Ákveðið hefur verið að aflýsa fjallvegahlaupi yfir Ófeigsfjarðarheiði, sem ætlunin var að fram færi laugardaginn 25. júlí. Þetta er gert vegna slæmrar veðurspár, en í versta falli má búast við norðaustan 15 m/sek, talsverðri rigningu og 1°C um miðjan dag á laugardag. Við þessar aðstæður þarf ekki meira en slæma tognun eða önnur álíka skakkaföll til að hlaupurum sé hætta búin.
Þótt hlaupið falli niður fer Ófeigsfjarðarheiðin ekki neitt, þó að fyrirsögn þessar færslu gefi tilefni til að ætla annað. (Fyrirsagnir eiga að vera stuttar). Því er enn stefnt að fjallvegahlaupi yfir heiðina. Það verður þó ekki á þessu sumri úr því sem komið er. Ný tímasetning verður kynnt síðar.