Leitin að fjallvegum gengur vel. Ég ákvað í sumar að hlaupa 50 slíka fyrir sjötugsafmælið, til viðbótar við þá 50 sem voru afgreiddir á sextugsaldrinum. Þegar sú ákvörðun var tekin vissi ég um rúmlega 30 leiðir sem biðu þess að vera hlaupnar. Síðustu daga og vikur hefur listinn lengst jafnt og þétt og nú eru samtals 83 leiðir komnar á blað. Þó á ég eftir að kanna hluta af Norðurlandinu betur. Það er sem sagt til nóg af fjallvegum á Íslandi!
Eitthvað af leiðunum 83 mun augljóslega mæta afgangi. Hvaða leiðir verða fyrir valinu ræðst að hluta til af tilviljunum, en sumar eru jú líka e.t.v. áhugaverðari eða liggja betur við höggi en aðrar.
Að sjálfsögðu þigg ég allar ábendingar um nýjar leiðir með þökkum – og svo má líka alveg reyna að hafa áhrif á hvaða 50 leiðir verða teknar fyrir næstu 9 sumur. Listann í heild sinni má finna á hugmyndasíðu þessa vefsvæðis.
Myndin sem fylgir þessum orðum var tekin í Kerlingarfjöllum í sumar. Þar eru reyndar engin fjallvegahlaup fyrirhuguð, enda gera „reglur fjallvegahlaupaverkefnisins“ ráð fyrir að hlaupið sé á milli byggða, en ekki bara fram og aftur í óbyggðum. En Kerlingarfjöll eru staður sem óhætt er að mæla með þegar hlé gefst á milli fjallvegahlaupa.