Klúkuheiði á þriðjudag

Nú stefnir allt í að ég nái að hlaupa yfir Klúkuheiði nk. þriðjudag (16. júlí 2024). Ef allt gengur að óskum legg ég af stað frá Tungu í Valþjófsdal í Önundarfirði kl. 9:30 árdegis og verð komin að Gerðhömrum í Dýrafirði um 12-leytið. Vonast til að verða sóttur þangað, en annars skokka ég bara til baka sömu leið. Leiðin öll er um 11,5 km og hæst er farið í tæplega 600 m hæð.

Þorvaldur Thoroddsen á að hafa sagt að Klúkuheiði væri versti fjallvegur sem hann hefði farið á Íslandi, en heiðin sjálf er mjög stutt. Líklega er kaflinn sem gaf Þorvaldi ástæðu til þessarar umsagnar ekki meira en kílómetra langur. Þessi stutti kafli er snarbrattur og laus í sér og því illfær með hesta.

Klúkuheiðin verður 81. fjallvegurinn í fjallvegahlaupaverkefninu mínu. Fjallvegur nr. 82 verður væntanlega Breiðadalsheiði úr Skutulsfirði til Önundarfjarðar – og eins og staðan er í andránni er líklegt að ég hlaupi hana föstudaginn 19. júlí. Laugardagurinn 20. júlí kemur einnig til greina. Meira um það síðar ef af verður.

Sem fyrr er öllum velkomið að slást í för með mér í þessum fjallvegahlaupum – á eigin ábyrgð. Gott væri samt að frétta af ferðafélögum fyrirfram.

Þessi áætlun getur breyst með mjög stuttum fyrirvara. Fylgist því endilega með á Facebooksíðu Fjallvegahlaupaverkefnisins.

Tíðindalítið

Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2024 hefur ekki enn litið dagsins ljós. Af persónulegum ástæðum á ég erfitt með að skipuleggja hlaup fram í tímann – og því má búast við að hlaup sumarsins verði ákveðin með mjög stuttum fyrirvara og jafnvel hlaupin fyrirvaralaust.

Í andránni eru eftirtaldar leiðir af hugmyndalistanum helst til skoðunar:

  1. Klúkuheiði – frá Kirkjubóli í Valþjófsdal í Önundarfirði að Gerðhömrum í Dýrafirði – 13 km
    Þorvaldur Thoroddsen á að hafa sagt að þetta væri versti fjallvegur sem hann hefði farið á Íslandi, en heiðin sjálf er mjög stutt. Mest af þessum kílómetrum flokkast nefnilega sem upphitun og niðurskokk. Og svo er heiðin líklega mun skárri fyrir menn en hesta.
    (Ég geri ráð fyrir að hlaupa Klúkuheiði á tímabilinu 15.-20. júlí nk.).
  2. Breiðadalsheiði Milli Skutulsfjarðar og Önundarfjarðar – 12 km
    Þetta er náttúrulega bara gamli bílvegurinn. Kannski er hann frekar 16 km en 12 km, en það skiptir svo sem ekki öllu máli.
    (Ég geri ráð fyrir að hlaupa Breiðadalsheiði (frá Skutulsfirði) á tímabilinu 15.-20. júlí nk.).
  3. Marðarnúpsfjall – Frá Marðarnúpi í Vatnsdal að Marðarnúpsseli í Svínadal – 10 km
    Þarna er jeppavegur yfir og ætti að vera auðvelt að hlaupa fram og til baka sama daginn ef hörgull er á flutningsaðilum.
  4. Ketuvegur – Frá Steinnýjarstöðum utan við Skagaströnd að Ketu á Skaga – 20 km
    Þarna er ekki mikil hækkun og líklega gamlir slóðar víðast hvar.
  5. Húksleið – Frá Brandagili í Hrútafirði að Húki í Miðfirði – 9 km
    Þarna er jeppavegur og leiðin líklega ein af þeim auðveldari.
  6. Hrútafjarðarháls – Frá Þóroddsstöðum í Hrútafirði að Skarfshóli í Miðfirði – 11 km
    Veit ekki alveg hversu auðfundin þessi leið er, en vegalengdin er alla vega viðráðanleg.
  7. Gönguskarð ytra – Frá Ytra-Hóli í Fnjóskadal að Hálsi í Kinn – 15 km
    Þetta ætti að vera tiltölulega auðvelt á góðum degi.
  8. Flateyjardalsheiði (F899) – Frá Þverá í Dalsmynni að Brettingsstöðum í Flateyjardal – 33 km
    Þessa leið þarf ég endilega að fara, hvort sem það verður í sumar eða síðar. Hún er hins vegar það löng að hlaup fram og til baka er tæplega valkostur. Helst þyrfti jeppa til að flytja hlaupara frá endamarkinu í Flateyjardal.
  9. Heljardalsheiði – Frá Hólum í Hjaltadal að Atlastöðum í Svarfaðardal – 27 km
    Þarna eru erfið vatnsföll og mikil hækkun – og þessa leið fer ég ekki nema í góðum hópi með tryggan flutning frá endamarki.

Sem fyrr segir gæti mér dottið í hug að hlaupa einhverjar þessara leiða fyrirvaralaust, þ.e.a.s. nánast í kyrrþey. En ég mun samt gera mitt besta til að upplýsa um áformin, þótt seint verði, á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins.

Ég er því miður ekki búinn að skrifa neinn fróðleik um þessar mögulegu leiðir á fjallvegahlaupasíðuna (undir Næstu hlaup), en mögulega rætist eitthvað úr því næstu daga.

Sumarið í sumar er 8. sumarið í öðrum áfanga fjallvegahlaupaverkefnisins, en allt byrjaði þetta upp úr fimmtugsafmælinu mínu árið 2007. Fyrsta áfanganum lauk á sextugsafmælinu 2017 og þá var gefin út bók um 50 fyrstu leiðirnar. Bók nr. 2 með næstu 50 leiðum er svo væntanleg á sjötugsafmælinu 2027. Af þeim 50 leiðum eru 30 að baki, þannig að ég þarf eiginlega að klára næstu 20 í sumar og tvö næstu sumur, þ.e.a.s. næstum 7 leiðir á ári. En þetta er svo sem ekki lengi gert þegar maður fer í málið. Nóg er til af óhlaupnum fjallvegum!

(Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin á Hesteyri eftir nokkur fjallvegahlaup á Hornströndum fyrir ári síðan. Það kemur nefnilega fyrir að hlaupaskór blotni í svona ferðum. (Ljósm. Arnór Freyr Ingunnarson)).

Mosar á laugardag í minningu pabba

Pabbi 17 ára heima á Brunngili með eina stærstu tæknibyltingu 20. aldar á fótunum. Fram að þessu höfðu hlaupaskórnir hans verið sauðskinnsskór. Þeir voru „neutral, no cushion & zero drop“.

Næsta laugardag, 9. september, ætla ég að hlaupa yfir Mosa úr Brekkudal í Saurbæ yfir í Brunngilsdal í Bitrufirði, nánar tiltekið frá Bessatungu að Brunngili, u.þ.b. 17 km leið með allt að 800 m samanlagðri hækkun. Þetta verður síðasta fjallvegahlaupið mitt þetta árið og það áttugasta frá upphafi. Ástæðan fyrir því að ég valdi þessa leið og þennan tíma er sú að um þetta leyti eru liðin 115 ár frá fæðingu pabba, en hann fæddist á Brunngili 11. september 1908. Og að öllum líkindum fór hann stundum yfir Mosa til smíðavinnu í Saurbænum. Þetta er því bæði fjallvegahlaup og minningarhlaup.

Veðurspáin fyrir laugardag er sæmileg, en eins og staðan er þegar þetta er skrifað (á þriðjudagskvöldi) er útlit fyrir norðaustan golu eða kalda á þessu svæði, lítils háttar rigningu og 6-7 stiga hita á láglendi. Leiðin fer hæst í u.þ.b. 620 m og þar uppi má gera ráð fyrir að hitastigið verði komið niður undir núll. Þar af leiðandi er mikilvægt að vera vel búinn til ferðalaga. Með öðrum orðum þarf að klæðast sæmilega hlýjum hlaupafötum og hafa húfu, hanska, regnföt og álteppi meðferðis.

Bílvegurinn milla endapunkta hlaupsins (Bessatungu og Brunngils) er í lengra lagi og því geta flutningar á fólki og farangri verið snúnir. Til að einfalda þetta ætla ég að hlaupa sömu leið til baka að loknu fjallvegahlaupi. Þar með verður dagleiðin öll um 34 km og samanlögð hækkun allt að 1.600 m.

Leiðarlýsing fyrir Mosa er komin á sinn stað hér á fjallvegahlaupasíðunni. Myndin sem birtist efst á þeirri síðu var tekin við rústir íbúðarhússins á Brunngili í fjallvegahlaupi í norðan slagviðri og kulda á 100 ára afmæli pabba 11. september 2008. Á myndinni glittir líka í grjótgarðinn sem Jón Jónsson, langafi minn, hlóð í kringum túnið einhvern tímann eftir 1860.

Ykkur er að sjálfsögðu öllum velkomið að slást í för með mér á laugardaginn, þ.e.a.s. þeim sem treysta sér í svona dagleiðir og mæta nógu vel búin til að takast á við haustið. Hlaupið hefst neðan við Bessatungu kl. 11 á laugardaginn og má helst ekki taka lengri tíma en 8 klst. fram og til baka.

Skyndiákvörðun um tvö fjallvegahlaup

Á morgun, þriðjudaginn 15. ágúst, ætla ég að hlaupa tvo fjallvegi í Ísafjarðardjúpi. Þetta er í raun gert til að bæta upp að ekki tókst að ljúka áætluðum hlaupum á Austurlandi í síðasta mánuði vegna þoku. Þegar þetta er skrifað eru fjallvegahlaupin orðin samtals 77 og stefnan er að ljúka 100 hlaupum fyrir haustið 2026. Þegar sumarið í sumar er liðið verða bara þrjú sumur eftir til ráðstöfunar og takmörk fyrir því hversu mörgum hlaupum er hægt að ljúka á hverju sumri. Þess vegna var þessi skyndiákvörðun tekin.

Fjallvegir morgundagsins eru Skötufjarðarheiði frá Kálfavík í Skötufirði yfir í Heydal (um 14 km með ca. 600 m hækkun) og Eyrarfjall úr botni Mjóafjarðar yfir í Ísafjörð (gamli bílvegurinn, um 11 km með ca. 400 m hækkun). Tímaáætlun dagsins er í grófum dráttum sem hér segir:

Kl. 10:00 Lagt af stað á Skötufjarðarheiði upp Grafarskarð (eða Grafargil) í landi Kálfavíkur
Kl. 13:00-13:30 Komið að Heydal (að hótelinu)
Kl. 14:00-14:30 Lagt af stað frá Heydal áleiðis inn í Mjóafjarðarbotn (um 7 km „ferjuleið“)
Kl. 15:00-15:30 Lagt af stað á Eyrarfjall
Kl. 16:30-17:30 Komið niður í Ísafjörð

Líta ber á tímasetningarnar hér að framan (aðrar en þá fyrstu) sem lausleg viðmið. Talsverð frávik í báðar áttir eru hugsanleg, allt eftir því hvernig ferðalaginu miðar. Þau sem vilja vera með ættu því að vera í sambandi áður en lagt er af stað, (sími 8620538, Stefán). Að vanda eruð þið öll velkomin á eigin ábyrgð, þó að eðlilega muni hinn stutti fyrirvari draga úr þátttöku ef eitthvað er. Beðist er velvirðingar á því.

Rétt er að nefna að leiðirnar upp á Skötufjarðarheiði og niður af henni aftur eru býsna brattar. Þarna hefur samt verið farið yfir með kýr, þannig að væntanlega er þetta ekki ofvaxið frískum hlaupurum og göngufólki.

Fjallvegahlaupum morgundagsins aflýst

Fjallvegahlaupin um Kækjuskörð og Tó, sem áformuð voru á morgun, mánudaginn 24. júlí 2023, verða látin bíða betri tíma. Ólíklegt er að þessi hlaup verði hlaupin á þessu ári úr því sem komið er, en áform sem uppi eru á hverjum tíma verða kynnt hér á síðunni jafnóðum.

Vonandi hefur þessi breyting á fjallvegahlaupadagskránni sem minnst óþægindi í för með sér fyrir áhugafólk um fjallvegahlaup.

Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins birt

Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2023 er nokkurn veginn tilbúin – og þar eru hvorki fleiri né færri en 8 leiðir á blaði. Auðvitað má þó alltaf búast við einhverjum breytingum þegar nær dregur. Áætlun er jú eitt og raunveruleikinn annað, enda ræðst raunveruleikinn í þessu tilviki af jafnfallvöltum þáttum og veðri og hlaupaheilsu eins manns. Dagskráin birtist á síðunni Næstu hlaup og þar verða allar breytingar settar inn jafnóðum og þær liggja fyrir. Breytingar verða líka kynntar á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins.

Stærsta fjallvegahlaupaverkefni sumarsins eru fimm fjallvegir á Hornströndum 4. og 5. júlí. Búið er að útvega sjóferð og gistingu fyrir 16 manns – og þau pláss eru öll „uppseld“. En auðvitað er öðrum frjálst að mæta á eigin vegum, enda eruð þið öll alltaf velkomin í fjallvegahlaupin (á eigin ábyrgð).

Fróðleikur um sjö af átta fyrirhuguðum fjallvegum sumarsins er kominn inn á fjallvegahlaupasíðuna (undir Næstu hlaup) og verður uppfærður smám saman eftir því sem þekkingin eykst.

Sumarið 2023 verður sjöunda sumarið í öðrum áfanga fjallvegahlaupaverkefninsins, en allt byrjaði þetta upp úr fimmtugsafmælinu mínu árið 2007. Fyrsta áfanganum lauk á sextugsafmælinu 2017 og þá var gefin út bók um 50 fyrstu leiðirnar. Bók nr. 2 með næstu 50 leiðum er svo væntanleg á sjötugsafmælinu 2027.

Sex fyrstu sumur annars áfanga (sumrin 2017-2022) skiluðu ekki nema 23 fjallvegum og því eru enn 27 leiðir óhlaupnar fram að sjötugsafmælinu. Ef allt hefði verið með felldu ættu helst 30 fjallvegir að vera að baki (5 að meðaltali á ári). En enn er nógur tími og nóg til af skemmtilegum valkostum. „Nóg frammi“ sem sagt.

(Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin í Hrafnkelsdal í byrjun júlí 2022. Þarna er meistari Páll á Aðalbóli að ferja okkur fimm saman yfir Hrafnkelu í upphafi fjallvegahlaups um Aðalbólsveg að Kleif í Fljótsdal. (Ljósm. Ragnhildur Aðalsteinsdóttir)).

Kemur þú með á Hornstrandir?

Þungamiðjan í fjallvegahlaupadagskránni minni sumarið 2023 verður tveggja daga ferð á Hornstrandir 3.-5. júlí. Í þessari ferð er ætlunin að hlaupa fimm fjallvegi – og þeir sem ekki leggja í allan þann pakka geta notið þessara daga í lengri eða skemmri gönguferðum í nágrenni Hesteyrar. Að vanda eru öllum velkomið að slást í för með mér, bæði hlaupurum og ekki-hlaupurum, en eðlilega er framkvæmdin ögn flóknari og kostnaðurinn meiri en í venjulegum fjallvegahlaupum milli tveggja staða í byggð. Gert er ráð fyrir að hópurinn gisti á Hesteyri í tvær nætur og þar er ekki gistipláss nema fyrir 16 manns. Hér gildir sú einfalda regla „Fyrst koma, fyrst fá“ og því borgar sig að taka ákvörðun sem fyrst.

Dagskrá þessara júlídaga verður í stuttu máli sem hér segir:

  • Mánudagur 3. júlí:
    • Siglt frá Bolungarvík (eða Ísafirði) síðdegis
    • Kvöldverður á Hesteyri
    • Gisting á Hesteyri
  • Þriðjudagur 4. júlí:
    • Morgunverður á Hesteyri
    • Hlaup um nálæga fjallvegi (tekur nánast allan daginn)
    • Kvöldverður á Hesteyri
    • Gisting á Hesteyri
  • Miðvikudagur 5. júlí
    • Morgunverður á Hesteyri
    • Hlaup um nálæga fjallvegi (tekur stóran hluta dagsins)
    • Sigling til baka síðdegis

