Fjallvegahlaup - tákn um frelsi. Myndin er tekin í norðanverðu Arnardalsskarði á Snæfellsnesi vorið 2016.

Fjallvegahlaup – tákn um frelsi. Myndin er tekin í norðanverðu Arnardalsskarði á Snæfellsnesi vorið 2016.

Á næstu helgi (11.-12. júní) verður röðin komin að fjallvegahlaupum nr. 46 og 47. Ég geri ráð fyrir að enginn vilji missa af þessum hlaupum og því er þessum pistli ætlað að minna á þau.

Á laugardaginn (11. júní) ætla ég að hlaupa gamla Þingmannaveginn frá Eyrarlandi í Eyjafirði yfir Vaðlaheiði að Hróarsstöðum í Fnjóskadal, já eða kannski bara að tjaldsvæðinu í Systragili sem er þar steinsnar frá. Þessi leið kvað vera um 12 km löng og 680 m há. Á leiðinni er hlaupið yfir frægt mannvirki, en það er mikil steinhleðsla yfir Systragilsdrög efst í heiðinni að austanverðu. Þarna átti upphaflega að byggja trébrú („upphaflega“ var árið 1870) með grjóthleðslum beggja vegna, en svo var ákveðið að hlaða þetta allt úr grjóti af því að margir góðir menn ætluðu það hentara. Mig grunar reyndar að grjót sé endingarbetra efni. Lagt verður upp frá Eyrarlandi kl. 13:00 á laugardag. Já, og vel á minnst: Eyrarland er austan við botn Eyjafjarðar, beint á móti Akureyrarflugvelli, um 1,5 km sunnan við hringveginn.

Sunnudaginn 12. júní verður svo tekið á rás yfir Kiðaskarð milli Skagfirska efnahagssvæðisins og þess húnvetnska. Lagt verður af stað kl. 13:00 neðan við bæinn á Mælifellsá í Skagafirði, u.þ.b. 12 km innan við Varmahlíð. Frá Mælifellsá eru tveir af mestu millivegalengda- og langhlaupurum Íslandssögunnar. Alla leiðina er hlaupið eftir vegarslóða sem kvað vera þokkalega fær fjórhjóladrifsbílum á sumrin. Dreg þó í efa að sumarið sé komið í þeim skilningi. Leiðin gæti teygst upp í 20 km og mesta hæð er líklega um 620 m.y.s. Hlaupinu lýkur við Stafnsrétt í Svartárdal, eða kannski á aðalveginum spölkorni neðar í dalnum. Þaðan er rúmlega 20 km akstur niður að Húnaveri, neðan við brekkuna upp á Vatnsskarð.

Nánari upplýsingar um þessar tvær leiðir má finna á þar til gerðum upplýsingasíðum sem birtast ef smellt er á tenglana framar í þessum pistli.

Vonast til að hlaupin um þessa fjallvegi verði fjölmenn og góðmenn. Og þegar þessir fjallvegir hafa verið hlaupnar verða ekki nema þrír eftir af þessum 50 sem málið snýst um.