Siglufjarðarskarð

Staðsetning: Úr Fljótum til Siglufjarðar
Nánar: Úr utanverðum Fljótum að Flugvallarvegi í Siglufirði
Hnattstaða: (Verður skráð í ferðalok)
Hæð y. sjó: (Verður skráð í ferðalok). Hæsti punktur væntanlega um 630 m
Vegalengd: Áætluð um 17 km
Tími: (Verður skráður í ferðalok)
Meðalhraði: (Verður skráður í ferðalok)
Dags.: Óákveðið
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina:

Siglufjarðarskarð hefur verið aðalleiðin frá Skagafirði til Siglufjarðar allt frá því að land byggðist. Leiðin um skarðið er afar snjóþung og hættuleg á vetrum, en samt hefur þetta jafnan þótt skásti kosturinn til að komast yfir fjöllin sem umlykja Siglufjörð. Í þeim efnum er sem sagt enginn kostur góður.

Á öldum áður var Siglufjarðarskarð ekki bara erfitt yfirferðar vegna snjóþyngsla og illviðra, heldur var þar líka einhver óværa á ferð. Sagt er að Guðmundur góði hafi reynt að vígja skarðið einhvern tímann á 13. öld, en jafnvel það dugði ekki til. Um tíma áræddu menn jafnvel ekki að fara um skarðið. Í Árbókum Espólíns (IX. deild, s. 126) segir frá því að í skarðinu hafi menn séð eitthvað sem líktist skýstrokki, sem steypst hefði á ferðamenn „jafnt á degi sem nóttu … og var það þess manns bani, er fyrir varð“. Um 1730 var þetta farið að ágerast og árið 1735 „bauð … Steinn biskup Þorleifi prófasti Skaptasyni í Múla, er þá var einn haldinn mestur klerkur og andríkastur að flytja þar guðsþjónustu og bænir opinberliga“. Sagt er að séra Þorleifi hafi tekist ætlunarverkið og stefnt vondum öndum úr Siglufjarðarskarði í Afglapaskarð, sem er næsta skarð fyrir sunnan í fjallgarðinn. Þar ætti því enginn að fara, enda leiðin líka hættuleg vegna þverhnípis.

Upphaflega var Siglufjarðarskarð fjallsegg. Þá var hægt að sitja þar klofvega með annan fótinn í Skagafjarðarsýslu en hinn í Eyjafjarðarsýslu. Segir svo frá í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (I, s. 569) að efsta brúnin hafi verið „svo þunn sem saumhögg. Gegnum eggina liggja dyr, auðsjáanlega höggnar af fornaldarmönnum. … Gegnum dyrnar eru hér um fjórar hestlengdir, en vel klyfjafrítt á breidd“. Árið 1880 voru þessar dyr lagfærðar verulega á kostnað landssjóðs Árið 1940 var skarðið svo sprengt niður um 14 metra og í framhaldi af því ráðist í að gera bílfæran veg þar yfir. Fyrsti bíllinn ók um skarðið árið 1946 og ári síðar var vegurinn tilbúinn. Þrátt fyrir lækkunina er Siglufjarðarskarð einn af hæstu og snjóþyngstu fjallvegum landsins. Yfirleitt tókst aðeins að halda leiðinni opinni 4-5 mánuði á ári. Það var því mikil samgöngubót fyrir Siglufjörð þegar lokið var við gerð nýs vegar 1967 frá Fljótum út með ströndinni og í gegnum Strákagöng. Leiðinni um Siglufjarðarskarð er þó enn haldið opinni fyrir jeppa yfir sumartímann.

Ferðin um Siglufjarðarskarð úr vestri hefst við vegamót við Siglufjarðarveg (76) við Heljartröð um 1,7 km utan við bæinn Hraun í utanverðum Fljótum. Farið er utan í suðurhlíð Hraundals upp aflíðandi brekkur uns komið er upp í skarðið. Siglufjarðarmegin „er forbrekki mikið“, (JÁ I, s. 569). Leiðin liggur niður Skarðsdal og endar við vegamót við Flugvallarveg (792). Í Í Skarðsdal er skíðasvæði Siglfirðinga og nyrsti skógur á Íslandi.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu

Nesti og annar búnaður:

Verður skráð að hlaupi loknu

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu

Helstu heimildir:

Gils Guðmundsson: Öldin sem leið – Minnisverð tíðindi 1861-1900. Iðunn, Reykjavík 1982.

Jón Helgason: Öldin átjánda – Minnisverð tíðindi 1701-1760. Iðunn, Reykjavík 1985.

P. Ragnar Jónasson, Björn Þór Ólafsson, Hjörtur E. Þórarinsson, Bjarni E. Guðleifsson: Fjalllendi Eyjafjarðar að vestanverðu – frá Almenningsnöf að Öxnadalsheiði. Árbók Ferðafélags Íslands 1990. Ferðafélag Íslands, Reykjavík 1990.

Heimsíða Fjallabyggðar: www.fjallabyggd.is

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s