Laugardaginn 27. júní verður fjórða fjallvegahlaup sumarsins hlaupið um Vatnadal úr Gilsfirði norður í Steingrímsfjörð. Hlaupið er hluti af Hamingjuhlaupinu sem haldið er árlega í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík. Upphaflega var ætlunin að hlaupa yfir Kollabúðaheiði af þessu tilefni þennan dag, en þeirri áætlun var breytt þegar í ljós kom að rallýkeppni mun fara fram á sömu slóðum á sama tíma.
Hlaupið á laugardaginn hefst á veginum í vestanverðum Gilsfirði, nánar tiltekið við Mávadalsá, u.þ.b. 9 km fyrir innan Króksfjarðarnes. Frá Hólmavík eru um 35 km að Króksfjarðarnesi, þannig að vegalengdin frá Hólmavík að upphafsstaðnum er um 44 km eftir akveginum. Lagt verður af stað upp með Mávadalsá kl. 10:30 og fylgt sérstakri tímaáætlun eins og jafnan er gert í Hamingjuhlaupum. Tilgangurinn með því fyrirkomulagi er að fólk sem treystir sér ekki til að hlaupa alla leiðina eigi auðvelt með að koma inn í hlaupið á tilteknum stað á tilteknum tíma. Að þessu leyti svipar áætluninni til strætisvagnaáætlunar. Áætlunina má sjá á myndinni hér fyrir neðan, en sé smellt á hana birtist stærri og skýrari mynd.
Fjallvegahlaupinu um Vatnadal lýkur á vegamótum á svokölluðum Innstrandavegi við brúna yfir Miðdalsá í Steingrímsfirði, u.þ.b. 650 m fyrir innan félagsheimilið Sævang þar sem Sauðfjársetrið er nú til húsa. Á Svævangi hófst einmitt hlaupaferillinn minn formlega 19. ágúst 1972. Vegalengdin í fjallvegahlaupinu er áætluð 24,6 km, en þegar því er lokið liggur fyrir að skokka síðustu 11,6 kílómetrana eftir malbikuðum vegi til Hólmavíkur, þar sem Hamingjuhlaupinu lýkur með móttöku og veitingum kl. 16:00. Reyndar verða veitingarnar öðruvísi en í fyrri Hamingjuhlaupum, þar sem hnallþóruhlaðborð í líkingu við það sem jafnan hefur beðið hlauparanna í endamarkinu þykir ekki samræmast kröfum um smitvarnir.
Vatnadalur var einnig hlaupinn í Hamingjuhlaupinu 2014, en þá var lagt af stað frá Kleifum í Gilsfirði og byrjað á að hlaupa áleiðis upp á Steinadalsheiði. Þaðan var svo farið yfir á Vatnadal og honum fylgt til byggða. Þessi leið er hins vegar ekki sú upprunalegasta og fékk því ekki náð hjá yfirstjórn fjallvegahlaupaverkefnisins. Leiðin upp með Mávadalsá er hins vegar ein þriggja leiða sem oftast var farin á árum áður á meðan Vatnadalur var enn mikilvæg samgönguleið á milli byggða.
Hlaupið yfir Vatnadal verður 58. hlaupið í fjallvegahlaupaverkefninu.
Myndin efst í þessari færslu var tekin á Vatnadal í hlaupinu 2014. Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa.