
Tímabært að fara að reima á sig skóna á nýjan leik.
Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2019 er smám saman að taka á sig mynd. Ætlunin er að hlaupa 7-8 nýja fjallvegi í sumar, auk þess sem nokkrar eldri leiðir verða rifjaðar upp til fróðleiks og skemmtunar. Eftirfarandi dagsetningar hafa verið ákveðnar, en það sem á vantar verður kynnt á næstunni.
- Laugardagur 18. maí: Fjallvegahlaupavertíðin 2019 hefst formlega með upprifjun á u.þ.b. 23 km fjallvegahlaupi í nágrenni Reykjavíkur. Hlaupið verður skipulagt í samvinnu við Bókaútgáfuna Sölku. Von er á nánari kynningu á næstu dögum eða vikum.
- Laugardagur 8. júní: Reykjadalur – Frá Fellsendarétt í Miðdölum að Sveinatungu í Norðurárdal – um 25 km. (FJALLVEGAHLAUP)!
- Laugardagur 15. júní: Þrístrendingur (Steinadalsheiði, Bitruháls og Krossárdalur, (leiðir nr. 14, 15 og 8 í Fjallvegahlaupabókinni)). Hlaupið er ekki beinlínis hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, heldur fyrst og fremst félagslegt skemmti- og æfingahlaup, sem nú verður hlaupið í 9. sinn. Heildarvegalengdin er 41 km, en auðvelt að skipta henni niður í styttri kafla.
- Laugardagur 29. júní: Hamingjuhlaupið. Rétt eins og Þrístrendingur er þetta hlaup ekki beinlínis hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, heldur fyrst og fremst félagslegt skemmti- og æfingahlaup, sem haldið er árlega í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík. Þetta verður 11. Hamingjuhlaupið frá upphafi og leiðin liggur úr Trékyllisvík til Hólmavíkur, nánar tiltekið yfir Naustvíkurskörð og Trékyllisheiði (fjallveg nr. 22 í bókinni). Heildarvegalengdin er um 53,5 km en er gjarnan skipt niður í styttri kafla.
- Miðvikudagur 17. júlí: Brúnavíkurskarð og Súluskarð – Frá Ölduhamri í Borgarfirði eystri til Kjólsvíkur – 12 km. Þarna verða tveir fjallvegir sameinaðir í eitt hlaup (til að ná vegalengdinni upp fyrir 9 km). (FJALLVEGAHLAUP)!
- Fimmtudagur 18. júlí: Stórurð – Frá Hólalandi í Borgarfirði eystri að Unaósi á Héraði – 22 km. Þetta er reyndar líklega bara að hluta til gömul þjóðleið, en sú leið lá frá Hólalandi um Eiríksdal að Hrafnabjörgum við Selfljót. Þessi útfærsla hentar bara betur af því að hún er svo vel troðin og merkt. Hlaupið er tveimur dögum fyrir Dyrfjallahlaupið sem fylgir sömu slóðinni framan af. Þetta gæti því verið ágætis brautarskoðun. (FJALLVEGAHLAUP)!
- Fimmtudagur 18. júlí: Gönguskarð – Frá Unaósi á Héraði að Hlíðartúni í Njarðvík – 10 km. Þarna býr sagan við hvert fótmál og auðvitað hentar vel að taka þetta í beinu framhaldi af Stórurð. (FJALLVEGAHLAUP)!
- Þriðjudagur 23. júlí: Sandaskörð – Frá Hólalandi í Borgarfirði eystri að Ánastöðum í Hjaltastaðaþinghá – 21 km. (FJALLVEGAHLAUP)!
Eins og sjá má eru fimm eiginleg fjallvegahlaup komin hér á blað en a.m.k. tvö til viðbótar munu bætast við listann á næstu dögum eða vikum.
Vonast til að sjá sem flesta á fjallvegum sumarsins!

Þessi mynd, sem tekin var í Svartárdal sumarið 2016, sýnir svo ekki verður um villst hvað fjallvegahlaup eru skemmtileg!
Bakvísun: Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins hefst á laugardaginn | Fjallvegahlaup Stefáns