Nú liggja fyrir drög að fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2020. Átta hlaup eru á dagskránni eins og hún lítur út núna, en sjálfsagt verða einhverjar breytingar gerðar þegar nær dregur. Sunnanverðir Vestfirðir verða í aðalhlutverki að þessu sinni, en þar er ætlunin að hlaupa nokkra fremur stutta og alþýðlega fjallvegi í aðdraganda Hlaupahátíðar á Vestfjörðum sem hefst fimmtudaginn 16. júlí. Þar með gefst ágætt tilefni til að taka rúmlega vikulangt sumarfrí fyrir vestan, hlaupa fyrst nokkra fjallvegi og taka svo fullan þátt í hlaupahátíðinni í framhaldinu. Fyrsta hlaup ársins verður þó væntanlega norður í Eyjafirði 13. júní, auk þess sem stefnt er að einhverri fjallvegahlaupauppákomu í maí. Það mál á bara eftir að skýrast.

Svona litur fjallvegahlaupadagskráin 2020 út eins og staðan er í dag:

 1. Laugardagur 13. júní 2020, kl. 13:00:
  Gönguskarð – Frá Garðsá í Eyjafirði að Reykjum í Fnjóskadal – 26 km
 2. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 10:00:
  Sandsheiði – Frá Haukabergsrétt á Barðaströnd að Móbergi á Rauðasandi – 15 km
 3. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 14:00:
  Kerlingaháls – Frá Móbergi á Rauðasandi til Keflavíkur – 12 km
  E.t.v. verður upphafspunkturinn færður vestar og ferðinni seinkað sem því nemur
 4. Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 17:30:
  Dalverpi – Frá Keflavík að Sauðlauksdal – 14 km
 5. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 11:00:
  Tunguheiði – Frá Örlygshöfn til Kollsvíkur – 11 km
 6. Sunnudagur 12. júlí 2020, kl. 15:30:
  Hænuvíkurskarð – Frá Hænuvík til Breiðuvíkur – 11 km
 7. Þriðjudagur 14. júlí 2020, kl. 13:00:
  Tunguheiði – Frá Tálknafirði til Bíldudals – 13 km
 8. Laugardagur 25. júlí 2020, kl. 10:00:
  Ófeigsfjarðarheiði – Úr Ófeigsfirði að Laugalandi í Skjaldfannardal – 39 km

Sumarið 2020 verður fjórða sumarið í öðrum áfanga fjallvegahlaupaverkefninsins, en allt byrjaði þetta upp úr fimmtugsafmælinu mínu árið 2007. Fyrsta áfanganum lauk á sextugsafmælinu 2017 og þá var gefin út bók um 50 fyrstu leiðirnar. Bók nr. 2 með næstu 50 leiðum er svo væntanleg á sjötugsafmælinu 2027.

Áfangi nr. 2 hefur farið hægt af stað af ýmsum ástæðum, einkum vegna meiðsla, annríkis og mishagstæðs tíðarfars. Þannig tókst ekki að ljúka nema fjórum fjallvegum (nr. 51-54) fyrstu þrjú sumrin (2017-2019), sem þýðir að næstu 7 sumur þarf að afgreiða 46 fjallvegi til viðbótar. Þetta ætti reyndar að vera auðvelt, því að nóg er til bæði af fjallvegum og tíma.

Vonandi slást sem flestir í för með mér á fjallvegum næsta sumars, en þar eru allir velkomnir (á eigin ábyrgð). Breytingar á dagskránni verða kynntar á þessari síðu og á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins. Á næstu vikum og mánuðum verður líka settur inn einhver fróðleikur um allar þessar leiðir.

Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin í fjallvegahlaupi nr. 46 11. júní 2016 þegar leiðin lá yfir Vaðlaheiði eftir Þingmannavegi. Gönguskarð, sem er efst á lista næsta sumars, er á svipuðum slóðum en nokkru innar í landinu.