Nú er ljóst að ég mun ekki hlaupa neina fjallvegi í sumar. Ég hef nefnilega ekki verið hlaupafær frá því í janúar vegna þrálátra meiðsla – og nú er útséð um að úr rætist fyrr en eftir að bestu fjallvegahlaupamánuðir ársins verða liðnir. Þetta þýðir að fjallvegahlaup næstu sumra verða ögn fleiri en ella, því að enn er stefnt að því að hlaupa 50 nýja fjallvegi fyrir sjötugsafmælið 2027.

Brjósklos er hin opinbera ástæða þess óvænta og óvenjulega ástands sem lýst er hér að framan. Raunveruleg orsök kann hins vegar að vera önnur, en úr því fæst væntanlega skorið á næstu vikum. Að vissu leyti gildir hér það sama og í yfirlýsingu Mikka refs í bakaríinu, þ.e.a.s.: „Sama er mér hvað þú kallar það“. En þegar betur er að gáð er rétt greining lykillinn að réttri meðferð.

Fjallvegahlaup leggjast ekki af þó að ég dvelji á hliðarlínunni um stund. Því vil ég hvetja allt áhugafólk um útivist og hreyfingu til að finna fjallvegahlauparann í sjálfu sér og leggja sem flesta fjallvegi að baki í sumar, gjarnan í góðra vina hópi. Vonandi kemur Fjallvegahlaupabókin í góðar þarfir á þeirri vegferð.

Vorið 2019 hækkar sól á lofti á ný og þá hefst nýtt fjallvegahlaupatímabil. Hlakka til að hlaupa með sem flestum ykkar þá.

Horft úr Arnardalsskarði til Grundarfjarðar og Kirkjufells vorið 2016.