Efnisorð

, ,

Svínbjúgur wikiloc 200Síðdegis á þriðjudag (24. maí) er röðin komin að fjallvegahlaupi nr. 45 frá Hóli í Hörðudal um Svínbjúg. Hlaupinu lýkur svo við suðurenda Hítarvatns. Hlaupaleiðin er samtals um 22 km að lengd, en henni er lýst nánar á þar til gerðri síðu hér á vefnum.

Lagt verður upp frá eyðibýlinu Hóli í Hörðudal um kl. 16:00 á þriðjudaginn. Að Hóli er um 80 km akstur frá Borgarnesi um Bröttubrekku. Beygt er til vinstri út af aðalveginum um 6,5 km sunnan við Búðardal og ekið sem leið liggur með stefnu á Stykkishólm. Eftir um 7 km akstur eftir þeim vegi er aftur tekin vinstri beygja inn á vestari Hörðudalsveginn. Þá eru um 3 km eftir heim á hlað á Hóli.

Hlaupið endar sem fyrr segir sunnan við Hítarvatn. Að endamarkinu er rúmlega 40 km akstur frá Borgarnesi, fyrst sem leið liggur vestur á Mýrar (um 20 km) og svo upp Hítardalsveg (aðrir 20 km). Síðasti spölurinn frá bænum í Hítardal og upp að vatni er líklega frekar grófur, en leiðin ætti þó að vera fær öllum bílum.

Vonast til að njóta samvista við sem flesta á þessari skemmtilegu leið á þriðjudaginn, þrátt fyrir að þetta sé virkur dagur. Veðurspáin gæti reyndar verið hagstæðari, en búast má við strekkingsmótvindi, rigningu og u.þ.b. 8 stiga hita.