Sem fyrr segir er gistipláss á Hesteyri fyrir 16 manns. Þar er um að ræða svefnpokagistingu í þremur herbergjum, en hægt er að fá uppbúin rúm fyrir ögn hærra verð. Verðskráin fyrir sumarið 2023 liggur ekki fyrir, en sólarhringurinn kostar væntanlega um 22.500 kr/mann. Inni í þeim pakka er gisting, morgunverður og kvöldverður. Gistingin er frátekin fyrir fjallvegahlaupara fram til jóla. Þá þarf að ganga frá endanlegri pöntun, enda eftirspurn mikil frá öðrum hópum. Bátsferðin báðar leiðir gæti kostað u.þ.b. 25.000 kr, þannig að heildarkostnaðurinn fyrir þessa tvo daga verður nálægt 70.000 kr/mann.

Sem fyrr segir ætla ég að hlaupa fimm fjallvegi á þessum tveimur dögum. Röð fjallveganna er ekki alveg ákveðin, en þetta gæti t.d. litið svona út:

  • Dagur 1:
    • Hesteyrarskarð frá Hesteyri að Látrum í Aðalvík, um 11 km
    • Tunguheiði frá Látrum í Aðalvík til Fljótavíkur, um 10 km
    • („Ferjuleið“ inn fyrir Fljótavatn (ekki fjallvegahlaup), um 7 km)
    • Háaheiði frá Fljótavík til Hesteyrar, um 11 km
  • Dagur 2:
    • Kjaransvíkurskarð frá Hesteyri til Kjaransvíkur, um 13 km
    • Þorleifsskarð frá Kjaransvík til Fljótavíkur, um 11 km
    • (Heimferð (ekki fjallvegahlaup) um Háuheiði, um 11 km)

Leiðirnar eru sýndar í mjög grófum dráttum á kortinu efst í þessari færslu, (sem er að grunni til „tekið að láni“ frá Landmælingum Íslands). Stærra kort birtist ef smellt er á þetta.

Þau ykkar sem vilja vera með mér í þessum pakka ættu að láta mig vita sem fyrst, því að 16 pláss gætu verið fljót að fyllast. Þetta er ekkert bindandi til að byrja með, en endanleg ákvörðun þarf sem fyrr segir að liggja fyrir um jól. Hægt er að senda mér skilaboð á Messenger, senda tölvupóst á stefan@environice.is eða heyra í mér í síma 862 0538. Þeim sem geta sjálf komið sér á staðinn og eiga aðra gistimöguleika er svo auðvitað líka meira en velkomið að mæta og taka þátt í gleðinni.

Nokkrir helstu fjallvegahlauparar sögunnar úti undir vegg Læknishússins á Hesteyri á góðum sumardegi í júlí 2016.

Strjúgsskarð og tilheyrandi 16. ágúst

Stefnt er að fjallvegahlaupum yfir annars vegar Strjúgsskarð og Litla-Vatnsskarð (fjallvegahlaup nr. 72) og hins vegar Gyltuskarð (fjallvegahlaup nr. 73) þriðjudaginn 16. ágúst 2022. Lagt verður af stað frá Strjúgsstöðum kl. 10 um morguninn. Upphaflega stóð til að hlaupa þessar leiðir 9. ágúst, en hlaupunum var þá frestað vegna eindreginnar rigningarspár. Spáin fyrir 16. ágúst lítur mun betur út.

Vonandi slást sem flestir í för með mér á þessum fjallvegum. Þátttökugjöld eru engin, fólk tekur þátt á eigin ábyrgð og þarf sjálft að sjá um flutninga. Vegna þess síðastnefnda getur verið snjallt að láta vita af fyrirhugaðri þátttöku, því að oft er hægt að sameinast í bíla.

Frestun

Fjallvegahlaup morgundagsins (9. ágúst), annars vegar um Strjúgsskarð og Litla-Vatnsskarð – og hins vegar um Gyltuskarð, frestast um óákveðinn tíma vegna mikillar rigningar sem búist er við að gangi yfir svæðið fyrri hluta dagsins. Ný dagsetning verður væntanlega kynnt fljótlega.

Þess má geta að þetta er í annað sinn sem fjallvegahlaupi yfir Strjúgsskarð er frestað. Það gerðist líka 2015. Leiðin hefur sem sagt verið lengi á verkefnalistanum.