Sandsheiði

Staðsetning: Frá Haukabergsrétt á Barðaströnd að Móbergi á Rauðasandi
Hnattstaða:
Upphaf:       N65°28,81' - V23°40,04'
Hvasshóll:      N65°29,89' - V23°46,58'
Gvendarsteinn:    N65°28,15' - V23°55,54'
Lok:         N65°28,19' - V23°56,28'
Hæð y. sjó: U.þ.b. 15 m við upphaf, u.þ.b. 490 m hæst, u.þ.b. 30 m við lok => Hækkun u.þ.b. 475 m, lækkun u.þ.b. 460 m, nettóhækkun u.þ.b. 15 m  
Vegalengd: Um 15 km
Tími: (Verður skráður í ferðalok)
Meðalhraði: (Verður skráður í ferðalok)
Dags.: Laugardagur 11. júlí 2020, kl. 10:00
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina:

Sandsheiði var fyrrum alfaraleið milli Barðastrandar og Rauðasands, en nú er fámennt bæði á heiðinni og í byggðunum beggja vegna.

Hlaupið yfir heiðina hefst við Haukabergsrétt upp af Haukabergsvaðli. Til að komast þangað er beygt út af aðalveginum rétt áður en lagt er á Kleifaheiði og keyrt eftir Siglunesvegi (nr. 611) u.þ.b. 1 km að réttinni. Þaðan er svo hlaupið upp Akurgötu, norðanmegin í Holtsdal, með stefnu í vestnorðvestur. Gatan er sæmilega greinileg en lyng og kjarr sækja þó að henni. Þegar ofar dregur er leiðin vörðuð. Allt er þetta á fótinn en hvergi bratt. Áfram liggur svo leiðin um Hellur, Þverárdal og Systrabrekkur að Vatnskleifahorni. 

Vatnskleifahorn er norðurendi fjallgarðsins Skarðabrúna sem áður skipti löndum milli Barðastrandar- og Rauðasandshreppa. Hæst rísa brúnirnar í Napa í 703 m. hæð. Syðst enda þær í Stálfjalli þar sem þverhnípt er í sjó fram. Þangað liggur leiðin ekki í þetta sinn.

Rétt vestan við Vatnskleifahorn liggur leiðin yfir Hvarfshól, sem er hæsti punkturinn á Sandsheiði. Þaðan er gott útsýni, m.a. til Patreksfjarðar. Þarna er hægt að fara um Hrossagötuskarð að bænum Hvalskeri við Patreksfjörð og mun sú leið oft hafa verið farin í kaupstaðarferðum milli Barðastrandar og Patreksfjarðar fyrr á öldum. Kleifaheiði varð ekki að alfaraleið fyrr en seint á 19. öld.

Á hjalla við Hvarfshól er tjörnin Átjánmannabani. Nafnið tengist væntanlega munnmælasögu um 18 menn sem eiga að hafa orðið úti á Sandsheiði í einni og sömu ferðinni árið 1777 þegar þeir voru að flytja timbur að vetrarlagi austur yfir heiðina.

Gatan þarna á háheiðinni er vel greinileg og vel vörðuð eða stikuð. Áfram liggur leiðin svo um Gljá, sem þýðir í raun sléttlendi. Af háheiðinni liggur leiðin niður að Koti, áfram niður Þrífarabrekkur og yfir Þrífaralæk sem ber nafn sitt af því að vegurinn liggur þrisvar yfir hann. Loks er hlaupið niður Þvergil, Hærri- og Lægri-Steinabrekkur, yfir Skógará og um Skógardal, að eyðibýlinu Móbergi á Rauðasandi þar sem hlaupið endar.

Neðarlega í Skógardal neðan Leitis er Hofmannsflöt. „Þar munu höfðingjar þeir, er áttu leið yfir heiðina og voru á leið til Bæs … á Rauðasandi eða þaðan, hafa áð hestum sínum“. (ath. heimild). Í Skógardal er líka Gvendarsteinn, stór steinn með mörgum smærri ofaná. Guðmundur góði á að hafa blessað þennan stein og sagt er að ef maður leggur á hann þrjá steina komist maður heill á leiðarenda. Þetta er þó eðli málsins mikilvægara þegar haldið er á heiðina Rauðasandsmegin.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu

Nesti og annar búnaður:

Verður skráð að hlaupi loknu

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu

Helstu heimildir: