Brúnavíkurskarð og Súluskarð

Staðsetning: Frá Ölduhamri í Borgarfirði um Brúnavík til Kjólsvíkur
Hnattstaða:
Upphaf:         N65°31,78' - V13°45,95'
Brúnavíkurskarð:    N65°31,76' - V13°42,97'
Neyðarskýli í Brúnavík: N65°31,61' - V13°41,20'
Súluskarð:       N65°30,28' - V13°40,56'
Syðravarp:       N65°29,99' - V13°40,71'
Lok:          N65°29,56' - V13°37,07'
Hæð y. sjó: Fer hæst í 450 m
Vegalengd: Um 12 km
Tími: (Verður skráður í ferðalok)
Meðalhraði: (Verður skráður í ferðalok)
Dags.: 17. júlí 2019
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina:

Leiðin um Brúnavíkurskarð hefst við Ölduhamar í Borgarfirði. Fyrsta spölinn er hlaupið upp aflíðandi brekkur en fljótlega sveigt til vinstri meðfram fjallinu. Eftir um 2 km hlaup er komið að Laxá, vaðið yfir hana og haldið upp með henni með stefnu í austur, beint upp í Brúnavíkurskarð með Gránípu (439 m) á vinstri hönd og Geitfell (587 m) til hægri. Sjálft skarðið er í u.þ.b. 350 hæð yfir sjó og þaðan liggur leiðin áfram í austur og um brattar brekkur niður í Brúnavík.

Brúnavíkurskarð var aðalleiðin á milli Borgarfjarðar og Brúnavíkur á meðan búið var í Brúnavík. Önnur leið liggur nokkru utar frá Höfn í Borgarfirði um Hafnarskarð og sú þriðja talsvert innar um Hofstrandarskarð. Árið 1960 var jeppaslóð rudd þar yfir en henni hefur lítið verið haldið við.

Brúnavík er næsta vík sunnan Borgarfjarðar. Víkin er allbreið og upp af henni gengur fremur brattur dalur sem einkennist af grónum melhryggjum og mýrum. Flestir urðu íbúar í Brúnavík árið 1891, en þá var tvíbýli þar með samtals 33 íbúum. Víkin þótti henta vel til búsetu á sínum tíma, þar sem þar voru góð tún og engjar, fremur snjólétt og þokkaleg fjörubeit. Allgóð lending er í víkinni við klappir nálægt bænum og þaðan var talsvert útræði, enda stutt á miðin.

Þó að Brúnavík og aðrar víkur á Víknaslóðum hafi verið grösugar og sumar þótt allgóðar til búskapar, er ljóst að lífsbaráttan var hörð þegar illa áraði. Einn af þeim síðustu sem bjuggu í Brúnavík var Stefán Filippusson (1870-1964) sem keypti jörðina árið 1898 í félagi við Erling bróður sinn og föður þeirra og flutti þangað ári síðar með lítinn bústofn – og bærinn „alveg kominn að hruni af fúa og hriplak ef nokkur dropi kom úr lofti“. Þessi fjölskylda hafði komið alla leið sunnan úr Fljótshverfi í Skaftafellssýslu vorið 1897 og þaðan höfðu Stefán og þrír bræður hans rekið kindurnar sínar austur á Hérað. Í frásögn sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1959 lýsir Stefán aðstæðum bænda á þessum tíma: „Þá var ekki verið að hlaða undir okkur bændadurgana. Við máttum velta út af eins og horgemlingar, ef við gátum ekki af eigin ramleik haft í okkur og á“. Sjósókn og kartöflurækt var það sem helst varð fjölskyldunni til bjargar næstu árin að sögn Stefáns og hann taldi sig hafa náð að afsanna það sem áður hafði verið sagt um Brúnavík, að þaðan færi enginn ríkari en hann kom þangað. Hann hafi komið örsnauður, en verið í allgóðum efnum þegar hann fór. „Og þar með voru þau álög af jörðinni að hún auðgaði engan mann“ (Á.Ó., 1959). Þórunn móðir þeirra bræðra var grasalæknir og seinna fetaði Erlingur í þau fótspor og varð þjóðkunnur sem slíkur.

Brúnavík fór í eyði 1944.

Í Brúnavík eru sérstæðir klettar við sjóinn með miklu líparíti sem gefur klettunum og fjörunni sérstakan svip. Í víkinni finnast nokkrar sjaldgæfar plöntur, m.a. ljósalyng (Andromeda polifolia) sem aðeins vex á tveimur öðrum stöðum á Íslandi.

Leiðin frá Borgarfirði til Brúnavíkur um Brúnavíkurskarð er ekki nema um 4,5 km að lengd og uppfyllir því ekki skilyrði fjallvegahlaupaverkefnisins (>9 km). Því marki er hins vegar hægt að ná með því að halda áfram ferðinni um Súluskarð til Kjólsvíkur. Áfram er því hlaupið frá slysvarnarskýlinu í Brúnavík, stiklað yfir Brúnavíkurá í fjörunni og síðan sveigt til hægri (til suðausturs) upp greiðfæra mela og gróið land.

Leiðin upp í Súluskarð liggur fyrst vinstra megin (austan megin) inn dalinn inn af Brúnavík og sveigir síðan lítið eitt til vinstri inn austanverðan Súludal. Skarðið sjálft er í um 360 m hæð og þar opnast útsýni niður í Hvalvík. Þar var búið um tíma, síðast á árunum 1832-1842, en annars var víkin að mestu nýtt frá Brúnavík. Leiðin niður í Hvalvík er brött og verður látin bíða betri tíma.

Rétt sunnan við Súluskarð er komið í Syðravarp (450 m) með Víðidalsfjall (572 m) á vinstri hönd og Súlutind (471 m) til hægri. Þegar komið er niður í Bringur þar rétt suðuraf er um þrjár leiðir að velja. Hlaupaleiðin sem hér um ræðir liggur til vinstri og rakleiðis niður í Kjólsvík, en til hægri liggur leiðin um Kjólsvíkurskarð upp á Þrándarhrygg. Þriðji valkosturinn væri að halda beint áfram suður í Breiðuvík. Hlaupið endar við bæjarrústirnar í Kjólsvík.

Kjólsvík þótti grasgefin og því fremur hentug til búsetu, en graslendi spilltist í skriðu 1773. Hins vegar breyttist lendingin í víkinni til hins betra í leiðinni. Kjólsvík fór endanlega í eyði 1938, en áratugina þar á undan höfðu lengst af verið þar u.þ.b. 10 manns til heimilis.

Við Kjólsvík er kennt svokallað Kjólsvíkurmál sem upp kom árið 1705. Þá hafði vinnukona á bænum eignast barn með vinnumanni, eða jafnvel húsbóndanum, og vinnumaðurinn hafði borið barnið út. Vinnumaðurinn var líflátinn á Alþingi þá um sumarið og vinnukonan hlaut sömu örlög þremur árum síðar. Bóndinn og húsfreyjan á bænum sluppu með vægari refsingar. Útburður barna hefur að sjálfsögðu alltaf verið refsiverður, en á þessum tíma var líka tekið hart á hórdómsbrotum. Í þokkabót trúðu margir því að máttarvöldin refsuðu mannfólkinu fyrir hvers konar siðferðisbresti með ótíð og náttúruhamförum. Þess vegna þótti ráðamönnum enn mikilvægara en ella að uppræta slíkt og þá fór réttlætið gjarnan í manngreinarálit.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu

Nesti og annar búnaður:

Verður skráð að hlaupi loknu

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu

Helstu heimildir:

 • Árni Óla (1959): Fyrir 60 árum: Þegar ég reisti bú í Brúnavík. Lesbók Morgunblaðsins 6. desember 1959, (bls. 569-572). http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=241065&lang=4
 • Helgi M. Arngrímsson o.fl. (2007): Víknaslóðir. Gönguleiðir á Austurlandi 1. Gönguleiðakort. Ferðamálahópurinn Borgarfirði eystri.
 • Hjörleifur Guttormsson (2008): Úthérað ásamt Borgarfirði eystra, Víkum og Loðmundarfirði. Árbók Ferðafélags Íslands. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
 • Náttúrufræðistofnun Íslands (á.á.): Ljósalyng (Andromeda polifolia). https://www.ni.is/biota/plantae/anthophyta/ljosalyng-andromeda-polifolia
Auglýsingar