Efnisorð
Nú eru bara þrjú fjallvegahlaup eftir af þessum 50 sem ég gaf mér í 5-tugsafmælisgjöf fyrir rúmum 9 árum. Á fimmtudaginn (14. júlí) kl. 14 verður lagt af stað í hlaup nr. 48 yfir Klofningsheiði frá Flateyri til Suðureyrar og næsta þriðjudag kl. 9 að morgni verður siglt af stað frá Ísafirði áleiðis í Aðalvík, þaðan sem hlaup nr. 49 verður hlaupið yfir Sléttuheiði að Hesteyri. Laugardaginn 23. júlí kl. 5 árdegis hefst svo síðasta hlaupið norður í Miðfirði, þaðan sem hlaupið verður suður Arnarvatnsheiði að Kalmanstungu í Borgarfirði.
Þeir sem ætla að hlaupa með mér yfir Klofningsheiðina þurfa bara að mæta við sundlaugina á Flateyri kl. 14 á fimmtudag. Sléttuheiðarhlaupið krefst hins vegar meiri undirbúnings, því að fyrst þarf að tryggja sér far með bátnum yfir Ísafjarðardjúp og Jökulfirði. Þar er eitt sæti laust og e.t.v. er hægt að útvega fleiri. Hafið endilega samband við mig í síma 862 0538 eða á Facebook ef þið hafið áhuga á að skella ykkur með. Eins væri gott að vita sem fyrst um þátttöku í hlaupinu yfir Arnarvatnsheiði til að hægt verði að nýta flutningsleiðir og gistimöguleika nyrðra sem best.
Drög að leiðarlýsingum fyrir þessar þrjár heiðar eru smátt og smátt að verða til hérna á fjallvegahlaupasíðunni (sjá tengla í textanum hér að framan).
Svo læt ég fljóta hér með eina mynd að vestan – af sjálfum mér. Hana tók Sævar Skaptason á Dalsheiði seint í júlí 2012 í eftirminnilegri hlaupaferð um Snjáfjallahringinn.