utanaðkomandi ástæðna (einkum veðurlags) eða jafnvel innanaðkomandi ástæðna (einkum heilsufars).

Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin í síðasta fjallvegahlaupinu sem lokið er, þ.e.a.s. hlaupi nr. 54 sem hlaupið var síðasta sumar yfir Brúnavíkurskarð og Súluskarð frá Borgarfirði eystri til Kjólsvíkur. Vonir standa til að skyggni verði betra í áformuðum hlaupum sumarsins en þennan tiltekna dag í júlí 2019.