Nú er komið að því. Fjallvegahlaupavertíðin hefst formlega við Fellsendarétt í Dölum laugardaginn 8. júní nk. kl. 10 árdegis með fjallvegahlaupi um Reykjadal og Sanddal með endamarki um 2 km neðan við Sveinatungu í Norðurárdal. Hlaupið, sem er u.þ.b. 25 km að lengd (með venjulegum 20% skekkjumörkum) er fjallvegahlaup nr. 53 frá upphafi og nr. 3 í nýju Fjallvegahlaupabókinni sem hlýtur að koma út fimmtudaginn 18. mars 2027, þ.e.a.s. á sjötugsafmælinu mínu.

Ég ætla mér að hafa gaman að þessu á laugardaginn og þeim mun meira gaman sem fleiri mæta. Allir eru að vanda velkomnir á eigin ábyrgð, þátttakan kostar ekki neitt og engin verðlaun verða veitt, nema vonandi góðar minningar.

Drög að leiðarlýsingu má finna hér á síðunni, enn mjög gróf að vísu. En við rötum þetta nú samt alveg. Svo gerði ég líka tilraun til að búa til kort á Google Maps. Tek enga ábyrgð á gæðum þess.

Vonast til að sjá sem flesta.